Sunnudagur 21.03.2010 - 16:17 - 12 ummæli

Reynslusaga frá Kaupmannahöfn

 

Midtermolen

Fyrir einum 15 árum átti ég samtal við vin minn og skólabróðir, Palle Leif Hansen arkitekt í Kaupmannahöfn. Teiknistofa hans var þá að skipuleggja og teikna lúxusíbúðir við Mitdermolen nálægt miðborginni.  Hann sagðist vera að hanna fyrir markhóp sem væri vel efnum búinn og ætti að minnstakosti tvo bíla og þeir væru BMW eða AUDI og að konurnar klæddust í minnkapelsum. Þarna þyrfti í það minnsta 2,5 bílastæði innandyra á hverja íbúð. Íbúðirnar áttu að kosta tugi miljóna króna.  Þetta áttu að vera íbúðir fyrir tekjuháa yuppies. (young urban professionals(!)

Skipulagsyfirvöld tóku vel í hugmyndina um lúxusíbúðir á þessum stað en vildu ekki leyfa bílastæðin. Þau sögðu að borgin leggði áherslu á almenningssamgöngur og væri að byggja upp kostnaðarsamt METRO kerfi. Borgaryfirvöld vildu ekki að strætó sæti fastur í umferðahnútum vegna einkabíla. Þau vildu ekki fjölga einkabílum í miðborginni, þvert á móti.

Verkkaupi sagðist ekki geta selt íbúðirnar nema að þar væri í það minnsta tvö bifreiðastæði innandyra á hverja  íbúð. Þetta væru lúxusíbúðir fyrir efnafólk sem væri vant góðu.

Lendingin varð helmingi færri stæði en verkkaupinn fór í upphafi fram á  innandyra og húsin voru byggð og íbúðirnar seldust allar þrátt fyrir það.

Þetta er reynslusaga um skipulagsvald sem er með stefnu og víkur ekki frá henni.

Maður veltir fyrir sér hvort ekki mætti skoða þá hugmynd að fella niður kröfur um bifreiðastæði vegna íbúða og atvinnuhúsnæðis innan Hringbrautar í Reykjavík. Hvaða áhrif hefði það á þéttingu byggðar, almenningssamgöngur, þjónustu innan hverfisins og lífið milli húsanna?

Myndin sem fylgir færslunni er af líkani af Midtermolen. Þetta er blanda af atvinnu- og íbúðabyggð. Verk teiknistofunnar má skoða á www.plh.dk

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Ég er í húsnæðishugleiðingum og er að leita að sérbýli. Eign án bílskúrs kemur alls ekki til greina þannig að eitthvað er þetta nú misskipt. Ég vill raunar hafa hann +35m2 og helst yfir 40m2.

  • Páll Kári

    Veðrátta hefur nú breyst til hins betra á íslandi undanfarin ár hverju svosem það veldur. Líkt og víða á norðuslóðum þá byggir fólk sér yfirleitt einungis bílskýli við hús sín sem koma í veg fyrir að bíllinn verði á kafi í snjó ef svo ber undir og skýlir honum eitthvað fyrir vestu vindum, regni sem og sól.

    En á íslandi er okkur í raun skylt að hafa bílskúr í húsum okkar, við erum semsagt skikkuð að byggja í raun stærri hús en við þurfum svo bíllinn, þessi elska, geti verið inni hjá okkur ! Því meira sem maður hugsar um þetta því vitlausara hljómar þetta en svona er nú víst ísland í dag.

    PS: hef persónulega reynslu af því að vera hafnað af byggingaryfirvöldum að sleppa bílskúr í nýju einbýlishúsi að ósk eigenda.

  • Með færri bílum innan Hringbrautar sé ég fyrir mér fleiri einstefnuakstursgötur, breiðari gangstéttar, götutré, fólk á gangi með litla innkaupavagna á leið í matvörubúðina líkt og er algeng sjón í Parísarborg. Börn að leik í vistgötum. Fólk heilsast um leið og það horfist í augu. Fólk að spjalla á götum uti. Reiðhjól og barnavagnar. Sterka grenndartilfinningu.

    Yndislegt og manneskjulegt.

  • Takk fyrir áhugavert blogg.
    Ég er þeirrar skoðunar að núgildandi bílastæðakröfur skv. byggingarreglugerð (441/1998 – 64.gr.), séu of miklar og ekki í takt við nútímaáherslur á sjálfbæra þróun og vistlegt borgarumhverfi. Reglugerðin endurspeglar það viðhorf að það séu nánast mannréttindi að hafa allsstaðar aðgang að bílastæðum.

    En afhverju að slaka aðeins á kröfunum um bílastæði innan Hringbrautar sem nota bene er þéttasti hluti borgarinnar?

    Væri ekki allt eins og jafnvel enn frekar ástæða til að draga úr bílastæðaflæmum annars staðar s.s í Borgartúni eða kringum háskólanna? Og þá jafnframt að bæta aðgengi að þeim með almenningssamgöngum.

  • Samúel T. Pétursson

    Ég hef stundum sagt, við misgóðar undirtektir, að 64. gr. byggingarreglugerðar sé áhrifamesti skipulagsfræðingur landsins. En 64. greinin inniheldur einmitt ákvæði um lágmarksfjölda bílastæða. Áhrif hennar á form og þróun byggðar frá því hún kom fyrst til sögunnar eru líklega mjög mikil. Á þéttleika, útþenslu, staðsetningu fyrirtækja o.s.frv.

    En þar eru Íslendingar ekkert einir á báti, enda ákvæðið og reglugerðin meira og minna tekin upp úr norrænum stöðlum, sem aftur eru keimlíkir öðrum evrópskum og jafnvel bandarískum. Síðustu árin hefur þó greinilega runnið upp ljós fyrir mönnum hve skaðleg þessi ákvæði eru og reynt að breyta þeim. En þau eru skaðleg vegna þess hve þau bjaga samkeppnisstöðu ólíkra ferðamáta þar sem þau varpa miklum kostnaði frá bílismanum yfir á samfélagið og aðra samgönguhópa. Allt frá byggingar og rekstrarkostnaði, umhverfiskostnaði yfir í sokkinn kostnað vegna tapaðra tækifæra til að skapa leigutekjur af landinu undir aðra starfsemi. Þetta síðasta atriði vex hratt með stærri byggð, því landverðmætið vex með veldisfalli.

    Sums staðar hafa menn verið að taka á þessu. Breytt lágmarksákvæðum í hámarksákvæði eins og Hilmar bendir á. Hollendingar eru líklega komnir lengst í þessum málum, og hafa þróað sk. ABC aðferðafræði sem kveður á um ólíka bílastæðaskilmála eftir eðli starfsemi (A, B eða C) og viðhafa stranga kríteríu um hvar megi staðsetja starfsemina í sínu svæðisskipulagi, og þá m.t.t. aðgengis að almenningssamgöngum og miðkjörnum borga.

    Bandaríkjamenn hafa einnig verið að átta sig á þessu, og fyrir nokkrum árum kom út bókin „The High Cost of Free Parking“ eftir háskólaprófessor við UCLA og hefur vakið mikla athygli þar í landi sem og annars staðar. Þar kemur m.a. fram að sá kostnaður, sem bílisminn þar í landi veltir á samfélagið jafngildi einhvers staðar á bilinu 25-100% af kostnaði við Medicare kerfið.

    En þótt menn séu að átta sig á göllunum við ákvæðin og koma með kenningar um hve hlutirnir myndu batna ef þessu yrði breytt, þá er ekkert einleikið að gera það. Ekki síst þegar kúltúrinn hefur umbreyst nánast 100% yfir í bílisma líkt og gerst hefur í Reykjavík. Í Kaupmannahöfn hefur mönnum tekist að þróa verkefni með breyttum ákvæðum án þess að fæla frá fjárfesta, en það er líka vegna þess hve samgöngukúltúrinn nýtur þess ennþá að vera fjölbreyttur og hve almenningur bakkar vel upp þá pólitík að halda aftur af bílismanum með þvingunum og háum kostnaði (sem er aftur líklega afleiðing af fjölbreytileiknum ). Ég er ekki viss um að sömu forsendur séu til staðar í Reykjavík. Þar styður almenningur líklega allt nema einmitt að beita þvingunum og hækka kostnað. Maður heyrir það t.d. í málflutningi Gísla Marteins, sem tjáir sig hér að ofan, að ekki standi til að þrengja að einkabílnum, enda veit hann að það væri pólitískt sjálfsmorð að gera það.

    Það er því spurning hvernig tekst til ef menn ætla að snúa þessu við í Reykjavík. Það eru líkur á að uppræta megi verstu dæmin, s.s. að fyrirtæki hætti að niðurgreiða stæði í bílahúsum fyrir starfsmenn sína og þar fram eftir götunum, og að menn fari að horfa betur í það hvernig nýta megi núverandi stæði betur sem t.d. gestabílastæði í smærri verkefnum. En hvort menn treysti sér í nýbyggingar án þess að bjóða upp á næg bílastæði fyrir íbúa eða kúnna efast ég um, a.m.k. um sinn.

  • Eitt af vandamálum miðborgarinnar er að hún er uppfull af rusli þ.e. ónýtum og ólöglegum bakhúsum, skúrum og viðbyggingum. Það á alls ekki að gera mönnum auvel með að fá þetta samþykkt heldur þarf að fara að rífa þetta í stórum stíl. Þetta veit Reykjavíkurborg því þetta er eitt af áhyggjum slökkvisliðsins. Er það fínt nú í kreppu að reka menn út til að rífa og farga. Þetta sérst vel ef menn fara upp í há hús og horfa yfir, ef einhver trúir mér ekki á lítur partur af Reykjavík út úr lofti eins og fátækrakverfi í Ríó eða Bankok og það er ekki til eftirbreyttni.

    Þegar búið er að kom þessu í horf má tala um aðrar reglur.

  • Stefán Benediktsson

    Frábær ábending Hilmar. Við erum á leiðinni þangað.

  • Spurt er hvaða áhryf það hefði að fella niður kröfur um bifreiðastæði verna íbúða og atvinnustarfssemi innan Hringbrautar í Reykjavík?

    Ég ætla að vera svo frökk að koma með leikmannstilgátu.

    Í fyrsta lagi munu eigendur ósamþykktra íbúða láta samþykkja þær. Húseigendur munu endurmeta hús sín og auka nýtingu þeirra til íbúða og atvinnutækifæra. Kvistir yrðu byggðir og möguleikar á viðbyggingu nýttir. Íbúðum mun örugglega fjölga verulega. Sennilega má reikna með 5-10% þéttingu bygðar.

    Samgöngur munu breytast, fólk kæmi í strætó lengra að og gangandi/hjólandi munu fjölga innan Hringbrautar.

    Þjónusta mun færast inn í hverfið að nýju. Matvörubúðir, heilsuþjónusta og þ.h. mun aftur blómstra auk allskonar smáfyritæki munu hreiðra um sig í gömlu verslunarhúsnæði og bakskúrum.

    Göturnar yrðu hljóðlátar með seitlandi bifreiðaumferð um leið og þær yrðu iðandi af mannlífi.

    Miðborgin mun verða mun lífvænlegri og skemmtilegri.

    Þetta mun hafa góð áhryf. Ef eitthvað vit er í þessum svörum mínum þá er bara að vona að Gísla Marteini gangi vel með sínar hugmyndir.

    Eða hvað segja sérfræðingarnir um þetta?

  • Hörður Halldórsson

    Stundum mætti halda að bílastæði væru ókeypis lífsgæði sem yfirvöldum bæri skylda að uppfylla.Hef unnið á vinnustað þar sem aðstaða að læsa reiðhjóli við grind var (og er ) ekki til staðar en nóg af bílastæðum .þetta er sem betur fer að breytast og fagna ég þeim áherslum sem Gísli Marteinn Baldursson og Dofri Hermannson hafa.Láti gott á vita.

  • Gott að heyra frá Gísla Marteini að verið sé að endurskoða reglur um bílastæðafjölda, þó fyrr hefið verið!

    Fyrir fáeinum árum vann ég í næsta húsi við RÚV í Efstaleiti. Þar er að finna feiknamikil bílastæði, gott ef ekki miðað við rúmmetrafjölda í RÚV-höllinni. Stæðin fjærst RÚV á lóð þeirra (næst heilsugæslustöðinni/Kringlunni) hafa staðið meira og minna tóm í 20 ár. Fleiri tugir. Félagasamtök sem ég er í höfum notað þennan stað sem brottfararstað fyrir rútuferðir, því það er svo þægilegt að geyma marga bíla þarna! Reyndar alveg með ólíkindum hvað RÚV tekur mikið pláss, ágætis hádegisgöngutúr þeirra sem vinna í grenndinni að labba allan hringinn í kringum lóðina.

    En sem sagt, gott ef nú – loksins – sé verið að endurskoða reglur um lágmarksbílastæðafjölda við nýbyggingar.

  • Thrainn Kristinsson

    Athyglisvert. En ég vildi bara nefna að það er ekki bara umferðavandamál sem valda þvi að skipulagsyfirvöldi reyna að minnka umferð einkabíla í borginni; það deyja um 5.000 manns árleg fyrir tímann vegna loftmengunar frá farartækjum og brenniofnum í Danmörku. Þar af er talið að um 3.400 deyji vegna agna sem berast frá díselbílum.

    Þar að auki má rekja um 5.000 spítalainnlagnir á ári til mengunar og hundruðþúsunda astmatilfelli og margt fleira.

    Frjókornaofnæmi er mjög algengt í Danmörku og leggur marga í rúmið og er talið að loftmengun ýfi mjög upp öll einkenni frjókornaofnæmis.

    Í þessu landi hjólreiða og almenningssamgangna (og gríðarlegar skatta á innflutning ökutækja) hef ég aldrei skilið hvað einkabílisminn lifir góðu lífi.

  • Takk fyrir skrifin Hilmar. Þér (og öðru skynsömu fólki) til ánægju get ég bent á að byggingareglugerð sem gerir ráð fyrir lágmarksfjölda bílastæða er til endurskoðunar núna hjá samgönguskrifstofu borgarinnar og vonandi verða gerðar á henni róttækar breytingar.

    Það er náttúrulega makalaust að vinnustaður sem myndi vilja byggja sér hús og gera út á græna samgöngustefnu, hefði orðið að borga MEIRA fyrir að hafa fá eða engin bílastæði við bygginguna!

    Vild bara koma þessu að.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn