Föstudagur 21.02.2014 - 14:27 - 9 ummæli

Skipulag og saga við Aðalstræti

Mynd I

Hér birtist grein eftir Örnólf Hall arkitekt sem hefur kynnt sér vel sögu Víkurkirkjugarðs og sögu Aðalstrætis Þetta er bæði skemmtileg og fróðleg grein eftir mann sem er uptekinnn af sögunni. Eins og allir vita þá skal að fortíð hyggja ef vel á að byggja.

SKIPULAG & SAGA við AÐALSTRÆTI

Víkurkirkjugarður, Víkurkirkja og Landssímareitur

— Saga Víkurkirkjugarðs er afar merkileg fyrir það að þar hvíla jarðneskar leifar rúmlega þrjátíu kynslóða Reykvíkinga.

— Við lögtöku kristni á Alþingi árið 1000 var Þormóður sonur Þorkels mána allsherjargoði. Talið er að hann hafi búið á ættarsetri  sínu, Reykjavík. Sem allsherjargoði var hann æðsti embættismaður þjóðarinnar og skyldi hann helga Alþingi í hvert sinn. Á honum hefur því (fyrst og fremst) hvílt sú skylda að reisa kirkju við bæ sinn. Af þeim sökum má fastlega ætla að ein fyrsta kirkjan, sem reist hafi verið í nýjum sið, hafi verið kirkjan við ættarsetrið í Reykjavík.

Jafnframt má geta sér þess til að hún hafi verið reist fljótlega eftir kristnitökuna.

— Frá upphafi var það fastur siður að hafa grafreit umhverfis hverja kirkju. Ekki hefur fundist annar forn grafreitur í landi Reykjavíkur en sá sem er við suðurenda Aðalstrætis. Það bendir sterklega til þess að þar hafi kirkjastaðið frá upphafi.

— Elstu heimildir um kirkjuna eru kirknatal Páls Jónssonar frá því um 1200 og elsti máldagi hennar er frá 1379. Kirkja sú var torfkirkja sem stóð í Kvosinni á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis, í miðjum kirkjugarðinum gegnt Víkurbænum.  Í Biskupaannálum segir að Stefán Jónsson, næstsíðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, hafi vígt Víkurkirkju þriðja febrúar árið 1505.

Yfirlitsmynd af Reykjavík frá 1789

— Á mynd Sæmundar M. Holm, sem var prestur og málari, af Reykjavík frá 1789 (Endurgerð af A.N. Edwin) má sjá að kirkjugarðurinn hefur verið nær jafn á báða vegu, um það bil fjörutíu metrar á hvorn kant. Kirkjan hefur staðið miðlægt í garðinum. Við gröft fyrir stöplum styttu Skúla fógeta var komið niður á gamlan suðurvegg kirkjunnar og mátti þar sjá að dyraop hafi verið í veggnum. Á sömu mynd má sjá girðingu að vestanverðu við kirkjuna en enga austanmegin. Garðurinn hefur smám saman verið stækkaður um helming og varð um 60 metrar að lengd í austurátt.

— Um margar aldir hefur söfnuðurinn í Reykjavík verið fámennur en það breyttist þegar Innréttingar Skúla fógeta komu til sögunnar og fólki fór að fjölga á svæðinu.

Þrír söfnuðir um eina kirkju

— Sóknarkirkjurnar í Laugarnesi og Nesi voru lagðar niður rétt fyrir aldamótin 1800 og söfnuðirnir sameinaðir í einn Reykjavíkursöfnuð. Má ætla að þá hafi kirkjugarðurinn verið breikkaður. Árið 1798 var Víkurkirkja felld og rústir hennar jafnaðar út. Þá átti dómkirkjan, sem lokið var við 1796 að duga söfnuðunum þremur. Enginn kirkjugarður var í kring um Dómkirkjuna og það þrengdist stöðugt í þeim gamla – auk þess sem það styttist niður á fast eftir sem austar dró. Gerð var tilraun með nýjan garð vestan Hólavallaskóla en hætt við þær framkvæmdir vegna móhellu sem kom í ljós. Hagkvæmari staður fannst svo á melunum sunnan Hólavallar (Hólavallargarður). Svo fór samt að í tvo áratugi vildi samt enginn láta grafa sig þar.

Tveir nafnfrægir sem hvíla í Víkurkirkjugarði

— Narfi Ormsson, síðasti óðalsbóndinn í Reykjavík var jarðsettur í Víkurkirkjugarði líklega árið 1613, en rótað var í leiði hans við gröft og legsteinn hans var færður að suðurvegg Dómkirkju, (að sögn dansks rannsóknarmanns fornleifa, að nafni Theilmann, sem var hér árið 1820). Hvorki er vitað lengur um leiðið né steininn.

— Geir Vídalín góði, Reykjavíkurbiskup, sem varð gjaldþrota sökum gjafmildis við snauða í Reykjavík, lét stækka kirkjugarðinn til austurs, þegar þrengja fór að greftr-unarplássi. Hann lést í örbyrgð í einu af húsum Skúla fógeta, frænda síns, árið 1823 og var jarðaður í þeim hluta garðsins sem hann hafði látið stækka og síðan vígt (Reit Geirs biskups).

— Espólín greinir frá útför Herra Geirs biskups á þá leið að engum hafi verið boðið til hennar nema þeim sem honum skyldu fylgja. Embættismenn og stúdentar skiptust þá gjarnan um að bera níðþunga kistuna sem var gerð af þykkum plönkum með skrúfnöglum og vó umgerðin nærri fjórum vættum. Þrekinn og gildur Geir vó sjálfur fullar fjórar vættir. – Fjórar vættir töldust um 160 kg. og biskup og kista vógu því saman um 320 kg. Því þurfti til heila tylft embættismanna eða stúdenta til burðar til skiptis.

Af stærð og staðsetningu  Víkurkirkna
— Upp úr miðri síðustu öld fjallaði Árni Óla fræði- og blaðamaður, í greinum sínum um sögu Víkurkirkju og – garðs (og um gömlu Vík o.fl.) – Hann segir m.a.: “Fyrsta kirkjan sem getið er um í Vík er í Kirknatali Páls biskups Jónssonar um 1200. Þar var ekki getið stærðar (ca 40 fm að ágiskun höfundar).
— Stærsta og seinasta kirkjan sem þarna stóð var reist árið 1720 og síðan rifin 1796. Var hún 11 stafgólf (ca 20 metrar – og þá ca 15 m á breidd að ágiskun höfundar).

Skrúðgarður Schierbeck landlæknis

— Árið 1883 fékk Schierbeck landlæknir garðinn leigðan með því skilyrði að hann skyldi láta girða hann laglega. Hann lét svo gera fagran skrúðgarð með blómum og trjám. Eftir að landlæknir fór alfarinn af landi brott fékk Halldór Daníelsson bæjarfógeti garðinn fagra til umsjónar. Eftir það var hann kallaður Bæjarfógetagarðurinn. Skrúðgarðurinn hefur verið af svipaðri stærð og upprunalegi garðurinn.

Fyrri byggingar og framkvæmdir í Víkurgarði

— Lyfsalinn Oddur Thorarenssen fékk leyfi til að reisa lyfjabúð við Austurvöll árið 1833 (nr.1 á skýringarmynd). Síðar fékkst þar svo leyfi til að reisa vöruhús og efnarannsóknarstofu sem brann 1882.

— Árið 1915 fékk Christensen lyfsali leyfi til að gera vörugeymslukjallara á sama stað og þar sem brunnið hafði (nr.2).

— Árið 1931 var bakhús Landssímastöðvarinnar reist, og var þá gerð akbraut inn í portið. Við gerð akbrautarinnar fundust fjórar járnhellur með grafskriftum sem lágu í jarðveginum. Þá var Guðmundur Hlíðdal landssímastjóri og spurði hann Mattías Þórðarson, þjóðminjavörð hvað skyldi gera við hellurnar. Vildi Matthías að þær yrðu geymdar sem næst leiðunum. Var síðan gerður múrveggur (nr.3) sem hellurnar voru svo festar á í röð. — Þegar Síminn lagði símakapal skáhallt í gegn um garðinn komu upp mergð mannabeina. Einnig fannst legsteinn Gunnlaugs Oddssonar dómkirkjuprests (nr.4) í raskinu, og var hann færður á sinn stað.

Svæðisuppdráttur Ásgeirs Magnússonar

— Eftir uppgröft járnhellnanna lét Landssíminn Ásgeir Magnússon gera uppdrátt af öllu svæðinu milli Aðalstrætis og Thorvaldsenstrætis og merkja inn á hann hvar minnismerkin fundust, ennfremur merkja þar inn vegginn sem þau voru fest á og merkja inn leiði þeirra Gunnlaugs Oddssonar dómkirkjuprests (nr.4) og Marie konu Krügers lyfsala og ungs barns þeirra (nr.5). Jafnframt merkti hann inn bragga, geymslur og söluturn sem var þarna (nr.2).

Landssímahúsið sem hafið var að reisa 1967 og nú áætluð stækkun sem hótel

— Nýbyggingin náði alllangt inn í garðinn (Sjá slitróttar línur á mynd).

— Samkvæmt nýju skipulagi Landssímareits er gert ráð fyrir viðbót við gamla Landssímahúsið. Í þessari stækkun á að vera hótel. Ef af verður væri æskilegt að það yrði á súlum vegna mikilvægis garðsins.

— Víkurkirkjugarður fær svokallaða hverfisvernd samkvæmt skipulaginu, sem yrði sama eðlis og gildir fyrir Hólavallakirkjugarð s.s. að menningarsagan, minningar-mörkin og sérstakur trjágróður verði vernduð.

Nýtt umhverfi og Víkurkirkjugarður

— Full ástæða er að farið sé með hægð í framkvæmdir og að könnuð verði eins og nokkur kostur er mörk kirkjugarðsins. Gengið verði síðan frá honum með þeirri virðingu og fegrun sem kirkjugarði með aldagamla sögu þrjátíu kynslóða sæmir.

— Minna skal á tillögu um fornleifagröft á svæðinu sem lögð var fyrir borgarráð fyrir rúmum áratug. Eins má nefna að nú er komin til sögunnar jarðsjártækni sem hefur verið beitt með góðum árangri um alllangt skeið.

++++++++

Myndirnar eru fengnar frá höfunsi og skýra sig sjálfar.

Það hefur áður verið fjallað um Víkurkirkjugarð á þessum vef. Ég minni á eftirfarandi slóðir:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/08/12/vikurkirkjugardur-og-landsimareitur/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/08/30/vikurgardur-tillaga-grabensteiner/

 

Mynd IIIlett

Mynd IIlett

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Kristmundur

    Víkurkirkjugarður er miklu merkilegri en mig óraði fyrir. Hvar getur maður fylgst með framvindu byggingarmála þarna. Er það hjá biskubsstofu eða borginni? Þessar byggingaframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru þurfa að víkja fyrir sögunni. Ég man að við Winchester Cathedral í UK eru lagðar hellur í grasið þar sem gamla kirkjan stóð áður en núverandi kirkja var reist. Eitthvað svipað þyrfti að gera í Víkurgarði. Best væri samt að framkvæma hugmynd Grabensteiner.

    • Örnólfur Hall

      — Af framvindunni þarna.- Ekki hefur heyrst neitt frá Biskupsstofu um þessi mál þó að einn Reykjavíkurbiskupinn Geir Vídalín (góði) sé grafinn þarna. – Áhuginn virðist á öðrum framkvæmdum. – Eins ber heldur ekki á áhuga hjá Borginni, samanber óafgreidda tillögu um fornleifaleit þar frá því fyrir rúmum áratug eða fyrr.

    • Örnólfur Hall

      — Af framvindunni þarna.- Ekki hefur heyrst neitt frá Biskupsstofu um þessi mál þó að einn Reykjavíkurbiskupinn Geir Vídalín (góði) sé grafinn þarna. – Áhuginn virðist á öðrum framkvæmdum. – Eins ber heldur ekki á áhuga hjá Borginni, samanber uppdagaða tillögu um fornleifaleit þar frá því fyrir rúmum áratug eða fyrr.

  • Örnólfur Hall

    — Þakka hvatningu og hlý óverðskulduð orð í minn garð. – Á tímum prjáls og hamagangs er gott að dvelja við gömul, söguleg og dýrmæt gildi sem eru hluti af menningu okkar. – Nýjar glansbólur verða leiðigjarnar, slitna og spinga.
    — Kollegi og vinur, Norbert Grabensteiner kom, sem gestur, líka auga á sögulegu gildin (sögulegu víddina/HÞB) þarna og gerði athyglisverða tillögu um frágang Víkurgarðs. – Það má segja að glöggt sé gests augað.

  • Dr. Samúel Jónsson

    Meistari Örnólfur klikkar aldrei,

    hvorki hvað varðar fróðleiksmola um skipulag og sögu við Aðalstræti

    eða Norðurbakkann og Bravó bruggaranna Hörpu-diskó-glerið — ryðgaða.

    Hörpu-annáll Örnólfs gæti orðið „best-seller“ ef hann yrði gefinn út.
    Þar er að finna krónólógíska röð

    Það gerir þó varla HórmangaraForlagið (Mál og menning (Bjöggólfabúllan, JPV, Iðunn etcetera sem undir því einokunarvaldi heyrir).

    En ég hvet stjórn AÍ og framkvændastjóra AÍ, leikstjórann, til að reka af sér slyðruorðið og hysja eigi síðar en nú upp um sig brækurnar og gefa Hörpu-annál Örnólfs Hall í fullri lengd ! Stjórn og framkvæmdastjóri AÍ !
    Enga þöggun og leikstjórn lengur undir Pótemkín tjöldunum !

    • Dr. Samúel Jónsson

      Hér þarf nú sögulega skynjun og virðingu við staðarandann … og tímann.

  • Hilmar Þór

    Þetta leiðir hugan að „hinni sögulegu vídd“ í borgarskipulaginu. Þarf ekki að huga meira að henni í eldri hverfum borgarinnar og bæjarfélaga?

  • Mjög vel rannsökuð, lærdómsrík og áhugaverð grein.
    Það er reyndar merkilegt hvernig mikilvægi Aðalstrætis hefur breyst í sögunni. Slíkar aðalgötur eru venjulega hluti mikilvægrar samgöngutengingar, og vissulega var Aðalstræði ein slík, en tengingin var ekki á stíg eða götu, heldur frá „höfninni“ inn í land. Sjórinn var náttúrulega hraðbraut fyrri tíma. Náttúruleg tenging fyrir eyjríki og sjávarpláss.
    Axinn breyttist síðan yfir í Austurstræti/Lækjagötu sem tengir byggðarplássið við sveitina í austur.
    Það væri verðugt verkefni að endurvekja sérstöðu og mikilvægi Aðalstrætis á einhvern hátt.

  • Guðjón Guðjónsson

    Mikið hafa íslendingar haft mikinn lýðræðislegan þroska fyrir 1014 árum. Þarna kemur heiðinn alsherjargoði frá Alþingi á Þingvöllum og hefst þegar í stað verk við að byggja fyrstu kirkju á Íslandi. Fljótlega eftir að kristni var lögleidd á Íslandi.

    Já sjálfur Þormóður alsherjargoði og sonur Þorkells Mána.

    Það þarf að vekja kröftuglega athygli á þessu á staðnum og benda á að 20-30 metrum þaðan eru rústir af bæjarstæði Ingólfs, fyrsta landnámsmannsins.

    Þetta er svo einstakt í veraldarsögunni að það verður að gera eitthvað í þessu strax.

    Ég styð tillögu Grabensteiner sem er kynnt á eftirfarandi slóð:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/08/30/vikurgardur-tillaga-grabensteiner/

    P.S. Nú á dögum ber enginn virðingu fyrir lýðræðinu og þrasa stöðugt um keisarans skegg. Jafnvel þó málin hafi veriðm afgreidd með lýðræðislegum hætti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn