Fimmtudagur 13.12.2012 - 12:31 - 15 ummæli

Skortur á þjónustu í Grafarvogi og víðar í íbúðahverfum.

Undanfarið hafa ýmsar þjónustustofnanir lokað útibúum sínum í Grafarvogi. Þar er nú engin Sorpa, enginn banki, engin lögreglustöð, engin vínbúð og ekkert pósthús. Fréttablaðið gerði þetta að umfjöllunarefni fyrir skömmu.

Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að íbúarnir þurfa að fara út fyrir hverfið sitt til að sækja þessa þjónustu með stóraukinni bifreiðaumferð og miklum kostnaði.

Grafarvogur er næstfjölmennasta hverfi borgarinnar á eftir Breiðholti, en þar búa rúmlega átján þúsund manns.

„Ég tók þetta fyrir á fundi hverfaráðs og spurði hvað borgin sæi sér fært að gera til að þróunin verði ekki þessi í stóru hverfum borgarinnar, að þau séu bara svefnhverfi. Þegar verið er að skipuleggja þessi hverfi er gert ráð fyrir þessari þjónustu.“ Er haft eftir Elísabetu Gísladóttur, formanns íbúasamtaka Grafarvogs í Fréttablaðinu vegan málsins. Og Elisabet heldur áfram:„Borgin segist ekkert geta gert í þessu. Það er spurning hvort það þurfi ekki að endurskipuleggja borgir og hverfi.“

Þarna hittir Elísabet naglann á höfuðið. Það er ýmislegt hægt að gera og eitt er að endurskipuleggja nánast öll hverfi borgarinnar með þessi atriði í huga. Líka nýjustu hverfin. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi stefnumörkunnar borgarinar um breyttar ferðavenjur.

Meginástæðan fyrir flótta þjónustunnar út úr íbúðahverfunum er hagræðing hjá þeim sem selja þjónustuna.

En það er fjarri því að  hagræðing fyritækjanna skili sér til íbúanna. Þvert á móti veldur þessi sparnaður fyritækjanna  miklum útgjöldum fyrir borgarbúa og ekki síður fyrir borgarsjóð.

Það er rétt að taka það fram að þessi þróun á ekki eingöngu við um Grafarvog.  Svona er þetta víða í hverfum borgarinnar. Borgin  er meðvituð um þetta og hefur þegar lagt upp með vinnu við endurskipulagningu allra hverfa borgarinnar og er gert ráð fyrir því að sú vinna verði sett í gang í byrjun árs 2013.

Sjá einnig eftirfarandi slóðir:

http://www.gislimarteinn.is/?p=1309

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/11/08/nytt-hverfaskipulag-i-reykjavik/

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Hilmar Þór

    Smá innlegg í umræðuna.

    Ég var að koma úr Garðheimum við Reykjarnesbraut norðan Mjóddar. Við hliðina á garðyrkjuversluninni var Vínbúð!

    Spurt er hvað eiga afengisbúðir sameiginlegt við plöntusölu?

    Þessi staðsetning Vínbúðarinnar er ekkert minna en skipulagslega ámælisverð að mínu mati.

  • Eini staðurinn þar sem verzlunarmenn, það vill segja, barir og veitingahús, vilja ekki vínbúð er vínbúðin í Austurstræti. Ástæðan er „þetta dregur úr sölu“. Þar eru líka flest veitingahúsin.
    Ein af áherzlum okkar Dagnýar þegar við gerðum „Kvosarskipulagið“ var að þar kæmi vínbúð.
    Þegar við birjuðum þessa vinnu var Kvosin steindauð, eina verslunin var Eymundsson og veitingastaðir Hornið, Hressó og bankar á öllum hornum. Þegar vínbúðin kom lifnaði vel yfir viðskiptum annarrar þjónustu.
    Verzlanir við Garðatorg og þeirra möguleiki á að geta dregið til sín viðskiptavini er nátengd. Þetta hefur ekkert að með áfengisdrykkju hverfa að gera, þetta eru „stöðug“ viðskipti.
    Þess vegna á það ekki að vera ákvörðun ÁTVR hvar það staðsetur sínar verzlanir. Staðsetningin hefur einfaldlega áhrif á aðra verzlun.

  • Ergó … fólk í Grafarvogi kaupir ekki áfengi í Grafarvogi …. eða hvað? Það er e-ð annað sem vantar.

  • Árni Ólafsson

    Rót vandans er þéttleiki byggðar – eða öllu heldur skortur á þéttleika.
    Nokkrar samanburðartölur fengnar úr riti Hlínar Sverrisdóttur á vef Reykjavíkurborgar: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/adalskipulag/skyrslur/Thettleiki-ibudahverfa-juli-2000.pdf

    Dæmi um fjölda íbúða á hvern hektara brúttó (íb/ha):

    Svæði í Vesturbæ (Garðastræti, Öldugata, Framnesvegur) 70 íb/ha
    Grettisgata, Njálsgata, Bergþórugata 72,3 íb/ha
    Svæði á Skólavörðuholti 62,6 íb/ha
    Melar og Hagar 32 íb/ha
    Hlíðar 38 íb/ha
    Smáíbúðahverfi 26,5 íb/ha
    Seljahverfi 16 íb/ha
    Efra Breiðholt 25 íb/ha
    Rimahverfi 18,7 íb/ha
    Foldahverfi 14 íb/ha

    Stefna Reykjavíkurborgar var (?) að ný hverfi yrðu að meðaltali með þéttleikann 25 íb/ha. Sá þéttleiki er hins vegar ekki nægur til þess að fóstra þjónustustarfsemi og bæjarlíf í hverfinu/bæjarhlutanum. Þegar við bætist alger skortur á bæjarmynd og hinum hefðbundnu þáttum (rýmum) bæjarumhverfisins, götum, torgum og görðum, er ekki von á góðu.
    Þarf ekki gróft séð um 100 íbúa á hektara (sem samsvarar um 40 íbúðum á hektara) til þess að grundvöllur verði fyrir virkt og fjölbreytt bæjarlíf með atvinnustarfsemi og þjónustu sem skiptir máli fyrir hverfið og lifir af?

    Væntanlega þarf að skera rækilega upp skipulag Grafarvogsins – t.d. með því að umbreyta helgunarsvæðum aðalgatna úr jarðvegshljóðmönum í þétta blandaða byggð (sem virkar einnig sem hljóðvörn). Slíkt gæti hins vegar orðið torsótt vegna sjónarmiða nágranna sem engu vilja breyta í bakgarðinum sínum.

  • Þorbergur

    Eru ekki til einhverjar viðmiðanir í skipulagsmálum?.

    Til dæmis fjöldi íbúa á banka,bensínstöð, verslanir, áfengisverslanir, skóla og svo framvegis?

    það hlýtur að vera.

    Og að því sögðu: Hvernig í H…vítinu stendur á að þjónustunni er svona arfavitlaust dreift í borginni?

    Af hverju er engin ÁTVR í Garðabæ eins og Guðni nefnir og engin hér í Grafarvogi (hvaðan hefur Páll þær upplýsingar að við drekkum ekki eða kaupum ekki áfengi í okkar bæjarhluta?) en tvær hlið við hlið í Kópavogi?

    • Hilmar Þór

      Jú, Þorbergur, það eru til viðmiðnar- og reynslutölur um hina ólíklegustu hluti (eins og þú veist) sem varða skipulag og þær er hægt að nota til þess að lágmarka ferðafjölda og -tíðni borgaranna milli staða.

      Ég á von á að þær reynslu- og viðmiðunartölur verði notaðar þegar tekið verður á þessu í væntanlegri endurskipulagningu átta hverfa borgarinnar á næsta ári.

  • Hilmar Þór

    Ég held það sé þannig að ekki skipti máli fyrir áfengisverslun hvar hún er staðsett. Hún mun alltaf bera sig. Enda þurfa kúnnarnir skammtinn sinn og ATVR er einokunnarverslun. Þessvegna er staðsetning áfengisverslanna tært skipulagsverkefni sem er samt þannig að skipulagsfólkið ræður ekkert viið það.
    Að ríkisvaldið taki að sér skipulagsvaldið í þessum efnum nánast átölulaust er áhyggjuefni sem leiðir til hörmunga og útgjalda eins og Guðni og fl hafa áréttað hér.

  • Jæja skyldu olífélögin kanski vera með „puttana“ í þessu. Bara svona til umhugsunar.
    Það var vínbúð í miðbæ Garðabæar sem var lokað fyrir nokkrum árum. Áhrifin urðu þau nær allar verslanir við yfirbyggða glertorgið hefur verið lokað.
    Það eru tvær vínbúðir í Kópavoginum næstum hlið við hlið. Ein í Smáralininni og hin við Dalveg. „Viðskiptahagræðing“???

  • Held að þarna sé í hnotskurn ástæða þess að nú er talað um að þétta borgina innávið í stað þess að búa til ný úthverfi. Við verðum að leggja áherslu á að gera þá byggð sem fyrir er sjálfbæra að einhverju marki. 18 þúsund manna hverfi þýðir ekki að hægt sé að bera saman við Akureyri .. það er svo margt annað sem telur. Ástæða þess að ÁTVR fer úr Grafarvogi er að fólk kaupir ekki áfengi þar. Það er ekki ÁTVR að kenna. Vilja menn að „ríkið“ (eða borgin) styðji við verslun í úthverfum með óarðbærum rekstri? Við verðum að finna aðrar lausnir.

    • Sigurður Ingi

      En málið er að víbúðinni var lokað þrátt fyrir að hún væri hagkvæm og meira en nó að gera, það hefur reyndar aldrei verið alveg skýrt út af hverju ákveðið var að loka henni (henni var að auki lokað stuttu eftir að hún hafði verið valinn besta vínbúðin.

  • jenni helga

    Það er eins gott að borgin taki til hendinni í þessum málum áður en hið „öfgafulla minnismerki“ við Hringbraut rís. Ojbara þvílíkt meirihlutaofbeldi sem þar er á ferð með stuðningi svokallaðra ráðgjafa.

  • Átján þúsund, er það ekki liðlega íbúafjöldi Akureyrar?

    Maður skildi ætla að það heyrðist hljóð í horni þar ef íbúar væru allir háðir því að keyra í nágrannasveitafélög til að sækja sér brýnustu þjónustu.

    Grafarvogurinn er illa skipulagður frá upphafi, samgönguleiðir lélegar bæði inn og út en verst eru greinilega misktökin að gera ekki ráð fyrir öflugri þjónustu í göngufæri við sem flesta ibúa.

  • Sigurbjörn Sig

    Þessi setning úr pistlinum er gullkorn sem stjórnmálamenn og stjórnendur þjónustufyritækja þurfa að velta fyrir sér:

    „En það er fjarri því að hagræðing fyritækjanna skili sér til íbúanna. Þvert á móti veldur þessi sparnaður fyritækjanna miklum útgjöldum fyrir borgarbúa og ekki síður fyrir borgarsjóð“.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn