Fimmtudagur 17.01.2013 - 19:27 - 21 ummæli

Reykjavík 1963 – framtíðarhugmyndir

Nýlega barst síðunni efni sem ekki hefur verið mikið fjallað um í rétt 50 ár. Það eru hugmyndir ungra arkitekta um þróun miðborgar Reykjavíkur. Þetta var unnið áður en hugtök á borð við „staðaranda“ og „söguleg vídd“ vor tekin inn í tungumálið.

Ungu arkitektarnir voru þeir Ormar Þór Guðmundsson og Haraldur V. Haraldsson ásamt þýskum skólabróður sínum. Leiðbeinandi þeirra var prófessor í skipulagsfræðum Rolf Gutbier.

Hugmyndir arkitektanna eru nokkuð róttækar og var fjallað um þær á sínum tíma í hinu vinsæla blaði VIKUNNI  þar sem þeir félagar segja:

„— Í Reykjavík sameinast flestir sterkustu þættir íslensks þjóðlífs. Sem höfuðborg er hún aðsetur alþingis, hæstaréttar og ríkisstjórnar, en hún er jafnframt miðstöð allrar verslunar, bæði innanlands og utan. Hér er iðnaðurinn öflugastur og fjármagnið mest. Og í Reykjavík er aðsetur helstu menningar- og listastofnana landsins. Lega borgarinnar verður að teljast allgóð. Að vísu nokkuð næðingssöm, en með fallegum vogum frá náttúrunnar hendi og fagurri útsýn í ýmsar áttir, góðum hafnarskilyrðum og jarðhita. En hún á fá gömul, falleg hús svo ekki sé talað um götur eða hverfi. Og hið nýja hefur víðast hvar ekki náð að vaxa saman, svo það er engin furða, þótt útlendingar sem hingað koma, líki borginni okkar stundum við gullgrafarabæ, eða í besta lagi sambland af gullgrafarabæ og „próvins“borg. Miðbærinn, hjarta borgarinnar, er hvað þetta snertir eins og flestir aðrir hlutar hennar. Eldvarnarveggir, eyður, bárujárnskumbaldar á víð og dreif innan um“.

Það er ekki ástæða til þess að halda öðru fram en að höfundum verksins og prófessors þeirra hafið þótt þetta skiplag vera til borginni til farsældar og þeir hafa án efa  deilt þeirri skoðun sinni með fjölda fólks. Þó verður að horfa á þessar hugmyndir með það í huga að þetta er skólaverkefni sem unnið var fyrir hálfri öld þegar menn töldu timburhús óvaranleg og einkabifreiðin samgöngutæki framtíðarinnar í borginni.

Almenn umræða gekk svo langt á þessum árum að einungis steinsteyt hús voru talin varanleg.  Timburhúsum var gefið hið gildishlaðna nafn, „bárujárnskumbaldar“.  Síðar hefur komið í ljós að vel byggð timburhús eru á flesta lund varanlegri en flestar steinsteypar byggingar síðari tíma.

Myndirnar sem fylgja færslunni lýsa best tillögunni ásamt tengli sem vísað er til að neðan.

Á efstu myndinni er horft til suðurs yfir gömlu höfnina og Tjörnina. Tjarnargatan er lögð niður og Grjótaþorpið horfið. Geirsgata er ekki til staðar og öll hús sunnan Frikirkjunnar eru horfn ( þar með talinn Miðbæjarskólinn, MR og öll Bernhöftstorfan) og ný hús komin í þeirra stað. Öll hús sunnan Laugarvegs og niður að sjó hafa vikið að Þjóðleikhúsin og safnahúsinu undanskildu. Það sem ráðhúsið er í dag er tvö 20 hæða háhýsi.

En lítum á tillögurnar með hjálp hjálagðra mynda sem ég fékk senda frá Birni Jóni Bragasyni framkvæmdastjóra kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg. Hann hefur tekið saman efni um málið sem má nálgast hér: http://101reykjavik.is/2013/01/nyr-midbaer-1963/

Að ofan sést hvernig ungu arkitektarnir hafa breikkað suðurgötuna alla leið nður í Kvos. Hún er þarna 4 akreinar og endar sjálfsagt í bílastæðahúsi í miðborginni. Alþingi og Dómkirkjan standa þarna í grend við risavaxin háhýsi sem hýsa átti bæjarskrifstofur og ráðhús. Allt Grjótaþorpip er rifuð og þar með Morgunblaðshöllin og enn stærri hús byggð í þeirra stað með bifreiðastæðum á mörgum hæðum undir. Þarna átti a’ð vera fjármálahverfi borgarinnarNeðsti hluti Laugavegar og Laækjargata að austanverðu hefur allt verið rifið og ný hús risin í þeirra stað. Lagt er til að mikið verði byggt við Háskóla Íslands og við sunnanverða Reykjavíkurtjörn.

Hér er nánari útfærsla á neðsta hluta Leugarvegar og Hverfisgötu

Hér má sjá að allt umhverfi Tjarnarinnar hefur verið endurhannað ásamt skipulagi upp laugaveg og umhverfis Háskóla Íslands

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Örnólfur Hall

    Minn ágæti kollegi Baldur! —

    það er ekki rétt að ég sé annar höfundur skólaverkefnisins frá 63. Það voru þeir Ormar Þ. og Haraldur V.og þýskur félagi þeirra (Romin?). – Hins vegar var prof. R.Gutbier leiðbeinandinn, sem ég var að segja frá áður, líka kennari minn. – Þakka þér félagi fyrir hlý orð í minn garð en ég er vanari hinu að fá ágjöf og skæting fyrir Hörpugagnrýnina (ryðið,gamalt og nýtt, smíðagallana, öfugsnúninginn á húsinu, lóðarhönnunina, aðkomuna og tenginguna við Borgina o.fl. o.fl.).

  • Baldur Ó. Svavarsson

    Góð ábending Gunnars Smára um Hörpu-skipulagið og tenging þess við þessar hugmyndir. Mikið til í því.
    En varasamt að fella alla arkitekta undir einn hatt
    (það eru t.a.m. ekki allir alkar sem drekka áfengi).
    Í þessu samhengi er vert að bera saman einmitt Hörpuskipulagið annars vegar og uppbygginguna á horni Lækjargötu og Austurstrætis hins vegar. Samtíma verkefni sitt hvoru megin Hrunsins sem lýsa gjörólíkum viðhorfum til uppbyggingar. Hvorutveggja verk arkitekta (Annað verkið innlent, hitt útlent reyndar)
    Auk þess má benda á að einn eigninlegur upphafsmaður þessar færslna og annar höfundur þessa umrædda skólaverkefnis rá 1963, er einhver ötulasti gagnrýnandi Hörpunnar og Hörpuskipulagsins í dag – öðlingurinn hann Örnólfur Hall.

  • Örnólfur Hall

    Af TORFUNNI og STJÓRNARÁÐSBYGGINGUNNI
    Mér datt í hug að bæta inn í skipulagsumræðuna smá minningapistli:

    Sem nýorpinn arkitekt (heimkominn eftir mikla slarkferð með togara frá Cuxhaven) hringdi Húsameistari Ríkisins í mig (atvinnulausan) og bað mig um að gerast vinnumaður hjá nýstofnaðri nefnd um byggingu Stjórnarráðshússs á Torfureitnum sem þá var bara talinn reitur með dönskum fúaspítum sem minntu á danska yfirráðasögu og höfuðstað. – Það gat oft verið erfitt að þjóna fjórum herrum (kollegum) því hver hafði sína skoðun á byggingar’listinni’. Stundum komu þeir einir sér og settu mér fyrir og lenti ég þá á milli ‘vitringa’ og var skammaður á víxl.

    Oft komu líka ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Emil Jónsson á nefndarfundina og höfðu líka sínar skoðanir á málunum og voru ekki alltaf sammála. – Bjarni var ákveðinn í skoðunum á ‘arkitekúrnum’ og einu sinni heyrði ég Emil segja: “Hvað þykist þú hafa vit á ‘arkitektúr’, Bjarni” ?
    -Smámál gátu líka verið deiluefni hjá kollegunum: t.d. um stærðir á ‘klósett’ rýmum. –Gunnlaugur Halldórsson, sem er mér minnistæðastur, átti auðvelt með koma hugmyndum sínum á fallegt og skiljanlegt mál. – Hann gat líka verið stríðinn og ertinn og stríddi oft kollegum sínum í nefndinni og ég fékk líka mína ágjöf.

    TORFAN SIGRAÐI
    Þessi byggingaráform runnu, sem betur fer, út í sandinn og Torfusam-tökin voru stofnuð og Gunnlaugur skifti um skoðun og varð einn öflugasti talsmaður þeirra.

  • Það rými sem bíllinn krefst hefur eyðilagt gömlu Reykjavík. Hefði skipulagsyfirvöldum borið gæfa til byggja miðborg austar á Nesinu t.d. eins og byrjað var á í Kringlunni. Þá ættum við gömlu byggðina í Miðborginni miklu heillegri en hún er. Áherslan á Miðborgina sem þungamiðju á forsendum einkabílsins er átumein.

  • Árni Ólafsson

    Það þarf ekki að persónugera málið eða tengja það við ákveðna einstaklinga. Þetta er ákveðinn tíðarandi – eða menning. Allt frá því nútímaborgarskipulag sló í gegn á Íslandi með aðalskipulagi Reykjavíkur á fyrri hluta 7. áratugarins hefur hinn sundraða bæjarmynd verið regla. Okkar menning. Og er það enn sbr. margt það sem byggt hefur verið á síðustu árum.

    Þetta menningarástand er lífseigt – hin fúnksjónalíska borg sem er sundrað með nútímalegum skipulagsaðferðum – flokkun og aðgreiningu. En eins og góður kennari sagði einhvern tíman: Ef við sundrum byggðinni þá sundrum við einnig fólkinu.

  • Jón Þórðarson

    Andri Snær og fleiri greina þetta rétt. Hættan á svona aðgerðum er stöðug og raunveruleg og hefur lítið með uppbyggingu eftir stríð í Evrópu að gera. Það sést best á „flugvélaskipulagi“ sem er sífellt verið að kynna um heim allan. Pistlahöfundur fer mjúkum orðum um þennan hrylling sem ég held að réttast sé að skrifa á einhvert tilgert umburðalyndi gagnvart þessu. Kannski þekkir hann umrædda arkitekta persónulega og veigrar við sér að skammast í gömlu mönnunum? En Hilmar veit betur. Það sér maður á fyrri skrifum hans.

  • Bjarni Kristinsson

    Rétt er það að líkanið gæti alveg eins hafa verið búið til árið 2012 sem lokaverkefni í arkitektaskóla eða bara í stúdíóinu hjá BIG.
    Harpan passar þarna fullkomlega inn. Skuggahverfisturnarnir (sem enn eru í byggingu!) virðast vera stolin hugmynd frá þessu skipulagi. Höfuðstöðvar Landsbankans eru þarna nánast á líkaninu! og sömu sögu er að segja um Marriott hótelið sem verður að öllum líkindum eitthvað svona skelifilegt horror-monster-hús (verður byggt í skjóli nætur áður en við vitum af og án athugasemda).

    Það er náttúrulega galið að enn sé verið að byggja og taka alvarlega módel í skalanum 1:500. Eins og Jan Gehl hefur bent á þá er ekki gáfulegt að setjast upp í flugvél og skipuleggja borg þaðan. Tenglin við notendur bygginganna og borgina/bæinn; manneskjur, er rofin. Það endar alltaf með hryllingi. sbr. höfuðborgin Brasilía í Brasilíu. Ørestad í Köben.
    En það virkaði í stjórmálamennina fyrir hrun hér á íslandi og fer að virka eftir nokkur ár aftur. Held að við skynjum ekki hvað þetta er galið. Þó maður viti betur þá virkar þessi ofur smáu hús á líkaninu meira framandi en þau sem eru stærri.

    Eitthvað segir manni að í Kína og öðrum \“hagvaxtar-uppgangs-ríkjum\“ sé verið að dæla út sambærilegum skipulögum og riðja svipaðri byggð og fyrir er í Reykjavík úr vegi.

    Annað sem kannski vert er að benda á í tengslum við 100-ára-húsa-friðunar-regluna sem sumir eru að agnúast út í. Er það sem Stanley Tigerman (Arkitekt í USA) benti á einu sinni, að húsafriðun snýst ekki bara um húsin sem eru fyrir eru, fegurð þeirra, hlutverk… osv. heldur miklu frekar um að fyrirbyggja byggingarnar sem gætu komið í staðinn.

    Eitt má þó gott segja um þetta skipulag. Það voru fyrirhuguðu niðurrifin á \“nýrri\“ húsum, en það virðist vera einhverskonar Tabú hérna í Reykjavík. Magnús Skúlason hefur t.d. réttilega bent á (í flakkinu á Rás 1) að réttast væri að rífa einhver ný hús í staðinn fyrir þessi gömlu og benti hann á bílastæaðahúsið við Hverfisgötu. Hver myndi ekki vilja sjá það gerast?…

    jæja afsakið namedroppið, það var ekki ætlunin.
    Takk annars fyrir gott blogg og umræður.

  • Gunnar Smári Egilsson

    Þó með ofurbjartsýni meigi halda því fram að svona hugmyndir séu á undanhaldi; þá eru þær samt enn í fullu gildi, ríkjandi og drottnandi. Það mætti setja Hörpuna og hótelið inn í módelið án þess að raska neinu, nýja Landspítalann, hugmyndum um nýjar aðalstöðvar Landsbankans, hótelið við Hótel Íslandsplanið, uppbyggingu á hafnarsvæðinu, Skúlagötuna og nánast allar hugmyndir um nýbyggingar og skipulagsbreytingar undanfarinna ára. Sá bati sem þeir bjartsýnu telja sig greina í nútímanum er aðeins örsmá málamiðlun; smáslípun en engin eftirgjöf. Andmenningarstefnan og höfnun á sögunni er enn ríkjandi; fortíðin er enn í huga arkitekta óhelgt ástand; sjúkdómur eða synd. Íslenskur arkitektúr situr enn fastur í þessu módeli af helvíti.

    • Það á nokkuð vel við að benda t.d. á nýja Landspítalann eins og Gunnar Smári gerir hér fyrir ofan. Setja t.d. eins og tvo hlunka niður í byggðina lengst til hægri um miðja mynd nr. tvö ofanfrá. Ekki eru arkitektarnir sem sitja í skiplagsráði Reykjavíkur svo ungir að það sé ástæðan fyrir hörmungunum eins og Stefán Benediktsson gefur í skyn hér fyrir ofan. Við Stefán erum skólabræður og jafn gamlir og ég held að ungæðishátturinn sé amk talsvert farinn að rjátlast af mér.

  • Merkilegt að menn skuli kalla þetta ,,barn síns tíma“. Mér sýnist þetta vera miklu frekar mjög samtímalegt, um það bil svona myndum við byggja kvosina í dag ef við værum að brjóta nýtt land undir byggð. Ef maður kíkir á Smáralindina í Google Earth má segja að þessa pælingar þarna uppi hefðu bara verið mun mannlegri, nútímalegri og vistlegri en það sem ,,við“ eða okkar samtímamenn hafa verið að gera á undanförnum árum. Okkar samtími, okkar nýju hverfi þar sem sama blokkin er margbyggð en skólinn í miðju hverfinu er teiknaður þrjátíu sinnum í ,,samkeppni“ segir betur en margt um sýruna í þessu fagi. Margt fleira má nefna. Hvernig Tjörnin er skorin frá byggðinni er í góðu samræmi við hvernig til dæmis Ásahverfið í Garðabæ er skorið frá hafi og sjó, líka hluti Grafavogarins er skorinn frá sjónum, akbrautirnar eru nokkuð hóflegar miðað við nýju Hringbrautina – þótt það sé vissulega nokkur grimmd að rífa alla söguna meira að segja MR þá það kannski bara höfundareinkenni – hann hannaði Kárahnjúkavirkjun!

    • Ef mælikvarđinn eŗ bíll þá er niðurstaðan eftir því.

  • Árni Ólafsson

    Í þessu samhengi má einnig minna á samkeppni um miðbæ Akureyrar, sem haldin var 1963. Þar var nútímalegt borgarskipulag allsráðandi. Flestar tillögur gerðu ráð fyrir algerri endurnýjun byggðarinnar með opnum, björtum, fljótandi og fjölnýtanlegum rýmum – og einu byggingarnar, sem fengu að standa voru Hótel KEA, skrifstofuhús KEA og Landsbanki Guðjóns Samúelssonar. Ný veröld og björt!

    Önnur samkeppni um miðbæ Akureyrar var haldin 2004, Akureyri í öndvegi. Af 147 tillögum sem bárust voru ótrúlega margar, sem á engan hátt tóku mið að því sem fyrir var, staðaranda, menningu eða öðrum staðháttum. Þar ríkti sama fjarlægð frá raunveruleikanum og 1963 – og sjá má í Reykjavíkurhugmyndunum, sem hér eru til umfjöllunar.
    Það er fróðlegt og lærdómsríkt að líta yfir þessar pælingar svona eftir á – en gætum að því að við erum enn við sama heygarðshornið. Tískuútlit og tískuform ótengd stað, menningu eða sjálfsagðri praktík allsráðandi. Hjúparkitektúr, tívolíarkitektúr og absúrdismi á virkilega upp á pallborðið í dag.
    Læt fylgja tengla á tvö skemmtileg dæmi um það hvernig farið var með staðaranda Akureyrar í samkeppninni 2004:

    http://www.vision-akureyri.is/exseq.asp?s=107
    http://www.vision-akureyri.is/exseq.asp?s=18

    • Örnólfur Hall

      Árni ! – Hjúparkitektúrinn við Austurhöfn virðist hafa orðið fyrir ágjöf í óveðrinu (nóttina 18/1). Í gær sást svo tæknilið í kranabómu vera að ‘klappa’ austurhliðinni.

  • Hildur Gunnarsdóttir

    Þetta verkefni er klárlega barn síns tíma. Athyglisvert er þó að skoða hugmyndina um uppbyggingu háskólasvæðisins. Samkvæmt tillögunni eru háskólabyggingarnar og bygging þar sem Norræna húsið er í dag hluti af sama garði (University park) eins og þekkist víða erlendis. Allar byggingar eru austan Suðurgötu og Sæmudargata er ekki sjáanleg.

    Uppbygging háskólasvæðisins í dag er bæði austan og vestan Suðurgötu, Askja austast á svæðinu og komandi stofnanir Árna Magnússonar og Vigdísar Finnbogadóttur vestan megin við Suðurgötu, með tilheyrandi löngum vegalengdum á milli bygginga og sundurskornu svæði.

    Hefði uppbygging háskólasvæðisins mátt líta meira til þessara hugmynda en þeirra sem liggja til grundvallar skipulaginu / skipulagsleysinu í dag?

  • stefán benediktsson

    Hugmyndir Ormars og Haraldar eru eldri en AR 62-83 og ágætar sem slíkar. Forsendurnar eru aftur á móti menningarlega kolrangar og mikil blessun að ekki varð meira úr þeim. Uppbyggingarandi eftirstríðsáranna sem réði ferðinni í allri norður Evrópu og var nokkuð svipaður beggja megin járntjaldsins hefur skilið eftir sig nokkrara góðar og áhugaverðar byggingar en víða hræðileg hverfi sem enginn veit hvernig á að breyta svo úr verði nútímaleg hýbýli og umhverfi. Við eigum enn við þennan vanda að stríða, varðandi unga arkitekta og turna.

    • Hilmar Þór

      Þetta er einmitt ástæðan sem menn nefna hér að ofan. Eftir stríð ríkti bjartsýni og trú á betri og öðruvísi framtíð í Evrópu. Menn vildu breytingar og að vissu marki hafna fortiðinni. Þetta er á vissan hátt skiljanlegt. Borgirnar voru í rúst og tækifærin til að breyta nýjum lausnum í uppbyggingunni. Sem betur fór gerðist það ekki allstaðar. Ég kom til Súttgart 1962 með foreldrum mínum og ég sé á tilögum Ormars og Haraldar vissan samhljóm tillögunnar við borgina og ég man eftir vöruhúsinu sem Örnólfur nefnir og fannst það flott með klæðningunni. Mér fannst reyndar miðborg Stuttgart flott eftir að hafa verið í gömlu borgunum Ulm, Munchen og Rothenburg.

      Ég velti fyrir mér spurningunni hvort endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild og með þessum hraða sé runnin undan svipaðri þörf til breytinga eftir efnahagsstríðið sem tapaðist hér á landi árið 2008 og þörfin til breytinga víða í Evrópu eftir stríðið sem þar geysaði?

  • Sveinbjörn

    Hafa ber í huga að á meginlandi Evrópu hafði orkan farið í að endurbyggja borgir úr rústum heimsstyrjaldarinnar. Menn hugsuðu stórt og vildu nýja, aðra og betri framtíð. Þessi uppbyggingaráform voru beinlínis kennd á skólunum. Örnólfur þekkir þetta enda lærður í Þýskalandi á þessum árum og Kristinn Hrafnsson skilur þetta. Enda kemur hugsunin skýrt fram í Aðalskipulaginu sem hann nefnir.

    Það er gott að minna á þetta svo það gleymist ekki.

  • Það er öllum holt að fara í gegnum svona hugmyndir. Ég blaðaði nýlega í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-1983, útg. af Reykjavíkurborg 1966. Í þeirri miklu og merkilegu bók eru nánast sömu hugmyndir á ferðinni – sama planið í stórum dráttum. Eftir því skipulagi voru byggð nokkur hús í miðborginni sem í dag eru til vandræða. Róttækni ungu mannanna felst kannski helst í því að þeir vildu líka rífa þau – nýbyggð. Það er umhugsunarefni. Hafa praktiserandi arkitektar slíkt hugrekki?

  • Tíðaandinn er hættulegur og sveiflast öfgana á milli.

  • Örnólfur Hall

    Af prof. ROLF GUTBIER
    Rolf Gutbier (1903-1992) var prof. í borgarskipulagi við TH Stuttgart og var líka mikill húsafriðunarsinni. Hann lét hátt í sér heyra (um1960) þegar ákveðið var að rífa Schoken-vöruhúsið fræga í Stuttgart sem Erich Mendelsohn (1887-1953) teiknaði og var byggt 1920.– Prof. Egon Eiermann (1904-1970) í Karlsruhe teiknaði svo í staðinn annað vöruhús kassalaga og klætt stórum málmplötueiningum sem voru formaðar líkar þýska Járnkrossinum. — Gutbier blöskraði þetta og hundskammaði Eiermann fyrir ‘kassann’ með járnkrossunum og hreytti út úr sér: Og… að þú Egon skulir fremja þetta sem sjálfur varst sífellt að núa mér því um nasir að ég hefði verið offíséri í stríðinu !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn