Föstudagur 18.02.2011 - 08:22 - 5 ummæli

Snjóbræðslukerfið í Kvosinni

Fyrir réttum sextíu árum var fyrst lagt snjóbræðslukerfi í gangstétt hér á landi.  Það var í tröppur og stíg framan við Menntaskólann í Reykjavík árið 1951.

Fjórum árum síðar var lögn sett í tröppur Austurbæjarskólans.  Síðan hefur þetta orðið algengara og með tilkomu hitaþolinna plaströra jóks þetta verulega.

Nú er svo komið að mestur hluti Kvosarinnar er lagður snjóbræðslukerfi eins og sjá má á hjálögðum uppdrætti sem fenginn er úr nýjasta fréttabréfi verkfræðistofunnar Verkís  “Gangverk”.  Reykjavíkurborg getur verið stolt af þessu snjóbræðslukerfi sem er sennilega einstakt í öllum heiminum.

Í fréttabréfinu, sem barst með póstinum í gær,  fjalla verkfræðingarnir Andri Ægisson og Þorleikur Jóhannesson um snjóbræðlslu almennt.

Í greininni segir m.a.:

“Öll stóru snjóbræðslukerfin í miðborg Reykjavíkur nota bakrennsli frá Orkuveitu Reykjavíkur sem grunnafl. Þegar götur og gangstéttar voru endurnýjaðar í miðborginni ákvað Orkuveitan að leggja tvöfalt dreifikerfi til að safna bakvatni frá hitakerfum húsa fyrir snjóbræðslukerfin. Borgin hefur aðgang að bakvatninu þegar Orkuveitan þarf ekki á því að halda. Að nýta þannig bakvatn í snjóbræðslukerfi eykur orkunýtingu, því annars færi það ónýtt um skólplagnir til sjávar”   Og í lokin segja þeir félagar: “Fáir gera sér grein fyrir hve mikil áhrif snjóbræðslukerfin í miðborginni hafa á daglegt líf þeirra sem þar starfa og búa. Verslanir eru hreinar og snyrtilegar, saltnotkun í lágmarki, hálkuslys fátíð og svo mætti lengi telja”

Á myndinni sem fylgir færslunni er snjóbræðslukerfi sem þegar hefur verið lagt sýnt með rauðum lít.  Græni liturinn sýnir þau svæði sem á að leggja í ár í tengslum við Hörpu. Ég átta mig ekki á tengingunni milli svæðisins við Hörpu og miðborgarinnar.  Sú tenging virkar ekki sannfærandi.  Hefði ekki verið eðlilegra að láta upphitaða leiðina frá Hörpu í miðbæinn liggja austan við Kalkofnsveg undir Arnarhól að Lækjargötu/Bankastræti í stað þeirrar leiðar sem sýnd er á uppdættinum sem liggur meðfram gryfjunni (húsagrunni) vestanverðu við Kalkofnsveg að Miðbakka norðan Geirsgötu?  Hvað hafa tónleikagesti að gera á Miðbakka? Eða koma þeir kannski þaðan?

Fréttabréfið Gangverk má nálgast hér:

http://www.verkis.is/media/frettabref/2011-02-Gangverk—net.pdf

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hilmar Þór

    Ég byggði ágiskun mína í færslunni um að snjóbræðslukerfi í miðbæ Reykjavíkur væri sennilega einstakt í veröldinni, ekki á þekkingu, heldur á tilfinningu. Ég spurði sérfræðingana hvort þetta væri tóm vitleysa í mér og fékk eftrifarandi svar frá Andra Ægissyni:

    “Þetta er líklega stærsta samfellda snjóbrædda svæði í heiminum sem er hitað með jarðvarma. Þetta eru að vísu um 12 kerfi sem eru á bilinu 5000 til 15000 fermetrar hvert, samtals um 70.000 fermetrar. Snjóbræðslur í gangstéttum og götum hafa verið lagðar í einhverju mæli á norðurlöndunum, í Japan og í USA en ekki í eins miklum mæli og hér. Yfirleitt er nýttur afgangsvarmi af einhverju tagi eða jarðvarmi til að hita svæðin”.

  • Jóhannes G.

    Ég hef aldrei gert mér grein fyrir hvað þetta snjóbræðslukerfi í miðbænum er umfangsmikið. Og ekki má gleyma að á allnokkrum stöðum borgarinnar eru jafnvel akbrautir fyrir bíla snjóbræddar. Gaman væri að vita hvort þetta kerfi hefði áhrif á veðurfar/hitastig á stað eins og Kvosina í bland við hita frá húsum og vegfarendum????? Er hægt að áætla hversu miklu munar á veðurfari/hita í kvosinni með eða án snjóbræðslukerfisins?

  • Hilmar Þór

    Þakka þér athugasemdina Andri Ægisson.

    Bloggið er umræðuvettvangur e.k. þjóðfundur sem allir sem vilja geta lagt til málanna. Það er gott að fá svona pottþétta athugasemd/leiðréttingu eins og þú settir inn á færsluna. En mér til málsbóta þá var ekki hægt að skilja uppdráttinn öðruvísi en svo að ekki væri snjóbræðsla meðfram Seðlabankanum. En það er nú leiðrétt.

    Ég set stundum spurningar og gagnrýni inn í færslurnar. Oft til þess að fá viðbrögð og stundum til þess að koma sjónarmiðum á framfæri eins og nú.

  • Ég fattaði fyrst almennilega fyrir tveimur vikum hversu öflugt þetta kerfi í miðbænum er. Þá gerði mikinn snjó um föstudagskvöldið, en þegar ég rölti niður í bæ daginn eftir þá var Fischersundið orðið algerlega snjólaust.

  • Andri Ægisson

    Takk fyrir þetta Hilmar.

    Aðeins varðandi athugasemdir sem koma fram í pistlinum hjá þér.

    Gönguleiðin vestan Kalkofnsvegar verður endurnýjuð í tengslum við lóðarframkvæmdir við Hörpu og því þótti rétt að snjóbræða hana. Sérstaklega þar sem hún er í framhaldi af snjóbræddri gangstétt frá Geirsgötu. Austan Kalkofnsvegar er snjóbræðsla í gangstétt meðfram Seðlabankanum sem tengist honum. Sú bræðsla er ekki sýnd á þessu korti þar sem það sýnir bræðslur sem eru í umsjá Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar og tengjast bakvatnskerfi OR.

    Eins og þú segir er stór hola vestan megin við Hörpu þar sem höfuðstöðvar Landsbankans og Hótel áttu að rísa. Þegar farið verður í framkvæmdir á því svæði má reikna með að Harpan og miðbærinn verði betur tengd með gönguleiðum og þær flestar snjóbræddar.

    Kv. Andri

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn