Íbúasamtök Vesturbæjar eru svokölluð grasrótarsamtök sem stofnuð voru 1977. Þau spruttu upp í hverfinu af frumkvæði íbúanna sjálfra. Þau fundu sér verkefni og þeim var vel tekið. Samtökin þjöppuðu íbúunum saman. Uppskeran var í samræmi við væntingar.
Það vita það ekki margir en Íbúasamtök Vesturbæjar norðan Hringbrautar var fyrst til þess að skilgreina íbúðahverfi sem 30 km svæði. Það er að segja að þeir gerðu hverfið sitt að svæði þar sem bílar meiga ekki aka hraðar er 30 km á klukkustund.
Íbúsasamtökin unnu á sínum tíma spá um aldursþróun íbúanna sem sýndi að byggja þyrfti nýjan grunnskóla í borgarhlutanum og Vesturbæjarskóli var byggður í framhaldinu.
Íbúasamtök Vesturbæjar gerðu margt fleira sem ekki er tíundað hér.
Það skemmtilegasta í starfi samtakanna í mínum huga er frumkvæði þeirra að tilurð og uppsetningu Sólfars Jóns Gunnars Árnasonar við Sæbraut
Þannig var að íbúasamtökin áttu einhvern rekstrarafgang og ákváðu að gefa borginni myndverk í tilefni 200 ára afmælis hennar 1986.
Þetta var fyrir réttum 30 árum. Þau buðu þrem myndlistamönnum til lokaðrar samkeppni um verkið.
Sá sem sigraði samkeppnina var Jón Gunnar Árnason sem lagði fram hugmyndina að Sólfarinu og vildi að verkið yrði sett upp í fjörunni við Ánanaust. Almenn ánægja var með verkið meðal íbúasamtakanna.
Þegar tíminn leið sáu samtökin að þau gætu ekki staðið undir kostnaðinum við stækkum og uppsetningu verksins sem áætlaður var 2 miljónir króna, en samtökin áttu einungis rúm 400 þúsund.
Í stað þess að gefast upp eða leggja hugmyndina á hilluna gengu forsvarsmenn grasrótarsamtakanna á fund borgarstjórans sem þá var Davíð Oddsson. Borgarstjórinn tók erindinu afskaplega vel og tók strax ákvörðun um að veita hugmyndinni brautargengi.
Á 200 ára afmælinu þann 18. ágúst 1986 var svo tilkynnt í Höfða að verkið yrði smíðað og sett upp við enda Frakkstígs við Sæbraut. Grasrótarsamtökin voru ekki ánægð með staðsetninguna en létu sér það lynda enda var listamaðurinn því ekki andvígur.
En Sólfarið stendur þarna vegna þess að grasrótarsamtök komu hugmyndinni á framfæri og ruddu veginn öllum til ánægju. Sólfarið er nú eitt helsta kennileiti borgarinnar og Íslands.
Þetta er saga sem ekki má gleymast.
Íbúsamtök Vesturbæjar unnu marga sigra og við meigum ekki gleyma öðrum grasrótarsamtökum. Torfusamtökin björguðu Bernhöftstorfunni, Líf og Land breyttu viðhorfi fólks til lausagöngu búfjár og styrktu umræðuna um skógrækt. Samtökin gáfu Reykjavíkurborg mörg hundruð tré sem plantað var meðfram Suðurlandsbraut og standa þarna öllum til ánægju og svona má lengi telja.
++++++
Nú eru hvergi starfandi virk grasrótarsamtök sem eru í einhverri líkingu við þau sem voru áhrifavaldar á þessum árum.
Fyrir 30 árum hlustaði fólk á grasrótina. Nú leiða menn hana hjá sér. Áhrif aðgerðasinna er hverfandi og áhuginn fyrir að starfa með þeim fer eðlilega af þeim sökum minnkandi.
Það voru hátt í þúsund einstaklingar sem mótmæltu deiliskipulagi Landsspítalans fyrir nokkrum misserum og það voru skrifaðar á þriðja hundrað greinar gegn skipulaginu að mér er sagt og fundir voru haldnir. Árangurinn var enginn, forherðingin varð bara meiri. Tugþúsundir skrifuðu undir mótmæli gegn því að Reykjavíkurflugvöllur væri lagður niður. Það hafði engin áhrif. Og vegna þess að hér er verið að fjalla um Íbúasamtök Vesturbæjar er vert að minna á að öflug núverandi stjórn samtakanna hefur fjallað um skipulag við Mýrargötu án þess að sýnilegur árangur sjáist.
Svona má lengi halda áfram.
Fyrir allmörgum árum var komið á legg hverfisráðum á vegum borgarinnar þar sem fulltrúar kosnir af borgarstjórn skipa ráðin. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri nær að íbúarnir kysu með beinum hætti fulltrúa sína í hverfisráðin án aðkomu borgarstjórnar.
Borgarstjórn gæti hinsvegar haft þar áheyrnarfulltrúa. Kannski lagaði það eitthvað ástandið, grasrótin lifnaði kannski við og íbúalýðræðið yrði virkara og hverfin yndislegri!
Ég hef alltaf haf mikið álit á aðgerðarsinnum og grasrótarsamtökum allskonar. Mér finnst borgaraleg óhlýðni líka áhugaverð. Enda skilaði hún oft ágætum árangri.
Þetta vaxandi áhrifaleysi grasrótarinnar er af hinu verra. Afleiðingin er aðhaldsleysi og verri stjórnsýsla.
Ég verð líka var við að grasrótin í ýmsum félögum hefur sífellt minni áhrif. T.a.m. í mínu félagi, Arkitektafélagi Íslands, er lítið tekið tillit til grasrótarinnar. Nýlega var óskað eftir félagsfundi vegna mikilvægs máls sem varðar hagsmuni stéttar arkitekta og umbjóðenda þeirra. Óskin kom frá grasrótinni. Fundurinn var óvenju fjölmennur og skýr stefna mörkuð í málinu með markvissri ályktun.
Ekkert gerðist. Áhugaleysið var áþreifanlegt. Stjórn og framkvæmdastjórn lét málið kjurt liggja að því er virðist, hafði lítinn áhuga á sjónarmiðum grasrótarinnar og hagsmunum hennar. Og auðvitað nennti grasrótin ekki að fylgja málinu eftir þegar svoleiðis stendur á.
Þegar svona er unnið á nánast öllum sviðum þjóðfélagsins nennir grasrótin ekki að hreyfa fingur þegar henni sýnist eitthvað vera að fara út af sporinnu eða hún fær nýjar hugmyndir. Öll umræða virðist gagnslaus. Hvatinn er enginn og dægurmálaumræðan deyr.
Það er til einskis unnið og rótinni er oft launað með einhverjum ónotum.
+++++
Hér að neðan er mynd af góðum vini mínum, Súmmaranum Jóni Gunnari Árnasyni, „Hugarorka og sólstafir“ sem er vel við eigandi hér. Hvað er annars að frétta af SÚM?
Leiðinleg þróun þjóðfélagsumræðunnar.
Ætli öll þessi bloggstarfssemi og Facebook umræða sé ekki ástæðan fyrir lélegu gengi aðgerðarhópa. Fólk fær útrás í tölvunni og nennir ekki að mæta á fundi!
Ég held að þessi hugmynd um að kjósa í hverfisráð með beinum hætti í hverfunum gæti bætt ástandið.
Þverpólitísk lausnamiðuð hverfisráð sem veittu borgarstjórn aðhald.
Þessi hugmynd mundi breyta öllu pólitíska landslaginu.
Hvernig væri að byrja á því?
Ótrúlega skemmtileg saga og um leið dapurt að grasrótin allstaðar er eitthvað tannlaus. Það er ekki svo langt síðan að menn voru að ræða um samtalspólitík. Ég hélt að það væri hugmyndin að grasrótin og þeir sem hafa umboðið í meirihlura og minnihluta töluðu saman en tækjust ekki endilega á.
Þessi hugmynd um að kjósa í hverfaráðin beint er góð. Það ætti að kjósa í hverfisráðin á miðju kjörtímabili og þau eiga að vera ópólitísk og ráðgefandi aðhald ráðhússins.
Hér er slóð þar sem fjallað er um athugasemdafjöldann vegna Landsspítala sem nefdat eru í pistlinum;
http://nyrlandspitali.com/pistlar/2012/121-817-gerdhu-athugasemdir-vidh-deiliskipulagidh.html
Afl óbreyttra áhugamanna um samfélagið er orðið að engu. Það er notað á fjögra ára fresti. Og svo gleymmist það að loknum kosningum.
Þessi saga af Sólfarinu er stórkostleg og þarna sannaði DO enn einusinni ágæti sitt og hæfileika til þess að vinna með umbjóðendum sínum.
Fróðlegur pistill og umhugsunarverð þróun umræðunnar.
Takk fyrir þessa ánægjulegu sögu af uppruna Sólfarsins, Hilmar.
Ég held að það fari ekki á milli mála að Sólfarið sé það útilistaverk í Reykjavík sem hefur vakið langmesta athygli. Það hefur mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn og minnir í því sambandi á hlutverk Litlu hafmeyjunnar í Kaupmannahöfn.
Annars er Sófarið mun austar en við enda Klapparstígs. Það er ekki við enda neinnar götu en er næst Frakkastíg.
Þakka þér ábendinguna. Er búinn að leiðrétta. Kærar þakkir.