Sunnudagur 29.04.2012 - 23:36 - 28 ummæli

Skipulagsmál – Hver axlar ábyrgðina?

Arna Mathiesen arkitekt skrifaði stórgóða grein í Fréttablaðið í síðustu viku.

Þar fjallar hún m.a. um ábyrgð þeirra sem tóku skipulagsákvarðanir í aðdraganda Hrunsins og ryfjar upp að á Írlandi hafi spilling í borgarskipulagi og byggingarstarfssemi verið áberandi í uppgjöri Hrunsins þar í landi.

En hver var sviðsmyndin hér á landi?

Sveitarfélögin lögðu til lóðir sem ekki var þörf fyrir, á stöðum, sem ekki stóðust kröfur hugmyndarinnar  um sjálfbærari borgir. Ráðgjafar sveitafélaganna gerðu ekki athugasemdir og hönnuðu götur og torg. Bankarnir lánuðu af sparifé fólks til gatnagerðar og bygginga sem voru of margar og of stórar og enginn þurfti á að halda.  Verktakarnir byggðu húsin með aðstoð erlends vinnuafls og erlendra lána. Engin gerði athugasemdir og svo hlupu allir af vetvangi þegar ósköpin hrundu yfir einstaklinga, sparifjáreigendur og skattgreiðendur.

Vissu menn hvert stefndi eða voru engar hagtölur til um málaflokkinn?

Grein Örnu er sennilega í annað sinn sem þetta stóra mál kemur upp í opinberri umræðu. Hitt skiptið var í skýrslunni ”Veðjað á Vöxt”,  frá Háskólanum í Reykjavík.

Þrátt fyrir þennan inngang má ekki skilja grein Örnu sem tóman bölmóð. Þvert á móti er hún lausnamiðuð og setur í því sambandi fram jákvæðar spurningar sem gætu leitt okkur eitthvað áleiðis upp út þessum táradal.

Ég mæli með grein Örnu þar sem segir meðal annars:

„Staða íslenskra heimila í aðdraganda og kjölfar hrunsins“, skýrsla frá Seðlabankanum, sýnir að greiðsluvandi heimila hefur verið mestur þar sem nýbyggingar voru miklar í uppsveiflunni, í útkanti höfuðborgarinnar og í nágrannasveitarfélögunum. Hlutfall heimila á svæðinu sem ekki geta selt húsnæði eða samið um endurskipulagningu skulda (neikvætt eigin fé í húsnæði samhliða greiðsluörðugleikum) stækkar því lengra sem frá miðborginni dregur.

„Veðjað á Vöxt“, skýrsla frá Háskólanum í Reykjavík, lætur að því liggja að fagfólk sem undirritaði skipulög (lagarammar fyrir notkun einstakra svæða) hafi vitandi vits notað mjög óraunhæfar spár til að sýna fram á ríkulegt lóðaframboð í samkeppni við nágrannasveitarfélögin um íbúa vegna þrýstings frá stjórnmálamönnum og byggingariðnaði og því lagt fram skipulög sem enn eru í fullu gildi en ekki er eða var þörf fyrir. Afleiðingin er ofgnótt húsnæðis sem stendur tómt.

Staðsetning nýbyggðs íbúðarhúsnæðis í borgarmyndinni, dreift yfir vítt og breitt svæði innan sama tímabils, og sú staðreynd að hætt var við í miðjum klíðum, leiddi til hörguls á nálægri þjónustu. Skortur á almenningssamgöngum eykst í takti við fjarlægðina frá miðborginni. Hraðbrautir með tíu mislægum gatnamótum, sem lagðar voru heim í hverfin í boði ríkisins eru æ gagnslausari vegna hækkandi bensínverðs.

Þessi hegðun í aðdraganda Hrunsins sem Arna gerir að umtalsefni er meginorsök þess að byggingariðnaðurinn lagðist nánast af hér á landi og er vart farin að sýna lífsmark nú fjórum árum síðar. Fjárhagur heimilanna og sveitarfélaganna er á brauðfótum.

Ber einhver einhverja ábyrgð á þessu? Eða tók atburðarrásin bara völdin eins og oft vill gerast?

Myndin efst í færslunni fylgdi greininni í Fréttablaðinu. Rauðu deplarnir eru nýbyggingarsvæði góðærisins.

Greinina í heild sinni má finna á eftirfarandi vef þar sem einnig eru tilvísanir í heimildir þær sem Arna leggur til grundvallar

http://scibereykjavik.wordpress.com/2012/04/26/how-do-those-in-power-use-the-planning-of-the-city-to-realize-political-goals-hvernig-nota-stjornvold-skipulag-hofudborgarssvaedisins-til-ad-koma-markmidum-i-framkvaemd/

Arna Mathiesen arkitekt vinnur nu að rannsóknarverkefni: Hörgull og sköpun í hinu byggða umhverfi SCIBE.  Byggt umhverfi á Reykjavíkursvæðinu fyrir og eftir hrun er eitt viðfang rannsóknarinnar.

Og hér er slóð að efni sem fjallar um svipað mál í Kína;

 

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/03/19/staersta-draugaborg-i-heimi/

02.05.2012

kl.:21.45

Í ljósi ummæla að neðan hef ég bætt við betra korti af höfuðborgarsvæðinu. Kortið er úr smiðju Örnu Mathiesen. Rétt er að tvísmella á kortið til þess að skoða það betur.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

  • Magnus G. Bjornsson

    Frabaer grein og thorf ransokn og mjog godar umraedur.

  • Góður punktur Daði,

    kannski einhver frá borgarskipulagi geti svarað því hvort og hvernig hverfaskipulögin eru í samræmi við þessa hugmynd? Og hvort hér sé eitthvað sem gæti bætt þau?? En svo eru það Hafnafjörður, Garðabær, Kópavogur og Mosfellsbær…??

    Varðandi heita pottinn. Ég þakka frábæran fund þar sem spjallsíðan sem hefur þann tilgang að minnka fjarlægðina milli fólskins og hönnuðanna, var kynnt til sögunnar:

    http://heitipotturinn.freeforums.eu/

    ég hvet alla til að skrá sig og dreifa þessu til sem flestra sem vilja fá eða veita hönnunarhjálp

  • Daði Halldórsson

    Velferð felst í aðgengi. Þess vegna eru skipulagsmál „hardcore verlferðarmál“ eins og Hilmar G. segir hér að ofan.

    Skrif hennar Örnu sýna svo á mjög áhrifamikinn hátt hvað skipulag er sterkt verkfæri og ef ekki er farið vel með getur búið til mikinn skaða, eitthvað sem íslendigar virðast hafa vanmetið.

    Flestir virðast meira og minna sammála um að það vanti heildarsýn á þróun höfuðborgarsvæðisins. En mig langar að spyrja, vantar ekki líka eitthvað þrep í skipulagsferlið?

    Ég veit að skipulagsferli má heldur ekki vera of þungt, en hafa ekki nýjustu hverfin orðið til án alvöru hverfisskipulaga sem hafa reiknað með þróun helstu verferðarmála? Hefur ekki ýmis grunnþjónusta oft verið að eltast við borgina frekar en að þróast með henni?

    Hvernig væri þá að koma á laggirnar einhverskonar hverfisskipulag með það markmið sýna svart á hvítu hvað heilu eru langt frá og hvernig þau stefni að því að verða sjálfbær? Stutt plön með einföldum/skapandi hugmyndum sem taka inn í myndina alla þrjá þætti sjálfbærninar: umhverfi, hagkerfi og samfélag. Þetta ætti að vera vettvangur fyrir þá leikmenn sem þrífast í hverfinu.

    Gætu þau verið líka leiðandi fyrir þær smá summur sem hverfin fá í framkvæmdir frá borginni til að búa til ‘staði’ samkvæmt einhverri framtíðar sýn? Gætu þetta verið kjörtímabilsplön sem koma neðan frá og væru kynnt upp á við af hverfisráðunum? Gætu þau gefið fólki í úthverfunum líka von og leið til betri nýtingu á þeim fjárfestingum sem hafa átt sér stað, eins og Arna segir?

  • Ég reyni að koma í pottinn á föstudaginn, læt líka nokkra góða vita af því!

  • Ég reikna með þér í pottin Ásta, sem og öðru góðu fólki

    Við verðum að minnka bilið milli hönnuðanna og fólksins…

  • Já hvernig getum við byrjað uppá nýtt?

    Ástandið er óþolandi, við erum föst í kerfi sem er stýrt af allt öðrum hagsmunum en borgaranna. Til lítils að tala um samráð, samtal, íbúalýðræði osfrv. á meðan það er óbreytt.

    Frábærar greinar og þráður. Takk Arna og Hilmar.

  • Hilmar Þór

    Í ljósi ummæla að ofan hef ég bætt við betra korti af höfuðborgarsvæðinu. Kortið er úr smiðju Örnu Mathiesen. Rétt er að tvísmella á kortið til þess að skoða það betur.

    Því miður verð ég í sveitinni kl. 18.00 á laugardaginn og missi því af heitum umræðum um þetta merkilega mál 🙂

    Vonandi verður hægt að halda þessu máli lifandi áfram.

  • Haraldur á borgarskipulagi í Reykjavík hefur gert svipað kort, en þó nokkuð grófara, sem hann hefur notað til að kynna þessi mál erlendis.

    Hilmar notaði hér að ofan kort sem ég setti ólokið á bloggið okkar í fyrra. Ég minni aftur á kortið sem fylgdi með greininni í fréttablaðinu (setta hana nú inná bloggið okkar líka). Það kort er nákvæmara og sýnir bæði af atvinnu og íbúðasvæði. Þannig fær maður góðan samanburð miðað við það sem byggt var fyrir. Sum gömlu svæðin eins og miðbærinn eru blönduð byggð.

    Við ræddum á sínum tíma um hvort við ættum að taka með svæðið á Álftanesi, þar var mikið jarðrask á tímabilinu. En ákváðum að taka það ekki með. Við notuðum google-earth 2002 og 2008 til að finna breytingarnar, og tókum þá líka með svæðin sem voru undir byggingu í 2002. Tölurnar sem ég hef gefið upp koma frá því korti.

    Það má sjálfsagt alltaf bæta kortið og tek gjarna á móti ábendingum um það sem er of eða van, (hef nú þegar sjálf séð staði þar sem vantar rautt).

    Allir sem vettlingi geta valdið hafa ábyrgð á að gera það sem þeir geta. Ég fyrir mína parta er til í að hittast í heitum potti í og ræða möguleikana.

    Ég verð í Laugardalslauginni kl. 18 á föstudaginn. (Ég vona að það séu einhverjar konur líka sem eru að fylgjast með þessu bloggi.)

  • Stefán Benediktsson

    Takk fyrir svarið (svörin) Arna. Þetta kort er held ég mjög gagnlegt. Það er lofsvert framtak að auka við þekkingu okkar og yfirsýn með þessum hætti. Skortstaðan er verulegur áhrifaþáttur og þarf endilega að mæla og gera sýnilega á í kortinu. Til dæmis er öllum ljóst að ekki er hægt að hætta í miðjum klíðum í Úlfarsárdal. Borgin verður að ákveða hvernig á að ljúka hverfinu. Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins er ekki til lengur og því engir til að gera svona kort óumbeðnir. Ég myndi samt mæla með að þú/þið berið kortið undir skipulagsyfirvöld hvers sveitarfélags fyrir sig, til að það sé í samræmi við staðreyndir. Krímer bendir td á að svæðið norðantil á Víðinesi er ekki íbúðasvæði og sama gæti átt við í einhverjum öðrum tilvikum, sem hefði þá áhrif á hlutfallstölur ef heildarmagn er ekki rétt áætlað.

  • Ég umorða spurninguna og spyr hver ber ábyrgðina? Og svo; Er einhver svo herðabreiður að hann geti axlað hana?

  • Arna á orðu skilið fyrir að koma þessari umræðu af stað! En málið er eins og komið hefur fram þá eru skipulagsmál vanalega sett á hakan og þegar þarf að byggja, er drifið í deiliskipulagi sem er oftast í engu samhengi við umhvefið eða samfélagið í kring. Úr verður klúðurslegar þyrpingar sem þjóna engum verulegum tilgangi! En ég vill nú sem nýútskrifaður arkitekt hvetja alla sem að þessum málum koma að snúa bökum saman og fara aðeins aftur í rótina… Til hvers erum við að gera skipulög rýma yfir höfuð? Ég vil sjá meiri umræðu um hið mannlega í þessum þáttum og læra af mistökum liðinna ára, t.d. hvað er hægt að bæta í skipulagi nútímans þannig að fólki geti liðið vel á þessum svæðum. Let’s do it!!!

  • Áhyggjumaður

    Í upphafi var orðið og svo fóru hlutirnir að gerast.
    Nú hefur orðið verið sagt og vonandi fylgja verkin í kjölfarið. Takk fyrir frumkvæðið Arna.

  • Rauði svæðið á norðanverðu Álfsnesinu, sem sést á kortinu í þessari blogfærslu, er ekki staðsetning nýbyggðs íbúðarhúsnæðis í borgarmyndinni. Þetta er svæði fyrir skotæfingar og mótorkross. Mjög fáar miljónir fóru í þá uppbyggingu.

    Fleiri svæði á kortinu táknuð með rauðum lit eru auk þess ekki staðsetning nýbyggðs íbúðarhúsnæðis í borgarmyndinni. Rauðu svæðin beggja megin við Leirvogsá sýnist mér vera að stórum hluta iðnaðarsvæði.

    Hvaða á rauðiflekkurinn vestanvert við Leir-, Myrkur- og Krókatjörn að tákna?

  • Eyjólfur

    Flott umræða og tímabær.

    En munum orð Einsteins; „Vandi leysist ekki með hugarfarinu sem skapaði hann“.

    Við þurfum nánast að byrja upp á nýtt með kortið hennar Örnu að ofan sem útgangspunkt og án sveitarmarka.

  • Hilmar Þór

    Ég er sammála þeim þorkatli og nafna mínum hér að ofan. Það þarf að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef margskrifað um það útfrá ýmsum hagsmunum borgaranna.

    Hitt sem Hilmar Gunnarz nefnir og varðar peningaleysi þá held ég að stefnumörkun í skipulagsmálum kosti ekki mikið sé einhver samstaða og vilji fyrir hendi. Og okkur vantar nútíma stefnumörkun innan Reykjavíkurborgar og alls höfuðborgarvæðisins.

  • Hilmar Gunnarz

    Skipulagssvið margra sveitarfélaga eru nánast óstarfhæf vegna manneklu og niðurskurðar. Sakir þessa hafa þau enga burði til að standa í stórræðum. Þetta er áhyggjuefni því það ríður á að grípa í taumana hið fyrsta. Því hlýtur sameining sveitarfélaganna að vera brýnt málefni eins og margir hafa bent á.

    Hinsvegar virðist svo vera, að þegar á að veita einhverju fjármagni í þennan málaflokk, þá bendir fólk á skóla, leikskóla og önnur velferðarmál sem ættu að vera í forgangi. Í mínum huga er skipulag hardcore velferðarmál.

  • Lykillinn að lausn skipulagsmála á höfuðborgarsvæðinu er sameining sveitarfélaga. Innanríkisráðhera hefur lagt það til og þarf að fylgja því eftir.

    Varðandi athugasemd Hilmars að ofan (sem er viðbragð við aths. Örnu) þá er þar að finna skýringu á því hvers vegna fólk skrifar gjarna undir nafnleynd á vefsíðum.

    Fólk veit að persónulegar eða faglegar skoðanir þess bitnar á þeim í þessu frumstæða þjóðfélagi sem við lifum í.

    Það þarf viðhorfsbreytingu til að bæta þjóðmálaumræðuna hér á landi.

    Við eigum að fagna allri gagnrýni og taka umræðuna hvort sem okkur líkar betur eða verr.

  • Hilmar Þór

    Þetta er áhugavert.

    Arna starfar fjarri íslenskum veruleika. Hún áttar sig ekki á því að hér á landi lítur fólk á umræðuna sem átök milli einstaklinga, ekki hugmynda eða sjónarmiða. Þetta viðhorf okkar íslendinga er ákaflega frumstætt. Fólk hér á landi fer í manninn í stað þess að einbeita sér að boltanum. Svo móðgast fólk vegna sjónarmiðanna og kastar fæð á hvort annað.

    Það er viðurkennt að besta leiðin til farsældar hér á landi er að vera viðhlægjandi áhrifamanna, eða skipa sér í sveit einhvers flokks manna eða klíku. En það færir samfélagið ekki til betri vegar.

    Umræðan á ekki að vera átök milli manna heldur í mesta lagi átök milli hugmynda sem ber að fagna. Umræða og sérstaklega gagnrýni gefur fólki tækifæri til þess að skýra út verk sín. Oftast er það nefnilega þannig að gagnrýnin stafar af þekkingarleysi. Fólk vinnur oftast eins vel og það getur.

    Maður bregst ekki við þekkingarleysi með árás á þann sem skortir þekkinguna heldur með því að upplýsa um málið.

    Hinsvegar hvað varðar skipulagsmál þá er gagnrýnin oft byggð á viðhorfum til efnisins eða jafnvel smekk.

    Hér hinsvegar hjá Örnu er þetta afskaplega skýrt. Svo skýrt að það er hægt að fullyrða að mistök hafi átt sér stað eins og dæmin sanna.

    Það gagnar ekkert að stinga hausnum í sandinn eða vera með einhverja þvermóðsku. Það þarf að viðurkenna vandann, greina sjúkdóminn og bregðast við honum.

    Það blasir við að skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu hafa verið hin vandræðalegustu í aðdragana hrunsins. Það sér madur þegar litið er til baka.

    Á þetta bendir Arna og kemur hér sem ferskur vindur inn í umræðuna og lýsir hlutunum eins og hún sér þá, og eins og þeir eru.

    Gagnrýnandi eða málshefjandi í hvaða máli sem er sendir engan niður í skotgrafirnar. Hann fer þangað sjálfur af fúsum og frjálsum vilja. Sennilga gerir hann það vegna þess að hann kann ekki að debattera. Telur sig vera í varnarstöðu eða með tapað mál. Honum finnst hann vera á á átakasvæði í e.k. stríði. Hann sér ekki muninn á manninum og viðfangsefninu.

    Aðalatriðið er að þeir sem valdið hafa í okkar umboði eiga að fagna umræðunni og taka þátt í henni í stað þess að vera með skæting, snúa upp á sig eða beita þöggun.

    Þeir eig þvert á móti aða kalla eftir frekari umræðu og rýni sem gagn er að

    P.s. Ég veit ekki um þessar tilvitnanir sem Arna talar um en skynja hvaða einkenni hún á við.

  • Að gefnu tilefni (athugasemdir stjórnmálamanna og skipulagsfulltrúa á prívat facebook síðum):

    Ég var að vona að greinin sem ég skrifaði sendi ekki þá við stjórnvölinn niður í skotgafirnar, heldur gæti hjálpað þeim að sjá fleiri möguleika í stöðunni.

    Það er vel að Reykjavíkurborg hefur verið að taka hugmyndir íbúa með í reikninginn, t.d. með Betri Reykjavík og íbúakosningum um smáverkefni í borginni. Samvinna milli sveitarfélaga um sorphirðu og almenningssamgöngur er líka auðvitað það eina rétta. Einnig er göngugötuvæðing í miðborg ágætis generalprufa á jákvæðum breytingum á innihaldi borgarinnar.

    Þó virðist, ef marka mátti viðtölin við stjórnmálamennina sem ég vitnaði í, að hinar stóru línur séu enn í ólestri þegar litið er á skipulag höfuðborgarsvæðisins í heild sinni. Hið slæma ferli sem var í gangi fyrir hrun er þar mikilvægt víti til varnaðar.

    Það þarf að sameina skipulagssviðin, og setja í gang pilot-verkefni í úthverfunum sem gætu vísað nýjar brautir. Þetta krefst þverfaglegrar vinnu í náinni samvinnu við íbúa, án innblöndunar sérhagsmuna annarra en þeirra sem þar ætla að búa saman.

  • Stefán aftur, ég mislas spurninguna þína. Þú spyrð um kort en ekki um skort. Kortið gerðum við sjálf, við fengum stafrænt efni frá sveitarfélögunum og límdum þau saman til að geta sýnt heildarmynd. Ótrúlegt að þetta hafi ekki verið til, en það sýnir að enginn hafði yfirsýn. Þetta kort er í vinnslu, kortið í Fréttablaðinu er nákvæmara. Við erum lílka með kort yfir allar leiðslur og götur, en höfum ekki birt þetta ennþá.

  • Sveinn, við erum að reyna að safna eins miklum upplýsingum og við náum í fyrir rannsókn okkar og komum til að opinbera þau gögn í aðgengilegu formi. Tökum gjarna a móti smásögum um skort og sköpun í þessu umhverfi, og öðrum upplýsingum sem geta kastað áhugaverðu ljósi á málið.

  • Takk fyrir spurninguna Stefán.

    Rauðu flekkirnir á kortinu sýna að byggt umhverfi í borginni hefur á stuttum tíma aukist mikið að flatarmáli, eða um 918 hektara. Stækkunin var ca. 24% á 8 árum, þá er ekki meðtalið það pláss sem fór undir opin opinber svæði , t.d. umferðaræðar og hið ‘helga’ land umhverfis þær. Á sama tíma jókst fólksfjöldinn á höfuðborgarsvæðinu um aðeins 15%. Sem sagt, ný 345m2 af nýrri borg á kjaft sem flutti til höfuðborgarinnar!

    Fólkið sem keypti þann draum um að þetta væri góð hugmynd átti að standa straum af kostnaðinum. Þessir peningar hefur sýnt sig að ekki eru til. Þess vegna verður fólk bundið á klafa eins og þrælar um ófyrirsjáanlega framtíð við að dæla peningum í þetta. Draumurinn endaði sem sagt í martröð. Þetta fólk líður margt skort á framtíðarmöguleikum.
    Þetta staðfestir líka skýrsla seðlabankans, sem sýnir að fjárhagurinn er verri í jaðarbyggðunum en innar í borginni.

    Kortið sýnir líka að aukningin felst aðallega í íbúðarhverfum í útjaðri borgarinnar, þ.e. hún þétti ekki borgina heldur stækkaði hana. Landfræðileg lega þessarar byggðar gerir það að verkum að byggja þurfti nýja innviði í þessum – og til þessara hverfa frá grunni. Sem var dýrt fyrir sveitarfélögin og ríkið, og eykur óþarflega á fjárhagsvandræði allra landsmanna.

    Kortið sýnir líka er að mörg hverfanna eru hálfbyggð, það er kannski búið að leggja allar götur og lagnir, en byggingarnar vantar, og skóla, leikskóla, búðir og þar fram eftir götunum; hluti sem fólki var sagt að skyldu koma, en ekki gerðist. Þetta vantar. Það er líka skortur. Ekki síst fyrir Orkuveituna, sem ekki getur innheimt gjöld fyrir notknun lagna sem engin er.

    (Sjá einnig kortið sem fylgdi með greininni í Fréttablaðinu http://www.visir.is/hvernig-nota-stjornvold-skipulag-hofudborgarssvaedisins-til-ad-koma-markmidum-i-framkvaemd-/article/2012704269969)

    Það sem er gnægð fyrir einn getur virst skortur fyrir annan. Okkur þætti t.d. ekki beisið að eiga bara spjót og teppi (auk draumalandsins) eins og frumbyggjum Ástralíu eru alsnægtir. Eins hefði náungi eins og Michael Jackson liðið skort ef hann hefði ekki haft allt glimmerið og sílikonið að skreyta sig með, þótt flestir kláruðu sig prýðilega án.

    Ef líf í risastóru einbýli með útsýni til jökulsins, breyttur jeppi í bílskúrnum og risa útigrill bak skjólveggja voru táknmynd alsnægta fyrir hrun, virðast sú ímynd hafa snúist uppí andhverfu sína fyrir marga þegar ekkert er bensínið, engin er steikin og fyrirmyndin var skúrkur eftir allt saman. Fjölmargt hékk á spítunni sem ekki var hugsað til enda. Ef maður er þreyttur á endalausu skutli eða hangsi í strætó og veit ekki hvernig maður á að ná endum saman um mánaðarmótin geta tröppur á milli palla og hálfkarað bergmálandi rými sem maður losnar ekki útúr farið að virka frekar óþolandi, þótt það tæki sig vel út í hvaða glanstímariti sem er.

    Það að gengið sé á auðlindir með framleiðslu þessa umhverfis bæði lókalt og glóbalt er líka stórmál sem of langt er að rekja hér.

    Vona að þetta sé eitthvað skýrara

    EN

    Þessi hverfi vonandi staðið fyrir annars konar alsnægtir en við gætum ímyndað okkur ef skipulagi þeirra yrði breytt þannig að fjárfestingin nýtist miklu miklu betur. En til þess þarf pólitískt hugrekki og faglega vinnu sem tekin er alvarlega.

  • Eru samtök byggungariðnaðarins ekkert að skoða þetta stóra mál?

  • Sveinn í Felli

    Eru einhversstaðar til samanteknar tölur um magn lagna/malbiks/bygginga pr. haus á höfuðborgarsvæðinu ?

  • Jón Oddur Halldórsson

    Af hverju er höfuðborgarsvæðið svona dreifbýlt?

    Eitt af því sem myndi bæta hag fólks verulega í framtíðinni er meiri íbúaþéttleiki.

    Vandamálið er bara að það krefst langtímahugsunar sem oft virðist vera af skornum skammti hjá stjórnmálamönnum.

  • Þetta er mjög góð grein. Hvet alla til að lesa hana.

  • Hilmar Þór

    Nei Stefán. Ég fékk kortið frá Örnu. Kannski hún geti svarað spurningunni.

  • Stefán Benediktsson

    Veistu hvar ég finn forsendur þessa korts með rauðu flekkjunum?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn