Mánudagur 20.11.2017 - 11:16 - 12 ummæli

Staðarandinn loks til umræðu – Hafnartorg.

 

Lítill hópur arkitekta hefur undanfarna áratugi skrifað og talað um mikilvægi þess að byggja í anda þess sem kallað er „regionalismi“.  Það er að segja að taka í hönnuninni tillit til staðarandans og að útfærslur séu aðlagaðar staðháttum á hverjum stað, arkitektósniskt séð.  Þeir tala um að greina staðarandann og flétta skipulag og byggingar inn í það umhverfi sem fyrir er. Huga þurfi að hefðinni og menningunni á hverjum stað.  Þetta er kennt  í arkitektaskólunum.  Þeir vilja draga fram kosti umhverfissins og sérkenni þess og reyna að lágmarka hugsanlega galla með nýjum byggingum eða nýju skipulagi.

Nú sá ég í blöðunum að verkkaupar og ráðgjafar þeirra eru farnir að tala um að staðbundin sérkenni eiga að hafa áhrif á úrfærsluna og byggingalistina í heild sinni.   Þeir segja að nauðsynlegt sé  „að hafa í huga staðbundin sérkenni sem geti kallað á að gerðar séu mismunandi kröfur um mismunandi útfærslur“, allt eftir staðaranda á hverjum stað. Þetta kom fram í Fréttablaðinu um helgina þegar kynntar voru hugmyndir teiknistofunnar ARKÍS um að byggja þjónustustöðvar fyrir ferðamenn víða um land.

Það er mikið fagnaðarefni að staðarandinn sé kominn á dagskrá. En betur má ef duga skal. Fólk er að átta sig á því að útlit bygginga ræðst fyrst og fremst af nærliggjandi umhverfi en ekki af einhverju öðru óskilgreindu.

Það er markmið með allri umræðu um arkitektúr að ná til leikmanna, fjárfestanna og notenda húsanna. Í umræðunni um arkitektúr og skipulag hafa sérfræðingarnir skrifað og talað eins og þeir séu að tala til annarra sérfræðinga, kollega sína.  Þeim hættir til að nota tungutak og tilvísanir sem fáir skilja.

Arkitektúr og skipulag er of mikilvælgur málaflokkur til þess að láta arkitekta og stjórnmálamenn eina um hann.

++++

Myndin efst í færslunni er millifyrirsögn úr Fréttablaðinu um helgina þar sem fjallað er um þjónustustöðvar sem hannaðar eru af ARKÍS og aðlaga á hverjum stað sérstaklega.

 

 

 

Það er mikið meira fjallað um arkitektúr, skipulag og staðarprýði í blöðum og ljósvakamiðlum núna en bara fyrir 5-6 árum. Það var nánast ekkert fjallað um þessi mál á árum áður. Síðast í gærkvöldi var viðtal í aðalfréttatíma RUV um Hafnartorg þar sem talað var um sálræn áhrif bygginga og gatna. Þar var rætt við Pál Jakob Líndal sem hugsað hefur mikið um þessi mál. Páll bar líka saman nýju húsin milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu annarsvegar og Hafnartorg hinsvegar.

Það virðist vera Þannig að menn haldi að skipulag væri einhverskonar nátturulögmál eða náttúruhamfarir eftir atvikum og ekki væri annað að gera en að horfa á öll ósköpin og láta þau yfir sig ganga. En það er ekki þannig. Þetta eru allt mannanna verk og stjórnmálmenn og arkitektar þurfa að læra að hlusta á þá sem gera athugasemdir.  Ábyrgðaraðilarnir þurfa að læra að taka á móti athugasemdunum af virðingu og kurteisi.

Það er sérlega holt fyrir umræðuna þegar leikmenn taka þátt í henni með upplýstum hætti. Ég nefni sem dæmi, Guðmund Hannesson lækni og sem skrifaði um skipulag, Egil Helgason fjölmiðlamann sem er mjög áhugasamur og málefnalegur í þessari umræðu og svo Sigmund Davíð Gunnlaugsson f.v. forsætisráðherra sem hefur sínar skoðanir og lætur þær í ljós. Þetta frumkvæði leikmanna opnar tækifæri fyrir umræðuna. Ég verð hinsvegar var við að sumir sérfræðinganna setja nefið upp í loftið og finnst þessir álitsgjafar vera að fara inná sitt sérsvið. Ótrúlegt en satt. Fara jafnvel í fýlu.

Í nýlegri bloggfærslu Egils Helgasonar segir hann um húsin á myndinni að ofan: „Hér í Reykjavík erum við á gríðarlegu uppbyggingarskeiði. En hér gengur allt út á að byggja sem mest og sem hraðast, húsin beinlínis þrýstast upp úr jörðinni og varla að maður skynji að neitt sé hugsað um samræmi eða fagurfræði“. Þetta er rétt hjá Agli. Þessi hús við Hafnartorg skortir allar rætur í sínu umhverfi. Þau taka ekki tillit til staðbundinna sérkenna kvosarinnar í Reykjavík þó svo að ágæt greining á staðaranda Kvosarinnar liggi fyrir og um hann hafi verið rætt um áratugaskeið.

Þegar deiliskipulag við Austurhöfnina var kynnt komu nokkrar velrökstuddar athugasemdir um að skilgreina þyrfti betur ásýnd húsanna og gerð. Skipulagsyfirvöld tóku ekki tillit til athugasemdanna með þeim árangri sem blasir nú við. Það er því ekki hægt að halda því fram að hér sé skipulagsslys á ferðinni heldur líta þessi hús svona út af fullum ásetningi og einbeittum vilja deiliskipulagshöfunda, hönnuða og stjórnmálamanna.

Þessar gluggahliðar sem snúa að Tryggvagötu munu ekki blasa svona við í framtíðinni, sem betur fer.  Byggt verður fyrir framan þetta og nýjar stórbyggingar rísa sem vonandi verða með sterkri skýrskotun til staðarandans í miðborginni.

En eins og þetta blasir við núna er það eins og „hryggðar myrkrið sorgar svarta“. Húsin flétta sig ekki inn í borgarvefinn með nokkrum hætti og endurspegla ekki anda staðarins sem er dásamaður af öllum sem hann sækja. Þarna var tækifæri til þess að gera miklu betur.

++++

Það er mikill léttir að verða þess var að staðarandinn er loks að gera vart um sig í umræðunni. Reykjavík er sennilega stærsta, líflegasta og menningarlegasta sveitaþorp í heiminum. Stöndum vörð um hana þannig og byggjum alþjóðegann stórborgararkitektúr einhversstaðar annarsstaðar en í gömlu góðu Reykjavík.

++++

Að neðan eru tvær ljósmyndir af nýbyggingum milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu sem sverja sig í anda Kvosarinnar. Húsin eru teiknuð ag arkitektunum hjá THG og falla vel að því umhverfi sem fólk þekkir og líkar vel við. Hönnunin er i fullkomnu samræmi við helstu greiningar á staðaranda Kvosarinnar frá 1986 og sátt hefur verið um.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Sæll Hilmar, takk fyrir þetta.

    Ég hlakka til að takast á við þig um hugmyndir og arkitektúrsögu og dreg mig í hlé þangað til,
    .
    Kveðja,

    Óskar

    • Hilmar Þór

      Ég forðast átök en er heillaðaur af skoðanaskiptum um málefni arkitektúrs og skipulag.

      Leggðu bara út og ég mun ekki láta mitt eftir liggja.

      Þér er líka velkomið að skrifa á vefsíðu mína ef þú óskar þess.

      Hún er öllum opin. Sendu mér bara texta, myndir og teikningar og ég mun fúslega birta það öllum lesendum til fróðleiks og skemmtunnar.

  • Hilmar Þór

    Þakka þér fyrir þetta fína innlegg í umræðuna Óskar.

    Mér fannst skemtilegt að lesa þetta og ánægður með tilvitanir þínar og að skynja hvaða augum þú lítu á málið. Þú skrifar líka af mikilli þekkingu og ert greinilega vel að þér.

    Svo finnst mér bráðskemmtilegt þegar þú kallar okkur “andatrúarmenn” hér í athugasemdarkerfinu sem segir mér bara eitt að þú tekur þig eða okkur ekki sérega alvarlega.

    Það er grundvallaratriði vegna þess að í akademiskri umræðu (ef við ætlum þangað) þá eiga allar skoðanir og tilgátur rétt á sér þar til þær eru afsannaðar. En ég ætla ekki þangað.

    Ég finn bara einn galla á skrifum þínu og það er sá sem ég nefni í pistlinum mínum þegar ég segi að í umræðunni um arkitektúr og skipulag hafa sérfræðingarnir skrifað og talað eins og þeir séu að tala til annarra sérfræðinga, kollega sína. Þeim hættir til að nota tungutak og tilvísanir sem fáir skilja. Þín grein er full af tilvísunum sm aðeins innvígðir arkitektar í fræðunum sklja. Margir kollegar mínir þekkja líklega ekki þessi nöfn og þessi dæmi em þú nefnir.

    En það vill svo til að ég þekki þau öll og finnst þau vel valin fyrir þinn málstað en það er hægt að snúa þeim við. Og ég get trúað þér fyrir því að þegar ég komn úr skóla var ég sama sinnis og þú. En síðan eru liðin meira en fjörutíu ár og ég er búinn að hanna tæplega 500 þúsund fermetra, heimsótt allar heimsálfurnar mögum sinnum og lesið fleiri bækur en sjálfan mig órar fyrr. Og nú er þannig komið fyrir mér áhugi min fyrir regionalismanum hefur stóraukist og áhugi minn fyrir glóbaliseringunni minnkað að sama skapi.

    Svo hef ég núorðið meiri áhuga á skoðunum upplýstra einstaklinga á málunum en skoðunum kollega minna. Þar á meðal er Egill Helgason. Hann skrifar af ástríðufullum áhuga og er engum háður og dregur ekki taum nokkurs manns. En kollegum mínum hætir til þess. Skoðanir þeirra eru oft undir áhrifum þeirra sem borga þeim þóknunina. Þeir vilja heldur ekki styggja væntanlega kúnna. Þú skrifar kannski til þess að verja fyrriverandi vinnuveitanda þinn og kannski tilvonandi vinnuveitenda. Hver veit? Mér finnst ég hafi heyrt allar skoðanir arkitekta og fræðimanna áður. Þetta á líka við þín sjónarmið í þinni grein (þarna er ég kannski svoldið brattur) Ég reyni að tala og skrifa þannig að þeir sem ekkert vita um efnið skilji það sem sagt er. En auðvitað virkar það sjálfsagt gruunnhyggið á suma lesendur.

    • Hilmar Þór

      Svo vil ég bæta hér við Óskar að mér finnst Andri Snær komist oft skemmtilega að orði þegar hann fjallar um arkitektúr skipulag og umhverfismál.

      Hann notar oft myndlíkingar sem ekki er að finna í fræðibókum um byggingalist eða skipulag.

      Ég minnist þess þegar hann skrifaði um staðsetningu landspítalans og líkti henni við stoðkerfi mannslíkamans.

      En margir í fjölskyldu Andra eru læknar og hjúkrunarfólk sem eflaust hefur skilipð Anrda Snæ betur en okkur sem hættir til að vitna í eitthvað sem enginn þekkir.

      Ég held að við ættum ekki að vera yfirlætisfullir gagnvart leikmönnum en fagna þáttöku þeirra í umræðunni og sýna þeim kurteisi.

      Kveðja
      Hilmar Þór

  • Örnólfur Hall

    -Það er rétt að hæla TGH-teiknistofu fyrir vel hannað hús og aðlagað Hafnarstrætinu – En sama verður ekki sagt um staðarandann og dapurlegt útlit túristahótelsins (TGH) sem á að flatmaga í forna Víkurgarði, þar sem 30 kynslóðir Víkverja hvíla.:(
    -Það er eindregið álit Þjóðminjavarða, Dómkirkjunnar, Kirkju og Biskupsstofu, fjölda presta, sagnfræðinga, fornleifafræðinga og margra arkitekta að vernda eigi Víkurgarð !!!

    – Reyndar (á bloggi/HÞB) sagði ofannefndur Egill Helgason, áhugamaður og mjög málefnalegur í umræðunni (að sögn í pistili) um forna Víkurgarð: á þá leið að engin ástæða væri að endurvekja kirkjugarð sem er löngu gleymdur og meira að segja gamlir Reykvíkingar eins og ég (EH) hafa ekki neina tilfinningu fyrir – og öll bein komin á rú og stú eða horfin.:( 🙁

  • Óskar Arnórsson

    Sæll Hilmar,

    Ég var einmitt að tjá mig aðeins um Hafnartorg rétt í þessu. Ég var reyndar búinn að senda frá mér greinina mína þegar þín birtist, en ég náði samt að láta ykkur andartrúarfólkið fá fyrir ferðina!

    https://kjarninn.is/skodun/2017-11-20-hernadurinn-gegn-hafnartorgi/

    Allt í gamni gert,

    Kveðja,

    Óskar

  • Guttormur

    Ég vel að ganga Hafnarstrætið frekar en Austurstræti vegna þess hvað það virkar vel á sálartetrið eins og Páll Líndal og Einar benda á. Fagurt er gott fyrir geðheilsuna.

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Hafnarstrætið er mjög vel heppnað í alla staði. Bjart og vinalegt. Vonandi verður Hafnartorg líka gott þó maður sjái það ekki núna eins og staðan er. Maður vonar það besta en óttast það versta. Það eru allt of mikil læti í þessum málum. Vogabyggð, Heklureitur, Skeifan, Útvarpsreiturinn, Landspítalin og Kringlan. Þekkja menn ekki nokkur takmörk? Í mörg ár gerist ekkert og svo verða bara heljarmiklar „náttúruhamfarir“ og þetta veltur yfir blásaklausa borgarana sem flestir una vel við sitt í hæglátu og traustu uumhverfi sínu.

  • einar e.sæmundsen

    Gott innlegg í umræðuna hjá þér eins og venjulega. Umræða um þessi umhverfismál í borgarrými er ekki bara um húsbyggingar/arkitektúr, heldur um samspil milli rýmisins og húsana, eins og skólabróðir okkar frá Kaupmannahöfn Jan Gehl þreytist ekki á að fjalla um. Þú nefnir í pislinum hönnuð hornhúsins í Tryggvagötu og Hafnarstrætis en gleymir svo opna rýminu í Hafnarstræti sem er nú er göngugata og var opnuð í september sl.hefur verið búinn götugögnum og gróðri og er hönnuð af Landmótun sf.
    Skipulag er ekki náttúruhamfarir eins og þú segir, en almenningur talar sundum þannig. Sem betur fer er það ekki svo.
    Mótun skipulags er alltaf samtal milli ráðgjafa, notanda og stjórnvalda. Ekki einræða, ráðgjafs, notandas eða stjórnvaldsins. Í seinni tíð hefur neytandanum verið skipt út fyrir sterka byggingaverktaka og fjármagnsaðil og þá er niðurstaðan það sem víða blasi við.
    Það að vitund fyrir anda staðar og sögu sé að ná inn í undirbúningsferil áætlanna er bara af hinu góða. Við eigum sem beturfer víða í Kvosinni dæmi um að það hafi tekist að grípa andann.

    • Hilmar Þór

      Það er vissulega rétt að bilið milli húsanna skiptir oft meira máli en sjálf húsin og gerð þeirra.

      Hafnarstræti er mjög vel heppnað og hugsað frá hendi arkitektanna hjá Landmótun. Á því er ekki nokkur vafi.

      En ef horft er á húsahæðir og flæði dagsbirtu þá verða stræti Hafnartorgs ekki gædd þeim augljósu gæðum sem er að finna í Hafnarstræti. Húsagerðirnar og tilbrigði þeirra og gerð hjálpa mikið uppá.

      Ég held að það verði mug vandasamara fyrir landslagsarkitektana að ná sömu gæðum eða betri á Hafnartorgi og nú er að sjá og finna á Hafnarstræti Landmótunnar.

      Páll Jakob Líndal kom lítilega inná þetta í fréttum RÚV sem nefd er í pistlinum.

      Og það er rétt hjá þér að mótun skipulags á alltaf að vera samtal milli ráðgjafa, notanda og stjórnvalda. En á þetta samtal sér stað? Ég held ekki. Við vitum oftast hver ráðgjafinn er sem spyr bara þann sem borgar honum og stjórnvaldið, sem við vitum hvert er, spyr í lögformegu kynningarferli um hvað fólki finnst en gerir sjaldnast nokkuð með svörin og svo er þaðnotandinnsem er ekki eins vel skilgreindur.

      Er hann íbúinn. í húsinu eða er það fjarfestirinn (eigandinn), verktakinn, eða er það vegfarandinn sem gengur hjá?

      Það er spurningin.

      Þetta er ekki einfalt. Og jú það hefur víða tekist vel með að grípa andann í Kvosinni en Hafnartorg sýnist mér ekki vera eitt af þeim.

  • Gunnlaugur Stefán Baldursson

    Það væri fagnaðarefni ef verkaupar og ráðgjafar á Íslandi spá í það hvernig arkitektúr verður til, því að auðvitað verður hús aldrei til „ex nihilo“.
    Það er rétt hjá þér,Hilmar: í dag er vaxandi skilningur á arkitektúr.
    Ritdómar um leiksýningar og uppákomur gleymast skjótt,en það sem byggt er stendur í langan tíma og umhverfisumfjöllun mun miklilvægara efni en einn söngleikur.Flott ef það tekst,að vera krítískur ljósgjafi á þunnum þræði milli efnishyggju og innblásturs….

  • Örnólfur Hall

    -Undirritaður tekur undir með HÞB – og ekki er úr vegi að minnast í leiðinni á harða gagnrýni á skort á sögulegri skírskotun á Hafnarsvæðinu og víðar (m.a. snarpa gagnrýni umhverfissálfræðings 19/11) ! — ES: Undirritaður hefur margoft talað um þetta áður fyrir daufum arkitektaeyrum – sumra) ! 🙁

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn