Hér kemur síðasti hluti af þessari merkilegu samantekt Sigurðar Thoroddsen arkitekts um síðbúna þéttbýlismyndun á Íslandi. Það vekur athygli hvað Sigurði hefur tekist að fara yfir þessa miklu sögu í stuttu og skýru máli. Ég fyrir minn hlut hafði ekki gert mér grein fyrir öllu þessu samhengi hlutanna. Maður áttar sig á því að saga landsins var öðruvísi en sú sem mér var kennd í skóla. Þá var ekki mikið fjallað um góðvild dana, vistarbandið sem var eiginlega þrælahald og að hjólið sem farar- og flutningatæki kom ekki til íslands fyrr en skömmu fyrir aldamótin 1900. Sagan sem mér var kennd í skóla var ekki saga alþýðunnar, byggingalistarinnar eða saga búsetu og skipulags heldur saga valdastéttanna og um yfirgang dana.
Samantekt
Hér að framan hef ég fjallað um ýmsa þætti sem urðu þess valdandi að þéttbýli þróaðist svo seint á Íslandi.
Niðurstaða mín er að margir samfallandi þættir hafi valdið þessu.:
Fram hefur komið að Dönum var kennt um flest sem aflaga fór, og hversu langt Ísland dróst aftur úr öðrum þjóðum á sviði þéttbýlismyndunar. Ég tel rangt að skrifa megi þessa atburðarrás á reikning Dana, og hægt að benda á ýmislegt sem sýnir fram á hið gagnstæða.
Vegna vanþróaðrar samgöngutækni og þar af leiðandi einangrunar landsins höfðu Danir takmarkaða möguleika á að hafa áhrif á þróun mála, enda framkvæmdavaldið í Kaupmannahöfn. Engu að síður settu Danir fram tillögur sem horfðu til framfara og urðu sumar að veruleika, þó áhrifin yrðu ekki eins mikil og til stóð í upphafi. Hjá landsmönnum var tregða að aðlaga sig að nýjum hugmyndum og viðhorfum. Benda má á, að Ísland var danskt skattland, þannig að það hefur án efa verið hvati hjá Dönum, að bæta hag landsmanna og þar með að efla skattstofnin.
Spyrja má hvort sagan hefði þróast með öðrum hætti, ef stofnanir eins og biskupsstólarnir í Skálholti og að Hólum hefðu verið settir á stofn við sjávarsíðuna, þar sem lendingarskilyrði voru góð, möguleikar á sjávarútvegi og þar með góðri tekjuöflun, og samskipti við aðra hluta landsins og útlönd hefðu verið betri, auk þess sem amtmennirnir, fulltrúar konungs og handverksmenn af ýmsu tagi hefðu getað haft þar aðsetur.
Hið andlega og veraldlega vald hefðu þar með getað sameinast um þéttbýlismyndun sunnan lands og norðan, og afleiðingin verið að ýmis þjónusta og starfsemi hefði einnig flust þangað. Slík þróun átti sér stað á Norðurlöndum og víða í Evrópu, þar sem valdastofnanir voru staðsettar við sjávarsíðuna, eða við stórfljót sem jafnframt voru samgönguæðar þess tíma. Dæmi um þetta eru: Hróarskelda, Kaupmannahöfn, Þrándheimur og Lundur.
Án efa hafa búferlaflutningar á síðari hluta 19. aldar til Vesturheims einnig haft sitt að segja. En á árunum 1870 til 1914 fluttu um 20.000 manns búferlum vestur um haf, sem hefur verið mikið áfall fyrir svo fámenna þjóð. Hin opinbera skýring var sú, að fólk hefði yfirgefið landið vegna hafísa, votviðra og uppskerubrests, en um slíkt var ekki að ræða á hinum Norðurlöndunum eða í Vestur-Evrópu.
Engu að síður flutti fólk þaðan til Vesturheims í milljónavís. Fólk var einfaldlega að leita sér að betra lífi, að flýja fátækt og kúgun í sínu heimalandi. Er það tilviljun að fólksflutningar héðan vestur um haf, standa sem hæst, um svipað leyti og Vistarbandið er lagt af. Vert er þó í þessu sambandi, að taka fram, að Askja gaus 1875, og olli sá atburður búsifjum og brottflutningi fólks frá Austurlandi.
Eins og að fram greinir, var gefin út konungsboðskapur 1786, þess efnis að Einokunarverslunin skyldi lögð af, og stofnaðir 6 kaupstaðir í landinu. Þetta var gert að frumkvæði Dana, án efa til að efla hag landsmanna. Hugmyndin var sú, að á þessum stöðum yrði aðsetur kaupmanna, embættismanna og handverksmanna og að þar myndi rísa blómleg byggð, útgerð og handverk af ýmsu tagi.
Í þessu skyni, lögðu dönsk stjórnvöld fram fjármagn til kaupa á landi undir kaupstaðina, lóðir voru boðnar fram endurgjaldslaust, tiltekinn skattfríðindi veitt og styrkir til húsbygginga. Með öðrum orðum, að á þessum stöðum áttu að rísa hefðbundin þéttbýli af sama tagi og í nágrannalöndunum, með aðstoð Dana og að þeirra frumkvæði.
Í þessu sambandi er vert að benda á, að mjög hafði verið hert á vistarbandinu um miðja 18. öld. Húsagatilskipunin sem sett var árið 1746 kvað á um réttindi og skyldur vinnuhjúa og húsbænda. Viðurlög við broti á tilskipuninni um húsagann voru ströng. Bann við lausamennsku var sett á árið 1783 og samkvæmt því var lausmennska bönnuð öllum mönnum. Þetta bann var sett á 3 árum áður en ákveðið var að stofna kaupstaði í landinu.
Svo furðulega sem það kann að virðast , var vistarbandið ekki fellt úr gildi 1786, samhliða því að ákvörðun um kaupstaðina var tekin og einokunarverslunin lögð af, þannig að almenningi var gert erfitt fyrir að flytjast þangað, og þar með að bæta sinn hag. Þetta var í raun ótrúlegt ráðslag, og spurning hvort Danir hafi áttað sig á þessari þversögn, eða að íslenskir stórbændur hafi gert það af ráðnum hug, til að standa í vegi fyrir því að missa frá sér ódýrt vinnuafl.
Áhrifin létu hinsvegar ekki á sér standa, því kaupstaðirnir áttu erfitt uppdráttar fyrstu áratugina, og ekki stóð á gagnrýninni frá ýmsum, sem fundu þéttbýlismyndun flest til foráttu. Það er ekki fyrr en vistarbandið er formlega fellt úr gildi 1894, eða um 100 árum síðar, að rofa tekur til. Þetta tel ég eina af megin skýringum þess, hversu síðbúin þéttbýlismyndunin var.
Þess má geta að árið 1874 kom Kristján níundi konungur og færði landsmönnum fyrstu stjórnarskrána. Meðan á heimsókninni stóð fór konungur í skoðunarferð um landið, en þar sem ekki var enn búið að finna upp hjólið, þurfti að flytja konung og fylgdarlið á hestbaki milli staða.
Um miðja 19. öld hefst menntun íslenskra iðnaðarmanna, fyrst í Kaupmannahöfn og smám saman berst hún til landsins. Iðnskólinn í Reykjavík var stofnaður 1904 og þá hefst formleg iðnfræðsla og starfsmenntun er innleidd. Á sama tíma hafði menntun iðnaðarmanna staðið um aldir á Norðurlöndum og annarsstaðar i Evrópu.
Þess má geta til samanburðar, að Eiffel-turninn í París var tekinn í notkun 1889, fyrsti íslenski verkfræðingurinn lauk prófi 1891 og sá næsti ekki fyrr en 1900. En frá og með aldamótunum 1900 verða miklar framfarir á Íslandi, með auknum samskiptum við aðrar þjóðir, enda samgöngu- og fjarskiptatækni orðin allt önnur og betri. Nýr kafli í sögu þjóðarinnar hefst, en það er önnur saga.
Reykjavík í mars 2014. STH
Hér að neðan eru tvær myndir sem sýna búsetu á landinu árið 1703 0g 1860. Þarna sést að engin þéttbýlismynun er hér á landi árið 1703 en aðeins örlar á þéttbýli í Reykjavík árið 1860. Hinsvegar er mikil byggð í Grímsey árið 1703. Uppdrættirnir birtust í aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-1984.
— Ég vil líka taka undir þakklæti til Sigurðar.
— Þetta er vönduð, vel uppbyggð og upplýsandi yfirferð (pistlar) í ekki of löngu máli og á vel heima sem gott sögukennsluefni fyrir hið unga Ísland í dag.
Ég vil þakka fyrir þessa pistla. Þeir eru mjög fróðlegir og helst þyrfti einhver fjölmiðillinn að taka þá á sína arma og gera þætti upp úr þeim. Jafnvel að fá spjall um þessar upplýsingar.
Mætti líka alveg endursýna þættina sem hétu að mig minnir „Þjóð í hlekkjum hugarfarsins“. Þessir þættir ættu að vera skylduáhorf í sögutímum!
En og aftur, takk fyrir þessa pistla.
Tek undir með öðrum að þetta hefur verið skemmtileg lesning. En mætti kannski bjóða Guðjóni og fleirum að setja sögutíma í dag. Það hefur ýmislegt breyst hvað varðar áherslur á síðustu árum eða svo.
kv.
Sögukennari í framhaldsskóla
Anægjulegt að heyra að sögukennsla hafi líka þróast á þeim áratugum sem liðnir eru síðan mér var kennd svokölluð „íslandssaga“
Takk fyrir þetta, mjög fróðlegt.
Ég verð að þakka fyrir vel skrifaða og rökstæða frásögn. Ég hef lesið þetta af miklum áhuga síðustu dagana. Það hefur vantað lengi alvöru sögu byggðar á Íslandi. Í raun vantar raunverulega og rökstudda sögu landsins, enda hefur sögukennsla hingað til verið byggð á áróðri sjálfsstæðissinna frá byrjun síðustu aldar. Þar sem „það er útlendingum að kenna hve við erum fátæk og illa að okkur“ er aðal málefnið, og all nýtt sprettur upp í Íslandi án nokkura tengsla við útlönd. Í minni sögukennslu var t.d. Pereatið í Lærða Skólanum sett saman við frelsisstríðið í Bandaríkjunum og Frakklandi.
Það er rétt sem sumir hafa slegið upp í þessum köflum að það ýjir enn eftir af þrælahaldi á landinu, síðasta land Evrópu til að banna þrælahald árið 1894 (Við skulum kalla hlutina réttum nöfnum). Þrælsóttinn, foringjadýrjunin og nýjlenduhelkennin öll eiga rætur í þessu.
Kannski að með heiðarlegri sögukennslu geti Íslendingar farið að horfa á hlutina með réttum augum og fundið þann samfélagslega þroska sem landið hefur mikla þörf fyrir.
Það væri líka gott að heyra sögu byggðarþróunar eftir afnám þrælahalds, enda er það nokkurð einstæð saga sem á margan hátt skýrir gorkúlu hugsun um skipulagsmál, einbýlishúsadrauma og andúð á miðbæjum, menningu og samfélagslifnaði sem margir hafa.
Það hefur verið fróðlegt að lesa þennan flokk sem er um efni sem mörgum er hulin. Þakka fyrir mig.