Föstudagur 07.07.2017 - 08:56 - 12 ummæli

„REYKJAVÍK á tímamótum“

Nýlega kom út bókin „Reykjavík á tímamótum“, sem Dr. Bjarni Reynarsson ritstýrði.

Bjarni er einn menntaðasti og reyndasti skipulagsmaður landsins. Hann hefur komið að hefðbundinni skipulagsvinnu jafnframt því að vera afskaplega fær fræðimaður á sviðinu.

Tilefni útgáfunnar er að Reykjavík hefur tekið miklum breytingum undanfarið og mun breytast enn meir og hraðar á allra næstu árum.

Bjarni skrifar merkilegann inngang í bókina og fær síðan 30 fagmenn og sérfræðinga á ýmsum sviðum til þess að skrifa greinar um flesta þá þætti sem áhrif hafa á skipulag borgarinnar og uppbyggingu með áherslu á miðborgina, byggingu nýrra hverfa og breytingar á eldri hverfum.  Fjallað er um umhverfismál, húsnæðismál, samgöngur, jarðfræði og sögu auk hagfræðilegra málefna sem tengjast borgarskipulagi.

Það sem hefur ávallt einkennt málflutning Dr. Bjarna er hógværð og  lágstemmtur málegnalegur málflutningur sem einkennir góða fræðimenn. Óhætt er að mæla með þessari bók fyrir alla sem fjalla um skipulagsmál eða hafa áhuga á þeim. Þetta er bók sem verður betri og betri eftir því sem maður kynnist henni betur. En skipulagsmál eru mikið hagsmunamál sem snertir alla bæði fjárhagslega og félagslega.

Í inngangi leggur Bjarni út af aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 og spyr nokkurra akademiskra spurninga á borð við:

  • Boðar þessi nýja stefnumótun nýja lítt þekkta hugmyndafræði eða endurspeglar ríkjandi alþjóðlega hugmyndafræði á nýrri öld eða jafnvel afturhvarf til klassískra hugmynda um borgarskipulag fyrri alda?
  • Er þessi andstæða stefna við eldri skipulagsáætlanir í samræmi við skoðanir meirihluta Reykvíkinga og annarra íbúa höfuðborgarsvæðisins?
  • Hvers vegna eru flest þéttingarsvæði í eldri hverfum þar sem byggðin er þéttust fyrir?
  • Nýju þéttingarsvæðin virðast nokkuð einsleit 4-6 hæða þéttbyggð fjölbýlishúsabyggð. Svarar þessi einsleitahúsagerð óskum allra aldurshópa?
  • Sáu skipulagshöfundar fyrir þá miklu fjölgun erlendra ferðamanna sem orðið hefur og þann mikla þrýsting á að byggja hótel og gistihús í og við miðborgina?
  • Bjarni veltir líka fyrir sér staðsetningu Landspítalans við Hringbraut og spyr í inngangi sínum hvort umferðamálunum sem uppbyggingu þar tengjast séu í lagi og telur skipulagsyfirvöld þurfi að sýna betur fram á hvernig leysa á þau mál.

Í bókinni er mikill fjöldi greina eins og áður sagði, alls 30 talsins þar sem tekið er á fjölda mála sem horft er á frá mörgum sjónarhornum.

Nauðsynleg bók fyrir alla sem vilja vita hvernig Reykjavík og nágrenni mun þróast á næstu árum.

Bókina Reykjavík á tímamótum tileinkar höfundur tveim fyrrum skipulagsstjórum Reykjavíkurborgar, arkitektunum Guðrúnu Jónsdóttur og Þorvaldi S. Þorvaldssyni.

++++

Ég mun á næstu vikum fjalla stuttlega um enstakar ritgerðitr í bókinni í von um að vekja fólk til umhugsunar.

+++

Reykjavík á tímamótum er að vissu marki framhald bókar sem kom frá hendi Bjarna árið 2014 og heitir Borgir og borgarskipulag.. Þetta eru ólíkar bækur þó þær fjalli um svipað efni. Borgir og borgarskipulag fjallar um þróun borga frá öndverðu með áherslu á Kaupmannahöfn og Reykjavík. Báðar eru bækurnar bæði fróðlegar og skemmtilegar aflestrar og mikið myndskreyttar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Hilmar Þór

    Gefur ekki Borgarlínan okkur einmitt tækifæri til þéttingar á jaðarbyggðum.

    Til dæmis úí Úlfarsárdal.

    Ef þar byggðist upp svona 20-30 mannahverfi eins og uphaflega var áætlað með öflugri atvinnustarfssemi eins og Sigrún Gunnarsdóttir að ofan nefnir væri kominn sterkur og traustur farþegagrunnur fyrir Vestur-Austurlínu Borgarlínunnar!

    Hver veit nema það gerist Stebbi.

    Þú drepur þarna á góðum vinkli.

    Takk fyrir það.

  • „Hvers vegna eru flest þéttingarsvæði í eldri hverfum þar sem byggðin er þéttust fyrir?“

    Virkilega góð spurning.

    • Kannski má svara henni á þá leið að skipulag borgarinnar hefur löngum snúist um 101 en ekki borgina sem heild. Vonandi breytist sú hugsun með borgarlínunni.

  • Guðrún Þorsteinsdóttir

    Eru skipulagsyfirvöld að vinna eitthvað í umferðamálunum við Landsann? Annað en borgarlínuna sem er auðvitað fugl í skógi en ekki í hendi enn sem komið er!

  • Guðbjörg D.

    Eg hef ekki séð þessa bók en hef óskað eftir henni í afmælisgjöf í mánuðinum.
    Mér finnst borgin vera að breytast of hratt.

    Af hverju eru menn með þessi læti?

    Þarf þetta að gerast svona hratt?

    Hægjum á okkur og gefum fólki tækifæri til að hugsa sig um og meðtaka breytingarnar.

    Ekki þröngva breytingunum uppá kjósendur.

    Kjósendur í Reykjavík og um landið allt vilja til dæmis flugvöll áfram í Vatnsmýrinni.

    Af hverju er ekki hlustað á þessar raddir?

    • Ástvaldur Tryggvason

      Það sýnist nú hverjum sitt um hraðann á framkvæmdum í borginni. Mikið er talað um skort á íbúðum, og einhverjir ganga svo langt að tala um neyðarástand. Ég efast um að því yrði vel tekið að hægja á framkvæmdum.

    • Hilmar Þór

      Ef ég skil Guðbjörgu rétt, þá er hún að tala um hraða á breytingum á áherslum aðalskipulagsins. Það er að segja stoppa útþennsluna í stað þess að hægja á henni og þéttingu byggðar eingöngu í miðborginni eins og Bjarni bendir á í stað bara þar sem borgin er þéttust fyrir! Hún er ekki að tala um hraða á uppbyggingunni eða hægja á framleiðslu íbúða! Annars skýrir hún þetta eflaust sjálf.

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Þetta er spurning sem ég hef oft velt fyrir mér sem íbúi í Úlfarsárdal.:

    „Hvers vegna eru flest þéttingarsvæði í eldri hverfum þar sem byggðin er þéttust fyrir?“

    Ég gæti vel hugsað mér meiri þéttingu hér í dalnum sem mundi þá færa okkur betri þjónustu og jafnvel borgarlínu. Kannski líka Landspítala eða flugvöll á Hólmsheiði!

    • Þorkell

      Frábær hugmynd.

      Þá gæti borgarlínan haldið áfram upp á Holmsheiðarflugvöll og við þyrftum ekki að sóa tugum milljarða í fluglest til Kef.

  • Spennandi bók!
    Eru svör við þessum spurningum Bjarna í bókinni?

    • Svar við spurningu Árna má finna í bók Bjarna 😉

    • Takk.
      Þá er bara að fara og kaupa bókina og leita svara!
      🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn