Föstudagur 13.08.2010 - 08:58 - 4 ummæli

Samkeppni á Eskifirði kærð

justice_hammer_1[1]

Í samkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði hafa komið fram efasemdir um hæfi fagdómara í keppninni. Í framhaldinu hefur komið fram kæra og er málið nú á borði Kærunefndar útboðsmála, Framkvæmdasýslu ríkisins og lögmanna málsaðila.

Kærandi, Stúdío Strik, krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað samningaferli á gundvelli ofangreindrar samkeppni. Þessa kröfu byggir kærandinn á því að annar fagdómaranna sé vanhæfur vegna náinna tengsla hans við arkitektastofuna Einrúm, sem hlaut fyrstu verðlaun.

Margt er tínt til í kærunni og fylgiskjölum m.a. að dómarinn og verðlaunahafinn hafi unnið náið saman í samkeppnum, þeir séu saman að ljúka hönnun Krikaskóla í Mosfellsbæ um þessar mundir og séu nú að hefja vinnu við hönnun leikskóla í Garðabæ. Kærandi telur að hagsmunir dómarans og verðlaunahafans fari saman. Þeir séu í hagsmunasambandi.

Fyrstuverðlaunahafinn, Einrúm arkitektar, tekur til varna og telur að hér sé ekki um hagsmunatengsl að ræða og að vægi fagdómarans sé ekki mikið í fjölskipaðri dómnefnd (skipuð 5 dómurum) og að auki hafi nafnleynd verið tryggð þannig að dómarinn gat ekki vitað hverjir höfundar tillagna voru.

Þetta er einstök staða sem ekki hefur komið upp áður svo ég viti í samkeppnum á Íslandi

Maður veltir fyrir sér af hverju þetta sé einstakt og hafi ekki komið fyrir áður.

Hugsanlegt er að hrakandi siðferði komi til eða hrikalegt ástand í atvinnumálum arkitekta sem gerir það að verkum að menn verða forhertari. Ástæðan getur líka verið að Ísland er lítið land og víða er tengsl að finna milli manna. Það er auðvitað galli og hluti af ástæðunni. En það er ekki tilefni til slökunar, þvert á móti gefur smæðin sértakt tilefni til þess að herða reglurnar og halda vöku sinni.

Skýringin getur líka verið sú að stjórnunarlegt ferli samkeppna er að breytast. Samkeppnir hafa undanfarin rúm 70 ár verið haldnar í samræmi við samkeppnisreglur Arkitektafélags Íslands. Verklag sem þar hefur mótast  fylgja venjur og góðir siðir. Oftast hefur framkvæmdin gengið vel þegar farið var eftir reglum AÍ.

Samkvæmt hefðinni hefur verkstjórn samkeppna verið í höndum trúnaðarmanns sem er óumdeildur og reynslumikill arkitekt sem sjálfur hefur reynslu af þátttöku í samkeppnum og setu í dómarasæti. Þetta er einn mikilvægasti maður samkeppninnar og gerðar eru miklar kröfur til hans. Í samkeppnisreglum AÍ liggur mikil reynsla og ekki síður  e.k. kultúr og siðfræði. Samkeppnir eru ein af þeim stoðum sem standa undir góðri byggingarlist í landinu og framþróun hennar auk þess að vera einn mikilvægasti þátturinn í nýliðun í stéttinni.

Þannig er þetta ekki lengur.  Yfir 70 ára saga hefur verið rofin með því að setja samkeppnisreglur AÍ til hliðar með allri þeirri reynslu sem þar hefur safnast og þeim góðu hefðum sem þeim hafa fylgt. Þess í stað er farið eftir svokölluðum “Leiðbeiningum um hönnunarsamkeppni” sem einungis liggur fyrir í drögum. Trúnaðarmaður sem keppendur vita lítil deili á er fundinn í embættismannakerfinu eins og hér í Eskifjarðarsamkeppninni. Það er auðvitað ótækt.

Nú stefnir í að þetta mál verði leyst hjá kærunefnd útboðsmála til að byrja með. Það er sama hver niðurstaðan verður, byggingarlistin tapar, samkepppnisformið missir stöðu sína, verkkaupinn tapar.

Var hægt að afstýra þessu? Já ég tel það. Ef samkeppnisreglur AÍ hefðu verið notaðar og virtar með allri sinni sögu og hefðum þá hefði þetta sennilega ekki gerst. Vinningshafinn hefði ekki lagt inn tillögu með samstarfsmanni sínum í dómarasæti. Dómarinn hefði gert grein fyrir tengslum sínum við vinningshafann þegar nafnleynd var rofinn og vikið. Og svo hefði trúnaðarmaðurinn stöðvað atburðarásina áður en til kastanna kom.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Föstudaginn síðastliðinn var haldinn gegnumgangur vegna samkeppnistillagna um hjúkrunarheimilið á Eskifirði. Óskar frá Framkvæmdasýslu ríkisins skýrði þá stöðu sem upp er komin vegna kæru vegna meints vanhæfis eins dómenfndarmanna. Á viðsstöddum var að heyra að þeir væru ósáttir við að aðilar eins mikið tengdir umræddum dómefndarmanni hefðu tekið þátt í samkeppninni án þess að láta vita af þátttöku sinni. Það eru eðlileg viðbrögð, því allir vilja að hlutlægi dómara sé hafið yfir vafa. Sjálfsagt líður títtnefndum dómnefndarmanni verst yfir þessu, því lítill akkur er í því að vera tengdur slíku leiðindamáli, en óneitanlega er óheppilegt fyrir hann að vinningshópurinn og hann hafi að undanförnu unnið sameiginlega að nokkrum verkefnum og séu nú sem stendur að vinna að einu slíku. En hvað er til ráða? Í svo litlu samfélagi sem við búum í þekkja allir alla og sé vilji til að ganga á snið við góðar reglur er það auðvelt sé viljinn fyrir hendi. Spurt var hvernig brugðist yrði við þessari stöðu sem komin er upp með komandi samkeppnir. Svörin voru þau að málið væri til athugunar, enda ekki auðvelt að finna hið örugga kerfi. Formaður Arkitektafélagsins nefndi að til tals hefði komið að láta nafnleynd gilda og hafa ekki aðrar reglur. Þetta fannst mér ekki hljóma trúverðugt, en eftir nánari umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að líklegast sé hugmyndin allrar athuganar verð. Hafa ber í huga að dómnefndir eru fjölskipaðar og því er vægi hvers dómnefndarmanns einungis í hlutfalli við fjölda dómnefndarmanna. Hins vegar tel ég eðlilegt að fulltrúum arkitekta í sambærilegum samkeppnum sé fjölgað og þeir valdir þannig að lítil tengsl séu þeirra á milli. Þannig mætti útiloka að einn arkitekt, í krafti sérþekkingar sinnar, hafi óeðlilega mikil áhrif á aðra dómnefndarmenn.
    Eftir gegnumganginn er að mínu mati ljóst að umræddur dómnefndarmaður hefur ekki beitt sér sérstaklega fyrir vinningstillögunnni. Það gerði hins vegar fulltrúi Félagsmálaráðuneytisins og er ekki að efa að aðrir dómnefndarmenn hafa tekið mikið tllit til hennar skoðana, enda sú eina innan hópsins sem hafði sérþekkingu á málefninu. Skoðanir hennar á arkitekitektúr og skipulagi bygginga eru að mínu mati einstrengislegar og mjög ámælisvert er að svo afgerandi skoðanir, leiðandi dómnefndarmanns, hafi ekki verið kunngerðar í samkeppnisgögnunum.

  • Hilmar Þór

    Ákæruna, ýmis lögfræðiálit og fl. hefur verið aðgengilegt á heimasíðu Arkitektafélagsins undanfarið.

    slóðin er http://www.ai.is

  • Ég er ekki sammála síðasta ræðumanni. Það á ekki að líðast að ekki sé farið að reglum og góðum siðum. Íslenska þjóðin hefur farið illa út úr því að virða ekki leikreglur eða þykjast ekki skilja þær . Nú lifum við á tímum sem siðferði verður að hafa forgang sama hvernig og hvar er á litið. Við erum búin að fá nóg af fólki sem kann ekki að búa í samfélagi við aðra eins og hér hefur verið vakin athygli á af arkitektunum á Strik Studio með kærunni.

    Þetta eru auðvitað leiðindi en alls ekki öfund.

  • Páll Kári

    Hversvegna koma nú skyndilega upp leiðindi og öfund varðandi þessa samkeppni á Eskifirði ?

    Ég veit ekki betur en að í hverri einustu samkeppni hingað til hafa tilnefndir aðilar frá arkitektafélagi íslands haft töluverð tengls við keppendur, sigurvegara, sem og þá sem lúta grasi í samkeppnum á íslandi.

    Að tala um nafnleynd er nánast hlægilegt í íslensku samkeppnisumhverfi. Flestar stofur gera akkúrat ekkert til að fela þekkt vinnubrögð, letur og stíl enda kannski engin ástæða til þess.

    Það er vandséð hvernig fagaðilar geta komið að svona samkeppnum án þess að teljast „vanhæfir“ á einn eða annan hátt

    Við búum í litlu samfélagi þar sem maður þekkir mann og ávalt hægt að finna tengsl milli dómara og keppenda í samkeppnum þó mismikið sé.

    Hinsvegar er athyglivert að þetta skuli vera kært nú og verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu uppá framtíðina að gera.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn