Miðvikudagur 10.04.2013 - 10:41 - 24 ummæli

Reykjavíkurflugvöllur-álit almennings

964641cropteiknuðleyy

 

Í síðust viku var kynnt niðurstaða í könnun sem Fréttablaðið og Stöð tvö stóðu fyrir um afstöðu landsmanna til staðsetningar flugvallarins í Vatnsmýrinni og framtíð hans þar.  Ég þekki ekki mikið til framkvæmdar könnunarinnar  en niðurstaðan var sú að 80-84% landsmanna, háð búsetu, vilja að flugvöllurinn verði kyrr í Vatnsmýrinni. Ég leyfi mér að birta texta um könnunina af visir.is  í heild sinni.

 

Yfir 80 prósent vilja að flugvöllurinn verði kyrr

„Þessi könnun og niðurstaða hennar hefur ekki vakið mikla athygli. Þess vegna leyfi ég mér að birta hér fréttina í heild sinnni eins og hún birtist á visir.is.

Yfir 80 prósent landsmanna vilja að Reykjavíkurflugvöllur verði kyrr í Vatnsmýrinni, samkvæmt niðurstöðum könnunar Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Ekki er munur á afstöðu eftir búsetu, en í kosningum um framtíð flugvallarins árið 2001 vildi meirihluti Reykvíkinga flugvöllinn burt.

Ef horft er á landið allt vilja 83% að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, 3% vilja nýtt flugvallarstæði á Hólmsheiði, 11% kjósa að færa starfsemina til Keflavíkur og 3% vilja ekkert af ofantöldu.

Athygli vekur að ekki er munur á afstöðu höfuðborgarbúa og þeirra sem búa á landsbyggðinni. Vatnsmýrin fær stuðning 83% borgarbúa, Hólmsheiði fær 3,5%, Keflavík 10% og 3,5% velja annað. Hjá landsbyggðinni fær Vatnsmýrin 84%, Hólmsheiðin 1%, Keflavík 13% og 2% vilja aðra kosti.

Það er ljóst að kúvending hefur orðið á afstöðu fólks til þess hvar flugvöllurinn á að vera, en hverjar skyldu ástæðurnar vera?

„Skýringin er algjörlega að mínu mati sú að nú stendur svo illa fyrir okkur efnahagslega að við höfum ekki efni á að ráðast í neinar stórar framkvæmdir,“ segir Trausti Valsson, prófessor í skipulagsfræði.

Þetta eigi jafnt við um sjúkrahús, flugvöll og önnur stór verkefni. Fólk vilji bíða eftir að þjóðin rétti úr kútnum. Hann segir koma nokkuð á óvart að ekki sé munur á afstöðu eftir búsetu.

„En þar held ég að sé það sama, að ábyrgðartilfinningin gagnvart því að ráðast í einhverjar ófærur í fjárfestingum sé álíka rík á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.“

Keflavík nýtur meiri vinsælda en Hólmsheiði. Ástæðurnar segir Trausti vera að innanlandsflug frá Keflavík myndi bæta aðgengi erlendra ferðamanna að landinu öllu og auðvelda Íslendingum á landsbyggðinni ferðalög utan og heim“.

 

Efst í færslunni er ljósmynd af flugvallarsvæðinu í Vatnsmýri. Athygli vekur hvað stutt er um Kársnes út á Bessastaðanes þar sem er að finna mikið byggingaland.  Þarna mun vera um 800 hektarar byggingalands sem með skynsamlegum tengingum væri í góðum tengslum við alla miðkjarna allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Með göng undirinnsiglingu í Hafnarfjarðarhöfn mætti stytta aksturstímann milli miðborgar Reykjavíkur til Keflavíkurflugvallar um 20 mínútur.

Hér má finna slóð að fréttinni á visir.is þar sem má nálgast fréttina á Stöð2:

http://visir.is/yfir-80-prosent-vilja-ad-flugvollurinn-verdi-kyrr/article/2013130409373

Hér er pistill um Bessastaðanes skrifaður til vanar þeirrar náttúru sem þar er að finna.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/21/bessastadanes%e2%80%93natturan-flugvollur/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Grétar Hreggviðsson

    Sæll Hilmar

    Takk fyrir áhugaverða pistla. Ég hef fylgst með í hljóði fram að þessu en nú langar mig aðeins að leggja orð í belg.
    Það er eitt atriði sem gleymist alltaf í þessari flugvallarumræðu sem mér finnst mikilvægt að komi fram. Það er talað um um nýr flugvöllur sé svo dýr að við höfum ekki efni á að byggja hann (sem ég held að sé alveg rétt), verðmiðinn á Hólmsheiðarvellinum er um 23 milljarðar. Hins vegar ef við ákveðum að teygja byggðina áfram til austurs með áframhaldandi uppbyggingu í Úlfarsárdal, Keldnaholti, Geldinganesi og upp á Álfsnes þá er Sundabrautin orðin algjörlega lífsnauðsynleg fyrir flæði umferðar því Vesturlandsvegurinn mun engan vegin anna þessu aukna umferðarmagni. Verðmiðinn á Sundabraut er nokkurn vegin sá sami og á flugvellinum, eða ca. 25 milljarðar. Það er því nokkuð sama hvort flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni eða ekki, við þurfum alltaf að leggja einhverja tugi milljarða í steypu og jarðvegsfyllingar.

  • Sigurður Ingi Jónsson

    Það sjá allir hugsandi einstaklingar að það verðmætamat á landi í Vatnsmýri sem notað er til að réttlæta aflagningu miðstöðvar innanlandsflugs með 99,8% nothæfishlutfall, kr. 900 milljónir á hektara, er þvættingur. Miðað við það byggingarmagn sem ætlað er að byggja þá útleggst lóðakostnaður, án gatnagerðagjalda, á kr. 245.000 fermetrinn. Það á að telja okkur trú um að 20.000 kaupendur bíði í röð eftir að kaupa blokkaríbúð í Vatnsmýri á nærri 600.000 krónur á fermetra. Lúxusíbúðir við Tryggvagötu á þessu verði seljast ekki á sama tíma og íbúðir við Lækjargötu fást á um kr. 450.000.
    Á annan tug hektara hefur verið úthlutað í Vatnsmýrinni á undanförnum árum á kr. 0, á meðan ekki einn fermetri hefur farið á meira en það (voru þetta gjafagjörningar sem hefði átt að skattleggja?).
    Meðal tími sem borgarbúar eyða í bíl á dag er 37 mínútur og eknir eru að meðaltali 21,5 km. Meðal vegalengd hverrar ferðar er 6,4 km, en margir aka nokkrar ferðir á dag, til og frá vinnu, aka með börn í og úr skóla, skutla í tónlistarnám og/eða íþróttir og sækja síðan aftur. Skynsamasta leið til að minnka umferð er að gera skóla einsetna með tónlistarnám, íþróttir og slíkt betur samhæft skólanum.
    Lausnin felst ekki í að fórna miðstöð innanlandsflugs, sætta sig við 2. eða 3. flokks lausn á því fyrir tugi milljarða og byggja þéttasta blokkahverfi landsins í Vatnsmýri.
    Íbúar blokkahverfisins í Vatnsmýri munu ekki losa sig við fjölskyldubílinn og rölta eða hjóla allra sinna ferða, heldur verða þeir á ferðinni eins og aðrir, skutlandi börnum út og suður og skreppandi í Kringluna.
    Hættum að karpa um þetta. Mikilvæg uppbygging í Vatnsmýri hefur setið á hakanum árum saman vegna hreðjartaks minnihlutahóps með skipulagsvald, uppbygging sem stuðlar að hagvexti og gjaldeyristekjum af þjónustu við ferðamenn. Léttum á Mýrargötunni með því að flytja olíubirgðastöðina í Örfirisey út fyrir bæinn. Þar væri hægt að byggja stóra blokk með glæsilegu útsýni. Passa bara að byggja ekki fyrir siglingaljós eins og gert var við Höfðatún.

  • Þórður Jónsson

    Nú þegar það liggur fyrir að ekki hefur fundist lausn á flugvallarmálinu (Hólmsheiði ónothæf) þarf borgarstjón ekki að endurskoða aðalskipulagið með tilliti til þess og fresta lokun flugvallarins í svona 20 ár?

    • Jón 'olafsson

      Seggðu Þórður.

      Við niðurstöðuna á athugun Hólmsheiðarlausnarinnar og þeirra tuttugu (þrjátíu?) milljarða sem sá draumur kostar er aðalskipulag Reykjavíkur í uppnámi. Vatnsmýrarhlutann þarf að endurskoða strax.

  • stefán benediktsson

    Sú hugmynd að hagnýtara sé að nýta Vatnsmýrina fyrir byggð frekar en flugvöll er vel grunduð, bæði efnahagslega og félagslega.
    Einu sinni vildi fólkið völlinn burt en nú ekki er sagt. Ef ekki var ástæða til að taka mark á kosningunni er spurn hvað er að marka könnunina?
    Mér er líkt farið og 80% þjóðarinnar að mér hugnast ekki hugmyndir Sjálfstæðisflokksins en ég tel samt ekki ástæðu til að krefjast þes að hugmyndir þeirra verði lagðar í glatkistuna.

  • Snorri Gunnarsson

    Ef landsvæðið milli Kollafjarðar og Hafnarfjarðar væri óbyggt svæði í dag, en verið væri að skipuleggja þar nýja borg, dytti engum heilvita manni í hug að leggja til að miðstöð stjórnsýslu, verslunar og viðskipta (=miðbær) yrði sett niður í Kvosinni.

  • Þórhallur

    Þessi hugmynd um að stytta aksturstímann til Keflavíkurflugvallar um 20 mínútur með nýrri tengingu yfir Skerjafjörð er auðvitað eina rétta leiðin. Sennilega mun 84% landsmanna fallast á að leggja flugvöllinn niður í Vatnsmýri væri þesskonar tenging fyrir hendi.

    Þetta þarf að gera strax og leggja Vatnsmýrarflugvöllinn niður þegar vegatengingunni er lokið.

    Sennilega eru þessar brýr og göng mun billegri en þessi Holmsheiðaráætlun sem kosta á milli 20 og 25 milljarða!!!

    • Magnús Birgisson

      hehe…góður…nei bíddu…þetta er ekki kaldhæðni!!…þú ert í alvöru að leggja til að allar bílsamgöngur á höfuðborgarsvæðinu færðust útá sjó. Hefurðu heyrt um hnattræna hlýnun og hækkun sjávarmáls ?…ég spyr vegna þess að borgarstjórn hefur ekki heyrt af þessu áður…

  • Helgi Hallgrímsson

    Sólveig hittir á áhugaverðan punkt. Engum myndi detta í hug að velja Vatnsmýri sem flugvallastæði í dag.
    Það er fáránlegt ef að við ætlum að láta ákvörðun sem erlendur her tók fyrir mörgum áratugum stýra fyrirkomulagi flugsamgangna í borginni okkar. Þetta voru skipulagsmistök sem þarf að leiðrétta.

    • Hilmar Þór

      Það er tómur misskilningur að bretar hafi valið flugvellinum stað. það var fyrir löngu búið að gera það og það gerði bæjarstjórn Reykjavíkur 20 árum fyrr.

      Skoðið þessa færslu.

      http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/12/08/reykjavikurflugvollur-flokkusaga/

    • Helgi Hallgrímsson

      Ákvörðunin var jafn vitlaus fyrir það.

    • Hilmar Þór

      Nei Helgi. Hún var ekki vitlaus en það er auðvitað auglóst að ef við værum að leita að stað fyrir Reykjavíkurflugvöll núna á árinu 2013 þá væri Vatnsmýrin ekki skynsamlegur kostur. En hún var skynsalleg fyrir 90 árum og alls ekki vitlaus.

    • Helgi Hallgrímsson

      Það er auðvitað rétt hjá þér Hilmar að mönnum hefur fundist ákvörðunin rétt á sínum tíma og engin ástæða til að setja sig í dómarasæti yfir þeirri ákvörðun.

      Þó að bæjarstjórn hafi tekið ákvörðun um að hafa þarna flugvöll þá er alls óvíst að það hefði náð fram að ganga ef Breski herinn hefði ekki lagt þennan völl. Vel má vera að einhverjir áratugir hefðu liðið áður en Bæjarstjórn hefði sjálf haft bolmagn til að byggja völl og þá hefðu forsendur án efa verið aðrar. Því má alveg færa rök fyrir að ef bretar hefðu ekki hernumið landið væri líklega ekki flugvöllur í Vatnsmýri.

      En þessi forsaga ákvarðanna skiptir kannski ekki svo miklu máli í dag. Eftir stendur að völlurinn er á stað sem hamlar mjög borginni skipulagslega séð í dag og því þarf að fara að mínu mati. En ég þarf víst að sætta mig við að vera í minnihluta með þá skoðun miðað við þessa könnun.

    • Þorgeir Jónsson

      Hilmar.
      Þessi flugvöllur var við Laufásveg.
      Annars þróuðust flugmálin í Reykjavík framm að síðara stríði í átt til lendinga á sjó og var aðal staðurinn við Vatnagarða við Klepp og Reykjavíkurhöfn.
      Það er vitleysa að halda því fram að flugvöllur í Vatnsmýrinni hafi orðið til um 1919. það datt engum í hug að byggja flugvöll í sjálfri mýrinni, fyrr enn Bretar höfðu hertekið landið. Flugvöllurinn 1919 var á stærð við fótboltavöll, með aðkomu frá Laufásvegi (gamla kennó). Við gætum allt eins haldið því fram að Laugardalsvöllurinn hafi fyrst verið Melavöllurinn!

    • Hilmar Þór

      Já Þorgeir, flökkusögur eru lífseigar og enda sem „sannleikur“ í huga fólks. Mér sýnist þú vera haldinn þessum áunna sannleik sem ekki stenst vandaða skoðun. Ég efast samt ekki uym að bretarnir festu flugvöllinn í sessi til lengri framtíðar en búast mátti við.

      En lítum nú á staðreyndirnar sem ég endurtek úr fyrri pistli og ég hef sannreynt að eru réttar.:

      Vorið 1919 fékk Knud Ziemsen, þá bæjarstjóri, frænda sinn, flugmanninn Rolf Ziemsen, til þess að kanna aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi. Hann taldi Vatnsmýrina besta kostinn fyrir flugvöll í Reykjavík. Í framhaldinu lagði bæjarstjórnin til 92.300 fermetra svæði, svonefnt Briemstún, undir flugvöll, Reykjavíkurflugvöll.

      Það var sem sagt bæjarstjórn sem útvegaði landið sem þá var tæpir 10 hektarar.

      Um haustið (1919) kom svo til landsins flugvél af gerðinni AVRO 504. Flugvélin flaug þónokkuð. Mest útsýnisferðir. Fyrsti flugmaðurinn var Cecil Faber. Árið eftir tók vesturíslenskur flugmaður við starfi Fabers, hann hét Frank Fredrickson.

      Árið 1928 var nýtt flugfélag stofnað að fumkvæði Alexanders Jóhannessonar prófessors. Það starfaði á Reykjavíkurflugvelli til 1931 þegar heimskreppan og fleira urðu því að falli.

      Næstu árin var flugvöllurinn notaður af útlendingum. Aðallega hollenskum veðurathugunarmönnum. Þá hafið verið byggt þarna flugskýli og fl. vegna starfseminnar.

      Árið 1937 teiknaði Gústaf E. Pálson verkfræðingur flugvöll í Vatnsmýrinni en ekkert varð úr framkvæmdum fyrr en 1940 þegar Bretar tóku til við að leggja flugvöllinn eftir eigin skipulagi.

      Svona eru nú staðreyndirnar í mjög stuttu máli.

    • Þorgeir Jónsson

      Hilmar

      Já, þetta með flökkusögurnar. Ég vil frekar sjá þetta í heild, því það er ekki nein samfella í fyrri hugmyndum og starfsemi flugvallar í Vatnsmýrinni í dag. Þessar framkvæmdir tengjast ekkert og ég á því erfitt með að samþykkja þessa ákvörðun bæjarstjórnar frá 1919 sem upphafið að flugvellinum. Sögulega er þetta allt satt og rétt sem þú segir, en það er full langt gengið að tengja þetta í eina samfellda tímaröð og fullyrða að 1919 sé upphafið. Það er upphaf en endaði skjótt og við tóku lendigar á sjó í Vatnagörðum, enda flutti flugfélagið starfsemi sína þangað. Það var ekki flugvöllur fyrir í Vatnsmýrinni, þegar Bretar komu hingað í stríðinu.

  • Sólveig H. Georgsdóttir

    Ef enginn flugvöllur væri í Vatnsmýrinni og hún væri óbyggt svæði í dag dytti engum heilvita manni í hug að leggja til, hvað þá krefjast þess, að flugvöllur yrði settur niður á þessum stað.

    • Magnús Birgisson

      Þetta er rétt. Þá hefði líka flugvöllurinn verið byggður samhliða Keflavíkurflugvelli og miðstöð stjórnsýslu, mennta og heilbrigðisþjónustu á Íslandi væri ekki í Reykjavík heldur í Keflavík.

    • Snorri Gunnarsson

      Ef landsvæðið milli Kollafjarðar og Hafnarfjarðar væri óbyggt svæði í dag, en verið væri að skipuleggja þar nýja borg, dytti engum heilvita manni í hug að leggja til að miðstöð stjórnsýslu, verslunar og viðskipta (=miðbær) yrði sett niður í Kvosinni.

  • Björn Vignir Sigurpálsson

    Bessastaðanes er og á að vera friðland – sjá http://www.ni.is/media/midlunogthjonusta/utgafa/Alftanes_04012_150dpi.pdf

  • Torfi Hjartarson

    Ég er ekki sammála útskýringum Trausta um að það sé peningaskortur sem valdi þessari viðhorfsbreytingu. Finnst líklegra að fólk sé búið að átta sig á því að tímabundið lóðarbrask borgarstjórnar í Vatnsmýrinni stjórnist af skammsýni og leiði eingöngu til hás fasteignaverðs sem aðeins fáir hagnast á. Flugvöllurinn er ein af grunnstoðum samgöngukerfa á höfuðborgarsvæðinu og betri staðetning er vandfundin. Af hverju getur hann ekki rúmast í borgarskipulagi líkt og brautarstöðvar, hafnir, vegakerfið o.s.frv.?

    • Magnús Birgisson

      Like…

      Reglulega skrifa einhverjir 2 verkræðingar í moggann og flíka þeirri úttekt að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að flytja flugvöllinn uppá Hólmsheiði og byggja í Vatnsmýrinni vegna þess að sala lóða þar + stytting vegalengda vegna þéttingar byggðar í Reykjavík myndi vega upp kostnaðinn við flutning og gott betur en það.

      Kann vel að vera…

      En þá hlýtur líka að blasa við að það hlýtur að vera enn hagkvæmara að láta flugvöllinn einfaldlega vera þar sem hann er en ná fram hagræðingunni af þéttingunni með því að þétta byggð þar sem hún er mest dreifð, í úthverfunum, og þar sem lýðfræðileg og landfræðileg miðja höfuðborgarsvæðisins er…ca. í Mjóddinni. Þetta myndi bjóða uppá að klára Bryggjuhverfið, byggja Keldnaholtið og Keldur, þétta í Ártúninu og minnka Árbæjarsafn, svæðið á syðri bakka Elliðaáa, svæðið frá Vesturlandsvegi niður að Staðahverfi, Úlfarsárdalurinn osfrv….osfrv. Þarna er samanlagt byggingarland sem myndi duga Rvk í 50 ár hið minnsta, þétta byggðina og sætta landsbyggðina.

      En…úttekt á þessum kosti hefur bara aldrei farið fram. Afhverju ætli það sé ?…kannski vegna þess að það hentar ekki pólitískum rétttrúnaði og sérhagsmunum borgarfulltrúana sem nánast allir sem einn búa í 101/107.

  • Endilega láta Gísla Martein vita.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn