Þriðjudagur 07.05.2013 - 10:30 - 29 ummæli

„Sjoppuþorpið“ í Borgarnesi

 Loftmynd

 Borgarnes er eitthvað það fallegasta bæjarstæði sem til er og þegar ekið er inn í plássið verður maður fyrir skemmtilegri upplifun.

Fólk sem hefur hugmyndaflug sér tækifæri allstaðar til þess að skapa einstakan bæ sem hvergi í veröldinni á sér nokkurn líkan.  Það er fallegt að litast um inni í bænum á nesinu og horfa frá honum til sjávar og fjalla. Það er ekki síður fallegt að horfa til Borgarness þegar vegfarendur nálgast að sunnan eða að vestan. Þetta kemur vel fram á ljosmyndinni efst í færslunni.

Þrátt fyrir öll þau gæði sem þarna er að finna í skipulaginu, húsagerðum og bæjarstæði missa flestir af upplifuninni. Í hugum flestra er Borgarnes bara einhver stærsta vegasjoppa landsins.

Fólk hugsar til Borgarness sem áningarstaðar þar sem gert er nauðsynlegt stans. Fylllt er á bílinn, kastað vatni og gripin pylsa eða annað áður en, geyst er áfram eftir þjóðveginum eins fljót og frekast er unnt.

Það er synd vegna þess að Borgarnes hefur alla burði til þess að vera áhugaverður endastaður ferðalags um byggðir og óbyggðir landins og stoppa í nokkra klukkutíma eða daga.

Skipulagsleg ringulreið á sjoppusvæðinu þar sem ægir saman byggingum sem hafa risið uppúr malbiksflæminu að því er virðist nánast hugsunarlaust. Byggingarnar standa þarna án þess að tala saman og eru ekki í nokkurri snertingu við anda staðarins eða umhverfið.

Þessi uppbygging  hefði  ekki þurft að vera svona ef fólk hefði vandað sig í deiliskipulagi og allri umhverfishönnun. Þekktir eru áningastaðir erlendis af þessari stærðargráðu sem gott er að heimsækja.

Yst á nesinu er Brákarey  sem er um 4,5 hektari að stærð er ævintýraleg.   Hún er rúsínan í pylsuendanum og kóróna þessa staðar. Brákarey hefur vegna sögu sinnar í atvinnusögunni einstakann sjarma sem vert er að huga vel til að nýta þau tækifæri sem þar er að finna. Einbreið brúin gefur manni sérstaka tilfinningu þegar farið er út i þennan klett sem rís uppúr leirunum.

Lesandi síðunnar sendi nokkrar myndir af  því sem hann kallaði „Vegasjoppuþorpið Borgarnes“. Þar á meðal var myndin að neðan sem er af af líkani sem var gert í samræmi við deiliskipulagstillögu vegna Brákareyjar.

Hér er slóð að sérstaklega vönduðum vef sem fjallar um Borgarnes og Borgarbyggð:

http://www.gjafi.is/borgarbyggdungar/

Hér er slóð að færslu um umhverfi sem sprettur upp úr malbikinu eins og manneskjan sé ekki til:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/12/05/%e2%80%9cef-thu-att-tvo-peninga-%e2%80%9d/

IMG_3429

IMG_3434

 Í deiliskipulagstillögunni að neðan er gert ráð fyrir menningarstarfssemi og mikilli íbúðabyggð í Brákarey.

Skilningsleysi höfundanna á sögu staðarins og staðnum sjálfum og þeim tækifærum sem þar eru, var svo mikið að þeir lögðu til að allar gömlu byggingarnar vikju og í þeirra stað byggt sögulaust nýtt umhverfi. Ekki er hægt að lesa af tillögunni að innblástur sé fengin úr þessu einstaka umhverfi og þarf nokkuð til ef líta á framhjá því við skipulagsgerðina.

Sem betur fór kom hrunið og tafði framkvæmdirnar.

Ef ég skil rétt á þeim sem sendu síðunni myndirnar urðu tafir á framkvæmdum vegna þess að brúin út í Brákarey er einbreið og menn voru að leita leiða til að breikka hana. Sem betur fer tókst það ekki. Í mínum huga er einmitt tækifæri falið í einbreiðri brú. Tækifærið fellst í því að gera þarna bílfríjan bæjarhluta á 4,5 hektara…dásamlegt.

Berið líkanið saman við myndina efst í færslunni.

 untitled

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (29)

  • Sigurjón

    Grunar að KA eigi kollgátuna. Borgarnes er „tær birtingarmynd íslensks raunveruleika“.

    Aðkoman er köld og opin úr suðri og innilega smábæjarleg úr norðri. Mjög íslenskt en ekki sérstaklega fallegt. Getur elst vel ef enginn reynir að bjarga þessu skipulagi með tilgerðarlegum plástrum. Tré og bekkir passa t.d. ekki inn í norð-austankrapann í Borgarnesi.

    Skipulagstillagan að Brákarey ber öll einkenni slíkra skipulagstillagna: Það skortir skilning á hinu organíska eðli mannabyggða. Byggðin verður að fá að vaxa fram eftir þörfum sínum en ekki samkvæmt stórum og hverfulum skipulagshugmyndum. Þær úreldast alltaf á fáum árum hvort eð er. Oft orðnar hlægilegar áður en búið er að byggja. Þörfin fyrir skipulag veldur verstu skipulagsslysunum. Óreiðan eldist betur.

  • Kristján Arngrímsson

    Þetta er merkileg brú. Skv. því sem Guðmundur Skúli segir hefur hún verið byggð á utilitarian forsendum í upphafi en hefur með tímanum orðið að algerri gersemi. Þannig er oft með það sem manni finnst núna vera fegurðin holdi (steinsteypu) klædd – upphaflega var ekkert verið að spá í að hafa það fallegt, bara að það virkaði.

    Aftur á móti það sem er hannað í drep í upphafi verður með tímanum algjörlega dautt. Dæmi um það er hús Menntaskóla Borgarfjarðar. Svakaleg 2007 hönnun, kom í Húsum og híbýlum og allt, en virðist ætla að eldast illa. Ekki mjög mannvænt hús. Svo mikil hönnun að það má ekki einu sinni hengja myndir á veggina.

  • Guðmundur Skúli

    Varðandi brúnna í Brákarey þá var hún fyrsta tvíbreiða brúin sem byggð var á Íslandi, síðan stækkuðu bílar og þegar hún var endurbyggð þá var ákveðið að hafa á henni gangstétt og gera hana einbreiða, var samt alltaf þröng sem tvíbreið

  • Það hafa oft orðið skipulagsslys hér sem annarsstaðar.
    Þau stafa aðallega af tvennu:

    * Þeir sem skipuleggja hafa ekki ást á svæðinu sem þeir eru með á teikniborðinu og eyðileggja meira en þeir fegra. (sjá Rauðatorgið)
    * Menn sem taka slíkt verk að sér hafa oft meiri menntun en brjóstvit.

    Í nokkur ár hef ég ljósmyndað bæinn minn frá ýmsum sjónarhornum
    sem aðkomumenn hafa etv ekki séð.
    Myndaröðin nær aftur til 2006, og sjá má myndir frá öllum vikum ársins
    nokkurskonar myndablogg,
    Ég hvet þig til að skoða fallega Borgarnes !
    Slóðin er; http://www.hvitatravel.is/borgarnes-today
    Tolli

    • Helgi Helgason

      Ef skipulagshöfundar elska staðinn og vinna í fullum trúnaði og skilning á því sem fyrir er mun niðurstaðan verða viðunandi. Þetta sjoppusvæði og þetta sjoppulega Brákeyjarsipulag er örugglega unnið af utanbæjarfólki.

    • Steinarr Kr.

      Takk Tolli, skemmtilegar myndir.

  • Jóhannes Baldvin

    Eftirfarandi grein reit ég fyrir nokkru síðan og fékk birta í Skessuhorni. Í framhaldinu var ég kallaður á fund með nokkrum fulltrúum sveitarfélagsins Borgarbyggðar og skildist mér að leggja ætti fjármagn til hönnunar gróðursvæða við Brúartorgið á árinu 2013. Vonandi gerist eitthvað í þeim efnuþ fyrr en síðar.

    http://www.skessuhorn.is/default.asp?sid_id=21464&=&tre_r…&tId=2&Tre_Rod=001%7C011%7C&fre_id=120086&meira=1&&qsr

  • Kristján Arngrímsson

    Mætti kannski fara þarna einhvern milliveg. Það væri ekki gott að Borgarnes yrði að ofurhönnuðu gerviþorpi eins og t.d. Bryggjuhverfið í Reykjavík og þetta þarna í Garðabæ þar sem var meiraðsegja fenginn fínn rithöfundur til að búa til götuheitin.

    Sjoppuhverfið við norðurenda Borgarfjarðarbrúarinnar er á sinn hátt algjörlega organískur arkitektúr – fullkomlega utilitarian og tær birtingarmynd íslensks raunveruleika. Það er á sinn hátt estetík, maður þarf kannski bara aðeins að pæla til að koma auga á hana.

    Hvers vegna ætli hafi verið byggð einbreið brú útí Brákarey? Af hverju var yfirleitt byggð þangað brú?

  • Guðmundur Skúli

    Vandarmálið með skipurlagið á sjoppusvæðinu okkar Borgnessinga eru Arkitektar en ekki skipurlagsmál. Stöðin er verðlauna arkitektúr en er algjörlega útúr kú þar sem hún er sett niður og sama gyldir um nýja N1 stöð þar sem verið er að breyta nokkuð fallegu steinhúsi í timburkofa. Arkitektar þessara bygginga, önnur var opnuð í fyrra og hin nú í sumar, bruggðust, í arkitektúr á Íslandi ríkir of mikil markaðshyggja og arkitektar virðast bakka fyrir bílastæðum í stað mannlegs umhverfis sem þó mundi bæta umhverfið til muna. Hinsvegar hafa verið uppi hugmyndir hjá sveitarfélaginu að auka gróður á svæðinu en ég tel að það hafi lítið að segja ef fyrirtækin taka ekki þátt. Þessi umræða hefur verið mjög uppá borðinu undanfarin ár meðal íbúa. Hvað varðar núverandi skipurlag þá á vegurinn að fara útfyrir Olís sjoppuna og verður fólk þá leitt en lengra frá okkar fallega bæ

  • Bensínsjoppubragur Borgarness er bein afleiðing af legu Þjóðvegar 1.

    Hrafnkell virðist telja það kost að þeir sem aki á milli landshluta séu teymdir milli skóla og heimilis Borgneskra barna.

    Sjálfum finnst mér vænlegra að umferð fari um hjáleiðir og menn fari ekki að óþörfu um Blönduós, Borgarnes, Selfos. Hvolsvöll og Hellu með sínu nýtilkomna hringtorgi þar sem þéttbýlinu er vafið um þjóðveginn og hann þvældur að óþörfu.
    Alversta hindrun af þessu tagi er auðvitað Akureyri og þyrfti vesturmunni Vaðlaheiðarganga helst að vera vestan Eyjafjarðar!

    Hrafnkell, -heldur þú að það væri fengur fyrir vegfarendur að vera teymdir eftir íbúðargötum í Hvergerði á ferðum sínum austur fyrir fjall?

    Selfyssingar eru að undirbúa nýjan „Borgarnesfront með ferköntuðum verslunum og sjoppum, sem reistur verður þegar ný Ölfusárbrú verður byggð norðan bæjarins…

  • Torfi Jóhannesson

    Brákareyjarskipulagið er unnið af Kanon arkitektum (http://www.kanon.is/portfolio/brakarey/) og var vinningstillaga í samkeppni sem haldin var um skipulag fyrir eyjuna.

    Það er ekki rétt sem kemur fram hér að ofan að einbreiða brúin hafi skipti einhverju máli fyrir framgang málsins – þetta lenti í „hruni“ eins og margt annað.

    Það er hins vegar rétt að Borgarnes snýr raunverulega afturendanum í þá sem koma eftir þjóðveginum – lengi vel náði byggðin ekki lengra en upp að því svæði þar sem brúin kemur í land og þetta var (og er að hluta til ennþá) hálfgert iðnaðarhverfi. Þarna hefur ríkt hálfgert skipulagsleysi um marga áratugi og full þörf á taka til hendinni.

    • Hilmar Þór

      Torfi.
      Það er ekki meginatriði hver vann að skipulagsgerðinni vegna þess að þetta er samvinna fjölda manns sem leiðir til einhverrar niðurstöðu. Einhver semur forsendur sem annar vinnur eftir. Það kann að vera að forsendur þær sem deiliskipulagið í Brákarey var gert eftir hafi kallað á þessa lausn sem sjá má á ljósmyndinni af líkaninu. Svo það er ekki alltaf hægt að álasa einstökum aðila málsins ef illa gengur.

      Þú upplýsir að deiliskipulagið í Brákarey sé unnið hjá Kanon arkitektum og vísar á slóð máli þínu til stuðnings. Ég hafði ekki hugmynd um að þetta væri verk Kanon og efast reyndar um að það sé rétt og smellti á slóðina sem þú bendir á, en hún virkar ekki svo ég er engu nær og í raun alveg sama vegna þess að í þessu tilfelli skiptir höfundurinn ekki máli heldur verkið, boltinn en ekki maðurinn.

      Varðandi einbreiða búnna þá hef ég ekki annað fyrir mér en orð heimildarmannsins sem sendi mér myndirnar.

    • Óli Óla

      Þessi linkur frá Kanon var virkur fyrr í dag en er það ekki lengur (?) Sennilega tekinn niður.

      Hægt er að lesa um þetta hér:

      http://borgarbyggdungar.wordpress.com/2012/08/08/draumurinn-um-borgarnes/

    • Torfi Jóhannesson

      Ég skil ekki þetta tal um að linkurinn á deiliskipulag Brákareyjar virki ekki. Hann virkar amk hjá mér: http://www.kanon.is/portfolio/brakarey/

      Hér er líka hlekkur í forskrift skipulagsins: http://www.borgarbyggd.is/Files/Skra_0029613.pdf

      En þar sem málið er mér nú örlítið skylt, þá langar mig að rifja upp á að sínum tíma var haldin samkeppni um skipulag í Brákarey; fimm stofum var boðið að senda inn tillögur sem síðan voru kynntar á íbúaþingi og ræddar fram og til baka í vinnuhópum. Niðurstaðan úr þeirri vinnu var að flestum leyst best á tillgögu Kanon arkitekta. Kannski var það bara tímanna tákn … rétt eins og það er tímanna tákn að núna finnst flestum þetta \“óttalega 2007\“.

      Varðandi sjoppusvæðið, þá er hinn bitri raunveruleiki víðast á landsbyggðinni sá að langt er milli fjárfestinga og mun algengara er að þjónusta leggist af en að nýjar búðir opni. Þess vegna eru menn oftast:
      a) óviðbúnir og ekki með vel skipulagðar lóðir tiltækar.
      b) reiðubúnir til að teygja sig ansi langt til að mæta kröfum fjárfestana.

      Niðurstaðan verður augljóslega dapurleg og bútasaumskennd.

  • Ívar Örn Reynisson

    Þetta er góð og þörf umræða. Síðan ég flutti í héraðið fyrir nokkrum árum hefur mér fundist akkúrat þessir tveir staðir, Sjopputorgið og Brákarey vera alvarlega illa til reika. Hér áður fyrr var líka svokallað Rauða Torg í sambærilegu ástandi en nú er búið að byggja þar – að sumu leyti nokkuð vel heppnaða íbúðabyggð. Það er svo lítið mál að setja tré og gróður, t.d. á milli Hyrnunnar og Stöðvarinnar og setja bekki þar með. Þá ætti ekki að vera mikið mál að brjóta aðeins upp malbiksflæmið hjá Stöðinni með trjám, jafnvel grjóthleðslum og slíku. Það er við tvennt að etja. Annars vegar veðurfar – sem er óneitanlega kuldalegt þarna, og hins vegar peningar og skipulagshæfni (eða vilji) ef svo skyldi kalla – því bensínfyrirtækin virðast lítinn áhuga hafa á umhverfi sínu. Allt virðist snúast um að koma sem mestum bílafjölda á planið hjá sér.

    Hitt er á að líta, að t.d. við lóðamörk Hjálmakletts og Nettó voru sett niður tré, sem öll hafa verið keyrð niður. Það er líka ákveðinn skortur á umgengni.

    Varðandi Brákarey, þá hef ég verið á þeirri skoðun að húsbyggingarnar þar séu forljótar og eigi helst að rífa þær allar. Eflaust er eitthvað hægt að nýta en spurningin er hvers konar starfsemi fæst þrifist þar? Auðvitað væri gaman að hafa nokkurs konar menningareyju – þar sem væru gallerý, listamenn að störfum, ýmiss konar starfsemi sem drægi að ferðamenn og fótgangandi. Þá væri líka hægt að setja upp skemmtigarð, Latabæjargarð t.d. en slíkir garðar eru einhver helstu aðdráttaröfl helstu stórborga heims.

    Í Brákarey er hins vegar við sama vanda að etja, veðurfar er óblítt og þess vegna er iðandi mannlíf kannski meiri draumsýn en veruleiki.

  • Pétur Örn Björnsson

    „Borgarnes er eitthvað það fallegasta bæjarstæði sem til er …“
    Takk fyrir enn einn þarfan og góðan pistil þinn Hilmar, sem vekur fólk til þarfra og góðra athugasemda og vonandi ráðamanna til einhvers vits.

  • Jóhann Sigurðarson

    Manni skortir stundum hæfileika til þess að sjá gallana á umhvefinu þangað til manni hefur verið bent á þá. Þarna á ég við skipulagið.

    Sér pistlahöfundur í hendingu hvað hefði mátt fara öðruvísi í deiliskipulagi bensínstöðvasvæðisins? og önnur spurning: Er þessu skipulagi viðbjargandi?

    • Hilmar Þór

      Jóhann

      Það er mikil vinna við að gera gott deiliskipulag og ekki hægt að svara svona spurningu.

      Fyrst þarf að skilgreina galla staðarins og svo kosti hans með það að markmiði að lágmarka gallana og hámarka kostina. Skilgreina staðarandann o.s.frv.

      Það er sennilega seint í rassinn gripið að reyna að redda þessu núna. En auðvitað má lagfæra þetta eitthvað. En fyrir 6-8 árum hefði verið hægt að gera ýmislegt.

      Fyrsta tilgáta mín þá, hefði sennilega verið að athuga hvort ekki mætti virkja klettabeltið vestan við svæðið og nota það til yndisauka.

      Ég held að það hefði bjargað miklu ef Sparisjóðurinn, Hagkaup og bakarinn hefðu byggt sín hús sem randbyggð meðfram þjóðvegi 1 og myndað þannig skjól fyrir austanáttinni og myndað snyrtilegt og vistvænt(!) rými milli húsanna og klettabeltisins sem þá tengdist útivistarvæði við þessa mikli ferðamannaþjónustu og bifreiðastæði sem væru þarna á milli. Fólk mundi gera sér erindi upp á klettabeltið og þaðan ganga inn í bæinn ef þeim sýnist svo.

      Randbyggðin hefði myndað borgar/bæjargötu með seitlandi umferð um þéttbýliskjarnan eins og Hrafnkell bendir á hér að ofan.

      Annars finnst mér skipulagsmál almennt hafa verið óttarlega vanmetin og vanhugsuð hérlendis undanfarna svona 2 áratugi. Þetta er að mestu stefnu- og hugmyndalaus bútasaumur sem gengur út á að skaffa lóðir svo maður taki svoldið upp í sig. Sjáðu bara þetta dæmalausa Brákeyjarskipulag.

    • Randbyggð hefði verið málið með bensínsölur og greiðasölur í randbyggðinni. Svo væri þarna skjólgóð sólrík bílastæði með glettanna í bakgrunni, sólríka stærstan hluta dagsinns. Er of seint að gera þetta?

  • Þorvaldur Ágústsson

    Allt satt og rétt sem sagt er í pistlinum og athugasemdum.
    Spurt er: Þarf Borgarnes ekki að ráða til sín nýja skipulagsráðgjafa?
    Og hverjir eru höfundar Brákareyjarskipulagsins? Eru það þeir sömu og skipulögðu sjoppuþorpið?

  • Hrafnkell

    Mjög góð ábending sem vonandi verður til að koma skiplagsmálum í Borgarnesi á hreyfingu.

    Ég er algjörlega ósammála Stormi um að þjóðvegurinn þurfi að liggja í hjáleið til að Borgarnes geti blómstrað. Það eina sem þarf að gera er að sjá til þess að umferðin um þjóðveginn lúti lögmálum þéttbýlisins. Skv. talningum Vegagerðarinnar fyrir árið 2012 er þjóðvegaumferðin milli 7.500 og 8.000 bílar á sólarhring þegar hún er þyngst. Það er ágætt að setja þetta í samhengi við þekktar þéttbýlisgötur en skv. talningum borgarinnar þá fara um 9.000 bílar um Álfheimana að jafnaði hvern dag.

    Umferðin um Borgarnes er það lítil að þá má léttilega láta hana streyma um bæinn um götuumhverfi sem styrkir bæjarbraginn og ýtir undir hægari akstur. Vissulega myndi það tefja mig á leið til Akureyrar en sú töf væri mesta lagi 1-2 mínútur. Í staðinn gæti upplifinun orðið mun betri en þegar ekið er í gegnum bæinn í dag. Það er löngu kominn tími til að við látum af þessum stórmennsku vegaframkvæmdum sem í svona tilvikum er sólundum á fjármunum og afleitt umhverfi – þar erum við áratugum á eftir nágrannaþjóðum okkar.

    • Elín G. Gunnlaugsdóttir

      Hrafnkell!……þegar þú minnist á þessa upplýsingar varðandi umferðarþunga o.fl. þá rifjast upp fyrir mér að það það voru áform um, hvort það sé enn í einhverjum gögnum, að leggja nýja „hraðleið“ meðfram ströndinni þ.e. inn fjörðinn norðanmegin þarna fram hjá Bjargi, til að sleppa við að fara í gegn um bæinn. En sú framkvæmd myndi gjörsamlega eyðileggja standlengjuna á þessum kafla!!!!

    • Hrafnkell tek heilshugar undir með þér.
      Besta leiðin til að bæta ástandið væri að hægja á umferð gegnum bæin, hún er ekki svo þung. Nokkurra mínutna töf á leið gegnum bæinn skiptir einfaldlega engu máli.

      Og jafnframt er ég sammála Elínu um þessa hjáleið meðfram ströndinni, sem er illu heilli á gildandi aðalskipulagi. Hún yrði gífurlega eyðileggjandi fyrir fallega náttúrulega ströndina þar. Og algjörlega ónauðsynleg peningasóun þar að auki, sbr. punktinn hans Hrafnkels um umferðarmagnið gegnum Borganes.

  • Elín G. Gunnlaugsdóttir

    Þetta er algjörlega rétt greining hjá þér Hilmar.

    Ég þekki Borgarnesið alveg frá því að teygjugammosíur voru í tísku og Borgarnes var eina plássið, á Snæfellsnesinu og í nágrenni, þar sem sveitafólkið versla inn fyrir jólin. Þá var Kaupfélag Borgfirðinga inni í miðjum bænum þar sem nú stendur enn þá í dag Hótel Borgarnes (sem ég veit ekki hvort er bara nafnið tómt í dag…). Þar var hægt að versla allt milli himins og jarðar. Þar var verslað í matinn, jólagjafirnar og vöruúrvalið var allt frá barnaleikföngum, fatnaði til byggingarvara af öllum stærðum og gerðum.

    Eftir að fjörðurinn var brúaður þá byrjaði sú þróun sem nú blasir við okkur, í dag, sem keyrum þarna framhjá. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig leyfðar voru landfyllingar við þessa fallegu strandlengju til þess eins að byggja þessar skelfilegu byggingar sem „taka á móti“ okkur þegar keyrt er inn í í gegn um bæinn. Eins finnst mér skeflilegt hvernig eínbýlishúsabyggðin hefur verið útfærð í borgunum (landslag það þegar keyrt er inn í bæinn norðan megin). Því í stað þess að láta húsin falla inn í borgirnar þá eru húsin á 2,5 metra háum kjallarasökklum og standa eins og háhýsi þarna. Eins hefur dálæti heimamanna verið mikið á innfluttum einingahúsum frá Kanada því flest þeirra eru af þeirri húsagerð.

    Varðandi Brákarey þá er ég hlynt því að þarna verði bíllaust svæði og að núverandi byggingar verði fundin nýtt hlutverk. Þessi tillaga um nýja íbúðabyggðina er ekki skynsamleg þar sem þarna er eyjan algjörlega opin fyrir hafáttinni og ekki er hægt að segja að þarna sé mjög oft logn……..

    Borgarnes er eitt af fallegustu bæjarstæðum landsins en því miður er sú fegurð ekki lengur sýnileg svona við fyrstu sýn…………….

  • Bargarnes er í gíslingu þjóðvegar1 sem sker þorpið í sundur.

    Borgarfjarðarbrúin ætti að vera innar svo komast megi hjá því að skella öllum vegfarendum og öllum þungaflutningi í gegnum íbúabyggðina og þvert á leið skólabarna.

    Það var Halldór E Sigurðsson sem eyðilagði Borgarnes -þó svo að blómlegur sjoppurekstur Reykvískra hafi fylgt í kjölfarið (og heiðurinn sem fylgdi því að vegmerkingar víða um land sýndu á árum áður hve langt væri til Borgarness, -en engar uppl voru gefnar um vegalengdir til Höfuðstaðarins!)

  • Egill Helgason

    Hef oft velt þessu fyrir mér með Borgarnes, fallegur lítill bær, frábært bæjarstæði, mjög huggulegur skemmtigarður inni í bænum (Skallagrímsgarður), en svo er eins og bærinn kjósi að snúa rassinum að vegfarendum.

  • Steinarr Kr.

    Sammála þér með Brákarey.

    Það er annað sem er athyglisvert með Borgarnes. Við brúarendann er búið að byggja stór ljót kubbahús til að hýsa Hagkaup og Bónus. Mér sýnist þetta að verða tíska að byggja einhverskonar borgarhlið með svona ljótum húsum, þar sem komið er inn í bæinn. Svipuð dæmi eru Grafarholt og Vellirnir í Hafnarfirði. Kanski einhver skipulagspæling með val á lóðum fyrir verslunarhúsnæði, en mætti ekki hugsa þetta eitthvað öðruvísi?

    • Helgi Helgason

      Jú það mætti hugsa þetta öðruvísi. Þessi borgarhlið með verslunum styður bílaskipulag andskotans. Verslun á að vera dreifð og í göngufæri.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn