Laugardagur 31.12.2016 - 15:41 - 11 ummæli

Reykjavík – Aleppo

13339614_1791736311059728_4493487944751756879_n

Prince Charles af Wales, sagði á árunum um 1990 að breskir arkitektar hefðu valdið meira tjóni undanfarin 40 ár í miðborg Lundúna en Deutsche Luftwaffe í seinni heimstirjöldinni!  Þetta var auðvitað arrogant og fékk prinsinn bágt fyrir. Einkum frá aritektum. Ég hitti mann í haust sem sagði að Reykjavík liti út eins og Aleppo með niðurbrotnar og sprengdar byggingar út um allt. Þetta er auðvitað ofmælt og  líka hrokafullt. En þetta segir okkur samt að fólk er uggandi yfir þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár og líst ekkert á hana. Lítur á niðurrifið eldri húsa og nýbyggingar sem ekki eru aðlagaðar nánasta umhverfi mjög svörtum augum.

Ég var að fara yfir færslur mínar á árinu sem er að líða og sé að það sem mest var lesið varðaði niðurrif gamalla húsa í Reykjavík. Það kom mér sannast sagna ekki á óvart. Niðurrif gamalla húsa og jafnvel nánast heilu reitanna í Reykjavík hafa verið sláandi. Hús hafa verið rifin sem aldrei fyrr og þeim öllum fórnað af fullkomnu tillitsleysi við það sem fyrir var að því er virðist. Engin skráning fór fram fyrir niðurrifið. Hvorki með ljósmyndum né uppmælingu og teikningum. Oftast voru þessar ákvarðanir byggðar á deiliskipulagi sem samþykkt var fyrir síðasta Hrun og stjórnmálamenn hafa ekki átt margra kosta völ til þess að afstýra þessum ósköpum.

Mestur hluti þessa niðurrifs var framkvæmt með stuðningi arkitekta. Þeir gerðu deiliskipulag sem kallaði á niðurrifið og þeir teiknuðu húsin sem risu í þeirra stað. Oft voru þetta sömu arkitektarnir sem nánast lögðu til að húsin yrðu rifini og teiknuðu svo húsin sem komu í staðinn.

Samfélagsleg ábyrgð kollega minna er mikil.

Í lok ársins sýndi sig ábyrgðafull framkoma stjórnmálamanna í þessu samhengi. Borgaryfirvöld höfnuðu umsókn um að rífa niður gömul hús á tveim stöðum í borginni. Annarsvegar við Veghúsastíg og hinsvegar á horni Bragagötu/Freyjugötu. Umhverfisráð taldi að “húsverndunarsjónarmið og varðstaða um byggðarmynstur gömlu Reykjavíkur verði að vera í forgangi þegar þess sé kostur”.  Þetta er hárrétt og samræmist reyndar opinberri menningarstefnu í mannvirkjagerð. Það var tími til kominn að menn spyrntu við fótum varðandi niðurrifið. Ég hefði auðvitað óskað að sú viðspyrna hefði komið frá arkitektum, en svo var ekki. Hún kom frá stjórnmálamönnum. Þetta gefur von um breytt viðhorf stjórnmálamanna á komandi árum og hugsanlegt aðhald gagnvart arkitektum og fjárfestum.

En hvað með kollega mína?

Er samfélagslegri ábyrgð kollega minna ábótavant? Þeir deiliskipuleggja og nánast dæma jafnvel áægt hús til niðurrifs. Þeir hanna hús í gamalt og gróið umhverfi sem öllum þykir vænt um og jafnvel elska með þeim hætti að það sem fyrir er er skúbbað til hliðar, víkur þó það sé ekki rifið. Þetta sér maður víða. Ég nefni Austurhöfn og nýlegar tillögur um skrifstorfubyggingu fyrir Alþingi sem er nýlega afstaðin.  Þar studdi dómnefnd tillögu í þriðja sæti sem að margra mati átti ekki erindi á einn viðkvæmasta stað í borginni. Í dagblöðunum í gær var fjallað um byggingu íbúðablokka sunnan útvarpshússins. Íbúðablokkirnar skyggja á eina helstu og merkusti stofnun þjóðarinnar. Það liggur i augum uppi að aldrei á að byggja neitt sem rýrir þau umhverfisgæði sem fyrir eru. En í því dæmi á að byggja íbúðablokkir sem rýra ásýnd einnar af helstu menningarstofnunnar landsins, RUV. Mér sýnist allir vera sammála um þetta arkitektar hafa tekið að sér að deiliskipuleggja og hanna hús sem ekki eru í samræmi um hugsjónina um betra umhverfi og virðingu fyrir því sem fyrir er. Ástæðan kann að vera sú að þetta hafi verið í forsögn samkeppi um byggingarnar. En allar tillögur í samkeppninni gerðu ráð fyrir þessu fyrirkomulagi.

Í gær var líka kynnt í blöðunum hótelbygging í Borgarnesi. Borgarnes er eitthvað alfallegasta bæjarstæði á Íslandi. Fíngerð húsin á nesinu, nálægð við sjóinn og fjallahringurinn er einstakur. Þarna hafa arkitektar lagt til að byggt verði 4-5 hæða hótelkassi sem engan samhljóm hefur við nánasta umhverfi ef rétt er skilið. Húsið styrkir ekki staðarandann heldur veikir hann.

+++++

Arkitektar þurfa á nýju ári að taka sig á og sýna samfélagslega ábyrgð. Taka þátt í umræðunni og upplýsa notendur skipulagsins og bygginganna um þá möguleika og þau tækifæri sem við blasa. Hafa skoðun og láta hana í ljós og ekki síður að skipta um skoðun ef þannig stendur á. Ekki hoppa gagnrýnislaust á öll þau verkefni sem þeim býðst. Vera samfélagslega gagnrýnir og sýna ábyrgð líkt og stjórnmálamenn hafa gert varðandi Veghúsastíg og horn Bragagötu og Freyjugötu. Standa með byggingalistinni og umhverfinu öllu í hverju því verki sem þeir taka sér fyrir hendur.

+++++

Efst er skopmynd af hugsanlegri framtíð eins og Haldór Baldursson sér hana. Þarna er búið að rífa alla þá Reykjavík sem við elskum og túristarnir koma að heimsækja. Nema eitt hús „The very famous Colorful bárujarnshús in Reykjavík“

Myndirnar að neðan voru teknar í haust af nokkrum niðurrifsvæðanna í miðborg Reykjavíkur.

+++++

Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu sem er að líða í von um að það gangi betur á næsta ári..

Gleðilegt og farsælt nýtt ár!

 

fr_20160407_036298-640x360-640x360

photo-4-640x480

photo-1-1-640x480

photo-2-1

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Það vekur bjartsýni að lesa og sjá að verið sé að draga úr niðurrifi í Reykjavík. En þá kemur í fréttum að verið er að rífa eða flytja gamalt glæsilegt hús við Vegamótastíg!

    Þetta er fjarri því að ljúka.

  • Skýringin á þátttökuleysi arkitekta í skipulagsumræðunni er líklega að þeir eru flestir flæktir í málin og geta sig hvergi tjáð án þess að vegið sé að meðreiðarsveinum þeirra í sukkinu!

  • Eysteinn Jónsson

    Þörf ábending.
    Það er oftast þannig að ekkert er einum um að kenna.
    Við erum öll saman í þessu og oft erum við meðsek bara vegna þagnarinnar.
    Takk

  • Hilmar Þór

    Mig langar til að nefna að ég var ég og er nokkuð hikandi vegna yfirskriftarinnar Reykjavík -Aleppó.

    Hana má misskilja og fordæmatoga og tegja á alla kanta.

    Þetta er auðvitað sérstök fyrirsögn.

    Það var líka sérstakt þegar Prinsinn talaði um stríðsskemmdirnar í London í svipuðu samhengi.

    En við, viðmælandi minn sem vitnað er í, ég og Charles, erum ekki að tala um átökin og mannfallið og allar hörmungarnar og orsakir þeirra.

    Heldur einungis rústirnar og útlit þeirra. Þar liggur myndlíkingin ekki hvernig rústirnar eru tilkomnar eða hver er ástæða fyrir átökunum.

    Og þetta hefur ekkert með skilning á neyðinni í Aleppo eða miðborg Lundúna að gera. Ég held að hann hafi verið fyrir hendi hjá Prince Charles og manninum sem ég vitnaði í varðandi Aleppo.

    Yfirskriftina má miskilja og fordæma á alla kanta. En aðgát skal höfð í nærveru sálar, það er ég enn minntur á.

    Síðan Sigurlaug setti sína athugasemd að ofan hingað inn, hafa umræður vegna færslunnar í hópi arkitekta stóraukist og fæ ég nokkuð bágt fyrir. En enginn sigur vinnst án fórna!

  • Sigurlaug

    Þetta er merkilegur pistill. Arkitekt tekur á sig (stéttina) vissa ábyrgð á ástandinu í borginni. Þetta er nýlunda og á ég ekki von á öðru en að kollegar höfundar velti þessu fyrir sér í kjölfarið. Það er alveg rétt að húsin og deiliskipulagið sem dæmir yfir okkur niðurrif og breytingu á staðarnda Reykjavíkur teikna sig ekki sjálf. Þau eru teiknuð af arkitektum. Arkitektar eru miklir áhryfavaldar í þessum málum og bera mikla ábyrg’ð sem hefur verið vanmetin. Skúrkarnir hafa ávallt verið álitnir verktakar, braskarar og stjórnmálamenn. En hlutur arkitekta er augljóslega ekki minni.

    Sennilega fær höfundur á baukinn frá kollegum sínum fyrir að varpa hulunni af þessu. En hann stedur það vonandi af sér. Það er löngu tímabært að færa störf arkitekta inn í þessa umræðu með beinum hætti.

    Ég bendi á villu í pistlinum þar sem stendur . „…….Veghúsastíg og horn Bragagötu og Veghúsastíg“ á að vera horn Bragagötu og Freyjugötu..

    • Hilmar Þór

      Takk fyrir Sigurlaug,

      Ég lagfæri villuna.

      Arkitektar eru ekki að bögga mig mikið, en samt smá.

      Annars er það mikill galli á stéttinni að hún tjáir sig ekki mikið um skipulags og byggingamál og er sérlega viðkvæm fyrir gagnrýni.

  • Þorsteinn Guðmundsson

    Vonandi er þetta stefnubreyting hjá borginni en ekki bara tilviljun. Maður bíður spenntur eftir að vita hver örlög Iðnanarbankanns í Lækjargötu verða!

  • Orri Ólafur Magnússon

    Fyrirtaks góður pistill. Hafðu þakkir fyrir, Hilmar Þór. Nöturlegt að skoða ljósmyndirnar af þeirri adstyggð eyðileggingarinnar sem núverandi borgarstjóri, Dagur B. og niðurrifssveitir hans skilja eftir sig.

  • God og thorf amynning. „Good on you“ Hilmar!

  • Einar Jóhannsson

    „Oft voru þetta sömu arkitektarnir sem nánast lögðu til að húsin yrðu rifini og teiknuðu svo húsin sem komu í staðinn“.

    Er verið að segja að arkitektarnir hafi aukið nýtingu lóðanna eða reitanna með það að markmiði að fá verk út á það?

    Fór hugmyndin um að rífa niður og byggja meira í staðinn og hagsmunir arkitektanna saman?

    Gleðilegt ár!

  • Hallgrímur

    „Vinur er sá sem til vamms segir“
    Þakka pistlana á árinu sem er að líða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn