Laugardagur 28.04.2012 - 09:45 - 5 ummæli

Staðarvitund-Skólaverkefni

 

Það er alltaf gaman að skoða skóleverkefni arkitektanema. Þau gefa fyrirheit um það sem koma skal og segja okkur mikið um áherslur skólanna í náminu.

Stundum er sagt að það skipti engu hvað kennt er í skólunum bara að nemendurnir kunni vinnuaðferðirnar og hafi skoðun eða stefnu (“holdningu” á dönsku) og kunni að greina umhverfi að námi loknu.

Mig langar hér að kynna tvö verk eftir Magdalenu Sigurðardóttur sem útskrifaðist frá Arkitektaskólanum í Árósum nú síðla vetrar.

Það sem einkennir verkin er staðarvitund og hæfileikar arkitektsins til þess að nálgast staðarandann. Það gerir hún á kerfisbundinn hátt þannig að staðurinn er helsti áhrifavaldur hvað niðurstöðuna varðar.

Fyrra verkið er leikskól/vöggustofa í Skagen nyrst á Jótlandi og síðara verkið fjallar um Slippasvæðið í Reykjavíkurhöfn.

Þetta eru viðkvæmir staðir sem þarf að fara höndum um af nærgætni.

Í Skagen hefur Magdalena stúderað arkitektúr staðarins (sjá myndir efst í færslunni) og gert tilraun til þess að finna einhvern samnefnara fyrir anda hans. Í framhaldinu hannar hún nútíma hús inn í umhverfið. Það er að segja að hún hannar byggingu sem tekur tillit til staðarins frekar en til tíðarandans. Þetta gerir hún án þess að byggja fornminjar eins og hrekkur stundum uppúr nýhyggjumönnum byggingarlistarinnar sem sumir vilja kalla sig uppbyggingarsinna.  Allir sem hafa komið til Skagen sjá að í verkinu hefur tekist vel til.

Skagen er BA verkefni Magdalenu en því fylgdi ritgerð sem bar nafnið „steds bevidtshed“, eða staðartilfinning““

Það má get þess að nú stendur yfir sýning á BA verkefnum nema við LHÍ í Listasafni Reykjavíkur. Eftir að hafa skoðað þá sýningu sýnist mér skólinn vera í nokkurri sókn miðað við í fyrra.

Í verkefninu við Reykjavíkurhöfn viðurkennir Magdalena þá breytingu sem hefur oðið á hafnarsvæðinu sem var fiski- og iðnaðarhöfn.  Hún telur umbreytinguna óumflýjanlega og veltir fyrir sér hvernig bregðast skuli við án þess að höfnin missi sinn sjarma. Hún segist vilja vernda það gamla og samflétta það hinu nýja á geðþekkan hátt þannig að menning og saga mæti nútíma borgarstarfssemi svo úr verði heiksteypt arkitektónisk starfræn heild.

 

 

Hér að neðan má sjá þrjár myndir af verkefni Magdalenu sem tengist höfninni í Reykjavík. Ég vek athygli á afstöðumyndinni og því andrúmi sem kemur fram í 3D myndunum. Maður finnur nánast fiski- og sjávarilminn og skynjar kalda hafgoluna. Þarna er um að ræða raunsannar myndir án þess að klórófóm auglýsingarmenskunnar sé notað.

 Kynnast má verkum Magdalenu Sigurðardóttur betur á þessari slóð:

http://magdalenasig.wordpress.com/

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hilmar Þór

    Falleg vinna og fer vel í Skagen

  • Frábær umfjöllun

  • Jón Pétursson

    Ég átta mig ekki alveg á hafnarteikningunni en eftir að hafa verið i Skagen skil ég hugmynd Magdalenu vel. Hún virðir húsform, hlutföll og stærðir þó hún sé að hanna stofnun sem er fjórfalt stærri en húsin í kring. Það er reglulega gaman að skoða þessa vinnuaðferð unga arkitektsins. En eins og fyrr segir átta ég mig ekki á hafnarteikningunni.

  • gulli sautjánáringur

    Það eina er mér sýnist vera í anda staðarins, varðandi húsin í Skagen, er litur húsanna og þakhallinn. Hvernig hefur hún tekið tillit til staðarins fremur en tíðarandans? Fyrir mér er þetta lítið annað en minimalismi í vægri tilraun til samræmis við umhverfið.

    Hvað meinarðu með, „án þess að byggja fornminjar“? Ég bjóst við að þessi á efstu myndunum tveimur, væru nýju húsin. Þau eru í samræmi við staðarandann. Hvað er að því að byggja á hefðbundinn hátt? Er það of gamaldags?

  • Guðmundur gunn.

    Gaman væri að fa link á BA ritgerðina um staðarvitund

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn