Föstudagur 03.11.2017 - 14:44 - 21 ummæli

Staðarval LSH – forsendur

Það vita ekki margir að á árunum 2001 -2008 voru skrifaðar fimm álitsgerðir af íslenskum og erlendum sérfræðingum sem allar, að einni undantekinni, komust að þeirri niðurstöðu að best væri að bygggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunn á nýjum stað. Þetta er vissulega þvert á það sem haldið hefur verið fram í opinberri umræðu af opinberum aðilum, sem segja að „Hringbrautin hafi alltaf haft vinninginn í staðarvalsgreiningum“.

Séfræðingarnir sem sömdu álitin og skýrslurnar töldu hinsvegar að ef ekki væri hægt að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á nýjum stað væri best að byggja annað tveggja við Fossvog eða gamla við Landspítalann við Hringbraut. Sumir sögðu Hringbraut og aðrir Fossvog.

Niðurstaðan, að byggja við Hringbraut, var byggð á aðalskipulagi Reykjavíkur frá 2001-2024 sem kallað er AR2001-2024.  Í því skipulagi var vel séð fyrir umferðatengingum við spítalann við Hringbraut hvaðanæfa að og ekki hægt að gera athugasemd við staðsetninguna á þeim grunni.

Á skipulagsuppdrættinum AR2001-2024,  að ofan sést þetta greinilega.

  • Gert er ráð fyrir að þeir sem koma frá Vesturlandi og Mosfellsbæ komi um Sundabraut og aki Sæbrautina að göngum undir Þingholtin (Holtsgöng) og þaðan frá Hörpu og beint að spítaladyrunum. Að auki var gert ráð fyrir göngum  í Geldinganesinu vegna þessarrar vegagerðar.
  • Þeir sem koma frá Suðurlandi áttu að aka um Miklubraut og um mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og áfram í göngum um Miklubraut  að spítaladyrununum.
  • Þeir sem koma úr Grafarvogi og Grafarholti áttu að leggja leið sína um Höfðabakkann að Reykjarnesbraut og þar undir Kópavogvið Mjódd, um mislæg gatnamót við Kringlumýrarabraut og í göngum undir Öskjuhlíð að spítaladyrunum.
  • Þeir sem koma frá Suðurnesjum og Hafnarfirði ækju svo Reykjarnesbrautina um önnur göng skammt frá Smáralind og þaðan undir Kópavog um mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og undir Öskjuhlíð að spítaladyrunum. Þessi tenging átti líka að þjóna íbúum efri byggðum Kópavogs og Breiðholts.
  • Og svo má ekki gleyma þeim sem kæmu með áætlunarflugi eða sjúkraflugi utan af landi. Þeir áttu að lenda á Reykjavíkurflugvelli og labba yfir Hringbrautina og þaðan inn á spítalann.
  • Til þess að liðka fyrir umferðinni á höfuðborgarsvæðinu eru svo ein 8-9 mislæg gatnamót fyrirhuguð víðsvegar í borgarlandinu á skipulagstímabilinu samkvæmt AR2001-2024.

Öll þessi umferðaúrræði lágu fyrir framan sérfræðingana sem unnu að staðarvalsgreinungu fyrir Þjóðarsjúkrahúsið á fyrstu árum aldarinnar og höfðu úrslita áhrif um staðsetninguna.  Ekkert þeirra er í kortunum í dag.

Því má með réttu halda fram að niðurstöður greininganna  sem gerðar voru fyrir áratug eða meira séu allar úreltar hvað aðgengi að spítalanum varðar að minnsta kosti.

Skipulagið AR2001-2024 var ekki gott nútímalegt skipulag og sem betur fer er búið að fella það úr gildi.  Skipulagsyfirvöld eiga mikið hrós skilið fyrir það afrek.  AR2001-2024 var algert einkabílaskipulag sem átti rætur sínar að rekja til úrelts hugsunarháttar sem var jafnvel versta aðalskipulag allra tíma í borginni (AR1962-1984).

Þegar nýtt frábært aðalskipulag AR2010-2030 tók gildi voru allar fyrrgreindar samgöngubætur lagðar af eins og sjá má á skipulagsuppdrættinum að neðan sem tók  gildi á vormánuðum 2013 eftir að hafa verið nokkur ár í vinnslu.

Eðlileg krafa hefði verið að gera nýja staðarvalsgreiningu í kjölfar þessarra miklu breytinga sem urðu í skipulagsumhverfinu.

Það er ekki bara þetta sem lesa má af uppdrætti AR2010-2030, sem hefur  breyst. Það er líka megin hugmynd aðalskipulagsins um þéttingu byggðar og stytta vegalengdir frá heimili að vinnustað og menningarstefna skipulagsins, áhersla á almenningssamgöngur, hugmyndin um vistvæna borg og sjálfbæra borgarhluta og margt fleira sem kallar á endurskoðun staðarvals vegna þjóðarsjúkrahússins.

Þeir sem komið hafa að staðarvalinu hafa ekki talið ástæðu til þess að skoða málið að nýju í ljósi þessarra miklu breytinga. Þeir  hafa ekki ljáð hugmyndinni um endurskoðun staðarvalsins tækifæri þó eftir því hafi verið leitað undanfarin 7-8 ár af mikilli festu. Þeir verja ekki lengur staðsetninguna með skipulagslegum rökum heldur með því að segja að það sé of seint að skoða málið í ljósi nýrra og annarra aðstæðna í skipulaginu.

Ég bið lesendur endilega að skoða kortin tvö vel og bera þau saman og spegla ákvörðunartökuna um staðsetningu spítalans við Hringbraut í AR2001-2024 og aftur í kortinu af AR2010-2030.  Og veltið málinu fyrir ykkur.

 

+++++

ÝTAREFNI

++++

Hérað neðan  er slíðra frá nýlegri kynningu Landspítalans á byggingu spítalans við Hringbraut þar sem því er haldið fram að Hringbraut hafi alltaf haft vinninginn í staðarvalsgreiningum. Þessu hefur verið haldið fram núna í bráðum áratug þó allir geti séð sem kynna sér frumgögnin að þetta er ekki rétt. Gerð er stuttlega grein fyrir þessu hér að neðan fyrir samfélagslega ábyrga og áhugasama lesendur.

 

Hérað neðan er önnur slíðra frá nýlegri kynningu Landspítalans þar sem taldar eru upp þrjár skýrslur um staðsetningu þjóðarsjúkrahússins.

Það sem vekur sérstaka athygli er að efst er vitnað í skýrslu erlendra ráðgjafa frá árinu 2001 og sagt að þeir leggi til að byggt verði til framtíðar við Hringbraut. Samkvæmt skýrslunni sem birt er hér að neðan er þetta ekki rétt. Þvert á móti er lagt til í skýrslu Ementor frá árinu 2001 að byggt verði við sjúkrahúsið í Fossvogi ef ekki eru tök á að velja „augljósann“ besta kost og byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á nýjumn stað. Farið er yfir allar þessar skýrslur hér í lok þessarrar færslu. Af hverju halda menn þessu fram þegar fyrir liggur að niðurstaða skýrslunnar er allt önnur en kemur fram á kynningu Landspítalans?

 

Vegna staðhæfingar embættismanna um að „Hringbrautin hafi alltaf haft vinninginn í staðarvalsgreiningum“ og ábendingar minnar um að hún sé að líkindum ekki rétt er sjálfsagt að birta þær álitsgerðir sem vitnað er í hér.

Þeir sem vilja kynna sér málið af frumgögnum geta kynnt sér skýrslurnar hér með því að smella á tenglana sem eru rauðir. Þeir mun að lestrinum loknum vera ljóst að flökkusagan um að allar skýrslur og álitsgerðir hafi bent á Hringbraut, sé röng.

Það er rannsóknarefni að finna út úr því hvernig á þessu standi, hver ber á þessu ábyrgð og í framhaldinu hvaða áhrif þessi flökkusaga hefur haft á framvindu málsins undanfarin 10 ár.

++++

Hér koma slóðir að skýrslunum og álitsgerðunum með örtuttum tilvitnunum og skýringum.

++++

Skýrsla Ementors, okt. 2001, “Landspitali – Functional development plan”.  Fossvogur kemur betur út en Hringbraut sem staðsetning fyrir uppbyggingu nýs spítala eins og lesa má hér undir fyrirsögninni 13.3.3. Niðurstöður.:

Ementor ráðleggur í skýrslu sinni að best væri að byggja nýtt sjúkrahús á nýjum stað sem hefur afgerandi kosti og áréttar.:

Hvernig geta embættismenn svo haldið því fram að „Hringbrautin hafi alltaf haft vinninginn í staðarvalsgreiningum“ þegar þetta liggur fyrir?. Ementor telur líka að nálægð við HÍ  skipti ekki miklu máli enda vitum við að nú er verið að byggja háskólasjúkrahús víða þar sem enginn er háskólinn annar en spítalinn sjálfur.

++++

Skýrsla nefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um Framtíðaruppbygging og skipulag Landspítala – háskólasjúkrahúss, janúar 2002.  og  Skýrsla nefndar um uppbyggingu Landspítala-háskólasjúkrahúss, apríl 2004 sem samsett er að mestu af sömu aðilum og sömdu skýrsluna árið 2002. Eðlilegt er að líta á þessar skýrslur sem eina og þá síðari sem framhald eða úrvinnslu þeirrar fyrri og er niðurstaðan í samræmi við það og lagt er til að byggt verði við Hringbraut.

Í þessari skýrslu var bætt við tveim breytum frá skýrslu Ementor. Þ.e.a.s. að nálægðin við háskólann væri mikilvæg sem Ementor taldi ekki vera og að þjóðarsjúkrahúsið mundi styrkja miðborgina sem var í mikilli niðurnýðslu þarna í upphafi aldarinnar. Eðlilega höfðu þessi tvö atriði áhrif til handa Hringbraut.

++++

Álit hjúkrunar- og læknaráðs LSH, febrúar 2004. “Besti kosturinn er án efa að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni, en ef ekki verður ráðist í svo fjárfreka framkvæmd nú verður að skoða aðrar leiðir” Hér er úrdráttur úr álitsgerðinni:

++++

Álit stjórnar læknaráðs LSH til Alþingis, 20. apríl 2004, þar sem læknaráð telur farsælast að nýtt sjúkrahús verði reist frá grunni

Þessi álitsgerð var gefin út tveim árum eftir að 2002 skýrslunni var skilað og er lagt til að „Endurskoðað verði hvaða staðsetning er hentugust fyrir framtíðaruppbyggingu“.

Á öðrum stað í álitinu stendur „Sjórn læknaráðs telur farsælast að nýtt sjúkrahús verði reist frá grunni. Ef Alþingi telur að ekki sé unnt að fara í svo viðamikla framkvæmd með hraði verður (neyðarlausn) að skoða aðra möguleika, þar sem eldri byggingar yrðu nýttar að miklu leyti og tengdar nýbyggingum“

++++

Skýrsla nefndar um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnnana, febrúar 2008 Þetta er í raun ekki staðarvalsskýrsla heldur yfirferð á þeirri vinnu sem áður hafði farið fram. Einkum skýrslurnar sem fyrr er getið frá 2002 0g 2004 um framtíðaruppbyggingu spítalans við Hringbraut. Þarna er einkum verið að spegla staðarvalið í AR2001-2024. Skýrsluhöfundar árétta samgöngurnar og leggja áherslu á Hlíðarfót og göng undir Öskjuhlíð alla leið suðurfyrir eða austurfyrir Kópavog verði komin áður en nýr spítali verður tekinn í gagnið. Það er eins gott að byrja gangagerðina strax í dag ef þetta á að ganga eftir. Þessar forsendur breyttust allar með tilkomu AR2010-2030 og því eins og margoft hefur komið fram úrelt.

+++

Það má vera öllum augljóst sem kynna sér málið að grundvöllur fyrir staðsetningu spítalans við Hringbraut er brostinn og að fylgismenn staðsetningarinnar þar hafa haldið fram vafasömum fullyrðingum um þær skýrslur og álitsgerðir sem gerðar hafa verið um staðsetninguna. Leiða má líkur að því að fullyrðingar, einkum embættismanna, hafi afvegaleitt umræðuna undanfarin ár. Fullyrðingarnar þeirra hafa haft áhrif á hina politísku umræðu þar sem stjórnmálamenn hafa eðlilega lagt traust sitt á embættismennina og þá sérfræðinga sem að málinu hafa komið.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • gerdur palmadottir

    Meðvituð blinda – ótrúlegt dómgreindaleysi að henda góðu fé eftir slæmu.

    Að moka út myrkri hefur verið mikil atvinnuuppbót í okkar ágæta samfélagi, en það mætti kannski kveikja á kerti til þess að átta sig á raunveruleikanum.

  • Sigurður Sunnanvindur

    Takk fyrir þessa samantekt.
    Sambærileg staða kom upp á Akureyri á 4, áratug liðinnar aldar. Hafist var handa við stækkun Gamla Spítalans við Spítalaveg. Þegar búið var að reisa eina „nútímabyggingu“ þarna í brattri brekkunni sáu menn að sér og byggðu frá grunni nýtt Sjúkrahús á flatlendi upp á brekkubrúninni. Þar er til staðar landrými til áframhaldandi vaxtar.

    Auðvitað eru tímarnir breyttir og stærðargráðurnar aðrar í dag. Þessi reynsla frá Akureyri speglar hinsvegar umræðu nútímas á auðskiljanlegan hátt.

  • Pétur Örn Björnsson

    Hafðu mikla þökk fyrir þennan pistil kollegi Hilmar.
    Hafðu mikla þökk fyrir faglega, málefnalega og góða gagnrýni þína.

  • Hilmar Þór

    Þriðji kosturinn er sá sem búið er að velja: Þöggun.

  • Óskar nafnleyndar

    Hringbrautarsinnar hafa tvo kosti í stöðunni:

    1.
    Að viðurkenna að þeir hafi haldið fram röngum upplýsinum um staðarvalsgreiningarnar, legið á staðreyndum og afvegaleitt umræðuna.

    Afleiðinguin er að embættismenn sem hafa haldið þessum röngu staðreyndum að ráðherrum og almenningi missa vinnuna sína. Annað gerist ekki og haldið verður áfram á Hringbraut eins og áformað er, að því gefnu að það sé skynsamlegt.

    2.
    Afneita þessu sem haldið er fram og taka umræðuna.

    Afleiðingin verður sú að þeir munu tapa í þeim umræðum og Hringbrautaráformin fara í algert uppnám.

  • Nú bíð ég spennt!

  • Hilmar Þór

    Nú er þessi færsla bráðum búin að vera á vefnum í þrjá sólahringa.

    það eru þúsundir búnir að lesa hana og tæplega sjö hundruð búnir að „læka“ hana bara á blogginu sjálfu fyrir utan þá sem læka víða annarsstaðar á veraldarvefnum.

    Af þessu má leiða líkur að því að þetta hafi líka verið lesið af þeim fjölmörgu sem hafa haldið því fram að allar skýrslur og álitsgerðir sem gerðar hafi verið segi að best sé að byggja við Hringbraut.

    Það er rangt og það hefur verið sýnt fram á það.

    Þeir sem haldið hafa þessu fram eru:
    stjórnendur Nýs Landspítala OHF,
    Yfirmenn sjalfs Landspítala Háskólasjúkrahúss,
    Skipulagsstjóri Ríkisins,
    Arkitektsarnir sem stóðu að vinningstillögunni að deiliskipulaginu við Hringbraut,
    arkitektateymið sem nú vinnur að hönnun meðferarkjarnans,
    framámenn í samtökunum Spítalinn okkar, s
    jálfur heilbrigðisráðherra er í þessum hópi
    og margir fleiri.

    Allir þessir aðilar hafa haldið því fram á opinberum vetvangi að allar skýrslur og álitsgerðir hafi komist að þeirri niðurstöðu að best sé að byggja við Hringbraut.

    Það vita nú allir að þessi fullyrðing er röng en enginn treystir sér til þess að viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér, hafi verið afvegaleiddir og ruglaðumræðuna með einhverri flökkusögu.

    Og hvaðan skyldi flökkusagan koma?

    Það er rannsóknarefni. Það er ljóst að ráðherra hefur ekki lesið allar þessar skýrslur. Það hefur heldur ekki verið skýrt út fyrir honum hverjar voru skipulagslegar forsendur fyrir staðarvalinu við Hringbraut.

    Einhver hefur sagt honum það og ekki sagt honum alla söguna. Hann hefur eðlilega trúað ráðgjöfum sínum. Því annars hefði hann aldrei sagt það sem hann hefur sagt.

    Þetta á líklega líka við um þorra þingmanna. Þeir hafa að líkindum verið upplýstir með „staðreyndum“ sem hentaði þeim sem matreiddu þær.

    Þetta er hið versta mál og á lklega eftir að draga dilk á eftir sér.

    Sú staðreynd að enginn úr þeim stóra hópi sem að framan getur skuli taka þátt í umræðunni segir bara eitt. þeir geta ekki varið þessi vinnubrögð og velja að draga sig út úr umræðunni.

    Þagga málið.

    Svo eru það skipulagslegu forsendurnar sem láu að baki staðarvalinu við Hringbraut. Það er líka farið yfir þann þátt í bloggfærslunni.

    Maður hefði haldið að þar væri ærið tilefni til viðbragða frá því fólki sem hefur haldið fram að Hringbrautarstaðsetningin væri velrökstudd og besti staðurinn. Þarna hafa sérfræðingarmit og framámenn, Nýr Landspítali, Landspítali Háskólasjúkrahús, Skipulagsstofnun og allur sá stóri hópur arkitekta sem komið hafa að verkinu tækifæri til þess að skýra málið fyrir þeim þúsundumn efasemdarmanna sem þeir eru að vinna fyrir.

    En nei.

    Þögn-þöggun?

    Blogg mitt er öllum opið sem hafa eitthvað um þetta að segja og vilja verja verk sitt.

  • “Mikið hefur verið rætt og skrifað um það sem betur hefði mátt fara í stjórnsýsluákvörðunum rétt upp úr aldarmótunum síðustu og þegar ákvarðanir voru teknar um staðsetningu sameinaðs þjóðarsjúkrahúss á Hringbraut. Oft virðast sérhagsmunir verið látnir ráða á kostnað almannahagsmuna og sem öllum er ljóst í dag er varðar t.d. bankakerfið. Rannsóknarskýrsla Alþingis eftir hrunið og fleiri, hafa bent á að í raun hefði þurft að gera álíka skýrslu um alla aðra stjórnsýslu og varðaði ákvarðanir í stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar. Ákvarðanir sem ætla mætti að gætu hafa ráðist af sérhagsmunum einstaklinga, félaga og jafnvel höfuðborgarinnar sjálfrar, á kostnað stórhöfuðborgarsvæðisins alls og landbyggðarinnar.” http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2017/04/04/thjodarskommin-nyja-a-hringbraut/

  • Arnar Jónsson

    smá innlegg í þessa umræðu. Ég bý í Vancouver Kanada og fyrir rétt um ári spilaði ég golf með ágætum herramanni. Eins og gengur og gerist þá er spjallað og þegar ég spurði hann hvað hann gerði sagði hann mér að hann í forsvari fyrir fjárfestingahóp sem sæi um það að byggja spítala í Kanada. Þetta gerir þessi grúppa og kaupleigjir síðan til Kanada þessa spítala sem að ríkið síðan eignast með tímanum. Þegar ég spurði hann hvort væri vænlegra að endurgera gamlan spítala með það fyrir augum að hann yrði nútíma hátækni spítali eða byggja nýjann þá kom samstundis svar. Það er ekki hægt að búa til hátækispítala í gamalli byggingu og yrði mun dýrara ef það yrði reynt í stað þess að byggja frá grunni. Nefndi hann nokkur dæmi, Spítali er þannig bygging að hann er ekki hægt að ríma ef upp kemur eldur. Brunahólf og slökkvikerfi í nútíma spítala eru þannig að rýma þarf eina álmu ef upp kemur eldur og síðan sér kerfið um að slökkva eldinn. Annað sem hann nefndi er aðgangsstjórnun inná t.d fæðingadeild og lyfjabúr, Sýklavarnir og Hreinsun á öllu frárennsli. Fleirra nefndi hann en álit hans var skýrt. Byggja nýjan spítala.
    Með kveðju frá Vancouver

  • Eitt það alvarlegast í þessu máli er síðan þöggun RÚV sl. ár og að ekki megi “rugga bátnum” eftir samþykki Alþingis 2013. Mál sem meirihluti þjóðarinnar vill á því sem átti að heita þjóðargjöfin mikla eftir kreppuárin 2008 og sem átti að fjármagnast af smjôrklíuaðferðinni. Jafnvel síðan hátt í 4 milljarða króna undirbúningskostnaður í dag réttlætir ekki á annað hundrað milljarða sokkinn kostnað og upp er staðið eins og málin eru sett upp um 2030.
    Oft hafa léttari steinum verið velt við í stjórnsýslunni af miklu minna tilefni!!
    En betra er fyrr en seinna ef forðast á mesta skipulagsslys aldarinnar að mínu mati.

  • Ef þessar glærur rvær eru komnar frá spítalanum eins og má skilja þá þarf höfundur þeirra að slýra málið. Hér hlýtur að vera einhver misskilningur á ferðinni vegna þess að textinn passar ekki við raunveruleikann. Svo er þessi samanburður á kortunum alger “killer”

  • Ef þetta er rétt, sem engin ástæða er til að efast um, er málið há alvarlegt.
    Ljóst að stjórnsýsla hefur verið þverbrotin og full ástæða til rannsóknar og að menn verði dregnir til ábyrgðar!

  • Í raun sveik Reykjavíkurborg ríkið, fólkið í landinu, með niðurfellungu á tveimur meginforsendunum á staðarvalinu á Hringbraut með nýju deiliskipulagi formlega 2013, tryggu aðeingi og umferðarbótum/ nýjum mannvirkjum eins og þú gerir svo vel grein fyrir Hilmar og að Reykjavíkurflugvöllur skuli fara. Sennilega þar sem borgin taldi sig vera búinn að festa nægjanlega í sessi stærsta og mikilvægasta vinnustað landsins, miðbænum í Reykjavík í hag!!!

  • Björn Erlingsson

    Sem leikmanni þykir mér augljóst að staðarvalið heldur ekki. Sem borgara, skattgreiðanda, notanda þjónustunnar, íbúa í Reykjavík finnst mér eðlilegt að það verði skýrt út og mér og mínum líka. Það er nauðsynlegt að okkur verði komið í skilning um þau sjónarmið sem látin voru ráða um staðarvalið og hvernig þeim var raðað í forgangsröð þegar þau eru vegin. Mér finnst nú að veggur þöggunar og leyndarhyggju í þessu máli sé hruninn og það sem meira er, yfirhilmingin á viðvaningshætti, rangupplýsingum og annarlegum sjónarmiðum í staðarvalinu virðist augljós. Það er ekki nóg að fullyrða að svona ákvarðanatökur séu í lagi, – þær meiga ekki heldur geta litið út fyrir að vera í ólagi. Ef traust á að ríkja og að landsmenn stilli sér á bak við þetta, – ekki bara taka því eins og hundsbiti til að geta bjargað lífi sínu ef því er að skipta. Það er ekki í boði að berja hausnum í stein, – senda reikninginn til almennings og fá á allan hátt lakkari innviði fyrir peninginn mǽlt við almannahagsmuni. Ég met heilsu, velferð og umhverfi mitt of mikið tið að þetta geti verið léttvægt, – og afgreitt með handaveifingum með að það sé bara verið að rugga bátnum. Það má vera að þetta sé seint, – en málið hefur verið illa unnið, illa kynnt og drátturinn hefur úrelt flest allar forsendur. Það er löngu ljóst að það er dýrara á alla mælikvarða að klúðra þessu en að taka málið upp aftur, það hefur alltaf kostað minna að hanna en að byggja og ef hönnunin er ,,dýr“ þá er byggingin betri og ódýrari. Þessi bátur sem er ,,verið að rugga“ er með stór göt undir sjólínu, raftarnir sumpart horfnir eða fúnir og menn virðast ekkert vita hvert er verið að fara, hvaða fiska á að reyna að veiða og sjókortið er krotað á servettu með vindagötum og koníaksblettum. Takk fyrir þetta Hlmar, – nauðsynlegt að draga þetta fram. Ef meðferð staðreynda og forsendna er eins og þarna kemur fram þá bíð ég ekki í hitt.

    • Guðmundur Gunnarsson

      Það hefur vissulega verið hár veggur þöggunnar gagnvart allri gagnrýni um þetta mál. Sönnun þess mun koma í ljós þegar þið sjáið að þessari málefnalegu gagnrýni á blogginu „Arkitektúr, skipulag og staðarprýði“ verður ekki svarað af Hringbrautarsinnum. Sjáið til.

    • Hilmar Þór

      Þetta með „þöggunnarmúrinn“ er afneitað af mörgum. En ég get fullvissað alla um að þöggunin er staðreynd. Því miður get ég ekki upplýst um það vegna þess að mér var trúað fyrir því af starfsmönnum spítalans.

      Ég bíð spenntur eins og Guðmundur hér að framan eftir viðbrögðum við þessari gagnrýni minni. Hún væri kærkomin frá Landspítalanum, Nýjum landspítala OHF, Spítal teyminu nú eða þeim ágætu arkitektum sem nú eru að hanna meðferðarkjarnann og hafa haldið því fram að allar greiningarnar hafi vísað á að byggt skuli við Hringbraut. Ef enginn svarar þá vitum við að ótvíræð þöggun er um málið.

  • Sigrún hjúkka

    Ég þekki þetta úr mínu starfsumhverfi. Það er alltaf verið að halda að manni rangfærslum og draga úr staðreyndum. Ég hef ekki áður séð svona skýra mynd af þessum rangfærslum sem yfirvöld á spítalanum halda gangandi. Í mínum huga er spurning hvort þessum embættismönnum sé vært í sínum störfum eftir að hafa platað þingmenn og ráðherra og allan almenning eins og hér hefur verið sýnt fram á og er staðreynd.

  • Reyndar minnir þessi umræða um Nýjan Landspítalsa á Hringbraut á gamla tíma og ég vann við brúarvinnu á sumrin. Léttasta verkið var að vinna við brúardekkið sjálft og sem allir myndu sían sjá. Mesta verkið og það mikilvægasta voru brúarstólpsrnir sjálfir. Sumar brýr voru jafnvel lagðar undir sjálfan veginn og fáir sáu.

  • Góð grein Hilmar. Síðan var annarri aðalforsendu fyrir staðarvali Landsspítalans á Hrinbraut, Reykjarvíkurflugvellu kippt út 2012 og ákveðið að loka þegar neyðarbrautinni svokölluðu. Ekkert nýtt áhættumat heldur verið gert síðan fyrir væntanlegt sjúkraþyrluflug að þyrlupalli á 5 hæð sjúkrahússins, enda reiknað með að hann yrði ekki notaður nema örsjaldan og í raun aðeins í “undantekningatilvikum!! (4-10 lendingar á ári).

  • Mann setur hljóðann. 🙁

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn