Föstudagur 17.02.2017 - 08:57 - 11 ummæli

Reykjavík aldrei fallegri ?

 

Ef spurt væri hvenær Reykjavík hafi verið fallegust þá er ekki ólíklegt að það hafi verið á þeim tíma sem myndin að ofan var tekin. Sennilega skömmu fyrir aldamotin 1900.

Húsin eru mjög samstæð hvað form, hlutföll og hvað efnisval og áferð varðar. Það eru nánast engir kvistir á húsunum.  Það er mjög mikið og gott samræmi í allri heildarmyndinni sem blasir þarna við. Staðarandinn er sterkur og einkennandi. Ég vil minna á að í þessu mati á fegurð er gerður greinarmunur á byggingalistar- og skipulagslegri fegurð annarsvegar og snyrtimennsku hinsvegar. Borgin hefur eflaust oft verið snyrtilegri en á árunum fyrir 1900, þó ég viti það ekki. Varðandi snyrtimennskuna skynja ég að fólk sjái oft ekki undirliggjandi fegurð á suppulegum og ósnyrtilegum stöðum. Þetta á við bæði hús og er algengt þegar um sveitabýli er að ræða og auðvitað líka fólk.

Myndin er tekin úr Grjótaþorpinu austur Austurstæti.

Myndin að ofan og þær að neðan eru fengnar af Facebooksíðunni Gamlar myndir. Þær eru teknar á mismunandi tímum en segja okkur mikið um miðborgina á árum áður.

Myndin hér að ofan er nokkuð yngri en efsta myndin. Þarna er búið að setja út fyrir Útvegsbankahúsinu sýnist mér. Maður sér gálgana þar sem hóffjöðrin hefur verið negld í og markar útlínur hússins.  Á Þessari mynd er byggingalistin orðin órólegri en á fyrstu myndinni.

Þessi mynd er tekin fljótlega eftir brunann mikla í Reykjavík 1915. Maður sér Landakotsspítalann sem byggður var 1906 og grunna eftir húsin við Austurstæti/Austurvöll sem brunnu.

Þessi mynd er frá horni Laugavegs og Skólavörðustíg og mun vera tekin árið 1899. Þarna er komin nokkuð sterk mynd af aðalgötu bæjarins. Það virðist vel vandað til húsanna. Þarna til hægri glittir í umdeild hús að Laugarvegi 2 og 4.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Stefán Örn Stefánsson

    Skemmtilegar myndir og skemmtileg túlkun eins og ávallt. Fremst á efstu myndinni má sjá hefðbundin einlyft timburhús með bröttu þaki, svokallaða dansk-íslenska gerð, klædd rennisúð á þaki og reisifjöl á veggjum, tjörguð, hvítmálaðir gluggar og gluggafaldar. Eitt þessara húsa hefur verið endurgert þar sem er Aðalstræti 10, hús sem byggt var sennilega 1764, eitt af húsum Innréttinganna, sem var merkilegt félag stofnað til að koma vinnslu á hráefni af stað í landinu, ull í vaðmál og margt annað. Húsið var endurgert samkvæmt virðingargerð frá 1823 þegar það var virt og skoðað og endurnotað allt sem nota mátti af efni utan húss og innan og húsið gert vel nothæft á nútíma vísu þó haldið hafi verið öllum upphaflegum einkennum þess. Minjavernd stóð fyrir þessari endurbyggingu og til að auka notagildi húss og lóðar var byggt við húsið, glerbygging fyrir aftan og annað hús svipaðrar stærðar aftar á lóðinni. Í kjallaranum er svo tilbúinn möguleiki á tengingu við Landnámskjallarann sunnar í götunni og hugsunin var sú að þarna mætti tengja saman sýningar um upphaf landnáms í Reykjavík og fyrstu bæjarbyggðina, stofnun og byggingar Innréttinganna, þegar Upplýsingaröldin reyndi að koma sér að hér landi. Hvað skyldi nú Reykjavíkurborg vilja gera við þetta eitt sitt elsta hús í hjarta borgarinnar? Af því fer fáum sögum.

    Og fyrst maður er byrjaður að tuða: Í næstu götu, Austurstræti 22 hefur Reykjavíkurborg látið endurbyggja annað þessara gömlu húsa, sem sjá má á myndunum her að ofan, alveg frá grunni, Landsyfirréttarhúsið að Austurstræti 22. Ákvörðun um það var tekin í hita leiksins eða brunans og við það var staðið, færustu smiðir fengnir til að vinna allt efni, svo höggva mætti saman stokka og klæða síðan utan og innan eitt af merkustu húsum borgarinnar, dæmigerðan fulltrúa hins vaxandi kaupstaðar þegar 19. öldin var gengin í garð, hús sem tengist vaxandi frelsisbáráttu og þjóðfélagsbreytingum í Evrópu m.a. með Jörundi hundadagakonungi og felur í sér merkilega sögu. Hvað skyldi Reykjavíkurborg ætla að gera við það eftir allt erfiðið, Jú, einmitt, selja það, og reyndar búin að því, losna undan því fargi sem menningararfur getur verið, stöðugildum sem honum fylgir og alls kyns leiðindum. Ferðamönnum á að selja lunda og léttvín, vilji þeir vita eitthvað um söguna lands og borgar geta þeir bara keypt bók eða bækling.
    Í Hafnarfirði er svipað hús, frá svipuðum tíma, endurgert fyrir mörgum árum og varðveitt sem safn um sögu og upphaf bæjarins, en það er náttúrlega í Hafnarfirði.

  • Nú bregst þér bogalistin Hilmar varðandi efstu mynd sem trúlega var tekin úr Vinaminni Mjóstræti 3 byggt 1885. Þetta er óreglulegt samansafn af kofaskriflum óeinangrum og án alls og alls. Ég átti heima í Mjóstræti 6 1941 til 1951 og man þá tíð að fólk vara að Rífa kassa til að brenna í eldavélum sem var eini hitagjafinn. Útveggir næfuþunnir og óeinangraðir og í raun var þetta óíbúðarhæft húnæði. Nei ekki dádama þetta.

    • Hilmar Þór

      Auvitað vita allir hvernig aðbúnaðurinn var í þessum húsum. Og það er rétt hjá þér að hann var ekki góður. Það var hann heldur ekki í gömlu húsunum víðsvegar í evrópu. En húsin eru samstæð og formfögur. Þau bera af sér ákveðinn þokka og endurspegla lífið í þeim og miklli þeirra. Sjáðu bara kálgarðana og sennilega að hluta til opna klóakið á Laugaveginum!

  • Hilmar Þór

    Skarplega athugað með lækinn Stefán. Þarna er glampandi sól og þurrt veður! Hvað ætli renni í læknum?

  • stefán benediktsson

    Það er einhver segull í gömlum myndum og myndefnið öðlast eigið gildi.
    Neikvæða hlið þessa tíma má síðan sjá í myndinni á horni Laugavegar og Skólavörðustígs. Hvað ætli sé í læknum?
    Að horfa á þessar myndir vekur mér tilfinningu af Kúbisma og þá dettur manni í hug Nína Tryggvadóttir sem málaði nokkrar stúdíur af húsum í grennd við Garðastrætið, nokkurskonar kyrralífskúbismi, sem ríma við seinni tíma abstraktmyndir hennar þar sem kassarnir eru komnir á hreyfingu.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Stórathyglisverðar myndir, einkum sú efsta. Ég fæ ekki betur séð en að franski ( ? ) fáninn ( tricolor ) blakti við hún nærri byggingu stjórnarráðuneytisins. Getur það verið ?

    • Hilmar Þór

      Já Orri. Ég tók eftir þessu. gaman væri að fá skýringu á þessu.

  • „Hóffjöður“ ?

    • Hilmar Þór

      Já Siggi. „Hóffjöður“ var notuð þegar merkt var fyrir húsi.

      Þegar hús voru „sett af“, það er að segja mælt út fyrir staðsetningu þeirra, þá voru settir upp „gálgar“ rétt utan við mörk útveggjarins og settur nagli þar sem mörk útveggjarins voru áætluð. Til þess að menn rugluðust ekki á nöglum var sett hóffjöður þar sem mörk útveggjarins voru. Svo var strengd lína á milli fjaðranna. Svo einfalt var þetta í gamla daga. 🙂

  • Eysteinn Jóhannsson

    Húsin eru mjög áhugaverð en það er annað sem vekur mína athygli. Það er grandinn út í Örfyrirsey. Hann sést ekki, er á bólakafi. Það er eiginlega eins og hann hafi verið fótósjoppaður í burtu!

  • Helga Guðmundsdóttir

    Yndislega falleg mynd efst í pistlinum. Manni kemur í hug orð Ólafs Jóhannessonar dómsmálaráðherra um dönsku fúaspíturnar í Bernhöftstorfunni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn