„Síðbúin þéttbýlismyndun“ er samantekt um skipulagsmál eftir Sigurður Thoroddsen arkitekt.
Þetta er einkar áhugaverð yfirferð um sögu búsetu á Íslandi frá öndverðu og spurt er hvers vegna þéttbýli myndaðist ekki fyrr hérlendis en raun ber vitni. Að baki samantektarinnar liggur mikil rannsóknarvinna og þekking sem ekki hefur verið lögð fram með þessum hætti áður svo ég viti til. Þarna kemur „Vistarbandið“ til umræðu sem lítið er talað um og kemur fyrir sjónir sem einhver útgáfa af þrælahaldi hér á landi.
Gefum Sigurði Thoroddsen arkitekt orðið:
Almennt
Ísland hafði verið byggt í 1000 ár, þegar fyrstu þéttbýlisstaðirnir hófu að myndast fyrir alvöru, þannig að saga þeirra er ekki löng, aðeins um 130 ár. Í eftirfarandi samantekt verður fjallað um aðdraganda þess að þéttbýli myndaðist, og hversvegna þróunin varð svo langt á eftir öðrum þjóðum. Tímabilið 1300 til 1900 hefur verið valið, þar sem það er nokkuð dæmigert fyrir það sem hefði getað orðið, sé tekið mið af þeirri þróun sem varð hjá nágrannaþjóðum á sama tíma.
Árin 1262-1264 eru talin upphaf tímabils friðar og framfara á Íslandi. Á þessum tíma lauk Sturlungaöld, þ.e. borgarastyrjöld sem staðið hafði í 44 ár, og friður kemst á. Um sama leyti kemst Ísland í konungssamband við Noreg og verður partur af áhrifasvæði þeirra. Árið 1380 verður landið hluti af Danaveldi og 1397 af Kalmarsambandinu, og kemst undir miðstjórnar- og framkvæmdavald hins nýja stórveldis á Norðurlöndum, og þar með tiltekinn stöðugleika. Þessi stöðugleiki hefði getað orðið grundvöllu þéttbýlismyndunar í landinu, en varð þó ekki. En hver var ástæðan fyrir þessari síðbúnu þróun?
Sú saga var sögð af breskum ferðamanni sem kom hingað til lands 1870, og hitti Jón Hjaltalín landlækni, sem upplýsti nokkuð upp með sér, að um þessar mundir væru 1000 ár liðin frá upphafi byggðar á Íslandi. Útlendingurinn fór í ferðalag um landið, og í lok ferðarinnar hitti hann landlækninn á ný og sagði: „ Það er lygi að Ísland hafi verið byggt í 1000 ár. Hvað hafið þið verið að gera. Hér sést ekkert mannvirki, hvert sem litið er.“ Þessi umsögn útlendingsins segir allt sem segja þarf um þróun og ástand mála.
En eins og kunnugt er, þá er þéttbýlismyndun uppspretta framfara, velmegunar og bættra lífsgæða. Í stað einhæfs bændasamfélags í dreifbýli, er þéttbýli gerjunarstaður hugmynda og samskipta, þar sem nýjar atvinnugreinar og frjótt samfélag fær að þróast. Íslenskt þjóðfélag dróst hinsvegar aftur úr öðrum löndum.
Fyrstu þéttbýlisstaðir á Íslandi, sem hægt var að kalla því nafni, mynduðust ekki fyrr en um 1880, en áður höfðu hér varla myndast þorp. Samgöngur voru ófullkomnar um stíga, eða á sjó með tiltölulega litlum bátum. Hjólið var ekki tekið í notkun á Íslandi fyrr en upp ár 1880, með innleiðingu hestvagna, en fram að því höfðu klyfjahestar verið notaðir til flutninga á landi, eða að menn báru klyfjarnar á sjálfum sér.
Um sama leyti höfðu borgir og bæir með þróuðum flutningsleiðum staðið um aldir í Vestur-Evrópu. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram, og er ein sú, að á Íslandi hafi löggjafar- og dómsvald að mestu verið án miðstjórnar- og framkvæmdavalds, þannig að hér myndaðist hvorki valdamiðstöð né þéttbýli af neinu tagi, sem hefði getað skapað aðstöðu til framfara. Engir hernaðarlega mikilvægir staðir voru í landinu, sem voru upphaf margra borga í öðrum löndum. Hið staðnaða bændaþjóðfélag skapaði ekki skilyrði til þéttbýlismyndunar, og engin viðleitni var sýnd af hálfu innlendra aðila að breyta stöðu mála. Valdamiðstöðin var lengstum í Kaupmannahöfn og sömuleiðis miðstöð mennta, menningar, iðnaðar og verslunar.
Það er ekki fyrr en með stofnun Heimastjórnarinnar 1904, að framkvæmdavaldið flyst frá Danmörku til Íslands, en fram að því hafði einungis löggjafarvald og dómsvald verið í höndum Íslendinga.
Skilgreining þéttbýlis
Sú skilgreining á þéttbýli sem oft er notuð, er að um sé að ræða svæði, þar sem lágmarksfjöldi bygginga og íbúa eru á flatareiningu. Til dæmis að tiltekin byggð s.s. einstakt íbúðarsvæði, sumarhúsbyggð eða jafnvel vinnubúðir séu þéttbýli. Samkvæmt íslenskum reglum er miðað við 50 íbúa eða fleiri og að ekki sé meira en 50 metrar á milli húsa, en á hinum Norðurlöndunum er miðað við 200 íbúa. Þetta er ófullnægjandi skilgreining, því samkvæmt henni er gengið út frá tilteknum fjölda húsa eða mannvirkja á fyrirfram afmörkuðu svæði, án þess að fjalla um eða gera lágmarkskröfur um þá starfsemi sem þar fer fram. Hér er í raun verið að fjalla um afmarkaða húsaþyrpingu eða samansafn húsa, en ekki þéttbýli.
Skilgreiningar á þéttbýli eru margvíslegar, en sú sem oftast er notuð, er að um sé að ræða skilgreint svæði þar sem er föst búseta, þ.e. tiltekin íbúa- og íbúðarfjöld, stjórnsýsla, verslun, viðskipti, iðnaðar og framleiðslustarfsemi af ýmsu tagi. Ennfremur er það grundvallaratriði að staðurinn sé í góðum samgöngutengslum við sitt áhrifasvæði. Fleira þarf að koma til, s.s. fjölbreytileiki, lágmarks hagræn staða og gott menntunarstig. Þéttbýli er þannig ekki samansafn húsa, heldur einnig sú starfsemi sem þar fer fram.
Vistarbandið
Talið var að vistarbandið, sem upphaflega verið sett á árið 1490, að undirlagi stórbænda (Piningsdómur), hafi hamlað þéttbýlismyndun í landinu, eða jafnvel komið í veg fyrir hana. Þetta fyrirkomulag var við lýði í um 400 ár, eða til 1894. Settar hafa verið fram ýmsar kenningar um hversvegna vistabandið var sett á. Ein er sú að bændur hafi viljað halda í ódýrt vinnuafl, eða að ráðamenn talið atvinnutækifæri stopul í þéttbýli, og þar með boðið hættunni heim að leyfa þéttbýlismyndun. Ennfremur er ein skýring að reynt hafi verið að koma í veg fyrir offjölgun þjóðarinnar. Ráðamenn töldu að landið bæri takmarkaðan íbúafjölda, og að með takmörkunum væri hægt að koma í veg fyrir fátækt og eymd, og þar með að fólk lenti á framfæri sveitar.
En hvað var vistarbandið. Algengasta skilgreiningin var sú, að ef búalið réð ekki eigin búi, skyldu það vera á heimili bónda og eiga þar grið. Venjan var sú að fólk réði sig í ársvist í senn. Að þeim tíma liðnum gat bóndi hrakið hjú af heimili sínu. Bóndi réð vinnu hjúa sinna og fékk af henni allan arð, hvort sem vinnan var unnin á heimili hans eða utan. Á móti bar bóndi ábyrgð á að því að hjú hans fengju fæði, klæði og húsaskjól allan ráðningartímann. Hjúum var bannað að giftast, til að koma í veg fyrir barneignir, sem gátu orðið byrði á framfæri sveitarinnar. Talið er að á 19. öld hafi um 25% landsmanna búið við þessi kjör, sem var það hæsta í Evrópu. Ennfremur að flestir íslenskir bændur voru leiguliðar og áttu ekki jarðir sínar.
Mjög var hert á vistarbandinu árið 1746, þegar Húsagatilskipun, sem kvað á um réttindi og skyldur vinnuhjúa, var sett á. Húsaginn færði húsbændum nær ótakmörkuð völd yfir vinnuhjúum sínum, og þeim jafnvel bannað að fara milli bæja, nema með leyfi húsbænda. Viðurlög við broti á tilskipuninni voru ströng og líkamleg tyftun uppálögð, jafnvel í smæstu málum, en tukthúsvist beið þrjóskufullra og óhlýðinna hjúa.
Mögulegt var að losna undan vistarbandinu og gerast lausamaður, ef viðkomandi eignaðist verðmæti, og réðu menn þá atvinnu sinni sjálfir, án þess að vera bundnir við sérstök býli. Sumir lausamenn stunduðu einnig sjóinn upp á eigin reikning. En lausamenn þurftu að hafa efnast allvel til að uppfylla þessi skilyrði, eða að eiga sem svaraði 10 kúgildum. Bann við lausamennsku var síðan sett á árið 1783, og samkvæmt því var lausmennska bönnuð öllum mönnum.
Því hefur líka verið haldið fram, að ástæða þess að vistarbandið var sett á, hafi stafað af því hversu fátækt sveitasamfélagið var, enda stóð tæknistig þjóðarinnar nánast í stað, eða að því fór aftur frá landnámsöld og langt fram á 19. öld. Til dæmis þegar náttúruhamfarir dundu yfir, og/eða óáran vegna sjúkdóma, að þá var þjóðin engan veginn í stakk búin að bregðast við.
Hvers vegna að kalla þetta „Vistarband“ þegar þetta var bókstaflega þrælahald? Ég hvet sagnfræðinga og aðra að hætta að kalla þetta eitthvað annað en þrælahald!
Læk á þetta!
Þetta hefur verið hörmulegt líf fyrir vesalings fólkið. Engin von til þess að losa úr fjötrum vistarbandsins. Nú skilur maður betur af hverju menn lögðust út eða fundu sér ból upp til heiða á harðbýlum svæðum og lifðu frá hendinnni til munnsins.
Maður getur vel ímyndað sér að duglegt vinnufólk hafi verið selt milli bæja þó það komi hvergi fram, verið „svört“ viðskipti. Bændur hljóta að hafa skipst á með vinnufólk eins og annað lausafé!.
Það er von að þessi sárþjáða þjóð sé smátt og þröngt hugsandi enn þann dag í dag.
Skortur á þéttbýlismyndun hefur verið steinn í götu verslunar og þjónustu og menningu þjóðarinnar um aldir.
Smá athugasemd. Margt í fornleifarannsóknum virðist sýna að þéttbýli að miðaldasið var víða á Íslandi framundir siðaskipti. Klaustur- og Kirkjustaðir voru fjölmennir og stórbýli mörg höfðu um og yfir fimmtíu manns í heimilisfesti. Á Reykjanesi í nálægð við Krísuvik er að finna rústir stórbýlis þar sem bjuggu hátt í 50 manns.
Áhrif kónga eru líka ofmetin, fyrir siðaskipti. Nám íslendinga skorðaðist heldur ekki við Kaupinhöfn fyrr en eftir siðaskipti.
Fyrir siðaskipti sóttu menn nám til Englands, Frakklands og Þýskalands og sáluhjálp sóttu þeir fótgangandi til Rómar.
Einangrun okkar hefur alltaf verið stórlega ýkt, en það breytir auðvitað engu um vistabandið, sem var okkar útgáfa af lénsskipulagi.
P.s.
Við höfum að vísu tekið upp kórrétt alvöru lénsskipulag nú með kvótagreifafyrirkomulaginu, sem notar verðbólgu til skattheimtu.
Takk, vonandi kemur meira.
„Vistarband“ hið síðara má segja að hafi hafist 2008 og er ekki lokið enn.
Þá gerðist það, sem ekki hefur enn gerst hjá öðrum þjóðum nálægt okkur þéttbýlismyndun hætti í höfuðstaðnum og nágrenni. (Sjá gögn hjá Hagstofunni)
Það væri fróðlegt að sjá einhvern greina þetta betur.
Þetta byrjar vel.
Óhuggulegt að lesa um vistarbandið og að það hafi verið virkt fram á daga langafa og langömmu fyrir bara 120 árum.
Við höfum sem sagt nánast alltaf verið kúguð þjóð!
Er nema von að við séum hlaðin þrælsótta!!!!! Og að þöggun allskonar eigi hér góðan jarðveg í þjáðri þjóðarsálinni.
Afar mínir og ömmur voru um tvítugt þegar vistarbandið var lagt af.
Í mínum huga er þetta ótrúlega stuttur tími.
Og ég er sammála því að þessi þrælsótti og ótti fólks við að tjá sig um málefni sem alla varðar á að einhverjum hluta rætur sínar að rekja til 400 ára ánauð vistarbands alþýðunnar hér á landi.