Mánudagur 15.08.2011 - 12:27 - 8 ummæli

Reykjavíkurhöfn – Mýrargötuskipulagið

Eftirfarandi barst frá einum lesanda síðunnar sem er áhyggjufullur vegna framkvæmda á Slippasvæðinu við Reykjavíkurhöfn. Hann vitnar í nýjasta eintak af því ágæta blaði Vesturbæjarblaðinu og segir:

Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum.

Þessi bókartitill kom í hugann þegar  síðasta eintaki Vesturbæjarblaðinu var flett, en blaðið hefur eiginlega tekið að sér að vera fundargerðagerðabók skipulags- og byggingarmála í Vesturbænum í Reykjavík og næsta nágrenni.

Eða réttara sagt, betur væri að að tíðindalaust væri á vesturvígstöðvunum, en því var ekki að heilsa. Herstjórnin í Borgartúni hafði í visku sinni og herkænsku ákveðið að verðlauna fjáraflamenn enn einu sinni með því að leyfa átta hæða byggingu við Mýrargötuna, 5 eða 6 hæðir ofan á það sem komið er og staðið hefur sem rústir undanfarin ár. Að vísu með þeirri breytingu að ekki væri um lúxusíbúðir að ræða, heldur bara venjulegar íbúðir. Menn eru nú ekki í meirihluta fyrir ekki neitt.

Skipulag Mýrargötunnar gerði á sínum tíma (2006) ráð fyrir 5 hæðum og þótti nú vel í lagt þegar byggja átti nýjan “hafnarfront” eins og í nágrannalöndunum, vísa slippunum út í hafsauga og athuga hvort trillukarlarnir væru ekki komnir á síðasta söludag.

Handan götunnar má svo sjá gulan borða á steypustyrktarjárnum, sem afmarka staðinn sem rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur fengið að helga sér, væntanlega með kúplum og turni og tilheyrandi. Innan um tveggja hæða íbúðarbyggð, timbur- og steinhúsa frá fyrri hluta tuttugustu aldar.

Tíðindalaust? Nei, því miður. Margt má bæta í gamla vesturbænum í Reykjavík, frágang gatna og bílastæða, umferðaröryggi, leiksvæðum má fjölga, endurskoða deiliskipulag til að koma í veg fyrir árekstra og reddingar en þessi birtingarmynd skipulagsins við Mýrargötu er ekki boðleg vesturbænum og svo sem ekki neinum

Þarna eru nú á vígvellinum CCP-húsið svokallaða og Sjóminjasafnið, myndarlegur frágangur á húsi og umhverfi, Allíansinn sem var friðaður, átta hæða húsið, sem gefur væntanlega tóninn fyrir aðrar byggingar á þessum svokallaða Slippreit.

Hvað skyldu hótelin sem þarna eiga að koma þurfa að verða há til að ná svokallaðri arðbærni?

Stríðið geisar enn í vesturbænum, stríðsherrarnir sitja í Borgartúni, og steypuklumparnir  munu verða þeirra minnismerki.“

Því má bæta hér við að í umsögn skipulagsstjóra dags. 13. maí 2011 segir m.a.: “Lagt er til að tekið verði jákvætt í að fjölga íbúðum frá 68 í 110 íbúðir, að þær verði 12 íbúðum færri en óskað er eftir. Lagt er til að húsið verði lækkað úr 7 hæðum í 5 og að 5. hæðin verði inndregin til að minnka áhrif byggingarinnar á umhverfi sitt…..”

Þarna má skynja að skipulagsyfirvöld eru eitthvað að spyrna við fæti í þessu máli. Hinsvegar er ég þeirrar skoðunnar að þetta skipulag þurfi í heild sinni á endurskoðun að halda eins og morg önnur svæði sem skiðpulaögð voru í góðærinu og aðdraganda þess.

„Handan götunnar má svo sjá gulan borða á steypustyrktarjárnum, sem afmarka staðinn sem rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur fengið að helga sér, væntanlega með kúplum og turni og tilheyrandi. Innan um tveggja hæða íbúðarbyggð, timbur- og steinhúsa frá fyrri hluta tuttugustu aldar“.

Byggingin sem er á milli litla steinbæjarins og Allianshússins. Nýbyggingin sem hefur staðið eins og rúst í allnokkur ár stefnir í að verða einar 7-8 hæðir ef mætt er óskum húsbyggjanda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Magdalena Sig

    Þetta skipulag er hreinlega sorglegt. Flestir kannast nú við nýju íbúðablokkirnar í Hafnarfirði, og taka andköf yfir hryllingnum þar sem risavaxnir klumpar skilja þar á milli gamla bæjarins og sjávarins. Færri gera sér grein fyrir að svipað er uppi á teningnum í skipulagi Reykjavíkurhafnar, á svæði sem á margt sameiginlegt með Hafnarfirðinum. Nýja skipulagið slítur gjörsamlega tenginguna á milli Hafnarinnar og Gamla Vesturbæjarins, og tekur þar með sögu borgarinnar úr samhengi. Þetta er mjög sorgleg þróun og mjög gamaldags pælingar hér á ferð. Mér finnst að Reykjavíkurborg megi læra af mistökum nágrannaborga okkar og hugsa sinn gang og reyna nú einu sinni að vera aðeins í takt við samtímann. Svei!

  • Er þetta timburkirkja? Hvernig væri að birta teikningar af henni á þessu bloggi?

  • Stefán Guðmunds

    Rússneska rétttrúnaðarkirkjan á ekki að vera við gamla venjulega húsagötu. Hún verður alltaf kennileiti sem á að staðsetja í samræmi við það. Flottur staður væri við torg eða enda götu. Grandatorg við enda Mýrargötu væri fínn staður.

  • Nýr Ræsisreitsskandall í uppsiglingu?

  • Er skynsamlegt að fjölga og minnka íbúðirnar? Er það i samræmi við markmið skipulagsins frá 2006? Eru breyttar skipulagsforsendur sem kalla á þessa breytingu eða er þetta bara „bisniss as usual“?

  • hvernig verður umferðin þarna á Mýragötu ef það á að bæta við fullt af íbúðum í viðbót, hún er geigvænleg nú þegar.

  • Hrönn Geirsdóttir

    Sammála Jóni Guðmundssyni hér að ofan.

  • Jón Guðmundsson

    Af teikningunni efst skilst mér að aðalgatan fari norðan við gamla Slippfélagshúsið. Svo er bætt við landfyllingu. Ofaná landfyllingunni eru svo byggðar blokkir og búin til aðstaða fyrir lystibátahöfn. Það er eins og þarna eigi enginn að vinna og að allir verði bara að skemmta sér í litlu menningarsnauðu plastbátunum sínum. Ég styð bréfritara. Þarna eiga að vera slippur, veiðafæraverslanir, fiskbúðir beint frá sjómanni (samanber „beint frá bónda“) og trillukarlar sem við hin getum notið samvista við. Kannski með einum köldum á völdum stöðum þegar þannig liggur á manni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn