Miðvikudagur 26.07.2017 - 10:22 - 17 ummæli

Seinagangur hjá byggingafulltrúa

 

Í Morgunblaðinu í morgun vekur kollegi minn, Jón Ólafur Ólafsson arkitekt, athygli á seinagangi í afgreiðsu mála hjá byggingafulltrúanum í Reykjavík. Reynsla Jóns Ólafs er sú sama og mín og flestra starfandi arkitekta.

Hann nefnir líka að þetta hafi ekki verið svona á árum áður og mál séu lengur í gegnum kerfið nú en fyrr á árum. Ég er líka sammála þessu.

Það er eitthvað að og það vita allir hvað það er.

Allt reglugerðarumhverfið er flóknara og aukin neytendavernd er umfangmeiri í reglugerðum og eftirlitsskyldurnar hafa aukist . Þetta kostar meiri vinnu og öll gögn eru flóknari en áður.

En þetta er bara hluti skýringarinnar sem ætti ekki að vera orsök alls seinagangsins.

Verkferlarnir eru slæmir og tafsamir hjá embættunum. Svigrúm í reglugerðum er of lítið. Tengsl milli ráðgjafa og embættismanna eru allt of lítil og miklu minni en áður.  Sambandið er nánast ekkert. Ekki er hægt að hringja í þann sem er með málið nema á tilteknum stuttum viðtalstímum eins og verið sé að biðja um samtal við ráðherra. Embættismennirnir hringja nánast aldrei þó um smávægilega athugasemd sé að ræða sem hægt er að leysa í stuttu símtali. Líklega voru það líka mistök að sameina  bygginganefnd og skipulagsnefnd á sínum tíma.

Málum er oft frestað á forsendum sem koma umsókninni jafnvel ekkert við eins og Jón Ólafur nefnir dæmi um.  Hann segir að gerðar séu til­efn­is­laus­ar at­huga­semd­ir sem hægi á út­gáfu leyfa og þeim frestað þessvegna. Þetta þekkja allir.

„Ég sótti til dæm­is um leyfi fyr­ir hönd eig­anda til að hækka þak í stiga­húsi og koma fyr­ir lyftu. Þetta var af­markað í um­sókn­inni. Mál­inu var hins veg­ar frestað. Bygg­ing­ar­full­trúi gerði at­huga­semd við að ekki væri gerð grein fyr­ir fyr­ir­komu­lagi pitsustaðar. Það kom mál­inu ekk­ert við. Pitsustaður­inn var á allt öðrum stað í hús­inu,“ seg­ir Jón Ólaf­ur.

Það þekkja allir arkitektar svona sögur af eigin raun og kunna þær margar.  Allir vita að seinagangur afgreiðslu byggingafulltrúa veldur óþarfa tjóni og skapraunar fólki.

Jón Ólafur seg­ir líka mik­inn mun á af­greiðslu bygg­ing­ar­full­trúa nú og á fyrri árum. Áður gátu arki­tekt­ar geta talað beint við þann embættirmenn bygg­ingarfulltrúa sem hafði með málið að gera. Síðan hafi verið sett á legg þjón­ustu­ver. Með því hafi bein sam­skipti rofnað.

„Þetta hef­ur lengt leiðina milli okk­ar, sem ráðgjafa, og emb­ætt­is­manna. Við eig­um ekki leng­ur bein­an aðgang að þeim sem eru með mál­in hjá full­trúa. Það sem meira er; eng­inn er ábyrg­ur fyr­ir er­ind­um. Það virðist und­ir hæl­inn lagt hver tek­ur á mál­um og hvernig tekið er á þeim,“ segir Jón Ólafur.

Ég man eftir því að á árum áður hringdu embættismenn til hönnuðanna ef og þegar þeir fundu eitthvað smálegt sem þurfti að lagfæra. Þeir voru lausnamiðaðir og vildu að málin fengju afgreiðslu sem fyrst. Hönnuðurinn lagaði þá bara það sem þurfti og lagði inn breytta teikningu og málið var afgreitt samdægurs. Ég hef líka orðið var við að ef maður er fastur fyrir og gagnrýnir afgreiðsluna er mikil hætta á að það bitni á verkinu og tafirnar verði enn meiri. Öruggast sé að vera þýðlyndur við embættismennina og láta allt yfir sig ganga.

Smáatriði á borð við „nf“ merkingu á einu baðherbergi („nf“ er merking um niðurfall) geta líka kostað frestun á samþykkt um 14 daga. Og þegar það hefur verið lagfært kemur jafnvel upp eitthvað nýtt sem embættismanninum „yfirsást“ í fyrra skiptið. Svona getur þetta gengið vikum og jafnvel mánuðum saman þó vitað sé að ekkert hús er byggt samkvæmt aðaluppdráttum, heldur verkteikningum sem taka á öllu sem skiptir gæði og neytendavernd máli. Verkteikningar eru líka yfirfarnar, stimplaðar og áritaðar af embættunum. Það gengur oftast vel.

Þó allir séu auðvitað að gera sitt besta þá gengur þetta ekki svona lengur.  Aðalatriðið  virðist vera að embættin og verkferlar embættanna eru ekki eins lausnamiðaðir og áður. Heldur virðist markmiðið stundum jafnvel vera að flækja málin. Oft af tilefnislausu eins og Jón Ólafur rekur í ágætu og tímabæru viðtali í Morgunblaðinu í dag.

 

Ef tvísmellt er á myndina að ofan stækkar hún þanin að hægt er að lesa viðtalið við Jón Ólaf Ólafsson arkitekt í heild sinni.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Rauði þráðurinn er samskiptaleysi-

    Teikningar sem ég hef sett inn, hafa stundum strandað á milli funda, vegna einhverja smávægilegrar athugasemda,eins og leiðarahöfundur bendir á, væri hægt að laga samdægurs af hendi hönnuðar-

    Eina sem þarna vantar að þegar byggingfulltrúi fer yfir teikningar, að samvinna sé við hönnuð og hann beðin um að lagfæra þessi smáatriði.

    Það sem slær mig oft, er að þegar hönnunargögn eru afgreidd af byggingnefndafundi, og einhver athugsemd er gerð, að þá hefst vinna sem er eins og að leita að nál í heystakki, til fá uppúr byggingafulltrúa hvaða athugasemd það er, sem stoppar mál.- Upplýsingagjöfin er nánast engin að fyrra bragði- Afgreiðsluseðill er jú sendur í bréfpósti, en þá tekur við einhverja daga vinna að ná sambandi við þann sem setur inn viðkomandi athugasemd.
    Þannig líða oft nokkrir dagar þar sem verið er að bíða eftir upplýsingum,til að geta sett inn leiðrétt hönnunargögn. (kannski vantaði eina málsetningu, eða jafnvel eins og dæmi frá í vor, þar sem sótt er um gistihús, tekið er fram í greinargerð að þvottur sé sóttur og þveginn annarstaðar, samt er spurt hvar þvottahúsið sé? og málið sett á bið…..)

    Það er ekki nema von að sumir hönnuður neiti að vinna verk sem staðsett eru í Reykjavík, og ég skil þá bara mjög vel.
    —-

  • Það er skíta pólitísk embættismanna fíla af þessu!

  • Það gæti verið áhugavert að blanda sér í þessa umræðu, sem kemur upp annað veifið, ekki síst þar sem ég vann á embætti byggingarfulltrúa í 10 ár. Mér heyrist sumir taka fram að Magnús Sædal eigi allt gott skilið svo gagnrýnin snýr þá frekar að okkur hinum sem unnum undir hans stjórn. En fyrst væri fróðlegt að heyra hvaða tímabil menn eru að tala um sem þeir nefna „á árum áður“ eða „fyrr á tímum“ eða „í gamla daga.“ Það skiptir máli því margt hefur breyst síðan ég hóf störf 1972.

    • Hilmar Þór

      Takk fyrir að taka þátt í þessu samtali Guðlaugur Gauti.

      Ég vil nota tækifærið og endurtaka að þetta er meira spurning um verkferla en persónur þó þær séu vissulega misjafnar.

      Og það er mér ljúft að ryfja upp sögu af viðskiptum við þig, sem voru góð og nefna dæmi.

      Þannig var að ég hafði lagt inn uppdrættti af fjölbýlishúsi þar sem á einum uppdrætti (af líklega 10-12) hafði verið slökkt á skipuninni sem kallaði fram öll mál. Ég hafði undirritað uppdráttinn og lagt hann inn án þess að taka eftir því. Engin málsetning var á uppdrættinum sem auðvitað gekk ekki.

      Þetta voru auðvitað mín mistök og engum öðrum um að kenna.

      Undirritunin átti sér stað á ljósritunarstofunni eða jafnvel á afgreiðsluborði byggingafulltrúa í miklum flýti. En í stað þess að fresta málinu og tefja afgreiðsluna um 14 daga hringdir þú og sagðir mér að það vantaði öll mál á eina teikninguna.

      Ég brást við og kveikti á skipuninni, ljósritaði teikninguna, undirritaði og skilaði inn. Málið fékk afgreiðslu í framhaldinu og var afgreitt. Ég veit ekki hvort þú mannst eftir þessu en þarna var sýnd þjónustulund og vilji til þess að koma málinu í höfn.

      Þarna fann embættismaðurinn leið til þess að koma málinu áfram og flýta fyrir.

      Varðandi Magnús þá var hann eins og nefnt er „öflugur“ embættismaður sem vildi fara eftir bókinni. Það var ekki auðvelt að hnika honum og hann fór sínu fram. Mér fannst hann nánast stjórna öllum byggingafulltrúum landsins með nokkrum undantekningum.

  • Hilmar Þór

    Undanfarin mörg ár hefur verklag hjá embættum byggingafulltrúa á landinu verið gagnrýnt. Menn hafa talið verklagsreglur jafnvel rangar og að embættin hafi farið útfyrir valdssvið sitt. Menn hafa ekki gagnrýnt þau fyrir að fylgja lögum og reglugerðum. Það óskar þess enginn. Menn vilja liprari verkferla og betri og skilvirkari afgreiðslur.

    Nú á síðustu vikum hefur gagrýnin aukist með áberandi hætti og þannig að hún hefur náð til fjölmiðla.

    Það er vel.

    Ég er einn þeirra sem hef gagnrýnt verklagið hjá embætunum um langt árabil. Ég beindi gagnrýninni til sjálfra embættanna og starfsmanna þeirra með afarlitlum árangri. Þetta gerðu fjölmargir aðrir hönnuðir. Gagnrýninni var haldið utan við fjölmiðla. Ekkert gerðist. Í framhaldi af gagnrýnshrynu boðaði byggingafulltrúinn í Reykjavík til fundar með hönnuðum og reiknaði með 50-100 manns. Þörfin var mikil. Reyndar svo mikil að taka þurfti stærsta sal Grand Hotel undir fundinn. Salurinn fylltist og voru að sögn mættir milli 500 og 700 hönnuðir.

    Embættismennirnir lásu þeim pistilinn og ekkert breyttist.

    ++++

    Síðar að frumkvæði byggingafulltrúans í Reykjavík, Magnusar Sædal, þeim öfluga embættismanni voru haldnir margir fundir um málið. Fundirnir voru haldnir á fimmtudagsmorgnum hjá fulltrúa yfir frönskum vínarbrauðun og kaffi. Fundirnir byrjuðu kl. 8 og stóðu í klukkutíma, eða þar til skrifstofan opnaði formlega. Þetta stóð í nokkra mánuði ef ég man rétt. Stærstan hluta vetrar. Við Magnús sátum alla fundina sem svo lögðust af án nokkurrar formlegrar niðurstöðu. Því miður.

    Þetta voru samt gagnlegir fundir fyrir mig og vonandi embættið.

    ++++

    Það sem kom mér mest á óvart var að samráð byggingafulltrúa á landinu var að frumkvæði byggingafulltrúans í Reykjavík, en ekki þess ráðuneytis sem með byggimngamál fara eða Skipulagsstjóra Ríkisins sem er sú stofnun sem fer með þessi mál. Þetta gerði það að verkum að stjórnsýslan í Reykjavík varð fyrirmyndin og varð ráðandi fyrir aðra byggingafulltrúa. Aldrei var fulltrúi arklitekta eða annarra hönnuða fenginn á þessa fundi byggingafulltrúanna svo ég viti til. Embættin höguðu embættisfærslum sínum þess vegna nokkuð einstefnulega í þessum málum. Sjónarmið hönnuða og húsbyggjenda voru líklga aldrei á dagskrá.

    +++

    Það sem ég og mjög margir fleiri hafa gagnrýnt er að afgreiðsla fulltrúa er orðið of styrt. Menn gagnrýna ekki kröfurnar og lögin heldur stjórnsýsluna í kringum þau. Arkitektar almennt fagna neytendavernd og vilja að farið sé að lögum. Arkitektar vilja að um öll hús séu fyrirliggjandi ítarlegar teikningar og lýsingar sem farið er eftir. Þeir vilja að til séu handbækur um öll hús og viðbyggingar þar sem skýrt er út hvernig húsin eru byggð og úr hverju. Jafnvel líka hvað viðhald varðar. Líkt og gert er með bíla.

    En þessi sátt milli ráðgjafa, neytenda, eftirlitsaðila og byggingafulltrúa á ekki að vera svona styrð í framkvæmd. Það þarf að finna lausn á því. Það er viðfangsefið og á því eru til margar lausnir sem kalla ekki á neinar tilslakanir hvað gæði gagna eða bygginga varðar.

    ++++

    Eðlilega hefur byggingafulltrúi brugðist við gagnrýninni þegar til hans var leitað vegna málsins. Í stað þess að fagna gagnrýninni og leita lausna bregst hann í vörn og kennir lögunum og umrækjundunum um og segir m.a.m í Morgunblaðinu í fyrradag:

    „Málum er ekki frestað hér að geðþótta eins og ýjað er að. Öll okkar vinna er bundin í mjög skýr lög og reglugerðir sem okkur ber að framfylgja“ og síðar „Hluti af þessu er það að menn eru að flýta sér mjög mikið, eins og þarna kemur fram eru oftmiklir aurar undir, þá koma mál hingað oft óundirbúin……“

    Þetta er auðvitað að mestu rétt hjá honum þó allir viti að stundum er málum frestað af, því er virðist, af geðþótta eins og Jón Ólafur Ólafsson arkitekt bendir á í viðtali við Moggann.

    Aðalatriðið í svari byggingafulltrúa er að hann ætli ekkert að gera í málinu. Þetta sé ekki honum að kenna. Hönnuðir rigi að vanda sig meira og vera ekki að flýta sér.

    Ég hefði átt von á öðrum viðbrögðum frá byggingafulltrúa en þessum. Honum má vera ljóst að þegar einhver kvartar þá er það út af því að það er eitthvað að. Og það þarf að finna lausn á því. Það kvartar engin sér til skemmtunna.

    Að pakka í vörn og segja að þetta sé allt einhverjum öðrum að kenna er ekki lausn til langframa.

    +++

    Stjórnmálamenn hafa líka brugðist við gagnrýninni með svipuðum hætti.

    Einn, fulltrúi í umhverfi- og skipulagsráði, telur þetta allt vera Morgunblaðinu að kenna og segir á FB síðu sinni:

    „Mogginn heldur áfram í kosningabaráttunni. Nú eru starfsmenn byggingafulltrúa að „misnota valdið“.
    Í hverju skyldi misnotkunin svo felast skv sögunum í greininni? Að biðja menn að skila teikningum sem eru í samræmi við heimildir og reglur! En í hvers þágu skyldu þeir misnota valdið? Eigin hroka virðist vera. Þetta er ekki boðlegt.“

    Þarna er stjórnmálamaðurinn að grafa sér gröf. Það er enginn að kvarta yfir því að embættismenn fari að lögum. Fyrr mætti nú vera. Það er verið að kvarta yfir stjórnsýslunni og dæmi eru nefnd um það þegar embættismenn taka geðþóttaákvarðanir. Þessi viðbrög stjórnmálamannsins eru ekki til þess fallin að leysa vandann.

    Að afneita vandanum með þessum hætti sem embættismenn og kjörnir fulltruar gera leysir ekki vandann sem vissulega er fyrir hendi.

    Auðvitað eru allir að gera sitt besta og þetta er allt mikið sómafólk en það er eitthvað að og á því þarf að taka. Gamall kollegi minn sagði að viðskiptin við byggingafulltrúa væru nákvæmlega eins og hjá Bifreiðaeftirliti Ríkisins í Gamla daga. Það muna eflaust margir enn eftir því.

  • Pétur Örn Björnsson

    Fyrir hverja er kerfið, er það fyrir sig sjálft, eða til þjónustu við almenning?
    Ef borgarstjóri og formaður skipulagsráðs trysta sér ekki til að svar svo einfaldri spurningu eru þeir einfaldlega ekki störfum sínum vaxnir.

  • Pétur Örn Björnsson

    Og, já og, ég kalla til Dag B. Eggertsson, borgarstjóra og Hjálmar Sveinsson, formann skipulagsráðs. Og mig langar til að spyrja þá lítillátu menn, eða það skulum við vona, hverjir breyttu þessu á þann veg að um Kafkíska martröð er að ræða í hvert sinn sem eitthvað erindi, einkum hin smæstu, kannski bara hin smæstu, kvistirnir, kemur inn. Þá myndast ósjálfrátt virkismúr, telst það til merkis um lipra og þjónustuvæna stjórnsýslu????

  • Pétur Örn Björnsson

    Tek svo undir orð Jóns Guðmumdssonar. að það væri umræðu þessari til góða, ef umræddir embættismenn, public servants, kæmu nú fram og segðu sitt álit á þessum málum. Þar kalla ég til forsvarsmenn þeirra, Ólöfu Örvarsdóttur, Nikulás Má Úlfarsson og Björn Axelsson, allt saman sómafólk, en það er óneitanlega brýnt að bæta samskiptin, milli embættanna og einkum og sér í lagi gagnvart hönnuðum. Það er ömurlegt að nú skuli tíðkast að maður þurfi að hanga í símanum heilu og hálfu dagana bara í veikri von, og iðulega alls ekki, að ná sambandi í gegnum þjónustuverið. Algengasta svarið er , nei hann er skráður í mat, nei, hann er skráður á fund, nei, hann er kominn í frí, nei, það er enginn sem hefur með þetta svæðu að gera, hann er í fríi, eða hann fór á fund, fund númer þrjú á einum degi, eðaí mat. Er þetta boðleg þjónusta við hönnuði og umbjóðendur þeirra? Nei.

  • Pétur Örn Björnsson

    Allt saman rétt hjá Himari Þór og Jóni Ólafi, en mer finnst samt vera vegið ómaklega að starfsfólki byggingarfulltrúaembættisisins … það er þó með bæði síma og viðtalstíma
    og alla daga vikunnar. Og lítið mál að ná á það starfsfólk og leysa mal á lipran hátt.

    Öðru máli gegnir um embætti skipulagsfulltrúa. Þar voru einstakir aðilar sem báru ábyrgð á hverju hverfi borgarinnar og þeir voru áður einnig með síma og viðtalstíma. Nú er búið að slíta á þau tengsl og maður fær illa og treglega upplýsingar þaðan.

    Heyrt hef ég starfsfólk byggingarfulltrúa kvarta mjög undan því hvað starfsfólk skipulagsfulltrúa svarar seint og illa erindum ef um vafamál er að ræða hvort t.d. breyting á eldra húsi sé innan eldri gildandi deiliskipulags sem oft er margra daga verk að komast yfir. Hér áður þegar hönnuðir höfðu aðgang að þessu annars ágæta starfsfólki, þá var þar skjalavörður sem fann eldri skipulagsuppdrætti á svipstundu og maður gat keypt ljósrit af þeim.

    Niðurstaða: Af minni reynslu að dæma er því verið að hengja bakara fyrir smið, það er aðgangsleysið og jafnframt ákvarðanafælnin hjá embætti skipulagsfulltrúa sem er stærsti vandinn, t.d. ef maður nær nú að berjast í gegnum þjónustuverið og fá samband við einhvern sem vinnur hjá skipulaginu og því er lofað að málin skulu skoðuð, berast svörin samt bæði seint og illa, því miður. Líkast til er best að starfsfólk skipulagsfulltrúa haldi áfram að hafa hvert sitt hverfi sem meginvettvang og hafi þá einnig fastsetta viðtals- og símatíma, líkt og starfsfól byggingarfulltrúaembættisins. Bara það að endurvekja það kerfi sem var í gildi bara fyrir örfáum árum, væri strax til mikilla bóta.

  • Jón Guðmundsson

    Ætlar enginn byggingafulltrúi, stjórnmálamaður eða embættismaður að skýra mál sitt, kerfisins eða embættanna?

  • Þetta er mjög fróðleg umræða.

    En mér finst eins og menn séu hér að missa af aðalatriðum málsins.

    Menn þora ekki að gagnrýna möppudýrin í borgarkerfinu af ótta við refsingu!

    Bíddu – er það eðlilegt ástand?

    Hvað segir borgarstjórinn við því – þessi sem stöðugt malar um verkferla og gegnsæi?

    Skrifinnskan hefur greinilega náð öllum völdum innan borgarkerfisins með tilheyrandi töfum og miklum kostnaði.

    Bíðið – er það ekki verkefni pólitískra forustumanna að tryggja að kerfið sé skilvirkt og þjóni þörfum borgaranna?

    Mér finnst ótrúlegt að lesa það sem hér kemur fram – allir virðast þekkja vandann – duttlungafulla og hrokafulla embættismenn og allsherjar búrókratíu dauðans – en enginn nefnir að ef til villl beri hér einhver pólitíska ábyrgð!

    Furðulegt!

  • Hilmar Þór

    Jú, Stefán ég held að „allir“ viti hvað er að. Það er að segja allir sem þurfa að senda erindi til byggingafulltrúa. Og þetta dæmi sem Jón Ólafur nefnir og varðar umsók um lyftu sýnir það. Þar fer embættismanðurinn að blanda öðrum húshluta inn í umsóknina.

    Ég hef margsinnis orðið fyrir svipaðri reynslu.

    Vaskur í kjallara og niðurföllu þurfa að vera og allt þarf að vera samkvæmt lögum og reglum og allt hefur sinn tíma og sinn stað. Þar komum við einmitt að verkferlum .

    Vel er hugsanlegt að slakað sé á öllum þeim kröfum þegar aðalteikningar eri lagðar inní fyrsta sinn og settir eðlilegir fyrirvarar svo hönnunin geti haldið áfram en gætt sé að þeim þegar reyndar tekiningar eru samþykktar.

    Það gerist líka mikið á verkteikningaferlinu.

    Eitt sinn var mál stöðvað hjá mér vegna þess að ekki fylgdi vottun á fyrirhuguðum forsteyptum holplötum sem átti að nota í húsinu. Það var ótímbær krafa vegna þess að ekki var búið að bjóða húsið út og ég vissi ekki hvar verktaki mundi kaupa plöturnar. Þarna notfærði embættismaðurinn heimild sína og tafði málið.

    Ég er þeirrar skoðunnar að embættið á að geta samþykkt húsið án þess jafnvel að vita úr hverju það er. Það verklag er ekki óalgengt erlendis. Markaðurinn ákveður úr hverju er byggt, steypu eða stáli til dæmis. Svo eru sendar inn reyndar teikningar áður en úttekt fer fram og þess gætt að allt sé samkvæmt lögum og reglum.

    USK er ekki kennt um þegar teikningar eru ófullkomnar . Það er misskilningur á þessari umræðu. Það geri ég ekki og heldur ekki Jón Ólafur.

  • stefán benediktsson

    „Það er eitthvað að og það vita allir hvað það er………..“
    Það er ofsagt að „allir“ viti hvað er að.
    Þegar arkitekt leggur inn teikningar eiga þær að vera algerlega í samræmi við skipulag, lög og reglugerðir.
    Það felst í þeirri sérfræðiþjónustu sem hann veitir.
    Ef þær eru það ekki er mjög hæpið að kenna USK um.
    Ef byggingarleyfisumsókn víkur frá skipulagi, lögum eða reglum hlýtur það að valda töfum á afgreiðslu.
    Ef vantar vask í kjallara, þá vantar líka teikningar af breyttum rafmagns, vatns og frárennslislögnum og etv. breytingar á gataplönum (amk 3 sérfræðingar).
    Eitt af því sem „er áberandi að“ er að of margir hönnuðir leggja inn teikningar og gera ráð fyrir að fá athugasemdir sem þeir síðan lagfæra, en USK kennt um tafirnar.
    Það er rétt að í þá „góðu, gömlu daga“ snerust þessi samskipti meira um „gagnkvæma velþóknun“ en við kunnum líka allir sögur af hrópandi óréttlæti þeirra tíma.

  • Magnús Skúlason

    Þetta er löngu tímabær umræða og fínt hjá Jóni Ólafi að koma fram.
    Það voru mikil mistök að sameina byggingar-og skipulagsnefndir.Öll vinna var mun skilvirkari hér áður. Tala af nokkurri reynslu en ég var formaður byggingarnefndar í 4 ár.
    Mig langar að segja stutta sögu um samskipti mín við embætti byggingarfltr. fyrir fáum árum. Þurfti að reka smá erindi vegna breytinga á eldra húsnæði og vantaði ráðgjöf frá embættinu. Fékk viðtal við starfsmann þar sem ég mætti með kúnnanum. Ég hafði þann formála að ég væri hingað kominn til að fá góð ráð til að leysa málið farsællega og til að spara tíma. Minnti starfsmanninn á að meðal yfirmanna borgarinnar væru til samtökin TBO sem stendur fyrir Tjenestebrödrenes Orden.(þetta er til á öllum Norðurlöndunum).
    Þetta heiti merkti greinilega að opinberir starfsmenn borgarinnar væru nokkurs konar þjónustubræður okkar og bæri skylda til að aðstoða okkur borgarana í hvívetna. Viðkomandi starfmaður var svo undrandi yfir þessari ósvifni að honum varð orða vant. Ekki varð ég var við að þessi formáli minn yrði til að flýta fyrir málinu nema síður sé.

    Sannleikurinn er sá að ef maður þekkir ekki einhvern innan kerfisins er maður „lost“

    • Hilmar Þór

      Á Bretlandseyjum þar sem þú Magnus lærðir heitir það „Civil Servant“ eða „þjónn almennigs“!. Einn kollegi okkar nefni þetta við einn af æðstu mönnum skipulags- og byggingamála og fékk bágt fyrir ósvífnina.

  • Þóroddur

    Orð í tíma töluð. Það voru misstök að sameina nefndirnar og sviðin tvö (bygginga- og skipulagssvið) undir umhverfis og skipulagsráð. Gamla skiptingin í Reykjavíkurborg var skýrari og skilvirkari.

  • Réttlát gagnrýni og tímabær umfjöllun. Þetta er ekkert nýtt og hefur verið í umræðu meðal arkitekta í 20 àr eða meir. Vonandi bitnar þetta ekki á Jóni Ólafi og hans samskiptum við byggingafulltrúa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn