Sunnudagur 20.05.2018 - 14:22 - 11 ummæli

Reykjavík á villigötum? – Náttúruvernd og borgarvernd.

 

Það hefur orðið veruleg vakning með þjóðinni hvað varðar verndun náttúrunnar. Umhverfissinnar börðust fyrir náttúruvernd áratugum saman og fengu litlar undirtektir. Það var ekki fyrr en ferðamaðurinn vakti athygli heimamanna á að þarna var mikla auðlind að finna. Þá fyrst snerist almenningsálitið.

„Peningarnir tala“

Fyrst þegar ferðamannastraumurinn jókst og varð stærsta atvinnugrein þjóðarinnar fóru menn að átta sig á því að svartar auðnirnar höfðu verðmiða. Í framhaldinu hafa menn haldið mjög vöku sinnu þegar umgengni við náttúruna er annarsvegar.

+++

Þessi hugsunar háttur hefur enn ekki náð til gamalla húsa og gamalla byggða. Sérkenni borgarinnar eru á sama stað í umræðunni og náttúran var þar til ferðamennirnir fóru að sækjast eftir henni og verja nú stórum upphæðum til að berja augum og upplifa. Sérkenni gömlu húsanna og gömlu borgarhlutanna eru ekki síður aðdráttarafl ferðamanna en svart víðerni hálendisins, fossar og fjöll. Það vita allir sem fylgjast með ferðamönnum og þeim slóðum sem þeir velja að feta.

Undanfarin mörg ár hefur verið rifið mikið af gömlum húsum í Reykjavík sem hafa verið einkennandi fyrir staðinn og skapað sérstöðu meðal borga. Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 stendur beinlínis að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til feramtiðar og áhersla í framtíðinni skuli lögð á „hið staðbundna“. Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í skipulaginu er lögð áhersla á að virða einkenni borgarinnar innan Hringbrautar.

Þrátt fyrir þessi fyrirheit hefur aldrei verið rifið jafn mikið innan í gamla borgarhlutanum innan Hringbrautar en s.l. 4 ár. Það er sífellt verið að breyta staðarandanum í stað þess að flétta inn í þann borgarvef sem fyrir er. Þessi hegðun hefur farið vaxandi og nú er svo komið að heilu hverfin eru að rísa sem eru fullkomlega sneitt þeim einkennum sem ferðamenn eru að sækjast eftir þegar þeir sækja okkur heim. Ég hef enga trú á að ferðamennirnir leggi lykkju á leið sína til þess að vafra um t.a.m. Hafnartorgið og skoða í búðarglugga merkjarisanna utan úr heimi. Þeir fara í þær verslanir heima hjá sér ef þeim sýnist svo.

Í mínum huga eru ferðamennirnir í raun aukaatriði. Við sem hér búum viljum finna fyrir verkum forfeðra okkar, njóta þeirra og skila þeim í betra ásigkomulagi til niðja okkar.

Það sem vekur athygli er að jafnvel hinir hörðustu varðmenn íslenskrar náttúru sjá lítil verðmæti í götumyndum og einstökum húsum frá fyrri tíð sem mikið kapp er lagt á að varðveita í AR2010-2030 eins og fyrr er getið. Þeir virðast ekki hafa áttað sig á að auðlindin er ekki bara fossar fjöll og svartar víðáttur hálendisins hér á landi heldur einnig og ekki síður séreinkenni byggðs umhverfis.

Er Reykjavík á villigötum í þessum málum?

++++

Að ofan er tveggja ára skopmynd sem ég fékk leyfi hjá höfundinum Halldóri Baldurssyni, fyrir nokkrum árum til að birta á bloggi mínu. Myndin segir meira en þúsund orð.

Að ofan er ljósmynd Sigurgeirs Siogurjónssonar af húsum milli Lindargötu og Hverfisgötu sem er eini heillegi reiturinn í gamla Skuggahverfinu sem eftir er. Þessum húsum virðist ógnað af ágengi húsanna þarna norðanvið

Hér  að ofan er mynd sem sýnir húsaröð sem áður einkenndi Lindargötuna. Myndin er tekin til austurs við Frakkastíg. Hún leit í aðalatriðum svona út frá Vitastíg og allt vestur að Ingólfsstræti og Arnarhól. Nú er ekki mikið meira en þetta eftir og bara annarsvegar götunnar.

Ef horft er til vesturs frá svipuðum stað og myndin af gömlu húsunum við Lindargötu sem áður var getið blasir þetta við.  Ég á ekki von á að nokkur maður leggi leið sína um þessa götu ótilneyddur. Og alls ekki ferðamennirnir.

Hafnartorg virðist vera einhver misskilningur á því sem getið er um í AR2010-2030 og skilgreint sem „hið staðbundna“ í Reykjavík sem sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Hvaða túristar ætli leggi lykkju á leið sína til Reykjavíkur til þess að ganga inn í þessi hús og versla hjá Cucci og H&M eða Louis Vuitton? Þeir gera það auðvitað bara heima hjá sér á ég von á.

+++

Að neðan koma svo nokkrar myndir af niðurrifi í Reykjavík á síðustu 2-3 ár.

 

Við Norðurstíg og Tryggvagötu. Þarna viku allmörg hús.

Við Hverfisgötu

Við Vitastíg og Skúlagötu er nýbúið að rífa stór og stæðileg iðnaðarhús.

Tvo samliggjandi hús við Laugaveg voru rifin á dögunum.

Hús Gunnars í Von við Laugarveg hvarf fyrir nokkrum dögum. Tæplegar þriðjungur Lækjargötu eru nú rústir einar. Og nú er verið að rífa gamla Landsímahúsið við Kirkjustræti. Þar á að byggja hótel sem smellpassar í sviðsmynd Halldórs efst í færslunni. (Þessa mynd fann ég á netinu)

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Sæll Hilmar,

    Þetta er svolítið villandi hjá þér. Í fyrsta lagi snýst meirihluti færslunar um þá skoðun að Íslendingar eigi að endurskoða umgengi sína við miðbæinn á svipaðan hátt og þeir endurskoðuðu umgengni sína við náttúruna, (nokkuð sem ég efast reyndar um að þeir hafi gert). Síðan dregurðu í land og segir að ferðamennirnir séu „í raun aukaatriði.“ Hvort er það? Fyrir mér ættu Reykjvíkingar ekki að láta ferðamannaiðnaðinn hafa of mikil áhrif á útlit húsanna sem þeir byggja (eða rífa), þótt gagnlegt og sjálfsagt sé að hlusta á einstaka ferðamenn. Ég held að Reykvíkingar vilji ekki sjá ferðamenn sem vilja heimsækja borg sem hefur verið byggð í samræmi við væntingar þeirra. Ég held að ferðamennirnir sem Reykvíkingar vilja fá séu komnir að sjá fjölbreytta, áhugaverða og þróttmikla borg. Annars er Disneyland (eða Selfoss, ef allt gengur eftir) ekki langt undan.

    Í öðru lagi eru öll húsin á svart-hvítu myndinni sem þú sýnir þar enn. Samt segir þú „hér að ofan er mynd sem sýnir húsaröð sem áður einkenndi Lindargötuna.“ Ég veit ekki betur en að þessi húsaröð „einkenni“ enn þessa götu. Enda sjást þau öll á myndinni fyrir ofan. Stutt netleit sýnir að veitt var leyfi fyrir blokkarhverfi í Skuggahverfi á níunda áratugnum, og þar þurftu fallegar iðnaðarbyggingar að víkja, sem er vissulega mikið slys. Ég held að Skuggablokkirnar miklu hafi síðan risið á þeirri lóð. Það var s.s ekki þannig að lágreist timburhús voru rifin til að koma þeim fyrir–afsakið ef ég fer með rangt mál, ég hef verið búsettur erlendis í 15 ár, og fyrir þann tíma var ég ekki mjög kunnugur hverfinu. Ekki fæ ég samt séð hvernig hús geta ógnað öðrum og verið ágeng. Það er bara fólk sem getur það: skipuleggjendur, stjórnmálamenn og, lóðareigendur, því þegar allt kemur til alls er enginn sem rífur neitt nema hann eða hún eigi húsið og megi það.

    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=224795&pageId=2904079&lang=is&q=Kveld%FAlfssk%E1li
    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=187040
    http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2896231

    Reyndar sé ég að til er húsakönnun sem forvitnilegt væri að sjá, til að við fengjum að vita hvað var rifið:

    Nikulás Úlfar Másson og Margrét Jónasdóttir. 1999. Byggingasaga Stjórnarráðsreita. Stgr. 1.150.1, 1.150.2 og 1.150.3, Ingólfsstræti, Klapparstígur, Lindargata, Skúlagata og Sölvhólsgata. Skýrslur Árbæjarsafns 72. Reykjavík: Árbæjarsafn.

    Að lokum blandar þú hér sem oft áður niðurrifi gamalla húsa saman við nýbyggingar á stöðum þar sem ekkert var rifið. Tökum „Hafnartorg“ sem dæmi. Eins og fólk þreytist seint að benda á var það búið að vera bílastæði lengi. Í deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1986 var gert ráð fyrir að þar yrði bílageymsla. Meiri staðarandagift hafði sú lóð ekki fyrir skipulagshöfundunum sem þú heldur svo mikið upp á. Fermetraverðið á lóðinni í dag er hátt og ríkið seldi hana í einkaeigu, því miður. Við höfum farið í gegn um deiliskipulagið og breytingar á því hér í athugasemdakerfinu hjá þér áður. Hvernig gæti bygging verið staðbundari en þetta? Lúxusbyggingar á dýrasta staðnum á landinum með öllu sínu Gucci, H&M og Louis Vuitton? Ef ferðamennirnir síðan vilja eitthvað annað, t.d. lunda eða eitthvað slíkt, þá ætti að vera lítið mál að selja þá með handtöskunum og úrunum, fyrst við erum svona fixeraðir á hvað það er nú sem *þeir* vilja.

    Ég legg síðan annan skilning í grínmyndina. Að mínu mati er þar verið að gera grín að túrismanum sjálfum. Væri ekki enn verra ef á myndinni væri eitt gamalt timburhús og hundrað ný, og túristarnir þekktu ekki muninn? Ég er allavega á þeirri skoðun, því þá væri minna mál að rífa það sem er raunverulega gamalt og verðmætt og byggja í staðinn hús sem líkist því, og þá e.t.v. bæta við einni hæð.

    Kveðja,

    Óskar

    • Hilmar Þór

      Takk fyrir athugasemdina Óskar.

      Hún er bæði fróðleg og góð og sett fram af miklim áhuga fyrir efninu sýnist mér.

      Ég skoðaði slíka slóðana sem þú lést fylgja sem eru fróðlegir en það kom mér ekkert á óvart sem þar kom fram.

      Ég held að þú misskiljir mig þegar ég segi að ferðamennirnir séu aukaatriði. Ég veit ekki af hverju þú misskilur þetta vegna þess að þetta er mjög skýrt.

      Það sem ég er einmitt að segja er að skoðun ferðamannanna er aukatriði og við eigum ekki að láta þá og þeirra skoðun og þarfir ekki ráða ferðinni.

      Þvert á móti segi ég að við eigum fyrst og fremst að hugsa um okkur sjálf og okkar menningu, „… finna fyrir verkum forfeðra okkar, njóta þeirra og skila þeim í betra ásigkomulagi til niðja okkar“.

      Svo segir þú „Væri ekki enn verra ef á myndinni væri eitt gamalt timburhús og hundrað ný, og túristarnir þekktu ekki muninn?“

      Ég er þessu sammála og er ekki að óska eftir neinu „Disney“ umhverfi.

      Arkitektar vita og þekkja vel að það er hægt að hanna nútímaleg hús sem smellpassa inn í gamlar götumyndir. Þegar það er gert vel verður útkoman þannig að engum dettur í hug að um sé að ræða gömul hús.

      Heldur er nýbyggingin fléttuð inn í borgarvefinn þannig að vel fari.

      Þetta er auðvitað auðveldara að taka ekki tillit til umhverfisisn en að gera það. En það er einmitt leiðin sem er oft valin að taka ekki tillit til uhverfisins. Þetta er leið sem sögð er sprottin frá lötum arkitektum og gráðugum fjárfestum (Jan Gehl)

      Og varðandi Hafnartorg þá er einmitt verið að benda á að það ætti að gera sömu kröfur gagnvart arkitektóniskri nálgun hvort hús hafi staðið þar áður eða ekki. HVort þar hafi verið bílastæði eða ekki skiptir engu.

      Hafnartorg hefði getað verið fullkomlega nútímaleg hús þó þau væru í svipaðri tóntegund og önnur hús í nágrenninu, jafnvel með einhverjum kontrapunktum.

      Og að lokum er sannleikurinn sá að það voru rifinn fjöldi húa við Lindargötu til þess að rýma fyrir þessum stóru húsum sem komu í staðinn og eru úr öllum hlutföllum við það sem þarna var áður. Það kemur meira að segja fram í einni greininni sem þú vitnar til og er 33 ára gömul. Nánast öll hús austan Lindargötu 25. (Lindargata 29,39,49,61,63 o fl.) Þessi húsaröð einnkenndi Lindargötuna en gerir það sko alls ekki lengur. Þessi litli bútur er í raun s´´ynishorn á því sem áður var,

      Í framhjáhlaupi og vegna þess að þú ert að tala um lundabúðir þá er vert að geta þess að mér skilst að á Hafnartorgi eigi að koma um 6000 fermetrar verslanna. Þarf svom mikla viðbót verslunarhúsnæðis í miðborginni. Ég hef ekki séð neina útakt sem segir það. Hvað ætli margar verslanir þurfi að loka annarsstaðar í miðborginni vegna þessa?. T.d. við Laugaveg?

      Þetta allt eru atriði sem arkitektar þekkja og velta mikið fyrir sér núna á okkar dögum.

  • Halldór Carlsson

    Hjálmar Sveinsson er umhverfisglæpamaður og söguníðingur.
    honum fer að gefa út bækur, en hans verður alltaf helst minnst fyrir þessa eyðileggingu alla.

    og það er ekki mikils að vænta af Eyþóri Arnalds peningamanni í þessum efnum.

    Davíð Oddsson vildi láta rífa Bjarnaborg og Miðbæjarbarnaskólann.
    þau sluppu fyrir horn.

    Haraldur Blöndal vinur hans, skrifaði grein sem hét ,,Rífum Þingholtin“ á sínum tíma, og hægt er að finna á timarit.is – honum þótti þessi hús lítil og ljót, og auk þess væri ekkert pláss fyrir baðkör.

    erum við öllu söguskyni skroppin, að hleypa sovona brjálæðingum í sífellu að, til að eyðileggja menningu okkar og sögu??

  • Örnólfur Hall

    -NOKKUR ORÐ UM LANDSSÍMAREIT:

    -Á sínum tíma gerði Minjastofnun margar athugasemdir við deiliskipulag af Landssímareit, sem unnið var á grundvelli samkeppni um reitinn. Borgin tók ekkert mark á þeim þá.
    -Nú beinast augu allra þeirra, sem bera virðingu fyrir fornri arfleifð og grafarhelgi 30 kynslóða Víkverja, til Minjastofnunar sem getur stöðvað þessa ókræsilegu hótelbyggingu í Víkurkirkjugarði flatmagandi á fornum gröfum !
    –Stöðvað þessa grámóskulegu og skuggavarpandi (m.a. á Austurvöll) risabyggingu sem líka „lítilsvirðir“ Alþingi með stærð sinni og smækkar það !!!

  • Eyþór Arnalds nefndi í viðtali nýlega skuggahverfið sem dæmi um vel heppnaða þèttingu byggðar. LOL.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Umfjöllunin hér um Hafnartorg nægir.
    Þar er borgin á “villigötum”
    “Say no more”

  • Sjarminn við Reykjavík er þessi fíni skali. Hún er lítil og maður getur tekið utan um hana. Ég heyri að DBE stefnir að „meiri borg“ (Sprengisandur í morgun) Viljum við það?. Ég vil meira þorp. Stórt mennigarþorp með miklum tækifærum til sköpunar og mennunnar. Það þarf ekki „meiri borg“ til þess að ná því. Meiri borg hamlar nánum og gefandi samskiptum. Borg á við Kaupmannahöfn er í stærra lagi.Líklega of stór. Of mikil borg fyrir Reykljavík. London og Barcelona viljum við ekki sjá hér.

  • Þetta er stófurdulegt. Maður hefði haldið að eftir Grjótaþorpið, Torfuna ofl þá ætti þetta að vera útrætt mál. En líkast til er þetta enn ein staðfestingin á því að það eina sem við getum lært af sögunni er að menn læra ekkert af sögunni.

  • Þorarinn Kristjánsson

    Hvar eru húsverndarsinnarnir?
    Hvar eru Torfusamtökin?
    Af hverju er þessu ekki mótmælt?

    Ég hélt að vinstri menn væru bestir til þess að gæta menningararfsins. Sjálfstæðismenn eru menn uppbyggingar og telja að peningar séu hreyfiaflið sem fær jörðina til að snúast.

    En þetta eru verk vinstrimanna.

    Hjálmar er mikill baráttumaður fyrir náttúruvernd en hefur bersýnilega enga tilfinningu fyrir þessu gæðum sem eru í miðborg Reykjavíkur.

    Samt er hann og félagar hans ábyrgð á þessu.

    Hvað er til ráða?

    Þetta verður að stöðva.

    STRAX

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Sammála hverju orði. Það er allt of langt gengið og þetta gerist með ógnar hraða. Liggir eitthvað á?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn