Sunnudagur 28.12.2014 - 16:25 - 9 ummæli

Sigurður Pálsson

 

Það var sérlega skemmtilegt og fróðlegt að lesa bók Sigurðar Pálssonar „Táningabók“ sem kom út núna fyrir jólin.

Bókin fjallar um tíðaranda sjöunda áratugar síðustu aldar og tengir hann sinni lífsreynslu og vangaveltum.  Sérstök áhersla er lögð á unglingamennigu sem var einstök fyrir um 50 árum. Í bókinni fjallar Sigurður um bókmenntir, myndlist, leiklist og tónlist.

Hann fjallar líka um  byggingarlist og skipulag og staðarprýði á sérlega persónulegan og skemmtilegan hátt.

Sigurður skrifar  um glæsibyggingar við Hagatorg, Melaskóla, Hótel Sögu, Háskólabíó og Neskirkju og lýsir hvernig örfá góð hús hafi haft mótandi áhrif á hann þegar hann segir.:

„Þessar byggingar upptendruðu skynjun á arkitektúr hjá sveitapiltinum. Ég var kominn í borg, litla knáa borg“

Ég er uppalinn á svipuðum slóðum og Sigurður og varð í æsku fyrir verulegum áhrifum frá þessum sömu byggingum og hann gerir að umtalsefni í nágrenni okkar.

Melaskólinn t.a.m. var áhrifavaldur. Vönduð og rökræn uppbygging, allur frágangur utan sem innan ,ásamt listaverkum Barböru Árnason gerðu það að verkum að umgengnin var með öðrum hætti en víða annarsstaðar. Það báru allir virðingu fyrir byggingunni og umgengust hana í samræmi við það.

Sigurður fjallar í bók sinni um margar byggingar og álitaefni í borgarskipulaginu og tengir upplifun sína og viðhorf fyrri reynslu eins og um vínsmökkun væri að ræða.

Hér að neðan er drepið á fjórum skemmtilegum dæmum um hvernig Sigurður Pálsson les hús og borgarumhverfi.

 

HBcrop

Um Háskólabíó segir hann.:

„Blátt ullaráklæði á þúsund sætum. Risastórt rými,  feiknarleg ofthæð. Man hvað mér þótti þessi salur tignarlegur í fyrsta skipti sem ég kom þarna. Í fagurfæðilegum reynslubanka mínum voru útirými, sem samt voru afmörkuð, þannig að tilfinning kviknaði fyrir gríðarstóru tignarlegu innirými. Fremst meðal jafningja er vitanlega Ásbyrgi (……..)  Í Háskólabíói fann ég í fyrsta skipti fyrir risastóru innirými sem ber í sér kenndir útirýmis vegna stærðar og hlutfalla.“

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/09/27/haskolabio-e-t-v-besta-hus-a-islandi/

Um stjórnarraðið við Lækjartorg segir hann:

„Stjórnarráðið hefur fagurfræðilegan galla. Það er engu líkara en húsið sé á leiðinni niður í svörðinn. Trúlega eru ítrekaðar skálínur hússins ábyrgar fyrir þessari tilfinningu, það er eins og þær vilji hverfa niður í jörðina og húsið þar með líka, það hafi einsett sér að sökkva, það sé framtíðarplanið“

 

IMG_5386-cr2

Svo fer hann fögrum orðum um Norrænahúsið og lýsir því betur enn nokkur annar sem ég þekki:

„Yndislegt hús, yst sem innst. Stílhreint og kurteist í stærð og hlutföllum að utan og rímar dásamlega við fjallahringinn og allt umhverfið (þetta var 1968 þegar blátt þak Norrænahússins kallaðist á við fjöllin í fjarska) næmt og nákvæmt í útfærslu á innra byrði í stóru sem smáu, jafnt í hinu magnaða bókasafnsrými sem og í unaðslegum smáatriðum. (……) Þetta hús er eins og raunverulegur vinur sem alltaf hefur eitthvað nýtt fram að færa, húsið ræðir við mann af kurteisi, fágun og kankvísi í hvert einasta skipti.“

Þarna persónugerir Sigurður bygginguna og segir hana eins og kurteisan gamlan vin. Þetta segir skáldið en þetta gera ekki margir arkitektar. Ég þekki einn og það er Valdís Bjarnadóttir arkitekt sem talar um hús á svipuðum nótum.

slides-myndir0821lett

Í Táningabók fjallar Sigurður um fjölmörg hús og skipulagslegt samhengi hlutanna af sérstöku innsæi. Eftirfarandi texti hefði eins getað verið kafli í AR2010-2030 eða hluti af forsögn vegna hverfaskipulags. Hann er reyndar öðruvísi vegna þess að hann er dýpri og mun betur skrifaður en gengur og gerist í skipulagsforsendum. En á einum stað skrifar hann um næsta nágrenni sitt á Högunum:

„Þessi verslunarklasi á jarðhæð Dunhagablokkarinnar var félagslegur kjarni hverfisins. Í búðunum og ekki síður á stéttinni framan við Dunhagabúðirnar tók fólk tal saman, þarna átti allt hverfið lifandi samverustundir. Þetta vr vitnisbrður um fínvefnað borgar,  frjáls samskipti íbúanna á hlutlausu svæði.

Borgin var vissulega fámennari en núna en hún hafði samt ýmsa traustari eiginleika alvöruborgar.  Menn keyrðu ekki tíu kílómetra eftir mjólkurhyrnu, bílar voru vissulega færri og göturnar ómalbikaðar. En var það virkilega markmið okkar með því að malbika göturnar að geta keyrt 10 kílómetra eftir því sem nú heitir ekki mjólkurhyrna heldur mjólkurferna?“

Myndin að ofan er tekin úr herbergisglugga mínum í Símablokkinni, sennilega árið 1962-64 eða á þeim tíma sem Sigurður bjó í „Dunhagablokkinni“

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/07/24/matvoruverslanir-aftur-inn-i-ibudahverfin/

++++++++

Það var verulega gaman að ferðast með Sigurðu hálfa öld aftur í tímann þegar menningarbylting átti sér stað um allan hinn vestræna heim. Menningarbylting sem átti rætur sínar að rekja til grasrótarinnar og hreyfiaflið voru táningar áratugarins 1960-1970.

Að neðan koma nokkrar færslur sem tengjast efninu og ummæli þriggja skálda um byggingalist og fagurfræði:

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/07/24/matvoruverslanir-aftur-inn-i-ibudahverfin/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/10/29/thorbergur-thordarson/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/10/22/ad-lesa-hus/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/07/24/%e2%80%9cdyrdin-a-asynd-hlutanna%e2%80%9d/

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/09/27/haskolabio-e-t-v-besta-hus-a-islandi/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/06/06/david-stefansson-fra-fagraskogi/

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Hilmar Þór

    Tilvitnun í Sigurð:

    „Þar segir Piano: Ég verð stöðugt sannfærðari um að listin getur bjargað heiminum. Og fegurðin getur bjargað heiminum. Þetta er ekki bara einhver heimskuleg, rómantísk hugmynd, þetta er sannleikur. Fegurðin er tilfinningareynsla, eitt af fáu sem getur keppt við annars konar og hættulega tilfinningareynslu: völd, stríð, sigur og ofbeldi. Listin er á vissan hátt eins og ástin: hún skiptir máli, hún er sterk“.

    Þetta er hugmynd sem endurómar í fyrsta kvæði ljóðaflokksins Raddir í loftinu í nýju bókinni. Og þetta er afar mikilvægt.


    Hvað sem hver segir
    byggir friður á réttlæti

    Hvað sem hver segir
    er fegurðin ekki skraut
    heldur kjarni lífsins

    Já gefðu mér rödd
    gefðu mér spámannsrödd
    til að bera fegurðinni vitni

    Gefðu mér rödd
    til að bera réttlætinu vitni

  • „Bernskubók“ Sigurðar Pálssonar er dásamleg:hlaðin hlýju og virðingu fyrir manneskjum og umhverfi.Örfáar setningar Sigurðar um Norræna húsið segja allt um Aalvar Aalto:frá honum streymir í stóru sem smáu kraftur göfuglyndis og hugmyndaflugs,byggingar hans tala við manneskjuna með
    ástúð og sóma.

  • Guðrún Þorsteinsdóttir

    „Þetta hús er eins og raunverulegur vinur sem alltaf hefur eitthvað nýtt fram að færa, húsið ræðir við mann af kurteisi, fágun og kankvísi í hvert einasta skipti.“

    Það er ekki hægt að lýsa Norræna Húsinu betur.

  • kristján smiður

    Norræna húsið er snilld.

  • Steinarr Kr.

    Mikið var Háskólabíó fallegra áður en það var byggt við það.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Lýsingar Sigurðar á borginni á þessum árum – fyrir hálf öld – eru vissulega skemmtilegar, blátt áfram og vekja hjá mér, sem átti bernsku og æskuslóðir í Vesturbænum, ljúfsárar endurminningar frá þeim árum þegar allt var ferskt, nýtt og spennandi. Sigurði tekst alveg makalaust vel að lýsa tíðarandanum á þessum árum. Á hinn bóginn verður ekki framhjá því litið að Reykjavík var „hrá“ og „ófullgerð“. Einsog höfundur bendir réttilega á voru flestar götur utan miðbæjarkjatnans malargötur, þar sem rykmekkir þyrluðust upp í þurrkum en myndaði forarsvað í rigningum. Þess konar heilsuspilandi umhverfi þætti ábyggilega ekki nokkurri manneskju boðlegt á okkar dögum.

  • Gunnar Gunnarsson

    Bráðskemmtileg bók eins og hinar tvær. Arkitektúr umfjöllunin er hressandi. MR og nyji Hæ(ð)stirèttu fá skemmtilega umsögn!

  • Haukur Kristinsson

    Biðst afsökunar á ummælum mínum, hafa lítið með efnið að gera, veit ekkert um arkitektúr. En þegar ég sá nafnið Sigurður Pálsson, fékk ég löngun til að tjá mig.
    Er oftast erlendis yfir Hátíðina og fæ þá oft bækur sendar frá kærum vinum. Bókina sem ég fékk núna var „Bernskubók“ eftir Sigurð Pálsson. Hafði ekki lesið neitt eftir Sigurð, vissi ekki að hann væri til. Skammast mín fyrir „Bildungslücke“.
    En mikið naut ég þess að lesa texta Sigurðar, „ljúfur lestur og mannbætandi“ eins og Reynir Traustason orðaði það. Ekki skemmdi frábæra frásögn Sigurðar að ég er kunnugur þessum slóðum. Hafði verið sendur í sveit, smá polli, sumar tvö í Katastaði, í Núpasveit.
    Norður-Þingeyjarsýslan var hinsvegar kærustu slóðir föður míns, Kristins Bjarnasonar. Þótt fæddur í Hallstúni í Holtahreppi í Rangavallarsýslu, lenti hann 14 ára gamall, með nær enga menntun norður á Melrakkasléttu og þaðan strax í Presthóla, þar sem hann var vinnumaður í 15 ár. Síðan fór hann að byggja kirkjur þarna fyrir norðan með vini sínum Ingvari Jónssyni. Á Raufarhöfn, á Snartarstöðum og einnig á Víðirhóli.

    Honum þótti afar vænt um Norðursýsluna, „það gerir líklega æskan“, eins og hann orðaði það.

  • Hjörleifur

    Frábær bók. Góður texti Sigurðar um myndlist, kúbismann og málverk þeirra Gunnlaugs og Herdísar. Laus við viðjar vanans sem háir listfræðingum þegar þeir skrifa um listir. Listfræðingar ættu ekki að skrifa um listir þeir eru svo staðlaðir. Sigurður er frjáls og sýnir það.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn