Miðvikudagur 14.02.2018 - 12:09 - 8 ummæli

Sand Hótel – Endurnýjun eldri húsa.

Það vekur athygli hvernig staðið var að byggingu Sand Hótels við Laugaveg.  Fjárfestarnir stóðu óvenjulega og menningalega að uppbyggingunni þarna við aðalgötu bæjarins.

Hótelinu er komið fyrir í 8 gömlum byggingum sem hafa verið endurnýjaðar og nútímavæddar fyrir nýja starfssemi á sérlega smekklegan hátt.

Aðstandendur framkvæmdanna hafa ekki bara sýnt umhverfi sínu virðingu heldur einnig hinni sögulegu vídd og hinu mikilvæga almannarými sem Laugavegurinn er.

Þeir hafa sýnt hinni sögulegu vídd skilning á margvíslegan hátt umfram hin arkitektónisku gildi.  Þeir gáfu hótelinu nafnið Sand Hótel  og er það dregið af nafni eins elsta fyritækis borgarinnar Sandholtsbakarí sem er um 100 ára gamalt um þessar mundir.  Bakaríið verður starfrækt þarna í sínu gamla húsi áfram. Þá má einnig geta þess að herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar sem stofnuð var fyrir 100 árum verður þarna áfram í sinni gömlu mynd og með sínum gömlu innréttingum.  Herrafataverslunin var stofnuð árið 1918 og hefur verið rekin í einu þessara húsa síðan 1929.  Hús Guðsteins var teiknað af Þorleifi Eyjólfssyni (1896-1968)

Það að þessi tvö fyritæki fá áframhaldandi líf í götunni er mikilvægara en margan grunar. Þetta er mikilvægt fyrir almannarýmið og fjölbreytnina þar. Það hefði verið slæmt ef jarðhæð húsanna við Laugaveg hefðu verið tekin undir hótelstarfssemina eða rekstri skyldum henni. Það hefði gert götuna fátækari, einsleitnari og fyrrt hana sögunni.

Hér hefur tekist að endurnýja húsin með það að markmiði að rýra ekki mikilvægi þeirra í ríkri sögu götunnar og mikilvægi fyrir miðbæ Reykjavíkur.

Í hönnunarvinnunni hefur tekist að ná opinni og líflegri gönguleið frá Laugavegi upp á Grettisgötu.

Endurnýjun bygginganna og breyting í fyrsta flokks hótel var í höndum Sigurðar Hallgrímssonar arkitekts og innanhússarkitektanna Guðbjargar Magnúsdóttur og Rögnu Sif Þórisdóttur í náinni samvinnu við eigendur hótelsins.

Hér er á ferðinni skólabókardæmi um hvernig aðlaga má nýja og nútímalega starfssemi í gömlum húsum. Þessi nálgun er auðvitað vandasamari og seinlegri en nálgun svonefndra uppbyggingasinna í byggingalistinni sem gengur jafnan út á að rífa og byggja nýtt og nútímalegt í staðinn.

Aðlaðandi og lífleg gönguleið milli Laugavegar og Grettisgötu  er bætt við skemmtilegar götur og sund borgarinnar.

 

Gömul mynd af Sandholtsbakaríi við Laugaveg númer 36. Tekist hefur að viðhalda starfsseminni á sama stað og flétta inn í hótelreksturinn þannig að almannarýmið fær notiðsín.

Hús Guðsteins Eyjólfssonar eftir Þorleif Eyjólfsson arkitekt frá 1929.

Gamla herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar verður áfram rekin á jarðhæð hússins. Þetta er mennigarleg afstaða eigandanna sem viðheldur líflegu götulífi við Laugaveg. Ef þarna yrði starfsemi nátengd hótelrekstrinum yrði gatan fátækari.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Guðrún Gunn.

    Það er margt gott að gerast í RVK þrátt fyrir allt.

  • Bjarni Gísla

    Eftir að hafa lesið þessa færslu gerði ég mér erindi og skoðaði þetta í gær.

    Ég man eftir vel hugsuðum mótmælum vegna framkvæmdanna fyrir nokkrum árum. Þau gengu einkum út á að vernda geysilega fallegan silfurreyni sem stóð við Grettisgötu. Mótmælin skiluðu árangri. Húsbyggjendur hlustuðu á mótmælendur (andstætt því sem borgaryfirvöld gera að jafnaði).

    Nú stendur silfurreynirinn þarna og aðkoman að hótelinu Grettisgötumegin er til fyrirmyndar.

    Ég vil bæta því við að í sundinu milli Laugavegs og Grettisgötu (sem mindin er af) hefur verið komið fyrir frábæru myndverki eftir Sigurð Guðmundsson.

    Þetta er ótrúlega flott endurnýjun og vel útfærð hugmyndafræði.

    Hönnunarverðlaun og DV mennigarverðlaun eru borðleggjandi.

    • Hilmar Þór

      Ég er sammála þessu Bjarni Gísla.

      Þetta er gott verk sem væri sómi af sem Hönnunarverðlaun eða Menningarverðlaun DV. Mundi jafnvel auka álit á þessum verðlaunum.

      Hinsvegar finnst mér galli á öllum þessum hönnunarverðlaunum, menningarverðlaunum og bókmenntaverðlaunum og hvað þetta nú allt heitir.

      Þau eru veitt of snemma.

      Byggingalistaverðlaun á kannski að afhenda fyrst 10 árum eftir að verkinu er lokið. Þá eru verkin búin að fá á sig einhverja patínu og búin að sanna sig.

      það er einhver bissnissbragur af t.a.m bókmenntaverðlaununum þar sem tilnefningarnar eru í upphafi bókavertíðarinnar fyrir jól og svo eru verðlaunin veitt strax eftir áramót.

      Þetta er auðvitað fyrst og fremst sölumennska.

      Er það ekki bara?

  • Dennis Davíð Jóhannesson

    Afar menningarleg og vel heppnuð uppbygging við Laugaveg, aðalgötu bæjarins. Á hrós skilið fyrir að virða gömlu húsin og anda staðarins.

  • Hilmar Þór

    Það má bæta því við að hótelmóttakan (lobbýið) er frá sundinu milli Laugavegar og Grettisgötu. Ekki frá Laugavegi en það hefði rýrt götuna.

  • Þetta er virkilega flott hótel. Það hlýtur að vera gott að búa þarna í bakhúsunum þar sem er hljóðlátt og ganga svo út á líflegan og iðandi Laugarveginn! Gott að húsunum og fyritækjunum á jarðhæð skuli gefið nýtt líf!

  • Sigríður

    Smá forvitni.

    Þetta virðast vera 3 hæða hús með risi og e.t.v. kjallara.

    Hvað er nýtingarhlutfallið hátt og hvernig er séð fyrir bílastæðum gesta og starfsmanna?
    Hvar er aðkoma hinna leiðinlegu fólksflutningabíla.
    Hvar er „pikk upp“ fyrir gestina?

    Þetta er ekki gagnrýni á þetta frábæra hótel heldur er ég bara að forvitnast um atriði sem sífellt er verið að ræða þegar hótel eru annarsvegar.

    Það er örugglega búið að hugsa þetta.

  • Gunnar Gunnarsson

    Þetta er til fyrirmyndar á allan hátt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn