Föstudagur 25.04.2014 - 11:45 - 3 ummæli

Síðari hluti 18. aldar, kaupstaðarréttindi – Þéttbýlismyndun á Íslandi

Reykjavík 1903

Hér kemur þriðji hluti umfjhöllunnar Sigurðar Thoroddsen um síðbúna þéttbýlismyndun á Íslandi. Þar fjallar hann um einstaka kaupstaði á landinu og þróun þeirra. Að ofan er uppdráttur af reykjavík frá árinu 1903. Upprátturinn birtist í aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-1984. Þá bjuggu í höfuðborginni tæplega  6 þúsund manns. Þetta er stuttorð og mjög fróðleg umfjöllun um  þróun kaupstaðanna sex  á tímabilinu 1786-1900 ásamt fleiru.

Síðari hluti 18. aldar,  kaupstaðarréttindi    

Það er  ekki fyrr en á síðasta  hluta 18. aldar,  að birta tekur  til  í tengslum við raunverulega þéttbýlismyndun á Íslandi,  en  frá og með þeim  tíma ákvað yfirstjórnin í Kaupmannahöfn  að stefna markvisst  að þéttbýlismyndun í landinu. Þessi ákvörðun olli að vísu ekki straumhvörfum þegar í stað,  því raunverulegur árangurinn lét  á sér standa. Það tók þjóðina næstum 100 ár,  að taka  verulega við sér.       

Upphafið að þessari jákvæðu þróun  var  18. ágúst 1786,  þegar gefin var  út  konungsboðskapur þess efnis að einokunarverslunin skyldi lögð af, og verslunarfrelsi komið á, með ýmsum takmörkunum þó, því  frelsið skyldi takmarkað  við þegna Danakonungs.   Ákveðið var að stofna  6  kaupstaði eða:  Reykjavík, Grundarfjörð,  Ísafjörð, Akureyri, Eskifjörð  og Vestmannaeyjar.

Til að hvetja fólk  að setjast að í kaupstöðunum,  bauð konungur  þeim  sem þess óskuðu og höfðu til þess rétt,  sérstök eftirfarandi  fríðindi:   Öllum kaupstaðarbúum var veitt trúarbragðafrelsi, kaupstaðarbúar skyldu  20 fyrstu árin  vera undanþegnir manntalsskatti,  kaupstaðarbúar áttu heimtingu á að fá útmælt ókeypis byggingarstæði undir sín hús ásamt litlum matjurtargarði.

Vegna eldhættu og innbyrðis hreinlætis áttu hús að vera staðsett „sundurlaust“ eins og það var kallað, auk þess  fengu menn styrk sem nam 10% af byggingarkostnaði viðkomandi húss.     Hver  sem þess óskaði, átti rétt á að  öðlast   ókeypis borgararéttindi,   og skyldi nafn hans skráð í borgarabókina og honum afhent borgarabréf.  Útlendingar sem settust að í kaupstöðunum fengu sömu réttindi, en  urðu  þó fyrst að vinna konungi hollustueiða.

Ekki áttu þó   allir rétt á að öðlast borgararéttinn, því hann  var bundinn við vissar stéttir.   Tómthúsmenn  og vistráðin hjú gátu til dæmis ekki öðlast þennan rétt,  sjá nánar kaflann um vistarbandið,  þar sem getið er um  hert ákvæði gagnvart  slíku  fólki,  sem sett voru 1746 og aftur  1783.

Borgararéttindin  voru sem sagt bundin við vissar stéttir,   og voru forréttindi. Þeir einir sem gátu öðlast þennan rétt voru verslunarmenn og handiðnaðarmenn, aðallega þeir sem voru „sigldir“ og höfðu numið iðn sína erlendis.  Það var  og réttur handiðnaðarmanna,  að auk þess að reka handiðn sína, máttu þeir halda námssveina og selja eigin smíðisgripi og vinnu.

Borgarar höfðu tillögu- og ákvörðunarrétt um málefni kaupstaðarins og komu saman á „borgarafundi“ til að ræða málefni staðarins,  en þeir voru  undanfari bæjarstjórnanna. Þar er orðið „borgarfundur“  upphaflega komið.  Kaupstaðirnir höfðu    enga bæjarstjórn,  og var   sú skipan fyrst  tekin upp í Reykjavík árið 1836. Kaupstaðarlóðirnar höfðu  sérstök útmörk sem  mæld voru  af fulltrúum konungs og færð inn á uppdrátt.  Þessar lóðir voru  keyptar fyrir  konungsfé og  eingöngu ætlaðar  til nota fyrir  kaupstaðina.

Hér á eftir verður fjallað nánar um  þróun kaupstaðanna sex  tímabilið  1786-1900.

-Reykjavík

Árið 1800 voru íbúar þéttbýlisins í Reykjavík  307  en  árið 1900 voru þeir orðnir 5802.

Þegar Reykjavík öðlaðist  kaupstaðarréttindi   18 ágúst 1786,  voru íbúar   aðeins 167.  Kaupstaðarlóðin var fyrst mæld út 1787 og uppdráttur gerður.  Þessi   uppdráttur  var einnig  ígildi  skipulagsuppdráttar,  því að samkvæmt honum var  í grófum dráttum sagt fyrir um  hvar reisa mætti  byggingar.    Útmörk kaupstaðarlóðarinnar voru hluti Kvosarinnar eða:   Að vestan takmarkaðist hún af línu frá Grófinni fyrir neðan Grjótaþorp og suður að Hólakotslóð, að sunnan af Tjörninni að austan af Læknum og að norðan af sjónum og innan þessa svæðis var einungis heimilt að stunda verslun. Árið 1792 var löndum  Söðlakots og Skálholtskots bætt við kaupstaðarlóðina og þannig var hún óbreytt í 100 ár, eða til 1892. Skúli Magnússon landfógeti annaðist í upphafi úthlutun lóða,  en bæjarfógetar   frá 1803.

Í fyrstu  vildu menn fá  mjög stórar  lóðir,  enda   kostuðu þær ekkert, og var þess ekki  gætt að  halda lóðarstærðum í hófi. En það sem verra var, að ekki  var hugsað um skipulag svæðisins  þegar hús voru staðsett. Staðhættir björguðu þó miklu,  því bestu lóðirnar voru meðfram sjónum.

Árið 1829 var  danskur lögfræðingur  Krieger skipaður stiftamtmaður   og  sá  hann  fljótlega að skipulags- og byggingarmál Reykjavíkur stefndu í óefni. Hann fór því fram það á við dönsku stjórnina 1833  að bænum yrði sett byggingarreglugerð.  Nokkurn tíma tók að fá viðbrögð frá Kaupmannahöfn, en 1839 barst tilskipun um stofnun byggingarnefndar í Reykjavík.

Þann tíma sem Krieger var stiftamtmaður, eða  frá 1829 til 1836,  beitti hann sér fyrir því  að koma   skikki á skipulagsmálin í Reykjavík. Meðal  annars  stóð hann fyrir því   að Austurvöllur og Lækjartorg yrðu torg,  og harðbannaði að þar yrði byggt.   Krieger er því í raun guðfaðir Austurvallar og Lækjartorgs. Ennfremur lét hann endurreisa Skólavörðuna   fyrir  eigin reikning,   og kostaði veg suður með læknum og var það upphaf Lækjargötu.

Eins og áður sagði,  var 20. maí  1839 gefið  út opið bréf  um byggingarmálefni Reykjavíkur. Samkvæmt hinu opna bréfi  skyldi sett á stofn byggingarnefnd og hlutverk hennar vera að ákveða hvar götur og torg skyldu vera,  og mæla út lóðir undir hús og garða. Einnig var nefndinni falið að annast lóðaúthlutanir hverjum sem  óskaði  að byggja og skyldu lóðir vera ókeypis.  Ein  af  reglunum  sem nefndinni  bar i að framfylgja,  var,  að hús fyrir „iðnir“ sem brunahætta stafaði  af, skyldu   byggð á afskekktum stöðum.

Árið 1872 var gerð ný samþykkt um bæjarmálefni Reykjavíkur þar sem bæjarstjórninni var heimilað að  leggja götur og vegi einstakra manna og til almenningsþarfa og   annast viðhald þeirra. Ennfremur að gefa götum nöfn. Í framangreindri samþykkt er einnig getið um sérstaka byggingarnefnd, hafnarnefnd og veganefnd.

Árið 1894 voru síðan samþykkt lög þess efnis að heimilt var að byggja samföst hús með eldvarnargöflum á milli,  en þó ekki lengri en   36 metrar. Þannig að ekki  var lengur gerð krafa um að öll hús skyldu  staðsett   „sundurlaust“. Jafnframt var bygging torfhúsa bönnuð með öllu í Reykjavík. Byggingarnefndin fjallaði m.ö.o.um   skipulags-  og byggingarmál, eða „húsaskipulag og húsagerð“  eins og það var kallað.

Yfirmaður nefndarinnar var stiftamtmaður og síðar landshöfðingi. Þeir höfðu því úrskurðarvald í öllum skipulags- og byggingarmálum og hélst þetta fyrirkomulag til ársins 1901.

Upp úr 1880 hefst aðstreymi fólks mjög til Reykjavíkur og byggð tók að þenjast út fyrir kaupstaðarlóðina, einkum til austurs.  Árið 1892 voru samþykkt lög um stækkun  hennar til austurs og vesturs, en brátt varð lóðin enn  of lítil og um aldamótin var samþykkt sem lög stækkun hennar,  og samkvæmt þeim voru mörk hennar við Rauðarármýri og þaðan upp á Laugaveg, þaðan í suðurhorn Grænuborgartúna, síðan vestur á Mela að Sandgerðistúni vestur á Kaplaskjólsveg  og þaðan í enda Framnesvegar við Grandabót.

Þessi sífellda  stækkun kaupstaðarlóðarinnar var til komin af því,  að einungis mátti stunda verslun innan hennar, og áttuðu sumir  sig    ekki á þessu, þ.e.  muninum   á lögsagnarumdæmi Reykjavíkur og kaupstaðarlóðinni.

Árið 1901 voru  samþykkt lög þess efnis að bæjarstjórnin  skyldi framvegis ráða skipulags- og byggingarmálum kaupstaðarins, en fram að því hafði   landshöfðingi haft það hlutverk.

-Grundarfjörður

Árið 1800 voru íbúar Grundarfjarðar  456  en  árið 1900 hafði þeim fækkað í 298.

Grundarfjörður var  einn af elstu verslunarstöðum landsins,  en þangað sigldu fyrr á öldum þýskir kaupmenn og er staðarins  getið í tengslum við stofnun  einokunarinnar 1602.  Einnig í sambandi við  fyrri hugmyndir um verslunarstaði.

Árið 1786 var samkvæmt konungsúrskurði ákveðið að Grundarfjörður yrði einn af framangreindum 6 kaupstöðum.   Staðurinn  skyldi vera miðstöð verslunar, iðnaðar, útgerðar og stjórnsýslu á svæðinu.   Ennfremur skyldi  amtmaðurinn  í Vesturamtinu hafa þar aðsetur.   Útmæling kaupstaðarlóðarinnar fór fram 1787, eins og lögboðið var.  En fátt af því sem fyrirhugað var  á staðnum gekk þó  eftir. Vísir að verslun og iðnaði hófst að vísu,  en Grundarfjörður varð aldrei amtsmannssetur.

Snemma varð  því ljóst að Grundarfjörður yrði ekki sá staður sem stefnt var að,  og   1807  voru kaupstaðaréttindin afturkölluð,  en veitt að nýju 1816  þegar Ísafjörður var sviptur þeim. Engu að síður varð þróunin ekki eins og vonast hafði verið eftir,  þannig að 1836 voru kaupstaðarréttindin endanlega afturkölluð. Árið 1897 samþykkti svo Alþingi að gera Grafarnes við Grundarfjörð að löggiltum verslunarstað.

Verslun hófst síðan í Grafarnesi og nokkur hús voru  byggð, en ekki myndaðist  þar þéttbýli  fyrr en um fyrri hluta  20. aldar.

-Ísafjörður

Árið 1800 voru íbúar Ísafjarðar  20  en  árið 1900 voru þeir orðnir 1067.

Ísafjörður   hlaut kaupastaðarréttindi 18. ágúst 1786,  og hefst byggð á  Tanganum með því að  kaupstaðarlóðin var  mæld út 1787 og var hún  talin nægjanlega stór fyrir  30-35 kaupmannsfjölskyldur.  Að vísu höfðu elstu hús staðarins verið reist nokkru áður, eða á árunum 1734-1771,  í Neðstakaupstað. Um var að ræða   7 hús og standa 3 þeirra enn. Hinsvegar varð þróunin  ekki eins og til stóð, þannig að kaupstaðarréttindin voru felld niður 1816,  og staðurinn gerður að  óbreyttum verslunarstað,   og heyrði hann undir Grundarfjörð sem  hafði það ár    hlotið kaupstaðarréttindi á ný.

Fólksfjölgun á Ísafirði var  þó nokkur  á 19. öld,  enda atvinnulíf  með blóma,  þannig að  1860 voru þeir orðnir 200.  Á þessum tíma voru  5 verslanir og 20 íbúðarhús á staðnum. Sent var bænaskjal til til Alþingis 1865 um að veita Ísafirði kaupstaðarréttindi á ný og var það samþykkt. Jafnframt var  samþykkt 1866 að stofna þar byggingarnefnd og setja reglur um húsagerð og húsaskipulag. Í lýsingu frá 1880 kemur fram að mikill uppgangur sé  á Ísafirði, þar séu 5 verslunarhús og barnaskóli auk þess  sem að á staðnum séu bæjarfógeti, læknir og sóknarprestur.   Í annarri lýsingu af staðnum frá 1896, kemur fram að á Ísafirði hafi starfað bæjarstjórn í 30 ár og byggingarnefnd jafn lengi,  en að  árangur af starfi nefndarinnar megi vera betri.

-Akureyri

Árið 1800 voru íbúar þéttbýlisins Akureyrar samtals 39   en  árið 1900 voru þeir orðnir   1038.  En í sveitarfélaginu öllu, ásamt   dreifbýlinu,   var   íbúafjöldi  árið 1900  samtals 1347.

Akureyri hlaut kaupstaðarréttindin  1786,  og fljótlega hófst  undirbúningur að þróun  byggðar  í  Eyjafjarðarkaupstað, eins og hann var þá nefndur,  með því að lóð staðarins var mæld út,  en  hún hafði verið keypt fyrir konungsfé. Þróunin varð þó á þann veg, því  að nokkrir kaupmenn,  aðallega danskir sölsuðu  landið að mestu  undir sig fyrir íbúðar- verslunar – og geymsluhús,  að ógleymdum matjurtargörðunum.

Þróun Akureyrar gekk  misjafnlega til að byrja með, þannig að 1836 voru kaupstaðarréttindin feld niður sbr. konungsbréf  það ár, en þá  verða 22 staðir  í landinu  almennir verslunarstaðir eða kauptún að undanskilinni Reykjavík sem hélt  sínum kaupstaðarréttindum.

Í lýsingu frá 1839 segir að við Pollinn standi Akureyrarkauptún og að þar séu 21 timburhús og 17 torfhús,  og á staðnum búi  kaupmenn,  handverksmenn og þurrbúðarmenn. . Samkvæmt lýsingu   frá amtmanni  kemur fram,  að lítil von sé að ná aftur því landi sem
kaupmenn hafi sölsað undir sig,  þannig að sparlega verði að fara með það litla land sem eftir sé af kaupstaðarlóðinni. Ennfremur að yfirvöld hafi hingað til lítið skipt sér af húsbyggingum á staðnum,  þannig  að húsum sé „hreytt“ hverju innan um annað, án þess að nokkurri röð eða reglu hafi verið fylgt, og því sé staðnum mikil hætta búinn vegna húsbruna.

Miklar umræður urðu í kjölfarið um skipulagsmál bæjarins  og kom fram sú hugmynd að rétt væri að hefja þróun staðarins úti á Oddeyri.  Árið 1857 var svo byggingarnefnd stofnuð,  en mjög var umdeilt hversu mikil áhrif hún hafði,  og stundum voru ekki fundir   árum saman.

Árið 1862 fékk   staðurinn kaupstaðarréttindi að nýju,  og var  jafnframt heimilað að leggja Oddeyrina undir kaupstaðinn án þess þó að landið yrði keypt. Til er nokkuð greinargóður  uppdráttur af bænum frá 1865, eftir Höepfner kaupmann. Síðari hluta 19. aldar voru miklar umræður og deilur um landakaup bæjarins vegna mikillar fólksfjölgunar.  En   íbúafjöldinn tvöfaldaðist síðustu 10 ár aldarinnar, þannig að árið 1900 voru þeir 1038.

-Eskifjörður

Árið 1800 voru íbúar Eskifjarðar  136  en   árið 1900 voru þeir orðnir  267.

Árið 1786 var samkvæmt konungsúrskurði ákveðið að Eskifjörður skyldi öðlast kaupstaðarréttindi, og þann  19. mars  1787 fór fram útmæling kaupstaðarlóðarinnar í samræmi  við fyrirmæli konungs. Gert var ráð fyrir því að á staðnum skyldu rísa  vöruskemmur kaupmanna, iðnaðarstofnanir, hús handverksmanna, íbúðarhús og vatnsmyllur.

Rentukammerið í Kaupmannahöfn lenti hinsvegar í basli við að staðfesta málefni hins nýja kaupstaðar, því hagsmunaaðilar að Útstekk,  utar í firðinum,  reyndu að koma í veg fyrir að kaupstaðurinn á Eskifirði yrði að veruleika.  Þrátt fyrir þetta mótlæti reis byggð á Eskifirði en hún varð ekki mjög fjölmenn, þannig að 1836 ákvað rentukammerið að svipta staðinn kaupstaðarréttindum og varð hann þar með löggiltur verslunarstaður.

Eskifjörður átti eftir þetta erfitt uppdráttar,  og kom fram hjá ýmsum innlendum  embættismönnum að Seyðisfjörður væri betur í sveit settur sem aðalverslunarstaður Austfirðinga. Um 1880 verður nokkur breyting á högum fólks, þegar Norðmenn hefja síldveiðar. Og 1887 verður á ný tiltekinn umbreyting á högum Eskfirðinga þegar samþykkt var  að stækka verslunarlóðina og á næstu árum verða framfarir á staðnum. Íbúum fjölgar,  þannig að árið 1890 eru þeir 190 og 1902 eru íbúarnir 302.  Á næstu árum skipar  Eskifjörður  sér  í hóp fjölmennustu verslunarstaða landsins.

-Vestmannaeyjar

Árið 1800 voru íbúar Vestmannaeyja 173  en  árið 1900 voru þeir  orðnir 275.

Sá staður  sem einna helst hafði möguleika á því að þróast sem þéttbýlisstaður voru Vestmannaeyjar. Ástæður voru fyrst og fremst gjöful   fiskimið umhverfis eyjarnar,  og að þar af leiðandi  þróaðist þar verslun  og ýmis viðskipti. Heimildir eru   um að enskir kaupmenn hafi snemma á 15. öld rekið þar verslun og jafnvel haft vetursetu.

Vestmannaeyjar hlutu kaupstaðarréttindi 1786 með sama hætti og hinir staðirnir fimm og var kaupstaðarlóðin  mæld út 1787. Lóðin náði þó  ekki yfir eyjarnar allar,  og tengdist það mál tilteknum stjórnsýsluvandamálum Út úr kaupstaðarlóðinni voru  mældar  lóðir sem voru afhentar einstaklingum.

Miklar vonir voru bundnar við kaupstaðinn og að þar myndi rísa blómleg byggð en það brást af ýmsum ástæðum. Verslun og útgerð tók  að dragast saman, þannig að með konungsákvörðun  1807 voru kaupstaðarréttindin  felld niður, og  með úrskurði  1836 urðu eyjarnar almennur verslunarstaður með sama hætti og 22 aðrir staðir. Umræður voru um að veita Vestmannaeyjum kaupstaðarréttindi á ný,  en úr því varð þó ekki fyrr en 1913. Segja má að verslun í eyjunum hafi haft á sér yfirbragð einokunarverslunar,  því þar var  aðeins ein verslun,  á vegum Bryde kaupmanns  sem var danskur, og  réði  hann mestum hluta  verslunar  í eyjunum.   Meðal annars  keypti  hann og flutti út  allan fisk  fram að aldamótum 1900.

Í ferðabókum frá 18. öld er minnst á húsakynni eyjarskeggja og þau talin með lakara móti, en á síðari hluta 19. aldar verða hinsvegar   stakkaskipti til hins betra, og farið að reisa þar timburhús á sama hátt og á öðrum stöðum.  Vert er  að taka fram að Landakirkja,  var eitt af steinhúsunum 8,  og  reist 1774-1778   úr  tilhöggnu grjóti. Fyrsta tvílyfta timburhúsið í Eyjum var reist 1883 og barnaskóli  úr höggnu móbergi um svipað leyti.   Fjöldi íbúðarhúsa var talinn  hafa verið  13 árið 1879,  en 1887 voru  þau  34.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Örnólfur Hall

    — Skúli Magnússon landfógeti stofnaði ásamt öðrum Innréttingarnar 1752. Það voru um 10 hús sem mynduðu aðalgötuna Aðalstræti.
    — Í Sögu Reykjavíkur (Þorleifur Óskarsson) segir að um hundrað manns (iðnaðarmenn) hafi verið í vinnu og umsvifin um 10% af heildarútflutningi landsins.
    — Yfir 20 manns dóu af fransós, sem barst til bæjarins, margir iðnmenntaðir (Lýður Björnsson 1998).
    — Það teygðist úr Víkurgarði til austurs við fjölgunina (Árni Óla 1966).

    — Fróðlegt væri að vita hve margir íbúar voru í Reykjavík, þegar mest lét, á þessum tíma ?

    • Örnólfur Hall

      — Það má kannski ætla að ástalífið hafi verið blómlegt í iðnaðarþorpi Skúla.

  • Ólafur Jónsson

    Ég gerði mér ekki grein fyrir hvað fáir bjuggu í Þéttbýili hér á landi fyrir 100 árum—–aðeins 6000 í Reykjavík!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn