Miðvikudagur 25.04.2012 - 09:13 - 8 ummæli

Sjálfbært skipulag – Málþing í dag

Í dag miðvikudaginn 25. apríl  verður haldið málþing á vegum Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar HÍ  um sjálfbært skipulag.

Í fréttatilkynningu segir:

“Margir veigra sig því við löngum akstursleiðum, t.d. frá úthverfunum, og vilja frekar búa miðlægt. Til að geta dregið úr akstri og mætt óskinni um að búa miðlægt þarf að stefna að skipulagi sem eykur þéttleika í eldri hluta Reykjavíkur og leyfa meiri blöndun , t.d. með byggingu íbúðarhúsnæðis nálægt stórum vinnustöðum, eins og t.d. á Háskólasvæðinu. Þetta mundi minnka bílaumferð á Hringbraut og innan svæðins, fækka bílastæðum og spara fólki tíma”.

Málþingið verður haldið í stofu 132 í Öskju frá 15-17.

Aðgangur er ókeypis.

Þetta er afar áhugavert efni sem hefur verið í umræðunni í um 30 ára skeið. 

Þétting byggðar og hugmyndir um minni áherslu á einkabílinn í skipulaginu var mikið í umræðunni hér í Reykjavík á árunum um 1980. Þá var Guðrún Jónsdóttir arkitekt  forstöðumaður borgarskipulagsins í Reykjavík.

Eftir að hún lét af störfum var eins og þessi stefna hafi gleymst þar til nú undanfarin misseri að umræðan er endurvakin.

Í raun gekk þróuniní Reykjavík í þveröfuga átt. Útþennsla var mikil og þjónusa færð fjær notandanum.  Allt stefndi á verri veg hvað varðaði sjálfbærni.

Það er t.a.m. furðulegt að sjá hvernig skipulagsyfirvöld hafa stuðlað að því að matvöruverslun var flutt út úr borgarhluta 107 og út í Örfirisey á sama tíma og glæsileg verslunarhúsnæði er að finna í miðri íbúabyggðinni eins og sjá má við Dunhaga, Hjarðarhaga og viðar.

Nú er sérhannað matvöruverslunarhúsnæði víða í borgarhluanum notað fyrir annað. Nefna má óhentugt skrifstofuhúsnæði eða það sem verra er, óhentugt íbúðahúsnæði. Þessi óheillaþróun gerðist vegna skipulagsákvarðanna. Sennilega öllum nema verslunareigendum til ama.

Leikskólar í bæjarhlutanum sem byggðir voru á árunum eftir 1990 var dreift á að því er virtist á tilviljunarkenndan hátt um bæjarhlutann án tengingar við aðra þjónustu eða helstu göngu-, hjóla- og akstursleiðir og svo má lengi telja.

Fyrir þá sem skoða málið virðist skipulagið hafa verið stjórnlaust. Það gekk að því er virðist fyrst og fremst út á að útvega lóðir.

Það eru spennandi tímar frammundan hvað þetta varðar. Nýir tímar með nýju, vonandi óþægu fólki, með sterka skipulagssýn sem vinnur verk sín af ástríðu.

Nú virðist endurvitundarvakning vera að eiga sér stað í skipulagshugsun og framkvæmd.  Allt hefst þetta með almennri umræðu og málþingum á borð við það sem haldið verður í dag.

Sjá einnig:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/10/19/vesturbaer-sunnan-hringbrautar/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Hilmar Þór

    Já Þorgeir, Þetta var fróðlegt málþing sem vísar okkur til betri framtíðar í vistvænna umhverfi en stefnt hefur verið að hingaðtil.

    Ég óttast samt að framfarirnar verði hægar vegna þess að öll þessi sjónarmið sem þarna komu fram hafa verið áberandi í orði en ekki á borði s.l. 30 ár.

    Hinsvegar skiptir máli að talað sé um þetta sem víðast. Einkum í skólunum.

    Ég sá að þarna var fólk úr fræðasamfélaginu. Fyrir utan hóp frá HÍ og HR var áberandi hópur frá Hvanneyri þar sem kennd eru skipulagsfræði. En ég saknaði þess að sjá ekki stóran hóp frá LHÍ. En það gæti verið að það hafi verið fleiri þaðan en sá eini sem ég þekkti.

    Skólarnir mega ekki fjarlægjast hvora aðra. Þeir eiga að sameinast.

    Það vekur von að sjá að vel var mætt frá skipulagssviði borgarinnar og Framkæmdasýslunni.

    Starfsmaður borgarinnar hélt þarna mjög gott erindi um stefnu borgarinnar varðandi sjálfbærni. Þar komu fram hugmyndir sem ég hef ekki ekki séð áður frá þeim bænum. Mig grunar að þær séu splunkunýjar og séu enn einungis á embættismannaplani.

    Svo sá ég aðeins einn borgarfulltrúa sem var ánægjulegt en segir samt sína sögu um áhuga stjórnmálamanna á efninu.

    Batnandi mönnum er best að lifa.

  • þorgeir jónsson

    Takk fyrir góðan fund og fínar kynningar. Eini menntaði skipulags „keiluspilarinn“ í Reykjavík mætti. Hann veit hvað klukkan slær.

  • þorgeir jónsson

    Þetta hélt ég líka um 1980, en nú eru dæmin um hið gagnstæða að koma í ljós. Ég upplifði þetta þegar ég vann við hönnun á landspítalalóðinni. Forsætisráðherrann setti hönnun í gang. Sami ráðherra skipaði svo heilbrigðisráherranum að spara með því að hætta við að klára húsið. Niðurstaðan er ljós í dag. Byggja þarf nýjan spítala frá grunni. Byggingarnar virka ekki af því að þær voru aldrei full kláraðar. Ætla menn að gera eitthvað annað í dag,
    með 20% hönnun og (vonandi ekki) 10% byggingum?

    Svo heyrir maður í útvarpinu virta og lofandi stjórnmálaleiðtoga afsaka klúðrið með flugvöllinn með þvi að Akureyri geti bara tekið við sjúkraþyrlufluginu í framtíðinni. Skellum bara þyrlupalli í eyrun á sjúklingunum á landspítalalóðinni.

    Hilmar, ef þetta er ekki hentistefna, þá veit ég ekki hvað.
    Allt þetta vel mentaða fólk í HÍ, HR og víðar með sínar fínu hugmyndir á eftir að upplifa þetta, Stjórnmálafólkið hoppar á hugmyndirnar í dag af því að það hentar í „pólitíska keiluspilinu“. En snýr svo við þeim bakinu þegar mest á reynir að halda „kúrsinum“ til sjálfbærninnar gangandi.
    Takið eftir því á fundinum í dag hvaða „keiluspilarar“ mæta og hvers vegna….

  • Guðmundur Erlingsson

    Hér er ein tilvitnun sem ég fann einhvers staðar:

    „Anybody 100 years ago correctly predicting the tenfold increase in the size of cities would have built millions of new stables for all the horses and vast holes in the ground for all the shit. Fortunately they just got on with their lives.“

    Maður hefur á tilfinningunni að hugsunarhátturinn sem hefur stjórnað skipulagi hér sé: „Hvað í ósköpunum eigum við að gera við allt þetta fólk, og alla þessa bíla??!“ og reynt að leysa málin í hálfgerðri örvæntingu frekar en að einbeita sér að því að skapa manneskjulegt umhverfi.

  • Hilmar Þór

    Rétt hjá þér Þorgeir við erum ekki að skipulaggja fyrir okkur heldur barnabarnabarnabörnin okkar.

    En ég spyr er hægt að skella sökinni á stjórnmálamenn eingöngu?.

    Til hvers eru sérfræðingarnir ef ekki til þess að leiðbeina stjórnmálamönnunum?

    Einhvernvegin hef ég á tilfinningunni að sérfræðingarnir sem hafa selt skipulagsyfirvaldinu sín ráð og þeir sérfræðingar sem þar hafa starfað undanfarna þrjá áratugi hafi vitað betur. En ekki haft kjark til þess að standa fast á grundvelli fræðigreinar sinnar.

    Er þetta ekki að gerast allsstaðar?. Skoðið bara lögfræðiálitin sem yfirleitt styðja sjónarmið þess sem greiðir fyrir þau.

    Sama á við skipulagsráðgjafa. Þeir hafa tilhneigingu til þess að afgreiða sína ráðgjöf í samræmi við óskir þeirra sem borga þeim launin.

    Vonandi er þetta ekki svona, en allavega á ekki að vera feimnismál að velta svonalöguðu fyrir sér.

    Þó ég viti það ekki þá læðist að mér sá grunur að Guðrúnu Jónsdóttir hafi verið gert óvært í embætti sínu vegna faglegra sjónarmiða og þýlyndara fólk ráðið í hennar stað.

  • þorgeir jónsson

    Vonandi ræða menn ismann í dag. Pragmatismi er búinn að stjórna öllu hér á landi í 30 ár. Nú eru nýir tímar að renna upp með afleiðulýsingum, rauntíma -líkönum og -skipulagi.
    þar sem velferð barnabarnabarnanna er aðalatriðið.

    BURT MEÐ HENTISTEFNUNA!

    Við lærðum þetta öll í skólunum úti, en uppgötvuðum svo, að á Íslandi eru stjórnmálamenn og konur hinir raunverulegu arkitektar. Gallinn er bara sá að þau kunna ekki fagið. Þess vegna er ástandið svona Einar.

  • Einar Jónsson

    Verst að geta ekki mætt á málþingið.

    En spurningin um hvaða skipulagshugmynd var unnið eftir þegar verslunin var flutt út úr íbúðahverfunum í iðnaðarsvæði. Af hverju er krónan og Bónus og fl verslanir staðsettar fjarri neytendanum og án nokurra tenginga við fjöldann sem þangað þarf að sækja sitt daglega?

    Er borgarskipulaginu treystandi til þess að fjalla um málaflokkinn?

    Sjáið Landspítalann.

    Það koma engin fagleg álitamál frá borginni og spítalafólkið gefur ekkert eftir til að mæta efasemdarröddum. Það veður bara áfram.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn