Föstudagur 12.03.2010 - 14:17 - 8 ummæli

Sítrónupressa Philippe Starck

phillipe

Árni Ólafsson  skrifaði athugasemd við bloggið í gær þar sem hann veltir fyrir sér sívakandi spurningunni um  hvort við þurfum að uppfylla einhverjar kröfur til hýbýla umfram þarfir hellisbúans. Bara ef einhver hönnunarfyrirbrigði eftir stjörnurnar sé að finna í viðkomandi hýbýlum þá sé náð ásættanlegum standard!. Árni nefndi þarna Philippe Starck.

Öll athugasemd Árna er umhugsunarverð.  Ég man eftir því að í þáttunum “Innlit/Útlit”  í sjónvarpinu var oft húsahönnun í fókus.  En ég man ekki eftir því að nokkurn tíma hafi verið fjallað um húsin heldur voru skoðaðir hönnunargripir í hýbýlunum,  efni og hvar varan var keypt og hvað iðnaðarmennirnir hafi verið liprir.

Ég hef oft velt fyrir mér stjörnuarkitektum og skoðað þá með gagnrýnum augum.  Til dæmis hina þekktu sítrónupressu Philippe Starck.

Starck hannaði  sítrónupressu sem vakti mikla athygli á sínum tíma vegna formsins og hugmynavinnu sem að baki lá. Pressan er úr málmi og lítur út eins og geimvera úr sögunni “Innrásin frá Mars” (War of the worlds) Hún virkar ágætlega sem munur til þess að skreyta heimili með,  en er afleit sem sítrónupressa.

Ætlast er til þess að ílát sé sett undir pressuna og þegar sítrónunni er þrýst á hana þá drýpur safinn niður í ílátið. Markmiðin eru góð en árangurinn slæmur þegar notagildið er athugað. Venjuleg billeg sítrónupressa úr IKEA er margfalt betri nytjahlutur.

Þegar pressa á sítrónu í “listaverki” Starcks þá er ekki víst að hún passi við pressuna og er annað hvort of stór eða of lítil. Vökvinn rennur  niður í glasið en það gera sítrónusteinarnir líka ásamt því aldinkjöti sem maður vill etv. ekki hafa í safanum. Þegar glasið er tekið undan halda leifar safans áfram að leka niður á borðið og suppa það út.  Í raun er sítrónupressa Philips Starck ónothæf af þessum sökum.

Þegar þessu er lokið og kemur að þrifum á pressu Starcks, þá passar hún illa inn í uppvottvélina.  Efni pressunnar þolir ekki uppþvottavélina og hún skemmist.

Þá vaknar spurningin hvort nútíma nytjahlutur, sítrónupressa, sem þjónar illa hlutverki sínu og þolir ekki uppþvottavél sé góð hönnun?

IMG_0778létt

Til samanburðar birti ég mynd af pressu frá IKEA. Hún var keypt fyrir einum 30 árum og er búin að fara um það bil 1560 sinnum í uppþvottavélina og vera þar i 90 mínútur í hvert sinn. Það sér ekki á henni og hún á eftir að duga í 30 ár í viðbót. IKEA  pressan passar á allar stærðir sítróna og skilur frá þá hluta sítrónunnar sem maður óskar ekki eftir og er þrifalegri. En hún er ekki beinlínis skart sem stillt er upp til sýnis.

catcher-by-joseph-joseph-1[1]catcher-by-joseph-joseph-2[1]

Til samanburðar eru birtar hér myndir af nýrri pressu eftir  hönnuði Joseph Joseph sem er nýstárleg og manni sýnist hún taki á starfrænum grunvallaratriðum sem skipta máli þegar um nytjahlut er að ræða.

IMG_0781lett

Spurning er hvort  pressa Starcks sé ekki fyrst og fremst skraut á borð við verkjastyttur Bing & Gröndal þar sem hver skreytir sín hýbýli eftir sínum smekk og ekki ætlast til neinna praktískra nota ?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Starck er löngu úreltur.

  • Sammála. Mér finnst hún rosalega flott. Hún minnir mig á drápsvélarnar úr innrásinni frá Mars. Hef lengi spáð í að fá mér svona því Vala Matt segir nú að hún sé aðal málið. Hvort hún virki eða ekki? þurfti eitthvað að virka 2007 til þess að vera fannsí og flott? Nei, nei. Það eina sem skipti máli var að það leit vel út á yfirborðinu.

    Fari 2010 norður og niður 🙂

  • Synd að hún skuli ekki virka því sú hefur útlitið aldeilis með sér.

    Eins og eilífðarvélar Endurreisnarmannanna.

    Hver annarri fallegri.

    En virkuðu ekki.

  • Gunnar Á.

    Ég bý í helli með moldargólfi en er samt ekki púkó því ég á sítrónupressu Philippe Starcks. Hvað er símanr. í Innlit/Útlit?

    Í ganni fór ég að skoða sítrónupressur og rakst á þessa:
    http://www.youtube.com/watch?v=R_F-qrBmtY8
    http://www.amazon.com/Lekue-Lemon-Squeezer-Set-2/dp/B000SC47FO
    Sílikontískan nær nýjum hæðum…

    Annars hefur Starck viðurkennt að tilgangur sítrónupressunar sé einmitt til að vekja eftirtekt.

  • Hef prófað margar, en eftir að ég fór að drekka sítrónuvatn á hverjum morgni, er ég aftur farin að nota gömlu glerpressuna, sem er bæði falleg og notadrjúg.

  • Þetta er skúlptúr sem hugsanlega má nota sem sítrónupressu.
    Ekki sítrónupressa sem má nota sem skúlptúr.
    Mér var gefin ein svona og þekki þetta vel.

    Léleg hönnun en sæmileg myndlist.

  • mæli með þessari PS sítrónuoressu til að klóra sér í hausnum.

  • Best er auðvitað þegar notagyldi og fegurð fer saman og það gerist oft en samt of sjaldan. Ég nefni nánast öll húsgögn Alvars Aalto, Arne Jacobsen, Bruno Mattson, Paul Kjærholm, Mies van der Rohe svo maður gleymi nú ekki lömpum, Louis Paulsen.

    Svo er það Thonet stóllinn sem er meira en 150 ára gamall og „still going strong“

    Starck er hryllilega ofmetin og nafn hans er borið uppi af merkjasnobburum sem ekki skilja hvað góð hönnun nytjahluta gengur útá. Honum er haldið uppi af auglýsingum og þotuliðinu.

    Þessi þrjú dæmi sem nefnd eru um sítrónupressu eru mjög góð.

    Ein ódýr, virkar en er ekkert fyrir augað og er geymd inni í skáp.

    Önnur er dýr, fyrir augað en virkar ekki. Hún er höfð til sýnis til þess að sýna að eigandinn á peninga og “góðann” smekk!

    Sú þriðja er falleg eins og Stanley klaufhamar og virðist geta þjónað hlutverki sínu. Það á það sama við hana og klaufhamarinn að það er gaman að horfa á hana meðan maður notar hana. Hún er líka geymd inni í skáp.

    Hvar fæst hún annars?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn