Þriðjudagur 26.03.2013 - 16:23 - 11 ummæli

Skrúður fær virt alþjóðleg verðlaun fyrir garðlist.

skrudurB19

Garðurinn Skrúður hlýtur „International Carlo Scarpa Prize for Gardens“ 2013

Garðurinn Skrúður að Núpi í Dýrafirði hefur hlotið alþjóðleg verðlaun „Premio Internazionale Carlo Scarpa per il Giardino“ eða „Alþjóðaverðlaun Carlo Scarpa fyrir garða“.   Tilkynnt var um verðlaunin á blaðamannafundi í morgun  í Mílano á Ítalíu en þau verða afhent við hátíðlega athöfn á árlegri hátíð í maí næstkomandi í Treviso á Ítalíu.   

Í tilkynninu dómnefndar til formanns Skrúðsnefndar Brynjólfs Jónssonar segir meðal annars að þau sé veitt „ þessum litla jurtagarði sem er hannaður eftir reglum rúmfræðinnar og staðsettur í mikilfenglegu landslagi Vestfjarða, og komið á fót í nágrenni unglingaskólans á Núpi á árunum 1907-1909“.  

Verðlaunin eru veitt árlega til að heiðra menningarlandslag þar sem fara saman mikilfengleg náttúra og mikil menningarverðmæti með mikið fræðslugildi.  Staðir sem hafa hlotið viðurkenningu á liðnu árum eru flestir í Evrópu en einnig í Afríku og Austurlöndum nær.  Þar eru meðal annars:  Bosco di Sant’Antonio, 2012  Ítalíu,  Taneka Beri, Benin 2011,  Dura Europos, Sýrland 2010, Otaniemi skógarkapellan í Finnlandi árið 2009 ásamt fleiri stöðum.

Á heimasíðu stofnunarinnar  www.fbsr.it   kemur fram að markmið með viðurkenningunni sé að vekja athygli á mikilvægi manngerðs umhverfis  “að auka vitund og aðgerðir við umhirðu og viðhald lifandi menningarlandslags“. 

Það var um mánaðamót júní – júlí sl. sumar að Fondazione Benetton Studi Ricerche  hafði samband við þrjá landslagsarkitekta, Reyni Vilhjálmsson, Einar E. Sæmundsen og Þráinn Hauksson til að leita upplýsinga um garðsögu á Íslandi. Eins og nafn stofnunarinnar bendir til þá tengist hún Ítalska  alþjóðafyrirtækinu Benetton en stofnunin er með höfuðstöðvar í Treviso sem er um 30 km frá Feneyjum.  

Stofnunin er rekið sem sjálfstætt menningar og fræðslusetur á ýmsum sviðum.  Meðal annars   samanstendur hópurinn  sem kemur að verðlaunum Carlo Scarpa  af sérfræðingum og prófessorum í arkitektúr, byggingarlistasögu og garðsögu frá Ítalíu, Frakklandi, Spáni og víðar að.  Dómnefndin hefur síðan ráðgjafa á sínum vegum sem aðstoðar við val á viðfangsefnum. Það var einn ráðgjafi dómnefndar Tom Simon frá Finnlandi sem leitaði aðstoðar hjá landslagsarkitektunum sem hafa mikla þekkingu á garðsögu á Íslandi.  Dómnefnind og ráðgjafar hennar  komu til Íslands í lok ágúst og skipulögðu Einar, Reynir og Þráinn 10 dag ferð um Ísland með það að markmiði að kynnast sögufrægum görðum.

Einnig var skipulögð heilsdags kynningarráðstefna fyrir hópinn um íslenskar aðstæður, menningu, náttúru og byggingasögu bæði húsakost og garða. Lögð var áhersla á fimm garða sem undirbúningshópurinn taldi helst koma til greina. Taldir í tímaröð Alþingisgarðinn 1894, Skrúð í Dyrafirði 1909, Lystigarð Akureyrar 1912, Hallargarðinn við Tjörnina 1955 og Borgargarðinn í Laugardal 1990. Eins og lesa má um á fróðlegum heimasíðum stofnunarinnar þá er áhugasviðið breitt og lagði hópurinn sem kom alls 9 manns áherslu á að kynna sér sem best land og menningu meðan á dvölinni stóð. Fyrstu dagana dvöldu þeir í Reykjavík og fóru um Suðurland síðan flugu þau norður á Akureyrir og hittu forráðamenn bæjarins í Lystigarðinum og héldu síðan akandi í rútu vestur um að Núpi í Dýrafirði þar sem umsjónarnefnd Skrúðs annaðist móttökur og þaðan suður um Snæfellsnes til Reykjavíkur. Með þeim í för voru leiðsögumenn og sem þekktu vel til lands og þjóðar.  Hópurinn hélt síðan af landi brott sólarhring áður en norðanáhlaupið skall á í byrjun september fyrir norðan sem olli miklum búsifjum á stóru landsvæði.

Garðarnir við Alþingishúsið,  Skrúður í Dýrafirði og Lystigarður Akureyrar endurspegla tíma mikilla umbrota í Íslensku þjóðfélagi.  Garðarnir eru í anda Aldamótakynslóðarinnar sem trúði og upplifði nýtt vor með nýrri öld. Sjálfstæðisvakningu, tiltrú á að nýir tímar á nýrri öld færði okkur tækifæri, ennfremur trúnna á að við gætum lært og við gætum sjálf mótað okkar umhverfi.  Garðarnir  þrír mynda  því eina hugmyndafræðilega og sögulega heild. Þeir  eru gerðir á 18 ára tímabil frá 1894-1912 og eiga þessa sameiginlegu sögu.

Alþingisgarðurinn mótaðist af reynslu þingmanna sem sátu á Alþingi sumarið 1893 og höfðu reynt ýmislegt fyrir sér í ræktun og framkvæmdum.  Skólagarðurinn Skrúður er grettistak einstaklings og síðar hjóna sem trúðu á mikilvægi þess að breiða út þekkingu á ræktun við uppeldi barna og unglinga.  Og við mótun Lystigarðsins voru það konur bæjarins sem sameinuðust í átaki til að fegra og bæta umhverfi bæjarbúa.

Fyrir þá sem hafa lengi unnið við mótun umhverfis til gagns og gamans við erfið skilyrði  þá er þessi alþjóðlega viðurkenning eins og vítamínsprauta.  Verðlaunin setja umhverfi okkar í sérstakt samhengi og er um leið viðurkenning á því óeigingjarna starfi sem brautryðjendur og hugsjónarmenn framkvæmdu af einstakri eljusemi og áhuga.  Þessi umfjöllun um Skrúð mun varpa ljósi inn í þennan afkima sem er saga skipulagðara  skrúðgarða á Íslandi og að jafnframt verði horft til stærra samhengis í sögunni, bæði byggingarsögu sem og tengingar við hina viðurkenndu söguskýringu.

Viðurkenninguna fyrir  Skrúð má því líka túlka sem heiður við allt það hugsjónafólk sem hófu að móta umhverfi okkar um þar síðustu aldamót sem varð upphaf að mikilli vakningu síðar á tuttugustuöldinni. Fagleg vinnubrögð og nærgætið viðhald hefur varðveitt garðanna svo vel að þeir lifa með okkur í dag sem vottur um stórhug og aldamótakynslóðarinnar. Það er einmitt eitt af megin markmiðum stofnunarinnar sem veitir verðlaunin.

Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt FILA

 

Efst í færslunni er ljósmynd sem tekin er árið 1914 af börnum við gosbrunninn í Skrúð. Sigtryggur er lengst til hægri,  þá ungur maður. Fjallað er lítillega um Scarpa í næstu færslu á undan.

IMGP9208 lett

 Að ofan er hópurinn  sem veitir „Premio Internazionale Carlo Scarpa per il Giardino“ ásamt fulltrúum Skrúðsnefndar og Ísafjarðarbæjar á staðnum.

í stóru landslagilett

 05sz-fbsrskrudur-acqua-muro-contesto_1271_grande_1364225894

gosbrunnur 2009lett2

grunnmynd Sigtryggs

Teikning af garðinum frá hendi Sigtryggs. Teikningin var gerð árið 1909. Ef tvísmellt er á hana stækkar hún.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Skellur á sýndarmennsku samtímans!
    Nafn Carlo Scarpa er tengt hárfínum tilbrigðum á klassískum grundvelli.
    Skrúður færir okkur í tært tilbrigði,bæði sem fyrirmynd og vakning!

  • Engilbert

    Það er eins og að maður sé að lesa einhverja ligasögu hér. Meira en 100 ára gamall lystigarður á Íslandi að fá alþjóðleg verðlaun. Maður átti frekar von á að íslendingar fengju verðlaun fyrir t. d. rauðvínsframleiðslu á alþjóða vettvangi.
    Til hamingju allir garðyrkjumenn og landagsarkitektar á Íslandi

  • Þetta er stærri frétt en margan grunar. Ef skoðuð er heimasíðan http://www.fbsr.it verður maður stoltur og hissa á að lítill garður á hjara veraldar skuli njóta slíkrar virðingar. Pétur Örn bendir á að þarna er „hið litla fagra“ metið að verðleikum. Stærðin og peningaaustur skiptir í raun litlu. Það er meira varið í hið smáa fagra, stærðin er ofmetin.

    Svo langar mig að minna á kennisetningu sem Vilmundur heitinn Gylfason notaði mikið „Smátt er fagurt“ (Small is beautyful)

    Þetta er sennilega eitthvað „skúbb“ hér á síðunni vegna þess að verðlaunin verða ekki afhent fyrr en í mai n.k. samkvæmt pistlinum

    • Skúbb og skúbb ekki,

      Það var tilkynnt opinberlega á blaðamannfundi í Mílanó í gær að „International Carlo Scarpa Prize for Gardens“ 2013 félli í hlut Skrúðs að Núpi í Dýrafirði. Við sem höfum komið að undirbúniginum fréttum það í byrjun febrúar en máttum ekki segja frá fyrr en í gær.
      Það er rétt að þetta er stór viðburður í umhverfis og byggingarmálum á Íslandi og víðar. Þegar maður kynnir sér hvað stofnun þessi er að fást við þá sést að þeir eru að fást við marga hluti sem skipta miklu máli.

  • Pétur Örn Björnsson

    Þetta yndisleg frétt. Loksins er hið litla og fagra, þar sem mikið er gert af kostgæfni úr litlu, verðlaunað.

    • Pétur Örn Björnsson

      Þetta er yndisleg frétt … Skrúði hæfa Scarpa verðlaun.

  • Jón Ólafsson

    Hef aldrei komið að Núpi en óska öllum til hamingju

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    Séra Sigtryggur Guðlaugsson að Núpi og Tryggvi Gunnarsson unnu þrekvirki og vörðuðu veginn til skilnings á garðrækt til yndisauka.

    Það snertir mann að fá þær fréttir að verk þessara brautryðjenda hafa vakið athygli langt út í heim þar sem skrúð- og lystigarðahönnun á sér aldagamla sögu.

    „að Núpi“ og „að Skrúði“ skipta engu máli í hlutfalli við þessa miklu viðurkenningu og þessu tíðindi.

    Ég spyt hvort hæt sé að heiðra latna menn með orðu úr hendi forsetans? 🙂

  • Rósa Hannesardóttir

    Skrúður er hinsvegar að Núpi í Dýrafirði eins og augljóst er á efstu myndinni.

  • Rósa Hannesardóttir

    Garðurinn er ekki ,,að Skrúði.“

    Garðurinn heitir sjálfur Skrúður og hið fallega orð skrúðgarður er dregið af nafni hans.

  • Jón Ólafsson

    „til hamingju Ísland“
    Mikið er nú skemmtilegra þegar virtir útlendingar hæla okkur en þegar við gerum það sjálfir!!!!!!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn