Föstudagur 28.10.2011 - 18:47 - 3 ummæli

Spennandi safn í Hollandi


Hollensku arkitektarnir á stofu Eric van Egeraat luku nýlega við að byggja stækkun á safni í Assen I Hollandi.  Af tilliti til umhverfisins er safnið grafið niður í jörðina.  Þetta er skemmtileg og skynsamleg nálgun fyrir að minnsta kosti tveggja hluta sakir.  Í fyrsta lagi misbýður þessi stóra bygging ekki umhverfinu og í annan stað færa arkitektarnir umhverfinu garð sem stuðlar að vistvænu umhverfi og skilar aftur því landi og gróðri sem byggingin tæki ella af jarðarkringlunni.

Þetta er sem sagt bygging sem tekur fullt tillit til umhverfisins bæði útfrá byggingarlist og vistvænum sjónarmiðum.

Teiknistofa Erick van Egeraat (hollendingur fæddur 1956) hefur vakið athygli fyrir verk sín undanfarin rúmlega 20 ár.  Þar kennir margra grasa og augljóst er að þau leita í smiðju fjölda arkitekta.  Ekki er að sjá að stofan hafi sterk einkenni eða eins og sagt er á dönsku “holdningu”.  Stofan tiplar á ýmsum hugmyndum víðsvegar að en kemur ekki með margar nýjar sjálf. Það er svosem ekkert við það að athuga þó arkitektar séu ekki alltaf að finna upp hjólið en þeir þurfa endilega að finna fjölina sína.

Til þess að skýra þetta birti ég myndir af hugmyndum  Eric van Egeraat að byggingum við höfnina í Kaupmannahöfn.  Þar sér maður fullkomna andstöðu við tillitsemina sem kemur fram í safninu í Hollandi.  Frá mínum bæjardyrum séð eru byggingarnar í Kaupmannahöfn bara tóm vitleysa.

Áhugasamir ættu að skoða heimasíðu stofunnar sem er full af brellum allskonar og svo frumleg að það hálfa væri mikið meira en nóg,  manni verður eiginlega um og ó.  Þar með er ég ekki að segja að þarna sé slæmur arkitektúr á ferð.  Þvert á móti.  Margt þarna er virkilega gott:

http://www.erickvanegeraat.com/


Afstöðumynd.  Þakið er í raun garður.  Aðalingangurinn er um gamalt hús, svipað og í Lousiana eftir Jörgen Bo og Vilhelm Wohlert í Danmörku.   Í gamla húsinu  er stigi og lyfta niður í safnið sem er að mestu neðanjarðar

Sneiðingin sýnir að viðbyggingin er nánast öll neðanjarðar.

Útlitið er svo nærgætið að það sést ekki

Teiknistofa Eric van Egeraat hefur lagt fram tillögu að nýbyggingum við höfnina í Kaupmannahöfn.  Þarna eru fyrir gömul pakkhús sem byggð eru úr gulum múrstein og þakið er með rúmlega 40° halla með rauðu „vingetegl“.  Veggirnir eru fletir með götum í þar sem koma djúp glugga- og hurðaop sem eru í samræmi við þykkt útveggjana.  Allt mjög sjarmerandi og í anda staðarins.

Hollenska arkitektastofan hefur lesið umhverfið þannig að hún telur húsin að ofan passi í umhverfið.  Ég veit ekki hvað maður á að halda.  Mér finnst þetta, eins og áður sagði,  tóm vitleysa.  Það er eins og einhver demón hafi haldið um tölvumúsina og teiknað nokkra púka sem hanga þarna á hafnarbakkanum.

Að neðan er hönnun sömu stofu af húsum í Lundúnum.  Ég þekki ekkert aðstæður þarna og vona að þetta eigi ekki eins illa við  og í Kaupmannahöfn.  En maður óttast það.  Arkitektarnir eru eins og margir stjörnuarkitektar tillitssamari á heimaslóð en erlendis.

„Varist stjörnuarkitekta“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Árni Ólafsson

    Teiknimyndaarkitektúr !

  • Kristján G.

    Bergsveinn. Ég held það sé ásæðulaust að hafa áhyggjur af þessum munalausum rýmum. Þau eru gríðarlega falleg umgjörð um hvaða sýningargripi sem er. Það er hinsvegar ástæða til að hafa áhyggjur af því að engin skip eða bátar eru lengur i gömlu höfninni í Kaupmannahöfn. Svo maður tali nú ekki um ef þeir byggja þessa „púka“ þarna

  • Bergveinn

    Hvað eru danir að flytja inn arkitektúr frá Hollandi. Danir eru mun flottari arkitektar en Hollendingar. Ef þeir þurfa að flytja eiithvað inn í þessum efnum ætti það að vera frá Skandinavíu, sérstaklega Finnlandi.

    Annars er þetta safn tær snilld. Það vantar bara aðalatriðin. Þ.e.a.s. sýniguna og sýningargripina en það er kannski aukaatriði. Þetta er sennilega arkitektúr arkitektúrsins vagna. Arkitektúrinn er oft skapaður fyrir aðra arkitekta sem við hin botnum ekkert í.
    En þessi umfjöllun er skelegg og án tvímæla.

    Þakka það.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn