Miðvikudagur 22.01.2014 - 14:38 - 15 ummæli

Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins 1980-86

Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins  var rekin á árunum 1980-86. Þá lauk gerð Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 1985-2005 sem sveitarfélögin treystu sér ekki til að samþykkja nema „til viðmiðunar“ að því er ég best veit.

Skipulagsstofan tók á ýmsum málum eins og að flytja reiknilíkan umferðar hingað til lands frá Danmörku. Stofan tók líka frárennslismál svæðisins í gegn og lagði grunn að hjólreiðastígakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið og gaf út fréttablaðið Skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins, sem var eftir daga Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins áfram gefið út undir nafninu AVS.

Þetta var á tímum 0-grunns áætlana og sveitarstjórnarmenn héldu að það væri vænlegt að binda stýrið fast á skútunni eftir að þetta svæðisskipulag 1985-2005 var í höfn og verkefninu þvi lokið.

það var auðvitað misskilningur.

Mest held ég annars að þessi Skipulagsstofa hafi farið í taugarnar á embættismönnum Reykjavíkur sem voru vanir að eiga alltaf síðasta orðið í samskiptum sveitarfélaganna.

Efst er mynd af umræðutillögu sem tók á stofnbrautarkerfi höguðborgarsæðisins. Þetta er auðvitað prinsipp tillaga sem hugsuð til þess að nálgast einhverja lausn á þessum málum sem enn hefur ekki náðst sátt um 30 árum síðar.

Ef frá er tekin hugmynd um stofnbraut um fossvogsdal er þessi hugmynd eins og hún er enn á dagskrá.

Það má leiða líkur að því að sneiða hefði mátt framhjá mörgum vandræðagangi skipulagsmála höfuðborgarsvæðisins síðustu 3 áratugina ef samstaða hefði verið um að halda þessu merka starfi áfram.

Forstöðumaður Skipulagsstofunnará þessum tíma  var Gestur Ólafsson arkitekt og skipulagsfræðingur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Guðrún Ingvarsdóttir

    Mig langar að byrja á að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram um uppskipt skipulagsvald höfuðborgarsvæðisins. Var einmitt seinni partinn í dag með 22 fulltrúa Nordisk boligorganistation (sem hefur innan sinna vébanda 2,2 miljónir íbúða á norðurlöndunum) á ferð í gegnum höfuðborgarsvæðið. Fólk var gapandi þegar það frétti að við hefðum á tíu mínútum (REY-HFJ) keyrt í gegnum fjögur sveitafélög og spurðu hvernig slíkt gengi upp hvað varðar heildstæða skipulagssýn, uppbyggingu þjónustu o.fl fyrir rétt rúmlega 150.000 hræður…. Glöggt er gests augað. Mér varð svara vant…..

    Hitt sem langar að tæpa á er sú orðræða sem virðist oft grunnt á hérlendis að skipa sérfræðingum á sviði skipulagsmála og hönnun manngerðs umhverfis í fylkingar og telja fram kosti einnar stéttar umfram annarrar um leið og settar eru fram tilgátur um að einn hópurinn sé að hafa verkefni af öðrum. Eftir því sem ég hef kynnst fleiri verkefnum í gegnum tíðina á sviði hönnunar og skipulagsmála hef ég séð betur og betur að það er einmitt þessi orðræða og sú átakhefð sem hún endurspeglar sem er vandamálið. Þessi átakahefði virðist landlæg hér á landi í stjórnmálum jafnt sem hagsmunabaráttu vissra faggreina.

    Staðreyndin er jú sú að hvort sem hanna á byggingu, borgarhluta eða heildarskipulag er um flókið samspil umhverfisþátta, félagslegra þátta og efnahagslegra þátta. Enda skyldi engan undra að Péin þrjú (Profit, Planet, People) eru það sem helst er rætt á alþjóðavettvangi í tengslum við þróun og uppbyggingu samfélaga og atvinnulifs. Góðar lausnir sem taka tillit til þessara þriggja grunnþátta sjálfbærni verða að byggjast á virðingu fyrir sjónarmiðum ólíkra sérfræðinga – enda er jú tilgangur sérhæfingar á mismunandi sviðum að skapa margar litlar myndir af raunveruleikanum sem saman mynda skýrari heildarmynd en eitt svið gæti gefið okkur. Á slíkum grundvelli heildstæðra vinnubragða verður mótun umhverfis okkar og atvinnulífs að byggja ef vel á að vera. Það að tileinka okkur slík vinnubrögð tel ég vera eitt af stóru verkefnum okkar íslendinga á komandi árum og áratugum enda hefur ögun og umburðarlyndi seint talist til okkar styrkleika.

    Við íslendingar þurfum að bregðast við breytingum í umhverfi okkar á næstu árum og áratugum með því að læra að lesa tækifærin og möguleikana í hinni margslungnu mynd – í stað þess að þrefa um hvert af sjónarmiðunum skuli ráða. Og fyrsta skrefið tel ég liggja í aukinni virðingu innbyrðis milli þeirra „Yin og Yang“ sjónarmiða sem mætast þar sem umhverfi, tækni efnahagur, fagurfræði og menning mætast. Þar sem stór hluti náms í arkitektúr gengur einmitt út á að læra að samþætta tækni, félagslega þætti og fagurfræði vil ég hvetja kollega mína til ganga fram með góðu fordæmi og uppbyggilegri umræðu um aðra hópa sérfræðinga.

    Læt staðar numið eftir þessa predikun og þakka þér Hilmar enn og aftur fyrir þennan skemmtilega vettvang þar sem menn ræða hlutina og rýna til gagns 

  • Ég tek undir með Guðmundi Kristjáni. Þótt umræðan hér sé góð finnst mér hún ansi oft lenda í þeim hjólförum að arkitektar gráti á öxlinni á hvor öðrum og barmi sér yfir verkfræðingum. 🙂

    Guðmundur kemur síðan að þætti skipulagsfræðinga og að staða mála sé önnur og betri í Kanada. Það þekki ég ekki en fór hinsvegar til Kanada í fyrra og fékk áfall yfir þeim ósköpum sem ég sá þar í skipulagsmálum. Ég vona að engin skipulagsfræðingur hafi komið að málum í úthverfunum við Toronto því verra og mannfjandsamlegra skipulag hef ég ekki upplifað.

    Úthverfi við Toronto:
    https://maps.google.com/maps?q=Toronto,+ON,+Canada&hl=sv&ll=43.622167,-79.675534&spn=0.006873,0.012563&sll=37.0625,-95.677068&sspn=60.54737,102.919922&oq=toron&t=h&hnear=Toronto,+Toronto+Division,+Ontario,+Kanada&z=17

  • Guðmundur Kristján Jónsson

    Áhugaverð umræða enn sem endranær.

    Burtséð frá færslunni sem slíkri þá þykir mér alltaf jafn áhugavert að fylgjast með því hvernig umræða um skipulagsmál á þessari síðu endar oft í þeim farvegi að upp hefjast rökræður um of mikið vægi verkfræðinga á kostnað arkitekta í skipulagsvinnu en sjaldan er minnst á skipulagsfræðinga.

    Ég held að það megi að mörgu leyti rekja vandamál skipulagsmála á Íslandi einmitt til þess ferlis sem Guðni lýsir hér að ofan þar sem að skipulagsmál virðast að mestu leyti vera í höndum arkitekta og verkfræðinga en fáir sérmenntaðir skipulagsfræðingar koma að borðinu. Skipulagsfræðingar hljóta þjálfun í öðrum efnum en verkfræðingar og arkitektar og koma jafnan að borðinu til að miðla málum, enda með víðtæka þekkingu á bæði hönnun og verkfræði ásamt stjórnmálum, félagsfræði hagfræði og umhverfisfræðum svo fátt eitt sé nefnt. Víða er grunnám í skipulagsfræðum 4 ár og jafnvel lengra, áður en að masters og doktorsnám tekur við.

    Nú þekki ég sama umhverfi vel í Kanada og þar myndi þessa staða aldrei koma upp. Þar er verkaskiptingin skýr og gagnkvæm virðing ríkir á milli stétta sem allar koma að borðinu en á mismunandi forsendum. Ástæðuna má kannski rekja til þeirrar staðreyndar að nám í skipulagsfræðum er af skornum skammti á Íslandi og til að mynda er ekki boðið upp á grunnám í faginu líkt og öðrum löndum. Ég tel að ef að hlutfall verkfræðinga, arkitekta og skipulagsfræðinga myndi jafnast út á Íslandi þá væri staða skipulagsmála betri hér á landi.

    Ég tek það þó sérstaklega fram að ég er ekki að fella neinn áfellisdóm yfir verfræðingum né arkitektum, ég er einungis að minna á starfstétt sem að mér þykir hafa alltof lítið vægi í umræðunni og á mikilvægi þess að mismunandi stéttir virði starfssvið hvor annarrar og nálgist umræðuna af gagnkvæmri virðingu.

    • Það er einmitt málið. Verkaskiptingin er ekki skýr. Þegar skipulag er annarsvegar eiga menn ekki að vera að hugsa um verkfræðilegar útfærslur.

      Að þessu eiga að koma skipulagsfræðingar og arkitektar.

      Verkfræðingar eiga bara að bíða þar til kallað er á þá með einstök sértæk vandamál eða spurningar
      .
      En ein fagstétt hefur gleymst í umræðunni að þessu sinni og það eru landslagsarkitektar sem eru orðnir ansi srórtækir í skuipulagsráðgjöf.

  • Ég vill skýra ummæli mín að ofan. Hér er ég ekki að gagnrýna gæði verkfræðinga. Það eru margir góðir verkfræðingar á Íslandi.
    Það sem ég gagnrýni er það að ákvarðanir og vald í skipulagsvinnu er í höndunum á sérfræðingum í vél og tæknisviðum en ekki mannlegum og menningarlegum sviðum. Útkoman í slíku umhverfi er því augljós.

    • Hilmar Þór

      Ég skildi þig líka á þennan hátt Guðjón. Skipulagið þjónar fólkinu en ekki bílum eða öðrum hjálpartækjum nútímans þó gera þurfi ráð fyrir þeim í skipulaginu.

  • Magnús Skúlason

    Hef lengi verið á þeirri skoðun að Reykjavíkursvæðið eigi að vera eitt sveitarfélag sem síðan megi deila niður í hverfi með stjórnum yfir nærumhverfinu. Hvernig getur það t.d.staðist að tvö sveitarfélög séu að keppa um fjölgun íbúa eða staðsetningu mikilvægra stofnana sitt hvorum megin við einhvern læk. Gott dæmi um þetta var offjölgun íbúða í hruninu og staðsetning Háskóla Reykjavíkur.

    • Hilmar Þór

      Eins og þú segir Magnús er HR mjög áberandi dæmi og ég held að Landspítalinn yrði byggður annarsstaðar en við Hringbraut, kannski á Bessastaðanesi með brú í Kópavog og til Reykjavíkur ef eitt aðalskipulag væri fyrir höfuðborgarsvæðið.

      Ef aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins væri á einni hendi og hefði verið frá 1980 væru samgöngur að líkindum með öðrum og betri hætti á svæðinu í dag.

      Ef aðalskipulag svæðisins væri á einum stað, í höndum Skipulagsstofu Höfuðborgarsvæðisins væri kannski hægt að færa deiliskipulagvinnuna (fyrir utan miðhverfin) út í borgarhlutana sem væri þá í umsjón einhverra hverfisráða eða þvíumlíkt. Við það yrðu íbúarnir virkari í nærumhverfi sínu og vægi stjórnmálaafla minna….eða hvað?

  • Þessi umræða snýst um Skipulagsstofu Höfuðborgarsvæðisins og ætti því umræðan að vera um hennar tilgang.
    En Hilmar fer hér inn á hála braut um hvernig aðkoma verkfræðinga er að skipulagsmálum yfirleitt.
    Mig langar að taka svolítið undir þetta hjá honum.
    Hef í ansi mörg ár unnið að bæði aðalskipulögum, deiliskipulögum, hverfaskipulögum og/eða öllu sem við kemur skipulagsvinnu frá hugmyndum til greinagerðar.
    Hef yfirleitt komið einn að þessari vinnu, stundum með annann arkitekt í vinnu að hluta til, eiginlega aldrei tækniteiknara. En við leggjum fram hugmyndina.
    Þegar svo verkefnin fara á stað þá mæta „verkfræðingarnir“.
    Umhverfisverkfræðingur, umferðaverfræðingur, loftlagsverfræðingur og/eða allt sem hug á festir, sem gefa má nafnið „verkfræðingur“.
    Það er boðað til fundar, stórt borð, fulltrúi sveitarfélagsins, svona 6- 10 verkfræðingar. Einn arkitekt.
    Tek undir með Hilmari. Á enþá eftir að vinna með þeim verkfræðingi sem hefur komið með einhverja hugmynd um það hvað skipulag gengur út á, eða hversvegna við erum að skipuleggja umhverfi okkar.
    Jú, Jú ekki vantar reiknilíkuninn. Er það skipulag?
    Ef svo er, til hvers erum við arkitektar.
    Eitt er víst að þegar einn arkitekt fær skipulgsverkefni, þá fá 6-10 verkfræðingar vinnu.
    Bara vona til umhugsunar. Hvað lifa margar afætur á einum Hval??

    • Hilmar Þór

      Ég kannast við þetta Guðni.

      Það sama á við þegar um húsbyggingar er að ræða.

      Þegar verkfræðingarnir koma að verkinu líkur oftast hugmyndavinunni.

      Einkum vegna þess að þá verða allar breytingar svo erfiðar og kostnaðarsamar.

      Verkfræðingarnir heimta grunna frá arkitektunum og svo byrja þeir allir að vinna að lausnum sem þeir hafa gert þúsund sinnum áður, Burðarþolsverkfæðingar, lagnaverkfræðingar, eldvarnarverkfræðingar, hljóðvistarverkfræðingar, raflagnaverkfræðinar, lagnaverkfræðingar og ég veit ekki hvað.

      Þegar þeir eru byrjaðir er vart hægt a færa eitt klósett án þess að að kosti verkkaupa „buns of money“.

      Þetta er smá öfgakennt hjá mér. Þið umberið það, en ég held að það sé nokkur sannleikur í þessu þó vissulega sé þetta fjarri því að vera algilt

  • „Reiknilíkan“ ?
    Hefur umferð við Landspítala nú og eftir uppbyggingu verið sett í „reiknilíkan“?

  • Vandamálið er ekki arkitektar eða aðrir sérfræðingar, heldur liggur þetta aðalega í tvennu. Skammsýni og pólitík.

    Verkfræðingar hafa haft mikið vald í allri skipulagsframvindu á landinu, hvort sem það er í Reykjavíki eða annarsstaðar. Þeir sem taka ákvarðanir hlusta á verkfræðinga. Þess vegna hefur helsta „skipulagsstefna“ landsins verið götur, stofnbrautir og mislæg gatnamót fyrir einkabílinn, ekki fólkið. Stjórnmálamenn sjá bíla og kort af nýjum úthverfum, en lítið annað.

    Þessi litla borg er samsett úr 8 sveitafélögum, sem er eitthvað sem hefði átt að sameina fyrir mörgum áratugum síðan. Það er í raun engin glóra að hafa skipulag og stjórn borgarinnar í höndunum á aðskildum aðilum. Þessi skipting þýðir að það er ekki hægt að taka meiriháttar skipulagshugmyndir. Sem dæmi, eftir árið 2000 þegar þétting byggðar var aðal málið í Reykjavík, voru bæði Kópavogur og Hafnarfjörður að keppast um að skipuleggja ný úthverfi.

    Stjórnkerfi þessara sveitafélaga eru full af því sem Jón Gnarr kallar „valdamesta mann landsins“. Menn sem sporna við öllum breytingum á stjórnarkerfinu og eigin stöðu. Þetta eru mennirnir sem lifu framhjá starfi Skipulagsstofu og enduðu með að líma saman 8 mismunandi skipulagskort og kalla það Svæðaskipulag Höfuðborgarsvæðisins.

    Þangað til þetta breytist er hægt að halda allar ráðstefnur og fundi í heiminum, en ekkert mun breytast.

    • Hilmar Þór

      Mikið er ég sammála þér þarna Guðjón.

      Svo velti ég sífellt fyrir mér hvernig standi á því að verfræðileg nálgun sé með þeim hætti sem hún er.

      Þannig er að öll stoðkerfin eiga að þjóna fólkinu.

      Aðveitur, frárennsli og gatnakerfið á að þjóna fólkinu og víkja fyrir þörfum þess en ekki öfugt.

      Annað sem varla er hægt að nefn, en ég geri það samt, er að langmestur hluti verkfræðivinnunnar gengur út á að gera eitthvað sem oft hefur verið gert áður meðan mestur hluti vinnu arkitektanna er eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður.

      Og þrátt fyrir þetta eru verkfræðingar mun betur launaðir en arkitektar.

    • nóboddíinn

      vel mælt guðjón og hilmar

  • Gunnar Gunnarsson

    Er verið að segja það hér að öll umræðan og allar ráðstefnurnar, Öll skipulagsvinnan, allir skólarnir, allir arkitektarnir, allir skipulagsfræðingarnir og svo maður tali nú ekki um alla smákónga stjórnmálanna hafi ekki komist lengra í þessar umræðuen raun ber vitni á þrem áratugum?

    Er skipulagsumræðan ekki fallin með 4,9 eitt skelfilega skiptið enn?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn