Þriðjudagur 07.12.2010 - 10:19 - 7 ummæli

Rýmisgreind stjarnanna

Le Courbusier,  Alvar Aalto og Oscar Niemeyer teiknuðu mikið fríhendis, bæði vegna vinnunnar og á ferðalögum sínum.  Glenn Murcutt og Norman Foster nota líka blýantinn og teikna það sem fyrir augu ber og það sem þeir eru að skapa. Þessir menn búa/bjuggu allir yfir mikilli rýmisgreind og teiknuðu stöðugt.

Ég  naut þeirra forréttinda að kynnast Murcutt lítillega fyrir allmörgum árum. Ég vissi að hann notaði ekki tölvur til að teikna. En hitt vissi ég ekki að þegar hann var að meta umsækjanda um starf hjá sér, rétti hann honum blað og bað hann að teikna það sem fyrir augu bar. Hann taldi fríhendisteikningu vera besta vitnisburð um hæfileika og rýmisgreind umsækjandans. Allir geta lært á tölvu en það er ekki öllum gefin rýmisgreind.

Murcutt sá á teikningunni hvort hún var gerð teikningarinnar vegna eða til þess að skilgreina og lýsa umhverfinu og í framhaldinu sýndi teikningin hvernig umsækjandinn sá umhverfið.

Nú á dögum láta arkitektar ljósmyndavélina um að skrá það sem fyrir augu ber og tölvan sér um að skilgreina rýmin og anda þeirra í þrívídd. Sagt hefur verið að 3D teikningar tölvanna henti einkum fólki með skerta rýmisgreind. Hinir geta lesið rýmin útfrá grunnmyndum og sniðum. Því hefur líka verið haldið fram, sennilega með réttu, að 3D teikningar tölvanna hafi unnið marga samkeppnina.

Ég man þegar ég vann á teiknistofu í Kaupmannahöfn að yfirmaður minn talaði um perspectiv sem “byggherrekloroform”!, þ.e.a.s. meðal til að svæfa viðskiptavininn og heilla hann. Sami maður lagði ekki í vinnu við 3D nema tillagan væri undir væntingum. Þegar um góða hönnun var að ræða sagði hann. “Vi behöver ikke noget perspectiv, dette er jo et godt project”

Hjálagt eru fríhendisteikningar nokkurra arkitekta og mínútulöng mynd sem sýnir Norman Foster munda blýantinn. Ég mæli með því að fólk skoði myndbandið, það tekur rúma mínútu þar sem kemur fram að Norman bjó „on the wrong site of the track“.

Skissa Le Corbusier af Ville Savoye.

Ferðaskissa Le Courbusiere frá upphafi síðustu aldar. Þarna var myndavélin fjarri og auga listamannsins nam það sem fyrir augu bar.

Frumskissa Glen Murcutt af einu verka hans. Lýsandi skilgreinandi og einföld.

Skissa gerð af Oscar Niemeyer

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Stefán Snævarr

    Athyglisvert, var í Rio fyrir nokkrum og skoðaði safn sem Niemeyer teiknaði, ótrúlega falleg bygging. Safn Aaltos skoðaði ég í Jyvaskala. Þakka þér fyrir færsluna um óperuna í Ósló, æðisgengin bygging.
    Þyrfti kannski að pæla aðeins í heimspeki arkitektúrs.

  • örnólfur hall

    Af blýuppdráttum Glenn Murcutts og um tölvusindur og ofurgrafík

    Glenn Murcutt er einstakur arkitekt sem fer sínar leiðir í arkitektur og útfærslum. Það er eins og vera umlukinn ferskum andblæ að skoða teikningar hans. Hann skapar formheim með blýantinum sem ilmar af umhverfinu, trjávið, jarðefnum og gróðri.

    Andstætt þung-„parfúmeraða“ andrúmsloftinu sem umlykur oft sindruðu tölvuteikningarnar (t.d. í samkeppnum) og sem minna á himnaríkismyndir úr ritum Votta Jéhóva þar sem allt er svo skínandi og tindrandi draumfagurt.

    Þar sjást stundum sperrilegir Armani-klæddir menn talandi í gemsa og brosmilt sumarklætt fólk sýnt í Hawai-klæðum arkandi eftir sólsleiktum gangstéttum. – Enginn er gamall og enginn í hjólastól. Sama fólkið (sömu andlitin) úr „fólksbankanum“ birtist svo aftur og aftur hjá ólíkum arkitektum. Það er eins og það sé sama ættin sem sífellt sperrir sig á teikingunum. – Sömu kristalgljáandi ofurjepparnir og sportbílarnir dúkkuðu oft upp aftur og aftur í forgrunni í arkitektauppdráttum útrásaráranna. – Örsjaldan hafa sést handteiknaðar teikningar í samkeppnum undanfarinna áratuga. En þær munu ekki vera vel séðar hjá tölvugúrum ríkis og bæja, sem vilja fá allt á „digitali“. „ Heimur versnandi fer“ ?

    Aftur að Glenn Murcutt : Fyrir allmörgum árum heyri ég hann, í fyrirlestri, gera létt grín af yfirdrifnum tölvuteikningum. Margir aðrir erlendir arkitektar hafa gagnrýnt þróunina.
    Þeir hafa bent á hina sterku samfylgni sem er á milli listrænnar hönnunar og listrænnar útlistunar og þá kemur mér FLW upp í hugann.

  • Þórhallur

    Flott hugleiðing hjá Árna.

    Maður er oft of upptekin af nýjungum og tæknitilboðum og áttar sig ekki á því sem maður hefur yfir að ráða….hendurnar.

    Tölvan er steinaldartæki miðað við hendurnar, heilann,blað og blýant!!!

  • Árni Ólafsson

    Ef við snúum dæminu við – tölvurnar hefðu alltaf verið til en ekki blýanturinn. Þá þætti blýanturinn væntanlega byltingarkennd uppfinning þar sem með einfaldri handarhreyfingu er hægt að búa til fjölföldunarhæft frumrit .

  • Hilmar Þór

    Það er rétt hjá þér Helgi að handskissur eru ekki forsenda rýmisgreindar og að tölvur draga ekki úr rýmisgreind. Enda heldur því ekki nokkur maður fram.

    Hinsvegar er því haldið fram að handskissa gefi vísbendingu um rýmisgreind þess sem teiknar og að tölvan krefst ekki rýmisgreindar þegar hún er notuð til þess að teikna þrívíða mynd á grundvelli grunnmyndar og sneiðingar.

    Megin kostur handskissunnar er sá sem Stefán bendir á að hún lýgur ekki og sá sem teiknar fær innblástur af sjálfu strikinu. Handskissan er lifandi meðan tölvuteikningin er lífvana framleiðsla (Enn sem komið er) Svo er það hitt sem lengi hefur verið vitað sem er að það geta ekki allið teiknað vel fríhendis meðan flestir geta teiknað vel á tölvu.

    Þrátt fyrir þetta eru tölvur ágætar og núorðið nauðsynlegar í rekstri arkitektastofa.

  • stefán benediktsson

    Þrívíddarteiknun hefur reynst mér mjög góð leið til að skýra allt milli himins og jarðar, vegna þess að hún er lýsir innbyrðis afstöðu hluta. Helgi hefur rétt fyrir sér og þó. Tölvuna vantar yfirleitt þessa áhugaverðu ófullkomnun sem fríhendisteikning hefur. Smbr að sannleikurinn er aldrei eins fullkominn og vönduð lygi.

  • Helgi Hallgrímsson

    Ég skil vel eftirsjá manna eftir handskissunni sem vissulega er á undanhaldi. Þeirri eftirsjá deili ég að einhverju leyti sjálfur. Hins vegar held ég að menn ættu að fara varlega í að fullyrða um að handskissur séu forsenda rýmisgreindar eða að tölvutækni dragi úr rýmisgreind. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er tölvan bara verkfæri rétt eins og blýantur og blað. Til að nota verkfæri þarf alltaf mannshug- og hönd, sama hvert verkfærið er.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn