Fimmtudagur 08.12.2011 - 15:06 - 7 ummæli

Reykjavíkurflugvöllur – Flökkusaga

Ég hitti tvo kollega mína við þriðja mann í vikunni. Staðsetning flugvallarins í Vatnsmýrinni kom til umræðu ásamt skipulagsáætlunum þar.

Fljótlega var farið að tala um inngrip Breta í borgarskipulagið og hversu illa Reykjavíkurborg hefði farið út úr heimstyrjöldinni síðari þegar Bretar ákváðu staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.

Ég leyfði mér að mótmæla þessu og sagði að flugvallastæðið hefði verið ákveðið af okkur íslendingum meira en tveim áratugum áður en Bretar tóku sig til við að leggja flugvöllinn. Tveir áratugir er langur tími þegar hugsað er til þess að flug á Íslandi er rétt rúmlega níu áratuga gamalt.

Þessu mótmæltu kollegar mínir kröftuglega og fengu sterkan stuðning frá þriðja manninum sem er verkfræðingur.

Þarna var um ofurefli að etja. Flökkusagan hafði djúpar rætur , vitnað var ummæli margra og engu var haggað.

En lítum nú á staðreyndirnar.

Vorið 1919 fékk Knud Ziemsen, þá bæjarstjóri, frænda sinn, flugmanninn Rolf Ziemsen, til þess að kanna aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi. Hann taldi Vatnsmýrina besta kostinn fyrir flugvöll í Reykjavík. Í framhaldinu lagði bæjarstjórnin til 92.300 fermetra svæði, svonefnt Briemstún, undir flugvöll, Reykjavíkurflugvöll.

Það var sem sagt bæjarstjórn sem útvegaði landið sem þá var tæpir 10 hektarar.

Um haustið (1919) kom svo til landsins flugvél af gerðinni AVRO 504. Flugvélin flaug þónokkuð. Mest útsýnisferðir. Fyrsti flugmaðurinn var Cecil Faber. Árið eftir tók vesturíslenskur flugmaður við starfi Fabers, hann hét Frank Fredrickson.

Árið 1928 var nýtt flugfélag stofnað að fumkvæði Alexanders Jóhannessonar prófessors. Það starfaði á Reykjavíkurflugvelli til 1931 þegar heimskreppan og fleira urðu því að falli.

Næstu árin var flugvöllurinn notaður af útlendingum. Aðallega hollenskum veðurathugunarmönnum. Þá hafið verið byggt þarna flugskýli og fl. vegna starfseminnar.

Árið 1937 teiknaði Gústaf E. Pálson verkfræðingur flugvöll í Vatnsmýrinni en ekkert varð úr framkvæmdum fyrr en 1940 þegar Bretar tóku til við að leggja flugvöllinn eftir eigin skipulagi.

Svona eru nú staðreyndirnar í mjög stuttu máli.

Allar þessar lífseigu flökkusögur um að Bretar hafi ekki spurt kóng né prest og tekið Vatnsmýrina og lagt undir flugvöll að okkur forspurðum eru hæpnar. Einkum vegna þess að bæjarstjórn Reykjavíkur tók sjálf ákvörðunina 21 ári áður öllum til heilla.

En svo oft er hægt að endurtaka flökkusögur að þær enda sem einskonar sannleikur í hugum fólks.

Efst í færslunni er mynd af flugvél sömu gerðar og fyrst tók á loft á Reykjavíkurflugvelli árið 1919. Hún var af gerðinni AVRO 504

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Hinn Haraldur

    Skiptir einhverju máli hvernig staðsetninginn er upphaflega valin eða hvort Jón eða séra Jón hafi samþykkt hana ?
    Staðsettningin er jafn arfavitlaus í dag.

  • Þessi saga er kannski ekki alveg svona einföld, þó flugið hafi átt sína sögu í Vatnsmýrinni löngu áður en bretar gerðu flugvöll í Vatnsmýri. Það er hinsvegar rétt að bæjarstjórnin var búin að samþykkja gerð lítils flugvallar í Vatnsmýri, þ.e. tillögu Skipulagsnefndar ríkisins um flugvöll (Guðjón Sam. bókaði á móti), áður en bretar taka hér land – eða í mars 1940. Það er hinsvegar álitamál um að einhugur hafi ríkt um þetta, í ljósi þess sem á undan gekk. Mikið var rætt um staðarvalið á seinni hluta 4. áratugar og var á tímabili mikið rætt um Kringlumýri, en sá kostur þótti of kostnaðarsamur og var hann sleginn af þegar stríð braust út í Evrópu 1939. Þá er líka spurning hvort fulltrúar í bæjarstjórn, sumir hverjir, hafi litið á þetta sem bráðabirgðalausn, eins og málið var lagt upp í bæjarstjórn árið 1939. Um var ræða aðeins 67 ha svæði. Þegar bretarnir koma þá sölsa þeir undir sig miklu stærra land, hátt í 300 ha og byggja miklu stærri flugvöll, herflugvöll nota bene og viðhorf bæjarstjórnar Reykjavíkur til flugvallar breyttist snarlega eftir það. Ef ég man rétt þá var Bjarni Ben. borgarstjóri ekki viðstaddur „afhendingu“ vallarins til Íslendinga árið 1946 og borgarstjórn hafði horn í síðu vallarins klárlega vel fram á 7. áratuginn. Það er því óhætt að segja að margar goðsögur hafi sprottið upp í Vatnsmýarumræðunni.

  • Kristján S

    Í endurminningum Agnars Kofoed-Hansen kemur fram að um 1938 hafi hann fengið félaga úr Svifflugfélaginu til að slétta og tína grjót úr Vatnsmýrinni til að bæta og stækka þann lendingarstað sem þar var. Þá notuðu svifflugmenn Vatnsmýrina strax 1937 til æfinga eða þangað til Bretar yfirtóku svæðið. Klemminn sem kom hingað 1938 og er elsta flugvél sem enn er til, er frá upphafi í eigu Flugmálafélags Íslands hafði Vatnsmýrina sem sinn heimaflugvöll. Til er íslensk teikning af miklum flugvelli í Vatnsmýrinni en Bretar byggðu allt annan völl, þennan völl sem við þekkjum.

  • Hér er brot úr skemmmtilegu viðtali við Rolf Zimsen liðsforingja, frá 1919.

    „Hafið þér fundið hentugan
    f lugvöll . —
    Eg hefi verið að litast um fyrir
    utan bæinn og skoðað þá staði,
    sem helzt gætu komið til greina.
    Inni í Öskjuhlíð er flót, sem nægt
    gæti vönum flugmanni fyrir lendingarstað,
    en er of lítil handa viðvaningum.
    Melarnir eru ekki góðir
    heldur. Þar eru símar, járnbraut
    og svo þarf ekki mikið að rigna til
    þess að þar komi aurbleyta. Suður á
    Seltjarnarnesi er völlur, sem gæti
    komið til mála, en hann er ekki vel
    sléttur og þarf mikillar lagfæringar
    við, og svo er hann of langt frá
    bænum. Bezti staðurnin hérna er
    Briemstúnin, fyrir sunnan Tjörnina;
    þar er yfirleitt mjög góð aðstaða.
    Helzti gallinn er sá, að túnin
    eru fremur votlend, en það mætti
    eflaust laga með lokræsingu. —
    Flugvöllurinn þarf að vera 4—500
    stikur á hvern veg………..Til bráðabirgða þarf ekki mikin
    útbúnað á flugvellinuin. Lítið
    annað en vélaskúrana og svo stöng
    fyrir vindhraðamerki o. þ. h.“

    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=98689&pageId=1204188&lang=is&q=flugvöll

    Hér birtist auglýsing um fyrstu listflugssýninguna, 1919.

    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=98779&pageId=1204555&lang=is&q=flugvöll

    Flugvöllur
    „Bæjarstjórnin hér hefir að sögn
    keypt nokkuð af túni E . Briems hér
    í Vatnsmýrinni og ætlar Flugfélagið
    að Iáta búa þar flugvöll, eða réttara
    sagt, lendingarstað og uppsátur fyrir
    flugvélar.“
    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=309341&pageId=4738047&lang=is&q=flugvöll

  • Þetta er nú skemmtilegur fróðleiksmoli – það verður gaman þegar menn byrja að draga af honum órökréttar ályktanir eins og þeir hafa hingaðtil gert við „staðreyndina“ um ósvinnu bretanna.

    Því að feminisma einum undanskildum er þetta það málefni sem æsir menn mest upp á Internetinu.

  • stefán benediktsson

    Þetta er alveg hárrétt hjá Hilmari og mig minnir að þetta megi greina á loftmyndum þýskum eða enskum teknum rétt fyrir 1940.
    Knútur vildi hafa flugvöllin sem lengst frá bænum og mýrar voru í þá daga ekki taldar æskileg byggingarsvæði.

  • Jóhannes Einarsson

    Jahérna.
    Þetta vissi ég ekki og tel mig þó
    sæmilega upplýstann

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn