Fimmtudagur 10.08.2017 - 15:03 - 6 ummæli

Sérkenni staðanna – Hótel

Íslenski torfbærinn er fyrirmyndin, en tíu hús hafa verið reist.

 

Næsta sumar opnar nýstárleg gistiaðstaða á lóðinni Mel í landi Einholts í Biskupstungum. Hún er nýstárleg en byggir á gömlum arkitektóniskum grunni.

Þetta eru torfhús þar sem rekin verður gistiþjónusta í hæsta gæðaflokki. Torf­hús­in eru tíu tals­ins og rúma hvert um sig fjóra full­orðna. Hvert hús er um 60 fer­metr­ar að stærð.

Hugmyndin að baki húsagerðarinnar byggir á gamla ís­lenska torf­bæn­um.

Það sem maður saknar oft í nútímalegum húsum er handverkið. Hefilför, hamarsför og pensilför iðnaðarmannanna. Hér eru minnstu smá­atriði sjá­an­leg í hand­verk­inu af gamla skólanum.

Að inn­an er frá­gang­ur samt nútímalegur og vandaður.

Næst Ein­holts­vegi er í bygg­ingu þjón­ustu­hús sem er um 350 fer­metr­ar að stærð. Hönn­un þess er sagður inn­blás­in af þjóðveld­is­bæn­um í Þjórsár­dal og hef­ur einnig torfþak og hleðslur en inn­rétt­ing­ar verða í stíl við torf­hús­in tíu.

Í þjón­ustu­hús­inu verður fram­reidd­ur morg­un­verður, eldaður í hágæðaeld­húsi, og þar verða einnig mót­taka fyr­ir gesti, bar og setu­stofa.

Sumir segja eflaust að þetta sé ekkert nýtt heldur eftiröpun á því gamla. En er það ekki allt í lagi, þegar það á við og þess er óskað? Ég hef gist við svipaðar aðstæður í Afríku þar sem boðið var upp á herbergi sem var strákofi með baði! Mér líkaði það ágætlega. Ég prófaði líka svipaða gistingu í Canada á Prince Edward Island fyrir mörgum árum, þar sem hótelið var í litlum timburhúsum sem féllu vel að byggðinni sem stóð næst. Það voru sko engir gler- og álkassar þar.

Það verður gaman að fylgjast með þessu sem er að gerast við Einholt.

Ljósmyndirnar eru fengnar frá mbl.is og er ljósmyndarinn Golli. mbl.is/​Golli

Hvert hús er um 60 fermetrar að stærð.

Í hverju húsi verður eldunarkrókur með fullbúnu eldhúsi og borðstofubúnaði. Í setustofu verður allur venjulegur stofuybúnaður og sjónvarp. Tvo svefnherbergi með tvíbreiðum rúmum og baðherbergi verður í hverju húsi.

Í hverju húsi verður eldhúskrókur með fullbúnu eldhúsi og borðstofuborði. ...

Húsin eru um 60 fermetrar að stærð og nútímalega innréttuð.

Við hvert torfhúsanna er heit laug úr stuðlabergi úr Hrepphólum.

Við hvert hús verður setlaug sem hlaðin er úr stuðlabergi.

Sigurður segir að þótt þjónustan verði fyrsta flokks sé hugsunin ...

Steinhleðslur og allt handverk virðist vera í hæsta gæðaflokki. Hin minnstu smáatriði eru sjáanleg. Má þar nefna að naglar í ytra byrði eru með demantsformaðann haus af gömlu gerðinni.

Minnstu smáatriði eru sjáanleg í handverkinu, m.a. má nefna að ...

++++

Það sem gerir ferðalög skemtileg eru sérkenni staðanna.

Landslagið, maturinn, menningin, tungumálið og margt fleira.  Eftir því sem maður fer víðar verður þetta ljósara og eftirsóknarverðara.

En því miður dregur sífellt úr séreinkennunum.

Ég man að fyrir svona 50 árum að þegar ferðast var um Evrópu breyttist allt þegar ekið var yfir landamærin.

Það var gjarna talað annað tungumál. Það var önnur mynt og annarskonar matur. Jafnvel bílarnir voru öðruvísi. Breskir bílar á Bretlandseyjum, franskir í Frakklandi, ítalskir á Ítalíu og þýskir í Þýskalandi.  Fólkið bar líka mismunandi klæðnað og hlustaði á mismunandi tónlist. Að ferðast var stanslaus upplifun og sífellt áreiti. Ég man að Coca Cola kom ekki í verslanir í París fyrr en uppúr 1960. Í Júgoslavíu hét drykkurinn sem var eftirlíking af kók, „Jugo Cockta“, eða bara Cockta. Skelfilegur drykkur sem ég smakkaði aftur fyrir örfáum árum í Króatíu. Í Danmörku var það Jolly Cola!

Nú er allt að verða eins. Sami maturinn allstaðar, sömu drykkirnir, sama tónlistin, sama myntin víða, sömu einkennalausu bílarnir og allir tala ensku.

En það versta er að húsin eru líka að verða meira eða minna öll eins. „Internationalisminn“ í byggingalistinni fer yfir allt og honum er oftast vel tekið. Hótelin, með tilkomu hinna stóru alþjóðlegu hótelsamstæðna eru nánast eins hvar sem er í víðri veröld.

Það stefnir að því að það verði ekki eins eftirsóknarvert og áður að ferðast. Allt er að fletjast út í einhverskonar alþjóðlega einsleitni.

Túristarnir skoða landslagið, sögustaðina og flykkjast inn í gömlu borgirnar til þess að skoða sérkenni staðanna eins og þeir litu út áður en alþjóðavæðingin tók völdin. Svo hverfa þeir inn í alþjóðleg og einkennaleus hótel til þess að hvílast og borða alþjóðlega rétti.

Maður sér víða um land rísa hótel í alþjóðlegum stíl.  Byggingar sem eru ekki í neinu sambandi við umhverfi sitt og eru án þeirra sérkenna sem ferðamaðurinn er að koma til þess að upplifa og ekki eru ferðamannaiðnaðinum til framdráttar.

++++

En það eru líka byggð hótel sem eru hið gagnstæða. Hafa til að bera eftirsótt sérkenni staðanna. Þessi hotel eru þannig að gistingin  er mikilvægur hluti af upplifuninni og ferðalaginu sem alþjólegu keðjurnar eru yfirleitt alls ekki. Gistiaðstaðan sem hér er vakin athygli á í landi Einholts í Biskupstungum er dæmi um það. Hún byggir á „regionalisma“ í byggingalistinni, staðarandanum.

Ég nefni í því sambandi Hótel Flatey, Hótelið á franska spítalanum á Fáskruðsfirði, Hótel Búðir  og Fosshótel við Jökulsárlón.

Að ofan er Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði þar sem nú er rekið hótel. Þarna er í raun um að ræða þyrpingu húsa með spítalanum, læknishúsinu, kapellu og líkhúsi. Allt umhverfi og bryggjan eru til fyrirmyndar. Húsin eru endurnýjuð samkvæmt uppdráttum ARGOS Atkitekta.

Að Búðum á Snæfellsnesi var byggt nýtt hótel í takti við það sem áður var. Sérlega velheppnað. Hannað af Kára Eiríkssyni arkitekt.

Við sérstakar aðstæður er sjálfsagt að nota vinnubúðir sem hótel. Hálendishótelið við Sigöldu  á rétt á sér vegna þess að það er á virkjanasvæðinu sjálfu. Þeim stað sem það hefur alltaf verið og gefur innsýn inn í aðstæður vinnumanna á þeim tíma sem virkjað var. Hótelið hefir hvað það varðar „sögulega skýrskotun“. En að flytja notaðar vinnubúðir með þúsund herbergjum og sáldra þeim um landið ber ekki vott um metnaðarfulla ferðaþjónustu.

Aðlaðandi hugmynd gæti verið hótel í braggahverfinu við Miðsand í Hvalfirði. Þar gætu ferðamenn fengið tækifæri til að upplifa stemmingu stríðsáranna í viðigandi umhverfi. Sofa á járnbeddum og sitja á járnstólum og fá þjónustu frá fólki klætt í klæðnaði sem tíðkaðist á stríðsárunum.

Hótel Flatey er gott dæmi um þar sem gömlu pakkhúsi hefur verið breytt í aðlaðandi gistiaðstöðu. Þetta er hótel af þeim gæðaflokki og með þeim sérkennum að það gerir sjálfa dvölina þar að eftirsóttum áfangastað

Nýtt hótel nálægt Jókulsárlóni þar sem leitað er í sérkenni staðarins við hönnun hótelsins. Arkitekt er Bjarni Snæbjörnsson.

Álkassar sem staðsettir eru í viðkvæmu landslagi eða fíngerðum smáþorpum eru ekki það sem ferðamenn munu sækjast eftir þegar fram líða stundir. Í fréttum í hadeginum var sagt frá mótmælum í San sebastian á Spáni, Róm á ítalíu og víðar þar sem fólk er að mótmæla ágangi ferðamanna sem eru að breyta þeirra nærumhverfi. Hluti af óánægjunni má m.a rekja til breytingu á félagslegu umhverfi og útliti staðanna sem eru að taka of miklum breytingu í þagu ferðamannabissnissins en ekki endilega í þágu ferðamannanna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Snorri Gunnarsson

    Þessi grein hittir marga nagla á höfuðið.

    Við sjáum t.d. hvernig göngugötusvæði midborga eru öll að verða hver öðru lík. Glerfrontar utan um sömu alþjóðlegu vörumerkin/verslunarkeðjurnar. Þessi svæði eru fremur óyfirbyggdar verslunarmiðstöðvar en miðborgir.

    Það er eins og miðborgirnar séu að keppa við verslunarmiðstöðvarnar á forsendum verslunarmiðstöðvanna en ekki sínum eigin forsendum.

    Yfirburðir gamalla miðborga eru ótvíræðir ef sérkenni og saga eru varðveitt, í sérkennunum og sögunni felst aðdráttarafl þeirra

  • Helgi Helgason

    Guðl. nefnir að fólki finnist það megi gera hvað sem er. Bara að það líkist ekki neinu sem fyrir er.

    Talað er um „regionalisma“ og „internationalisma“.

    Er ekki eitthvað til sem heitir eða ætti að heita „hérkemégismi“?

  • Góð hugleiðing og jafnvel mætti segja hugvekja. Mér finnst stundum eins og fólki finnist að það megi gera hvað sem er hvar sem er bara að það líkist ekki neinu sem fyrir er að var fyrir a staðnum. Húsform og útfærslur hafa þróast í árþúsundir og taka mið aðstæðum á hverjum stað. Það er ekki bara óþarfi heldur líka hroki að henda slíku fyrir róða. Og það er ekkert að því að vísa til fyrri tíma frekar en að leita að einhverju nýju. En hvorutveggja þarf að gera vel og það fyrrnefnda er síst minni vandi.

  • Guðbjörg

    Athyglisverð hugleiðing um vaxandi einsleitni á hótel jörð.

  • Jón Þórðarson

    Það eru margir möguleikar í þessu. Massainnflutningur á ferðamönnum er ekki eftirsóknarverður. Hinsvegar ferðamenn sem sækja þessi litlu hótel eru þeir sem flestir vilja fá. Þeir skapa flest störfin og þau eru hærra launuð. Ég hef oft hugsað um braggahverfið í Hvalfirði einmitt sem hóteltækifæri. Endilega að gera það sem fyrst´Það er kannski óþarfi að hafa járnrúm en það mættu gjarna vera hertrukkar þarna og bein tengsl við herminjasafnið á Hlöðum.

  • Sveinbjörn

    Sérkennum staðanna þarf að sinna. Það eru þau og bara þau sem túristarnir eru að sækjasr eftir. Það þarf að rífa „álkassann“ í Vík sem fyrst.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn