Sunnudagur 12.04.2015 - 16:21 - 19 ummæli

Spítalinn Okkar.

Landspítalinn og bætt húsnæðismál hans njóta mikils stuðnings frá öllum almenningi.

Stjórnmálamönnum er umhugað um að bæta ástandið. Læknar og starfsfólk er á einu máli um nauðsyn þess að verkefnið fari af stað sem allra fyrst.  Sama má segja um arkitekta og skipulagsræðinga. Allir eru á einu máli um að það þurfi að hefjast handa um lausn málsins eins fljótt og auðið er.

Í þessu ljósi spyr maður af hverju uppbyggingin sé ekki fyrir löngu hafin og verkefninu lokið?

Það læðist að manni sá grunur að helstu fyrirstöðuna sé að finna í því að ekkert hefur verið endirskoðað frá því um aldamót. Það kemur fram deiliskipulaginu sjálfu og þeim áætlunum sem því fylgja.

Það hefur svo mikið breyst á síðustu 15 árum að það sendur varla steinn yfir steini. Það er ekki sátt um málið.

Nýjum Landspítala ohf hefur ekki tekist að selja fóki staðsetninguna, hugmyndina og deiliskipulagið eða ekki tekist að aðlaga  hugmyndirnar að breyttum aðstæðum. Stjórnmálamenn eru hikandi og forðast ákvarðanatöku á fyrirligjandi grunni. Skoðanakannanir sýna að læknar vilja ekki þessar áætlanir og allur almenningur er að mestu á móti hugmyndunum.

Deiliskipulagið stenst ekki Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð og er á skjön við nýtt aðalskipulag Reykjavíkur á margan hátt og stenst varla samgöngumarkmið aðalskipulagsins.

Talsmenn spítalans segja að ákvarðirnar hafi verið teknar fyrir löngu og þeim verði ekki breytt.

Hinir sem eru í vafa segja einmitt að ástæða sé til þess að endurkoða staðsetninguna og umsvifin vegna þess að það sé svo langt síðan að ákvörðunin var tekin og allt hafi breyst!

Frá því að umdeilanlegt staðarval fór endanlega fram árið 2002 hefur allt breyst. Ákvörðunin var tekin í byrjun góðærisins. Peningarnir sem ætlaðir voru til verksins eru ekki lengur fyrir hendi. Landverð og mat á landkostum hefur breyst. Yfir okkur hefur gengið efnahagshrun. Reykjavíkurborg hefur fengið nýtt frábært aðalskipulag og margt fleira.

Fyrir fimm árum var talið of seint að endurskoða staðsetninguna eða umsvif verkefnisins. Enn í dag eru helstu rökin fyrir því að ekki megi  breyta núverandi áætlunum einmitt að það sé of seint og að ákvörðunin löngu tekin.

Gagnrýni á deiliskipulagið ætti að vera fagnaðarefni fyrir aðstandendur deiliskipulagsins vegna þess að þeim gefst þar tækifæri til þess að rökstyðja áætlanirnar betur, selja hugmyndina. Það vilja allir veg spítalans sem mestan og greiða götu hans til farsældar. Við eigum að tala saman viðurkenna breyttar forsendur og breyta afstöðunni ef tilefni er til. Ekki stinga höfðinu í sandinn. Ná sáttum.

++++++

Ég vek athygli á því að nýjasta innlegg á hemasíðu aðstandenda spítalans  http://nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/forsida/  er frá 21. ágúst 2013 sem segir sína sögu. Síðan virðist hafa fengið snökkt ótímabært andlát fyrir bráðum tveim árum og getur því ekki tekið þátt í þeirri blómlegu umnræðu sem nú á sér stað. Eða vill kannski  ekki eiga samtal við fólk sem ber hag spítalans fyrir fyrir brjósti.

Hönnunarteymið, Spítalhópurinn, heldur ekki úti heimasíðu svo ég hafi orðið var við.

Hinsvegar er önnur síða sem er lifandi og ágæt. En það er síðan http://www.spitalinnokkar.is/is Ég ráðlegg fólki að skoða hana. Það er samt einkennandi fyrir báðar þessar síður að þær eru ekki gagnvirkar eins og er tilfinnanlegt undir liðnum „spurt og svarað“ sem má sjá hér: http://www.spitalinnokkar.is/is/spurt-og-svarad

Samtal um þessa fram,kvæmd er nánast án þáttöku aðstandenda spítalaframkvæmdarinnar.

+++++

Við eigum að fagna því þegar einhver gerir tilraun til þess að opna hurðir eða opna nýja glugga sem varpa nýju ljósi á málið. Taka til málefnalegrar umfjöllunar hugmyndir á borð við þær sem Magnús Skúlason arkitekt og Páll Torfi Önundarson professor lögðu fram fyrir mörgum árum og nýlegri ábendingu forsætisráðherra um aðra staðsetningu. Eða finna spítalanum annan stað. http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/24/husnaedisvandi-landspitalans-onnur-nalgun/ Svo má ekki gleyma fróðlegri síðu sem heitir Hin Hliðin þar sem safnað hefur verið saman ýmsum gögnum sem varða málið: http://nyrlandspitali.com/

+++++

Brjótum odd af oflætinu. Viðurkennum forsendubrestinn og breytingarnar frá árinu 2002, ræðum málið og endurskoðum áætlanirnar í ljósi breyttra aðstæðna ef þörf er á.

Að því loknu verður hægt að hefja framkvæmdir í sátt. Töfin er í hæsta lagi 2-4 ár. Í millitíðini leikum við biðleik í anda hugmynda Páls Torfa prófgessors og Magnúsar Skúlasonar arkitekts.

Þetta verður langstærsta opibera framkvæmd íslandssögunnar. Samkvæmt kostnaðaráætlun frá okt. 2012 mun aðeins 1. áfangi kosta um 85 milljarða króna að mér er sagt. Nauðsynlegt er að þetta mikla mál sé í stöðugri skoðun frá mörgum áttum.

+++++

Að neðan er að lokum mynd fengin af síðu Ágústar H. Bjarnasonar verkfræðings sem sýnir samhengi lóðanna sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur vakið athygli á  og heyra undir RUV og Borgarspítalann.

+++++

Hér er fjallað um útvarpsviðtal vegna málsins sem sent var út í liðinni viku: http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/04/08/likir-nyjum-spitala-a-hringbraut-vid-sko-oskubusku-foturinn-kemst-bara-ekki-i-skoinn/#.VSVelg1gk40.facebook

ruv-landspitali-001

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Þorbjörg

    Hvar er málið statt í dag? Ég get ómögulega áttað mig á því við lestur heimasíðu nýs landspítala.

  • Eysteinn og Guðrún

    Það verður auðvitað ekki byggður neinn nýr spitali við Hringbraut. Allir eru því mótfallnir. Læknar, skattgreiðendur og aðalskipulagið. Hættið þessi þrasi og finnið nýjan stað…. Punktur.

  • Mælt af skynsemi og framsýni, Jón Guðmundsson.

  • Jón Guðmundsson

    Það þarf hryggsúlu til að standast breiðsíður víðsýnna sómamanna með skollaeyru, vopnuðum heildarmyndum og órökstuddum staðreyndum. Það verður aldrei sagt um þig Hilmar að þú sért hryggleysingi. Síðan þín er gátt sem veitir súrefni inn í annars lofttæmdan veruleika íslenskrar byggingarlistar.

    Af einhverjum ástæðum þá er alltaf tekist hart á um staðarval opinberra mannvirkja á Íslandi. Þrátt fyrir allt þrefið þá höfum við mýmörg dæmi um slæmar ákvarðanir. Þær verstu eru líklega staðsetning Þjóðleikhússins við Hverfisgötu og Ráðhúss Reykjavíkur í horni Tjarnarinnar.

    Í dag stendur við Hringbrautina glæsilegt safn mannvirkja sem mörg hver eru fyrstu áfangar einhvers sem aldrei kom. Til stendur að bæta við enn einum áfanga. Núverandi áætlanir svara til þess að menn hefðu ráðist í viðbyggingar við Farsóttarhúsið að Þingholtsstræti 25 árið 1926 í stað þess að byggja Landspítala við Hringbraut.

    Nútímaumgjörð um starfssemi Landsspítalans er löngu tímabær. Stofnkostnaður nýrra mannvirkja afskrifast hratt með hagkvæmari rekstri. Slíkri hagræðningu er ekki hægt að ná fram með nýjum viðbyggingum við Hringbraut. Þessa staðreynd horfðust menn í augu við árið 1926 og byggðu því nýjan spítala frá grunni við Hringbraut.

    Við höfum ekki efni á því að sólunda þeim tækifærum sem felast í nýjum spítala með því að byggja enn einn áfangann af einhverju sem aldrei kemur. Áformin við Hringbraut verður að stöðva, framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins liggur að veði.

  • Það er líklegt ef að við færum enn annan hring yrði niðurstaðan alveg sú sama. Megin niðurstöðurnar standa óhaggaðar. Það er ódýrast að byggja við spítalann þar sem hann er núna, samgöngur eru bestar við Hringbraut og plássið þar er líka nóg. Hringbraut er því besti staðurinn fyrir spítalann. Það sem sennilega stendur í sumum er ótti við aðrar samgöngur heldur en einkabílinn. Arkítektúrinn er á forræði hönnuða og arkítekta og ég efast ekki um að þeir séu starfanum vaxnir að hanna fallega byggingar í þetta umhverfi. Raunar getur fátt verið verra en þessi auðn sem er þarna í dag ofan við nýju Hringbrautina.

    Málin hafa nú verið skoðuð nokkuð vandlega í nokkur skipti og niðurstaðan ávallt verið sú sama. Það er hagstæðast að flestu leyti að byggja upp spítalann við Hringbrautina. Sú staðsetning er auðvitað ekki að öllu leyti gallalaus en kostir hennar vega þó þyngra en gallarnir.

    Með því að byggja upp við Hringbraut er hægt að nota húsnæði sem nú er til og uppbyggingin verður því ódýrari en ef spítalinn verður byggður upp algjörlega frá grunni annarsstaðar. Hann er líka vel tengdur við Háskólann stutt frá. Samgöngur við spítalann eru bestar ef hann er við Hringbrautina. Þar eru nú þegar bestu almenningssamgöngur landsins og þær munu verða það áfram útaf þéttri byggð og starfsemi við miðbæinn. Ef byggja á upp og halda sambærilegu þjónustustigi almenningssamgangna annarsstaðar mun það verða dýrara og nýting þjónustunnar líklega verri. Áhyggjur manna af umferð sjúkrabíla má leysa með að nota sérstakar akreinar fyrir sjúkrabíla og almenningssamgöngur eftir Miklubraut/Hringbraut. Þá er ekki loku fyrir það skotið, að það verði byggð jarðgöng undir Öskjuhlíð og Digranes eins og er á aðalskipulagi Reykjavíkur og Kópavogs.

    Þær hugmyndir sem ganga út á það að reisa nýjan spítala frá grunni á nýjum stað eru óraunhæfar fyrst og fremst vegna meiri kostnaðar. Samgöngur við suma af þeim stöðum sem nefndir hafa verið eru alls ekki betri en við Hringbraut. Vífilstaðir og Keldur eru meira útur, jafnvel fyrir einkabíla, og þeir staðir eru ekki betur staðsettir miðað við þungamiðju íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu. Elliðaárósar eru vissulega vel staðsettir á stærstu umferðarslaufu höfuðborgarsvæðisins en þar vantar byggingarland nema ef ætlunin er að byggja spítalann ofaná slaufunni, sem vissulega væri hugmynd. Geirsnef er gamall ruslahaugur og þar verður ekki byggður spítali né neitt annað á næstunni.

    • Friðrik Friðriksson

      Þú átt eftir að kynna þér aðalskipulagið Árni og ég held að það sama eigi við um Ingólf Þórisson of hans menn

  • Sigrún Sigurðard.

    Miðað við áhugann og viljann ætti þetta að vera búið.

    Það þarf að svara lykilspurningunni:

    „Í þessu ljósi spyr maður af hverju uppbyggingin sé ekki fyrir löngu hafin og verkefninu lokið?“

    Er henni eki svarað í pistlinum?

    Breytum áherslunum og flytjum starfssemina.

  • Guðrún Bryndís

    Í öllum þeim ‘endurskoðunum’ á staðarvali er farið yfir sömu niðurstöður nefnda sem tóku ákvörðun um að byggja við Hringbraut. Það er væntanlega túlkunaratriði í hverju sú endurskoðun felst.
    Einu breytingarnar sem verða við hverja ‘endurskoðun’ er að fermetrum spítalans fjölgar. Það er væntanlega túlkunaratriði hvernig fjölgun fermetra minnkar umfang framkvæmdar.
    Undanfarið hefur verið talað um alla þá milljarða sem kostað hefur verið til í undirbúningsferlinu, það gæti verið fróðlegt að vita hversu margir þeir eru (milljarðarnir). Það er væntanlega túlkunaratriði hvað var gert fyrir þessa milljarða.
    Þessi hugmynd um að byggja við Hringbraut og það sem á að byggja, hefur einkennst af því að leysa ótrúlega fjölbreytt og mörg vandamál. Það er væntanlega túlkunaratriði hvort þessi vandamál eru leysanleg.

  • Hafðu nú sem fyrr þökk fyrir þín ágætu skrif hér á vefsíðunni. Þau eru bæði fjölbreytt og fagleg. Ég veit ekki til að áður hafi tekist að ræða um arkitektur og skipulag á jafn málefnalegan hátt og þú gerir. Reyndar á það sama við langflesta sem hér taka til máls. Ég skil það þannig að þú hafir fjarlægt þau ummæli sem þú gerir að umræðuefni. Það er hið besta mál og í stíl við hógværðina í þínum málflutningi almennt.

  • Steindór Guðmundsson

    Þakka upplýstar og yfirvegaðar færslur um þetta þjóðþrifamál.
    Bíð spenntur etir andsvörum einhverra sem eru þessu fylgjandi.

  • Hilmar Þór

    Það er alltaf áhætta að taka þátt í opinberri umræðu.

    Þetta vita allir.

    Ég hef fengið einkasamtöl vegna pistla minna og einstakir menn hafa sent mér póst eða veist að mér á götu og lesið mér pistilin vegna skoðanna minna á arkiektúr og skipulagsmálum og staðarprýði.

    En sem betur fer fæ ég mikið hrós fyrir pistlana mína allstaðar að. Þeir eru lensir af þúsundum. Stundum tugum þúsunda.

    Ég leiði ónotin oftast hjá mér, en er þakklátur fyrir hrósið.

    Ónotin hafa oftast komið frá fólki sem ég ekki þekki og veit ekkert um.

    Fimm skiptum hefur mér verið lesinn pistillinn sem af kollegum sem ég þekki. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af þeim af ýmsum ástæðum.

    Svo í gærkvöldi fékk ér breiðsíðu frá einum sómamanni sem ég tek mikið mark á. Þetta var kollegi minn sem sagði mig skella skollaeyrum fyrir staðreyndum og sæi ekki heldarmyndina í Landspítalamálinu. Það getur vel verið að hann hafi eitthvað til síns máls, en mér var brugðið..

    Mér sárnaði þetta. Ekki vegna þess að ég taldi þetta ósanngjarnt heldur vegna þess hvaðan þetta kom. Og ganrýnin var ekki studd rökum. Heldur var vaðið beint í manninn. Þetta kom frá að ég hélt víðsýnum kollega sem hefur fengið akademiskt uppeldi i sinni menntun. Sóma drengur.

    Í framhaldinu skrifaði ég pistilinn að ofan sem heitir „Spítalinn Okkar“.

    Sá pistill sem ég hef skrifað og inniheldur flestar staðreyndirnar var skrifaður 25. ágúst 2012. Ef eitthvað er í þeim pistli eða öðrum pistlum sem gefur tilefni til þess að halda því fram að í þem sé skellt skollaeyrum við staðreyndum eða að mér sé fyrirborið að sjá heildarmyndina. Þá bið ég lesendur um að upplýsa mig og ég mun strax leiðrétta. eða skoða málið betur.

    Hér er orðréttur úrdráttur úr umræddum pistli:

    „Þegar framtíðarstaðsetning spítalans var ákveðin á sínum tíma var gert ráð fyrir um 70 þúsund fermetra nýbygginga til viðbótar við það sem fyrir var (ég rúnna tölurnar af) eða samtals um 140 þúsund fermetra byggingamagn til að fullnægja húsnæðisþörf LHS við Hringbraut til framtíðar.

    Í fyrirliggjandi deiliskipulagi er verið að kynna um 280(!) þúsund fermetra byggingamagn á svæðinu þar af 220 þúsund fermetrar í nýbyggingum.
    Getur þetta verið satt og rétt?

    Þrír óháðir erlendir sérfræðingar sem falið var að meta húsnæðisþörf spítalans töldu að heildarbyggingamagn sjúkrahússins þyrfti að vera milli 120 og 135 þúsund fermetrar þegar staðurinn var ákveðinn.
    Danska ráðgjafafyritækið Ementor taldi að 50 þúsund fermetra nýbygging dygði þannig að heildarhúsnæðisþörfinni yrði fullnægt með 120 þúsund fermetrum.

    Sænska arkitektastofan White taldi að það þyrftu 15 þúsund fermetra í viðbót við áætlun dananna eða 135 þúsund alls.
    Norska arkitektastofan Momentum taldi 130 þúsund fermetra nægja til þess að fullnægja húsnæðisþörf spítalans.

    Nú liggja fyrir áætlanir um að byggja um 220 þúsund fermetra nýbygginga á svæðinu þannig að heildarmagnið verði 280 þúsund.
    Þessir fermetrar eru að vísu ekki allir sjúkrahússins en þeir eru allir á þessari lóð og á þessum stað. Sumir fermetrarnir eru vegna HÍ og annarrar starfsemi.

    Maður veltir fyrir sér hvort þessi staður hefði verið valinn ef forsendan hefði í upphafi verið 290 þúsund fermetra byggingamagn. Hefði ekki þurft að endurskoða staðarvalið í þessu ljósi. Kannski var það gert.

    Eða hvað?“

    Pistilinn í heild má lesa hér:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/08/25/lsh-skipulag-audnarinnar/

    • Guðmundur Gunnarsson

      Hafðu engar áhyggjur.

    • Ingólfur Þórisson

      Sæll Hilmar.

      Stærðir nýbygginga eru í góðu samræmi við fyrri áætlanir erlendra sérfræðinga sem þú nefnir. Nýbyggingar eru 77þfm og eldra húsnæði 56 þfm, alls 133 þfm.

      Þessar tölur koma skýrt fram á heimasíðu verkefnisins undir helstu stærðir í deiliskipulagi.

      Ekki er sanngjarnt að stilla upp eins og þú gerir heildarhúsnæði á reitnum þ.e. líka húsnæði sem er á vegum Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og bera það saman við tillögur erlendra sérfræðinga um húsnæðisþörf Landspítala.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér, Ingólfur, fyrir þáttöku þína í þessari umræðu. Þú hefur gert það stundum áður og alltaf verið málefnalegur og upplýsandi þó ég hafi ekki alltaf verið þér sammála.

      Það væri mikill fengur í því ef fleiri í ykkar röðum tækjuð meiri þátt í umræðunni á svipaðann hátt og þú hefur gert.

      Þú telur ekki sanngjarnt af mér að stilla upp „heildarhúsnæði á reitnum þ.e. líka húsnæði sem er á vegum Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og bera það saman við tillögur erlendra sérfræðinga um húsnæðisþörf Landspítala“.

      Ég er ekki sammála þér þarna enda segi ég orðrétt: „Maður veltir fyrir sér hvort þessi staður hefði verið valinn ef forsendan hefði í upphafi verið 290 þúsund fermetra byggingamagn“ á þessum reit.

      Hefði það ekki verið ástæða til endurskoðunnar á staðarvalinu? Visu menn þetta þegar staðurinn var valinn?

      Ég hef aldrei sagt að áætlanir hinna erlendu sérfræðinga væru of miklar fyrir spítalann eða lóðina, þó ég hafi velt því fyrir mér. Hinsvegar þegar öll stoðrýmin, háskólabyggingar og um 50 þúsund fermetra bílastæðahús bætast við horfir þetta öðruvísi við. Alls tæðplega 300 þúsund fermetrar.

      Svo er það hin atriðin sem ég mundi vilja fá viðbrögð við frá ykkur sem þekkja til. Menningarstefnan, aðalskipulagið, samgönguás aðalskipulagsins og samgöngustefnan og margt fleira.

      Ég er að detta úr tölvusambandi og mun ekki vera virkur í umræðunni næstu daga en hlakka til að heyra í ykkur spítalamönnum þegar ég kemst aftur í netheima.

      Kær kveðja.

  • Hilmar Þór. Þú sýndir fyrir nokkru á þínu ágæta bloggi teikningar af sjúkrahúsi sem til stendur að reisa á Jótlandi. Taktu þér nú bessaleyfi og færðu þá útlitsteikningu inn á þitt kjörlendi sem er að Keldum og Reykvíkingar og aðrir landsmenn munu sannfærast.
    Ábending sem kannski mótast af þráhyggju en staðreyndin er sú, að mynd hefur oft meiri áhrif en mörg orð.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér GSS

      Ég skrifa þetta blogg bara að gamni mínu og legg ekki mikla innu í það.

      En það væri vissulega gaman að skoða þetta Keldnadæmi betur.

      Ég er sammála þér að með einhverri vinnu, tveir arkitektar í svona tvo mánuði gætu lagt fram gögn sem mundu breyta afstöðu meiginþorra fólks til málsins.

      Í mínum huga er þetta ekki flókið.

  • Friðrik Friðriksson

    Þetta er í peningum stærra en Kárahjnjúkavirkkun og inni í miðri borginni. Og Landspítalinn ohf nennir ekki að ræða þetta!

  • Öll umræða um LHS er einkennileg.
    Á ráðstefnu sem haldin var af tilefni Dags Verkfræðinnar s.l.föstudag voru erindi haldinn undir heitinu Heilbrigðistengd verkfræði. Þar töluðu fimm starfsmenn spítalans og þar af tveir (Ingólfur Þórisson og Aðalsteinn Pálsson) sérstaklega um þær framkvæmdir sem standa fyrir dyrum.
    Verkfræðingarnir horfðu á málið úr einni átt!

    Það er varla stætt á að halda áfram með 15 ára gamla hugsun án þess að hugsa sig um.

    En áfram með smjörið.

    • Guðrún Bryndís

      Þessir félagar og þá sérstaklega annar þeirra hafa unnið í hinum ýmsu nefnum allt frá því í lok síðustu aldar. Það er svo væntanlega túlkunaratriði hversu heppilegt það er að vera framkvæmdastjóri/starfsmaður LSH og í byggingarnefnd samtímis…

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn