Fimmtudagur 02.02.2017 - 13:56 - 9 ummæli

Spítalar í Reykjavík á árum áður

fullsizerenderq

Ég var að velta fyrir mér sjúkrahúsunum og byggingum sem tengjast heilsugæslu í Reykjavík á árum áður og fram á okkar dag.  Ég hripaði nokkur atriði niður um leið og ég vafraði í gegnum þetta á netinu. Þetta er merkileg saga og á margan hátt sértök, sennilega einstæð.

++++

Fyrsta byggingin þar sem heilbrigðismál voru á dagskrá er sennilega Nesstofa sem var reist á árunum 1760-1767 á vegum hinna dönsku stjórnvalda landsins að frumkvæði íslenskra ráðamanna.  Hlutverk hússins var að vera embættisbústaður fyrir fyrsta landlækni Íslands, Bjarna Pálsson sem var félagi Svefneyingsins Eggerts Ólafssonar.

Í konungsúrskurði um skipun landlæknis árið 1760 var gert ráð fyrir byggingu embættisbústaðarins á einhverri konungsjörð á Suðurlandi og varð Nes við Seltjörn fyrir valinu. Nesstofa var embættisbústaður landlæknis til ársins 1834. Síðustu verk arkitektsins Fortlings voru Bessastaðastofa og Nesstofa sem hann mun hafa lokið við að teikna vorið 1761.

Á myndinni að ofan af Nesstofu vekur tvennt athygli. Annarsvegar er það bislagið sem er úr timbri og líklega ekki samkvæmt fyrirmælum Fortlings eða danskri byggingahefð og svo er það „torfbragginn“ sem er grasi gróinn á göflunum. Þetta er sennilega misskilningur hjá þeim sem gróf prentplötuna og bislagið viðbót sem heimamenn hafa smíðað vegna veðurfarsins.

+++++

Það má skjóta því hér inn að  talið er að eitt fyrsta elliheimili landsins hafi verið reist í Ólafsfirði á fjórtándu öld. Það hét Kvíabekkur og var spítali og heimili fyrir gamla presta, en það þótti kostur við staðsetninguna að þar var góður aðgangur að fiskmeti.

 

fullsizerendert

Sjúkrahús Reykjavíkur var fyrsti spítalinn í Reykjavík stóð að Kirkjubrú 1 þar sem Herkastalinn stendur nú. Sjúkrahúsið var rekið af einkaaðilum í þessu húsi frá 1866 til 1884. Þarna var rými fyrir 14 sjúklinga. Húsið  blasti við þegar gengið var suður Aðalstræti frá höfninni.  Ekki veit ég hvort staðarvalið hafi ákvarðast af því að austar í götunni var Dómkirkjan en víst er að Víkurkirkjugarður hafði þar engin áhrif vegna þess að hætt var að jarðsetja þar þegar spítalinn tók til starfa.  Þetta var sérlega fallegt hús ef marka má ljósmyndir. Fallega proportionerað með smá Palladio yfirbragði. Ég sæi húsið sem kallað var „Okakerið“ (?)  gjarna endurreist einhversstaðar í borginni. En það er auðvitað borin von.  Sjúkrahúsið var á efri hæð og veitinga- og skemmtistaður á neðri hæð. Skemmtileg blanda sem kannsi er ekki til eftirbreytni. Að neðan er svo merkileg götumynd sem ég fann þar sem sjá má Kirkjustrætið (Kirkjubrú (?) alla leið að Pósthússtræti.  Á myndinni er er Okakerið til hægri með hlerum fyrir gluggum á neðri hæð og búið er að byggja Alþingishúsið. Við endan sést í Berhöftstorfuna uppi í brekkunni.

fullsizerenderjhgjgh

fullsizerenderh

Farsóttarhúsið við Þingholtsstræti 25 var almennur spítali frá 1884 Þegar Okakerinu var lokað allt til 1903 þegar aðalsjúkrahús Reykjavíkur, Landakotsspítali, tók til starfa. Starfsemi Læknaskólans fór að mestu fram í húsinu frá árinu 1902, eða þar til Háskóli Íslands tók til starfa árið 1911. Það má því segja að þetta hafi verið fyrsta háskólasjúkrahúsið hér á landi. Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1910 og var það notað sem íbúðarhús um tíma. En árið 1910 var því breytt í sjúkrahús sem einkum átti að vista farsóttarsjúklinga og var þá gjarnan nefnt Farsóttarhúsið eða Farsótt og hefur það nafn haldist síðan.

Frá 1970 var þar aðstaða útigangsmanna en nú hefur henni verið lokað og stendur húsið tómt. Núgildandi deiliskipulag leyfir nýbyggingu á austasta hluta lóðarinnar þar sem nú má sjá leyfar af flísalögðu gólfi þar sem menn voru krufnir í rannsóknar og kennsluskini.

fullsizerendern

Myndin að ofan er af Kirkjustræti 12 sem var fyrsta húsið við strætið ef Dómkirkjan er undanskilin og stóð við hlið Alþingishússins. Því hefur nú verið komið fyrir á Árbæjarsafni og þjónar sem inngangur í safnið eða móttaka.  Húsið sem byggt er úr múrstein var tekið í notkun árið 1848 timburhæðinni var bætt ofaná árið 1882. Húsbyggjandi var Chr. L. Møller.  Halldór Kr. Friðriksson eignaðist húsið 1851. Kona hans Leopoldina Friðriksson, var dönsk. Þau eignuðust sex börn sem upp komust. Leopoldina var mikil garðræktarkona en missti garðland sitt þegar Halldór seldi landsstjórninni spildu undir byggingu Alþingishússins árið 1880.

Þarna var  var Hjúkrunarfélagið Líkn með sína starfssemi og ber það nafn þess.

Líkn var lengi íbúðarhús. Á lóð hússins var þar kindakofi, eins og fram kemur í endurminningum Árna Thorsteinsson um mikið flóð í miðbænum árið 1881: „Það mun hafa verið í þessu sama flóði, sem flæddi í kindakofann hans Halldórs Kr. Friðrikssonar í Kirkjustræti 12, og voru ærnar fluttar inn í Alþingishúsið, er þá var í byggingu. Þótti það kynleg tilviljun að kindurnar voru 32, eða nákvæmlega jafnmargar þingmönnum þeirra tíma.“

Árið 1911 seldi Leopoldina húsið Háskóla Íslands og var þar m.a. rannsóknarstofa læknadeildar. Hjúkrunarfélagið Líkn fékk húsið til afnota á árunum 1941-56 og dregur það nafn sitt af því. Þar fór m.a. fram berklaskoðun.

 

fullsizerenderr

Lauganesspítali var reistur af dönskum Oddfellowfélögum en rekinn af íslenska ríkinu frá 1898 til 1940 þegar hann var tekinn til notkunnar af setuliði bandamanna.

Á fyrstu áratugum 20 aldarinnar var rekinn holdsveikraspítali í Laugarnesi í þessu glæsilegu timburhúsi. Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var vígður 27. júlí 1898. Spítalinn var gjöf dönsku Odfellowreglunnar til íslensku þjóðarinnar. Hann var byggður fyrir gjafafé sem safnað var í Danmörku. Nokkru áður eða sumrin 1895 og 1896, ferðaðist hér um landið á vegum landstjórnarinnar danskur læknir dr. Edvard Ehler til að kynna sér útbreiðslu  holdsveiki og meðferð sjúkra á Íslandi. Ehler skrifaði blaðagreinar og hélt erindi í Danmörku og lýsti holdsveiki sem smitsjúkdóm þar sem einangrun holdsveikra og hentug spítalavist væri áhrifamesta vörnin.

Húsið brann á stríðsárunum.

holdsveikraspitalinn_i_laugarnesi

 

 

fullsizerenderw

Franski spítalinn við Lindargötu var rekinn af La Societe des Hooitezu Francais d´Islande frá 1903-1921.  Það vekur athygli að Franski spítalinn við Lindargötu, Laugarnesspítali og Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hafa allir sama eða svipað húsform.

photo-b-1024x768

Landakotsspítali við Túngötu  var 172 daga í byggingu og tók til starfa 1902. Spítalinn var helsti spítali landsins og kennslusjúkrahús (háskólasjúkrahús) þar til starfssemi Landspítalans hófst árið 1930. Þetta var tvílyft timburhús á steyptum kjallara með risi. Takið eftir myndarlegum sólstofum á fyrstu hæð og „karnapp“ á annarri hæð fyrir miðju húsi. Seinna var byggt við húsið glæsileg bygging úr steinsteypu. Spítalinn var rekinn af St. Jósefssystrum. Margir höfðu horn í síðu systranna vegna trúar þeirra.

5_0_82

Byggt var við gamla Landakotsspítalan á fjórða áratug síðustu aldar samkvæmt nytjastefnunni eða modernismanum. Þetta var afar glæsileg bygging sem hönnuð af Sigurði Guðmundssyni arkitekt sýnist mér.  Byggingin var í hæsta gæðaflokki og fullkomlega á pari við það besta sem byggt var á meginlandi Evrópu á sama tíma. Áratugum síðar var gamli spítalinn rifinn til að rýma fyrir þeirri byggingu sem nú stendur og er eftir Einar Sveinsson arkitekt.

mm

Sjúkrahús líknarfélagsins Hvítabandið við Skólavörðustíg var opnað 1934. Reykjavíkurborg tók við rekstrinum 1944. Hvítabandið var kvennfélag sem stofnað var 1895 að bandarískri fyrirmynd. Enkunnarorð félagsins var „Fyrir Guð, heimilið og þjóðina“.  Nú er starfssemi þarna rekin á vegum Landspítalans.

mynd_4b

Borgarsjúkrahúsið í Fossvogi var opnað 1967  og hefu verið sjúkrahús þar allar götur síðan og mun að líkindum verða áfram þó áætlanir frá því um síðustu aldamót gangi út á annað.  Myndin að ofan sýnir hugmynd um stækkun hans. Spítalinn var hannaður af Einari Sveinssyni arkitekt og er mjög góð og sveigjanleg bygging með miklum stækkunarmöguleikum eins og sést á myndinni að ofan. Ekki veit ég hver gerði tölvumyndina með stækkunum að ofan.

fullsizerendersolheimar

Spítalinn Sólheimar sem rekið var í húsinu Tjarnargata 35 var reist af Jóni Laxdal tónskáldi árið 1913 og teiknað af Rögnvaldi Ólafssyni.  Árið 1918 var byggt við húsið að norðanverðu. Jón lést árið 1928 og hinn 15. maí undirritaði Guðrún Figved, fædd Laxdal, afsal að húsinu, þar sem það var selt Reykjavíkurborg fyrir kr. 320.000. Þá þegar höfðu læknarnir Bjarni Bjarnason, Eyþór Gunnarsson og Jónas Sveinsson tekið húsið á leigu og ráku þar sjúkrahús sem þeir nefndu Sólheima. Það var rekið fram yfir 1960.

 

fullsizerendernnn

Landspítalinn var opnaður í desember 1930. Hann var byggður af framsýnu fólki og í fullkomnu samræmi við fyrsta skipulag Reykjavíkur. Honum var valinn staður í útjaðri byggðarinnar í góðum tengslum við vegakerfið, Hringbraut, og aðra fyrirhugaða samgöngukosti við landsbyggðina svo sem járnbrautarstöð.

 

fullsizerendervv

Nú er á dagskrá að byggja svokallaðann Nýjan Landspítala á sama stað og sá spítali sem byggður var og tekinn í notkun 1930 eða fyrir 87 árum. Þetta er mikil blanda gamalla og nýrra húsa á viðkvæmum stað í borginni. Með í þessu eru bílastæðahús uppá 53.400 fermetra. Þessi framkvæmd er hugsuð til mjög langrar framtíðar. Myndin að ofan fylgdi vinningstillögunni í samkeppni um spítalann fyrir 8 árum. Síðan þá hefu verið bætt við um 15.000 fermetra byggingu sem ekki er inná þessari mynd. Þetta eru þriggja hæða byggingar sem spanna alla suðurmörk lóðarinnar meðfram nýju Hringbrautinni. Gaman og fróðlegt væri að sjá þessa upplýsandi tölvumynd uppfærða með áorðnum breytingum.

Skemmtilegt hefði líka verið ef hið svonefnda „Aðaltorg“ sem sést vel á myndinni og er framan við gamla Landspítalann hefði náð alla leið suður að Hringbraut. Gamli Landspítalinn á það eiginlega skilið.

++++

Inn í þessa upptalningu vantarHeilsuverndarstöðina eftir Einar Sveinsson,  Kleppsspítala eftir Rögnvald Ólafsson arkitekt, sjúkrahúss SÁÁ  inni við Grafarvog eftir Ingimar Hauk Ingimarsson arkitekt og eflaust sitthvað fleira. En það sem vekur athygli er að um 1970 voru að vissu marki  rekin fimm sæmilega stór sjúkrahús í borginni, Landakot, Landspítalinn , Borgarspítalinn, Kleppsspítali og Hvítabandið. Mörg þessara sjúkrahúsa eru í fullum rekstri enn í dag.

Stjórnvöld ákváðu árið 2000 að sameina sjúkrahúsin öll í eitt og það ætti að gera með viðbyggingum við núverandi byggingar á Landspítalalóð sem flestar ef ekki allar eru gamlar og gjörsamlega úreltar. Þessi ákvörðun hefir verið mikið umdeild með fjárhagslegum, rekstrarlegum og skipulagslegum rökum.

Síðan eru liðin 17 ár og á þeim tíma hafa allar stoðir sem stóðu undir staðarvalinu frá 2002 brostið. Ekki stendur steinn yfir steini í þeim staðarvalsúttektum sem komu í kjölfarið sem allar byggðu á þeirri fyrstu.  Stjórnvöld hafa dregið lappirnar með að láta gera opna og óháða staðarvalsgreiningu vegna gjörbreyttra aðstæðna. Slík úttekt hefði án nokkurs vafa sýnt að annaðhvort er Hringbraut rétti staðurinn eða ekki. Friður hefði fengist um málið. En nú er svo komið að stjórnvöld eru að falla á tíma tíma og hafa málað sig út í horn vegna aðgerðaleysis. Eina leiðin sem þau sjá er að hafna faglegri vinnu og halda út í fullkomna óvissu, af fullum krafti, sem líklega mun valda þjóðinni miklu tjóni til styttri og lengri tíma.  Þarna er um að ræða fjárfestingu upp á töluvert á annað hundrað milljarða króna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Jón Árni

    Sammála því að svona stutt yfirlit yfir gömlu sjúkrahúsin á landsbyggðinni væri kærkomið.

  • Stefán Örn Stefánsson

    Mjög skemmtilegir pistlar undanfarið eins og ævinlega. Spítalarnir í Reykjavík er einkar fín samantekt og nú þegar komið er blóð á tönnina finnst mér að þú ættir að skella þér hringinn, þar gæti margt komið á óvart.
    Stefán Örn

  • Þórdís

    Og oftast komu konur að þessum sjúkrahúsum sem frumkvöðlar. Þarf ekki að skrifa sögu sjúkrahúsanna með áherslu á byggingarnar?

  • Guðmundur Jónsson

    Sjúkrahús á efri hæð og skemmtistaður á neðri hæð…í timburhúsi.

    Þetta er á okkar dögum algerlega bara fyndið.

    Sjúklingunum hefur vonandi ekki leiðst!!!

    Mátti til með að setja þetta hér inn.

  • Skemmtileg færsla.

    Einkar áhugaverð textinn undir mynd af gamla Landspítalanum sem var byggður í útjaðri byggðar osfr. Þarna voru menn með puttann á púlsinum.

    Í hvert skipti sem ég sé þessa mynd af nýja landspítalanum tekur hjartað kipp. Þetta er svo útúr allri kú að það nær ekki nokkurri átt. Hvað eru menn að hugsa og hversvegna er þetta ekki stöðvað. Það eru endalaus rök með því að byggja nýjan spítala á nýjum stað.

    Það eitt og sér að ætla að gera upp og reka spítala í næstum 100 ára gömlum húsum segir meira en mörg orð. Þetta hlýtur að vera það vitlausasta framkvæmd íslandssögunnar.

  • Kærar þakkir fyrir þessi áhugaverðu skrif.

    Ég hafði aldrei heyrt um Okakerið.

    Mér líst sífellt verr á áform um byggingar á Landspítalalóð.

    Ég held að þeim fjölgi sem telji þarna hörmungar í uppsiglingu.

  • Þórhildur

    Ég her heyrt um öll þessi hús að einu undanskildu.

    Það er Okakerið.

    Ég þarf að googla það betur.

    Þakka fróðlega færslu

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn