Miðvikudagur 08.12.2010 - 13:49 - 7 ummæli

Samkeppni um nýbyggingu Alþingis

 

Fyrir tæpum 25 árum var haldin samkeppni um skrifstofubyggingu Alþingis. Þetta var stór keppni með fjölskipaðri 7 manna dómnefnd. Dómarar voru allir forsetar Alþingis,  efri deildar, neðri deildar og sameinaðs þings. Auk forsetanna þriggja, Þorvaldar Garðars Kristjánssonar, Salóme Þorkelsdóttur og Ingvars Gíslasonar var einn þingmaður, arkitektinn Stefán Benediktsson og einn fulltrúi borgarinnar, Þorvaldur S. Þorvaldsson forstöðumaður Borgarskipulags. Tveir voru tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands. Það voru þeir Helgi Hjálmarsson og Hilmar Þór Björnsson.

Þetta var söguleg samkeppni fyrir margra hluta sakir og tókust á mörg sjónarmið keppenda og voru dómarar hver með sína sýn á viðfangsefninu. Þetta var góð dómnefnd vegna þess að hún vann skipulega og einstakir dómnefndarmenn létu sitt ekki kyrrt eftir liggja. Þetta var á tímum þegar ekki var almennur skilingur á mikilvægi verndunar gamalla húsa. En viðhorfin voru að breytast.

Það voru átök í nefndinni sem að lokum komst að niðurstöðu sem sátt varð um.

Það veldur mér alltaf áhyggjum þegar dómnefnd segir að einhugur hafi verið í nefndinni. Það segir annað hvort að hún hafi verið einsleit, að það hafi verið sterkur einstaklingur í nefndinni sem hafi yfirbugað hina eða menn hafi legið á skoðunum sínum og ekki barist fyrir þeim. Versta skýringin er sú, að einstakir dómnefndarmenn hafi ekki haft skoðun. Það er slæmt þegar engin átök eru í dómnefndum og mér hefur alltaf fundist það hallærislegt þegar dómnefndir stæra sig af átakaleysinu.

Í dómnefnd um skrifstofubyggingu Alþingis voru margs konar átök á mörgum sviðum. Þegar niðurstaða lá fyrir var mikið rætt um stærðartakmarkanir og aðra praktíska hluti. Það voru miklar umræður um húsverndun í dómnefndinni. Í fyrirspurnartíma var spurt hvort tillaga sem gengi út á að vernda þau hús sem til staðar voru yrði tekin til dóms. Dómnefndarmenn voru ekki á einu máli, en þrátt fyrir andstöðu einstkra dómara var það leyft.

Vinningstillagan sem var unnin af Sigurði Einarssyni, nýútskrifuðum arkitekt frá Kaupmannahöfn gekk út á að láta öll húsin við Kirkjustræti víkja. Þetta var sammerkt með nánast öllum tillögunum, enda mátti lesa af húsrýmisáætluninni og borgarskipulaginu að það væri stefnan. Önnur verðlaun hlaut Manfreð Vilhjálmsson. Þriðju verðlaun hlaut Hróbjartur Hróbjartsson, Richard Briem, Sigríður Sigþórsdóttir og Sigurður Björgúlfsson. Fyrstu innkaup hlutu Dagný Helgadóttir og Guðni Pálsson arkitektar.

Síðust í innkauparöðinni var tillaga þeirra Hjörleifs Stefánssonar og Þóris Helgasonar arkitekta sem var sú eina sem lagði út af þeirri hugmyndafræði að gefa gömlu húsunum við Kirkjustræti framhaldslíf.

Þetta var djörf tillaga en þótti ekki í samræmi við tíðarandann.  Aðrir þátttakendur töldu að rétt væri að húsunum við Kirkjustræti yrði fórnað fyrir nýbygginguna. Það má gera ráð fyrir að Hjörleifur og Þórir  hafi vitað að það var ekki til árangurs fallið að nálgast lausnina með verndun í huga. Við Ingvar Gíslason töldum þetta góða nálgun og vildum að tillagan færi í sæti eða að hún hlyti innkaup. Við vorum í miklum minnihluta en fengum hana innkeypta.

Það er gott til þess að vita að sá sem er síðastur verður stundum fyrstur. Húsin sem Hjörleifur og Þórir vildu vernda eru nú vernduð, Vonarstræti 12 er nú komið á þann stað sem þeir félagar lögðu til til. Tengingin við gamla Alþingishúsið er á sama stað og þeir lögðu til. Það má því segja að tillaga þeirra Hjörleifs og Þóris hafi hlotið sigur  þegar upp var staðið að vissu marki.

Tíðarandinn, sem hefur verið versti óvinur Reykjavíkurborgar innan Hringbrautar, er annar og betri nú en fyrir 26 árum. Kirkjustræti og Kvosin öll er betri nú en að stefndi þegar horft er á deiliskipulag Kvosarinnar á þeim tíma og vinningstillögunar i samkeppninni.

Færslunni fylgja teikningar af tillögu Hjörleifs og Þóris sem sýnir ásýnd að Kirkjustræti. Efst er svo teikning af núverandi ástandi. Tíminn hefur unnið með Kirkjustræti, Kvosinni og húsvernd almennt. Sigurður Einarsson arkitekt skilur þetta og hefur honum tekist býsna vel að tvinna saman nýtt og gamalt ásamt því að vernda gömlu húsin eins og lesa má af teikningunni fremst í færslunni.

Í samkeppnistillögu Hjörleifs og Þóris er gert ráð fyrir að Skjaldbreið verði rifin en önnur hús við Kirkjustræti verði látin standa áfram og gerð upp. Höfundar voru þeirrar skoðunar að vissulega væri Skjaldbreið þess virði að hún yrði líka gerð upp, en töldu að með þessu móti væru þeir að sýna svolítinn sveigjanleika og yrði síður ásakaðir um þvermóðsku.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • stefán benediktsson

    Gaman að rifja þetta upp. Enn í dag finnst mér lýðræðiströppur eða lýðræðisbrekka Sigurðar og félaga frábær hugmynd og kannski er enn tækifæri til að skapa almenning í þinghúsi. Hver veit. En ég er sammála Hilmari það var mikil gæfa að timburhúsin voru ekki rifin.

  • Hilmar Þór

    Það er ekki mikill munur á þessu tvennu, Balzac, „trega“ og tregðu“ en samt smá. Sennilega var það frekar að þetta var heimilað með “tregðu” þar sem ekki allir dómnefndarmenn voru þessu fylgjandi á sínum tíma.

  • ,,Dómnefndarmenn voru ekki á einu máli, en með trega varð niðurstaðan sú að heimila það.“

    Með trega?

    Eða með tregðu?

  • Hilmar Þór

    Tillaga Margrétar og Christer var nýstárleg og á margan hátt skemmtileg, bæði í formi og innihaldi. Kannski of skemmtileg fyrir forsetana sem tóku sig hátíðlega. Tillaga þeirra var með mjög fjölbreyttum rýmum, opið milli hæða, klukkunni í gólfinu og fundarherbergi fjárlaganefndar kringlótt. Það var kringlótt vegna þess að allir nefndarmenn voru jafnir og enginn yfir öðrum. Það voru að mig minnir 12 þingmenn í nefndinni og á fundarherberginu sem var kringlótt voru 12 hurðir, ein fyrir hvern nefndarmann. Fullkomið jafnræði.

    Tillaga Sigurðar hafði eins og Stefán lýsir marga fína drætti. Ég man eftir turninum sem kallaðist á við aðra turna bæjarins, Dómkirkju og Natan og Ólsen, Uppsali (sem var búið að rífa en er kominn aftur) og turninn á Hernum. En það sem var sérstakt var klassiskur arkitektúr hússins bæði í grunnmynd, sniði og útliti. Hliðin að Kirkjustræti tók mið af Alþingishúsinu. Þetta var nokkuð skylt Ricardo Bofill en samt ekki.

    Það voru margar frábærar tillögur sem dómnefnd þurfti að meta. Ég held að þetta hafi verið jafnbesta samkeppni sem ég man eftir. Kannski bara sú besta.

  • stefán benediktsson

    Tuttugu og fimm ár. Ég var reyndar alltaf skotinn í „traktornum“ þeirra Möggu og Christers, en var algerlega einn á báti með þá skoðun að mig minnir. Ég á lika alltaf eftir að sakna aðkomusalarins í lausn Sigga og félaga með tröppum sem voru áheyrendapallar. Anddyri sem var mögulegur lýðræðisvettvangur, góð hugsun. Þetta var skemmtileg vinna, skemmtilegur árekstur og síðan bræðingur ólíkra viðhorfa.

  • Jón Gunnarsson

    Augu fólks er að opnast fyrir menningararfinum. Í batnandi heimi er best að lifa. Það var mikil gæfa að ekki var ráðist í að byggja samkvæmt verðlaunatillögunni á sínum tíma sama hversu góð hún var vegna þess að á þessum 25 árum hefur viðhorf fólks til sögunnar breyst. Fólki finnst orðið vænt um gömlu húsin og sú væntumþyggja fer vaxandi með ári hverju. Vinnigshafinn, Sigurður og félagar hafa sýnt vaxandi skilning á umhverfi Alþingis. Glerbyggingin milli timburhúsanna tveggja (sem sigthor talar um) er auðvitað 10 ára gamall miskilningur sem þeir félagar hefðu forðast í dag (geri ég ráð fyrir)

  • sigthor jonsson

    Ég hef aldrei skilið hvernig þeir gátu troðið glerglugga þarna…

    Sýnir væntanlega taktleysi fyrsta áratugs 21 aldarinnar

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn