Miðvikudagur 20.05.2015 - 08:14 - 21 ummæli

Er staðsetning Landspítalans í uppnámi ?

 

Þegar rætt er um ágæti staðsetningar landsspítalans við Hringbraut er einkum vitnað í tvær opinberar skýrslur.

Önnur er frá árinu 2002 og heitir „Framtíðarskipulag og uppbygging Landspítala Háskólasjúkrahúss“.

Hin  er greinargerð frá árinu 2008 um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnanna þar sem skoðaðir eru byggingastaðir í Fossvogi,  við Vífilsstaði, við Hringbraut auk nýs valkosts í landi Keldna.

++++

Það sem vekur athygli er að fyrri skýrslan er úrelt og ónothæf vegna margskonar breytinga sem orðið hafa síðan hún var samin og hin frá árinu 2008 er ekki aðgengileg og finnst hvergi. Það veit eiginlega engin hvað stendur í henni. Það verður spennandi að lesa greinargerðina frá 2008 þegar hún finnst. Þar hlýtur að vera tekið sérstaklega á þeim atriðum í 2002 skýrslunni sem ekki eiga lengur við og mótvægisaðgerða vegna þeirra.

Þegar sagt er hér að skýrslan frá 2002 sé úrelt er það vegna mikilla breytinga sem orðið hafa á flestum sviðum síðan hún var samin. Margar forendur fyrir niðurstöðunni hafa breyst og eru ekki lengur fyrir hendi.

Forsendur fyrir niðurstöðu skýrslunnar frá árinu 2002 voru m.a. nálægð við flugvöllinn, göng fyrir bifreiðaumferð undir Öskjuhlíð og þaðan undir Kópavog sem tengjast átti Reykjanesbrautinni við Smáralind. (Sjá skipulagsupdrátt að neðan) Þá var ein af forsendunum, Hlíðarfótur, sem er vegur sem átti að liggja frá Hringbraut vestur og suðurfyrir Öskjuhlíð og tengjast þar Kringlumýrarbraut.

Engin af þessum samgöngubótum eru lengur á aðalskipulagi og auk þess sem höfundar skipulagsins telja að forsenda fyrir uppbyggingu á Hringbrautarlóðinni sé að flugvöllurinn fari. Þeir segja að spítalinn þá þessum stað óhugsandi ef flugvöllurinn fer ekki. Áður var forsendan að hann yrði kyrr.

Svo var áhersla lögð á að staðsetning vð Hringraut mundi styrkja miðborgina ásamt því að mikilvægt var talið að nálægð væri við HÍ.

Margir telja nú að nálægðin við HÍ sé ofmetin enda eru einungis um 150 manns sem vinna á báðum stöðunum meðan um 5000 munu vinna á spítalanum og öll samskipti með öðrum hætti en á árinu 2002. Miðborgin þurfti á stuðningi að halda fyrir 13 árum en þarf þess ekki lengur. Hún er reyndar orðin svo sterk að fólk með meðallaun og minna hefur vart efni á að búa þar lengur.

Við þetta bætast svo fjölmargir þættir sem tengjast okkar frábæra nýja aðalskipulagi, AR 2010-2030, svo sem  menningarstefnu og  samgöngustefnu sem hafa komið til síðan skýrslan var gefin út í janúar 2002.

Hringbrautarskipulagið er ekki í samræmi við þá heildarmynd sem aðalskipulagið mótar og nú blasir við.

Af þessu má sjá að skýrsluna frá 2002 er ekki hægt að nota sem rökstuðning fyrir staðsetningu spítalans lengur. En menn gera það samt. Ef grannt er skoðað m.t.t. allra breytinganna sem orðið hafa talar hún nú jafnvel gegn staðsetningu spítalans við Hringbraut.

Svo er það greinargerðin frá 2008 sem ekki finnst þó eftir hafi verið formlega leitað. Bæði hjá borginni ráðuneyti, Landspítala ohf og skipulagshöfundum eftir því að mér er sagt. Engin greinargerð frá 2008 finnst þó menn noti hana til þess að færa rök fyrir staðsetningunni við Hringbraut eins og þeir kunni hana utanað (!)

++++

Vissulega hafa verið gerðar ýmsar mótvægisaðgerðir til að mæta þeim breytingum sem hafa orðið síðan skýrslan frá 2002 var kynnt. Þar ber fyrst að nefna samgöngustefnu Landspítalans sem mörkuð er í deiliskipulaginu. Hún er ágæt og henni ber að fagna. Þar er talað um að fá fleiri til þess að ganga og hjóla ásamt því að styrkja almenningsflutninga um Hringbraut. En hafa ber í huga að samgöngukerfið á að fylgja skipulaginu en ekki öfugt. Leiðkerfi Strætó er ekki ráðandi afl í skipulagsvinnunni heldur þjónandi. Skipulagið á ekki að þjóna Strætó, heldur öfugt.

++++

Það gengur ekki að þeir sem að þessu standa líti undan og skjóti skollaeyrum við þeirri heidarmynd sem aðalskipulagið AR2010-2030 markar og þeim staðreyndum sem velviljaðir og lausnamiðaðir gagnrýnendur framkvæmdarinnar setja fram. Fylgjendur uppbyggingar við Hringbraut þurfa að skýra málið betur út fyrir fólki og svara þeirri gagnrýni sem fram hefur komið. Gagnrýni sem studd er af skipulagslegum, arkitektóniskum , menningarlegum og fjárhagslegum rökum. Þetta er lausnamiðaðri gagnrýni til bóta frá fólki sem vill byggja nýjan spítala sem fyrst.

Það gengur ekki lengur að fólk stingi höfðinu í sandinn og svari ekki gagnrýninni með faglegum hætti.

Manni sýnist að fylgjendur noti aðallega tvenn rök fyrir að halda eigi áfram á markaðri leið. Annarsvegar að það sé fyrir löngu búið að ákveða staðsetninguna og hinsvegar að það sé of seint að breyta um stefnu. Við meigum engan tíma missa og verðum að hefja framkvæmdir strax. Þessi rök eru ekki tæk enda búið að nota þau í meira en fimm dýrmæt ár.

Nú virðist forsendur ákvarðarinnar fyrir löngu brostnar og því er haldið fram að opnun sjúkrahússins muni ekki seinka að marki þó farið sé ný hagkvæmari leið. Sagt er að spítali á betri stað verði jafnvel fyrr tekinn í notkun  en Hringbrautarlausnin af margvíslegum ástæðum.

Í samræmi við allt þetta má vissulega spyrja hvort staðsetning þjóðarsjúkrahússins sé í uppnámi.

++++

Það er fróðlegt að lesa skýsluna frá árinu 2002. Hún er bæði vönduð og vel skrifuð.  Skýrsluna má finna hér:

. http://www.nyrlandspitali.is/…/framtidaruppbygging_lsh…

+++++

Á facebooksíðu Samtaka um Betri spítala á betri stað má finna ýmsan fróðleik um skipulagsmál spítalans og afleiðingar staðsetningarnar. Þar er fjallað um málið út frá skipulagslegum forsendum, starfrænum og fjárhagslegum. Flest skrifað með afar hógværum og faglegum hætti.

Sjá einnig : https://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad?fref=nf

+++++

Á myndinni að neðan sjést hvar Ökjuhlíðargöng eru teiknuð inn ásamt göngum undir Þingholtin. Þessi samgönguúrræði eru ekki inn í núgildandi skipulagi en voru forsendur staðarvalsins í skýrslunni frá 2002.

http://midborg.blog.is/img/tncache/400x400/04/midborg/img/adalskipulag_framhlid-2.jpg

Kannanir

Í gær var birt á síðunni „Betri Landspítali á Betri stað“ graf sem sýnir niðurstöðu í fimm könnunum um afstöðu almennings til skipulagsins. Niðurstaðan er sú andstaða almennings við uppbyggingu við Hringbraut fer vaxandi.  Það er samt rétt að vekja athygli á því að ákvörðun á borð við staðsetningu sjúkrahúss á ekki að taka með skoðanakönnunum heldur með fræðilegum og faglegum hætti og í sátt.

Við þessu þarf Landspítali ohf og heilbrigðisyfirvöd að bregðast. Annaðhvort með því að skýra fyrirliggjandi skipulag betur út fyrir almenningi eða að finna betri stað fyrir spítalann. Grafið kemur hér að neðan:

Svo í lokin er hér þriggja ára gömul yfirferð frá RUV um málið þar sem skipulagsmáin eru rædd. Fróðleg uppryfjun:

 

Ný könnun.

Viðbót: 20.05. 2015 kl 12:00

Í Ríkisútvarpinu í morgun var sagt frá nýrri könnun um Landspítalann þar sem niðurstaðan er nokkuð önnur en í þeim könnunum sem tíundaðar eru að ofan. Það er spurt um tvennt. Annarsvegar um hvort fólk sé því fylgjandi að byggður verði nýr spítali og hinsvegar hvort það væri ánægt með staðsetninguna við Hringbraut?

Niðurstaðan um hvort byggja eigi nýtt sjúkrahús kom ekki að óvart. Mikill meirihluti vill það.

Svörin við hinni spurningunni voru nokkuð á aðra lund en fyrri kannsnir. 46.6% Vilja byggja við Hringbraut en 28% eru á móti því.

En það kemur mér á óvart að andstaðan við uppbygginguna við Hringbraut skuli ekki vera meiri. Það er vegna þess að þarna er mikill munur á fyrri könnunum.

Það þarf að greina könnunina og leita skýringar á þessum mismun.

Mér dettur í hug hvort orðalag spurninganna hjá Maskina geti verið hluti af skýringunni en það kemur ekki fram á síðu Maskina sem er afskaplega slæmt. Svo er það önnur skýring sem getur skipt máli og það er að í könnun Maskínu er ekki boðið upp á annan kost. Fólk getur skilið það sem Hringbraut eða ekkert!

Hér koma nánari upplýsingar.

Mikill stuðningur við byggingu nýs Landspítala

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu eru um fjórir af hverjum fimm Íslendingum fylgjandi því að nýr Landspítali verði reistur á næstu árum en slétt 6% eru því andvíg

 

 

pie1

 

tafla1

 Tæplega helmingur sáttur við Hringbraut

Tæplega helmingur Íslendinga segist sáttur við að nýr Landspítali verði reistur við Hringbraut, verði hann á annað borð reistur. Talsvert færri (28%) segjast þó vera ósáttir við staðsetninguna við Hringbraut.

 

 

 pie1
tafla2

Viðbót 21.05.2015 kl.: 8.30

Eftir gagnrýni á að spurningarnar voru ekki birtar með úrlitum könnunarinnar hefur fyritækið Maskina sem stóð að könnuninni upplýst orðalag spurninganna tveggja.

„Orðalag spurninganna var eftirfarandi:

Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því að nýr Landspítali verði reistur á næstu árum?

Verði nýr Landspítali reistur, hversu sátt(ur) eða ósátt(ur) ertu við að hann rísi við Hringbraut?“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Guðni Pálson

    Þakka þér Hilmar kærlega fyrir þennann gegnumgang. Það er með ólíkindum hvernig þetta ferlíki, í formi enn einnar viðbyggingar við Landspítalann, veltur yfir okkur án þess að nokkuð verði við komið.
    Var eins og líklega flestir sem reynt hafa að benda á hvílíkt skipulagsslys þetta er.
    Orðinn ansi vonlaus, þegar Gunnar bæjarstjóri og Sigmundur Davíð forsætisráðherra, koma allt í einu fram með vel undirbúinn rök fyrir því að stoppa beri þessa framkvæmd.
    Fram til þessa hefur umræðan ekki verið umræða heldur eintal.
    Engri athugasemd hefur fram til þessa verið svarað faglega.
    Nú þegar forsætisráðherra landsins og bæjarstjóri næst stærsta bæjarfélags landsins hafa stigið fram með, eins fyrr segir, vel undirbúin rök fyrir að flytja þessa framkvæmd til Vífilsstaða.
    Skyldi einhver svara?

  • Jóhanna

    Ætla menn að láta þetta yfir sig ganga möglunarlaust?

  • Magnús Orri

    Hvernig er hægt ad vísa til skyrslu sem er ekki til / finnst ekki? Slikt er einfaldlega ekki bodlegt og thad er lágmark ad menn geti lagt fram thau gøgn sem menn bera fyrir sig.

  • Kristján Gunnarsson

    Gleymst ekki könnunin sem gerð var meðal lækna? Af tæpum 1000 læknum voru milli 70 og 80% andsnúnir staðsetningu við Hrinhbraut. HVer hafa verið viðbrögðin við því?

  • Hilmar Þór

    Týnda greinargerðin frá 2008 var mér send í nótt af velviljuðum manni. Hún er einungis upp á 4,5 síðu auk fjögurra lítilla korta.

    Mér sýnist hún vera rýr og unnin með fyrirframgefna niðurstöðu í huga: Til dæmis orðrétt :“En jafnframt verður að geta þess að Hringbrautarsvæðið býður upp á aðkomu úr mun fleiri árrum en bæði Vifilstaðalandið og Keldnaland“ Stenst þetta? Mér sýnist svæðið við Elliðaár hafa mun fleiri aðkomur og öflugri. Sértaklega þegar búið verður að leggja flugvöllinn niður. (Og meðan ég man. Ekkert kemur fram um hverjir eru höfundar greinargerðarinnar)

    Það er í mínum huga fullkomlega óábyrgt að leggja í 100 miljarða opinbera framkvæmd á grundvelli þeirra tveggja skýrslna sem fjallað hafa um staðarvalið.

    En ég á eftir að lesa skýslurnar aftur og spegla þær í veruleika AR2010-2030 og þeim veruleika sem við blasir almennt. Ég var að hugsa um að hætta að hugsa um þetta spítalamál enda er það eins og að halda uppi samræðum við girðingastaur. Þetta er ekki gagnvirkt samtal.

    En eftir að hafa skimað greinargerðina frá 2008 þá er það óábyrgt að leiða þetta mál hjá sér. Samfélagsleg ábyrgð arkitektsins bankar uppá.

    En einn fyrirvari. Ég mun þrællesa þessi skjöl enn einu sinni og gera allt sem ég get til þess að skilja þessar áætlanir. ‘Eg vona að það takist og þá verð ég sáttur.

    En því miður sýnist mér ólíklegt að greinargerðin frá 2008 sem nú er komin í ljós breyti einhverju.

    • Hilmar Þór

      Nei, Því miður Áhugasamur þetta er ekki greinargerðin sem eftir er leitað. Í þessum skjölum sem þú bendir á er ekki fjallað um staðsetninguna.

      Þakka þér samt áhugann.

  • Jón Guðmundsson

    Myndir segja meira en þúsund orð. Myndin sem fylgir þessum pistli segir allt sem segja þarf. Þarna sjáum við sýnishornasafn af mannvirkjum sem spanna tæplega 100 ára þróun. Einhverjir 30 – 40 áfangar í langri þróunarsögu.

    Ætlum við að bjóða fólki sem jafnvel hefur notað 15 – 20 ár af lífi sínu í krefjandi sérfræðinám að hlaupa þarna um tengiganga, undirgöng og göngubrýr?

    Vitleysan hrópar síðan á okkur eins og neyðaróp í formi þyrlupalls uppi á þaki eins áfangans. Stendur þetta H á pallinum fyrir Helicopter, Hjálp eða Heimsku?

  • Árin líða og uppbyggingin lætur á sér standa. Reyndar hefur metnaðurinn minnkað og áætlanir farnar að bera keim að bráðbirgðalausnum.

    Ný staðsetning spítalans utan núverandi borgarkjarna er leið sem flest nágrannalönd okkar hafa reynt að fara er farsælust til framtíðar. Það eru margar ágætar lausnir á staðsetningarvandanum ef menn bara hugsa út fyrir „kassann“.

    Í fyrsta lagi er þetta Landspítali, í öðru lagi þarf hann gott aðgengi, í þriðja lagi þarf hann að hafa vaxtarskilyrði og sjúkrahústengd þjónusta þarf aðgeta byggst upp óþvingað í nágrenninu og í fjórða lagi þarf byggingarstaðurinn algeran starfsfrið á meðan grunnuppbyggingin fer fram og bráðastarfsemi og skipulagðar aðgerðir verða áfram reknar á tveims stöðum þar til allt getur flutt inn með bravúr og húrrahrópum í fyllingu tímans.

    Það er mikilvægara að spítalinn sé í góðu flugsambandi við Keflavíkurvöll þar sem þar er framtíð innanlandsflugsins og þyrluaðstaðan verður að sjálfsögðu á spítalasvæðinu sjálfu.

    Ég myndi ætla að Vífilstaðalandið væri ákjósanlegt. Til vara Keldnaholtið fyrst ekki má fara með þetta út fyrir Reykjavíkurborgina sjálfa. Það er augljóst að Reykjavíkurborg er orðinn flöskuháls fyrir skynsamlegri uppbyggingu.

    • Árni Ólafsson

      Ef miðstöð innanlandssamgangna verður í Keflavík er rökrétt að Landspítalinn verði byggður þar. Enda verður svo auðvelt fyrir höfuðborgarbúa að komast þangað með hraðlestinni 🙂

  • Hilmar Þór

    Hér er vitnað í vandaða þriggja ára gamla könnun gerð með faglegum hætti af mmr. Þar er ein vel orðuð spurning og svo koma allmargar spurningar sem nota má til þess að greina svarið. Kikið á þetta til samanburðar:

    http://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/270

    Er ekki rétt að biðja mmr að leggja fram sömu spurningarnar aftur?

    Í Maskinakönnuninni eru tvær spurningar. Sú fyrri leiðandi. Ekkert ergefið upp um orðalag eða annað sem skiptir máli og bent hefur verið á að ofan.

    Allt í tómri þoku eins og greinargerðin ósýnilega frá 2008.

  • Feikilega fín samantekt hjá þér Hilmar. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að andsaðan gegn staðsetningunni snarjókst eftir að drög að deiliskipulagi voru birt 2011. Það var í fyrsta skipti sem við áttum kost á að kynna okkur raunveruleg áform um uppbyggingu á lóð Landspítalans. Síðan voru gerðar yfir 1000 skriflegar athugasemdir við drögin og endanlegu tillöguna en ekki var tekið tillit til neinnar.

  • Hvaða stjónsýsla er höfð með greinargerðina frá 2008?.

    Þora menn ekki að sýna hana. Það getur bara ekki verið að hún sé svo léleg og á hennar grundvelli á að hrynda stærsta umhverfisslysi sögunnar í famkvæmd ef frá er talin Kárahnjúkavirkjun.!!!!!

  • Eysteinn Guðmundsson

    Skoðanakönnuninni skiptir engu máli. Það eru þessi ófaglegu vinnubrögð við skipulagsvinnuna og staðarvalið sem er ógnvekjandi.

  • Mikið skelfilega er það dapurlegt og lítið faglegt, þegar fólk er beðið að taka þátt í „vinsældakosningu“ talnafræðinga um svona mikilvæg mál, án þess að fá að sjá þá möguleika sem helst koma til greina og faglega greindar afleiðingar sem mismunandi kostir munu hafa fyrir okkur öll og afkomendur okkar um ókomin ár. Jafnvel Alþingi fékk ekki að sjá þannig kosti, almennilega unna, áður en hlaupið var í lagasetningu. Hvenig væri nú að sýna almenningi og þá Alþingi líka, þannig faglega greinda kosti og biðja samlanda okkar svo að taka ákvörðun á þeim grunni?

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Það ber að fagna skoðanakönnunum eins og þessari en það vantar upplýsingar um úrtakið. Hlutfall fólks á landsbyggðinni og í þéttbýlinu.

    Svo er alltaf hætta á að spurningarnar séu leiðandi. Og svo þarf fólk að hafa eitthvað að velja á milli; Hringbraut eða hvað annað?

    Hver bað um könnunina og hver greiðir?

    Mér finnst þetta ekki eins skýrt hjá Maskínu og hjá Samtökunum um betri spítala á betri stað. Þar eru spurningarnar greinilega skrifaðar af einhverjum eins og félagsvísindasviði HÍ eða álíka.

    Í niðurstöðunni eru allar spurningarnar með og nokkrar til þess að greina niðurstöðuna svo sem starf, búsetu og aldur.

    Þetta er ekki fagleg könnun hjá Maskínu.

    Það er líka áhyggjuefni að 38% þeirra sem taka afstöðu séu andvígir staðsetningunni.

    Þetta er samt ekki aðalmálið. Heldur öll skipulagslegu rökin og peningahliðin sem talað er um í pistlinum og tínda greinargerðin?

  • Frábært að þú skulir halda þessari mikilvægu umræðu gangandi Hilmar. Það yrði stærsta skipulagsslys íslandsögunnar ef þetta ferlíki yrði byggt við Hringbraut. En þú hlýtur að fá bágt fyrir og mörg hornaugun fyrir að halda þessari umræðu gangadi, Merkilegt með svona verkefni sem lifa sjálfstæðu lífi og svo er bara beðið þar til það er „of seint“ að breyta. Algjörlega galið.

    Varðandi könnunina á maskina þá er alveg ljóst að það vilja allir nýjan spítala, um það er ekki deilt. En að rúmur helmingur sé ekki sáttur við staðsetningu spítalans er magnað. Það segir mér bara eitt, að flestir þeir sem kynnt hafa sér málið sjá hversu fáránlegt er að byggja þetta bákn á þessum stað.

    Og er það eðlilegt að ég sem Reykvíkingur kjósi í könnun um staðsetningu Ríkisstofnunar sem staðsett væri á Akureyri ? Það finnst mér hæpið.

    • Ingólfur Þórisson

      Það eru 47% sátt við Hrinbraut en 28% ósátt skv könnun Maskínu. Því er ekki rétt að meirihlutinn sé ekki sáttur við staðsetninguna.

  • Ingólfur Þórisson

    Mjög ánægjuleg könnun Maskínu á afsöðu landsmanna birt í dag á RUV, sem þú sleppir í þessari yfirferð Hilmar.
    Mikill meirihluti landsmanna vill byggja nýjan Landspítala og miklu fleiri sáttir en ósáttir við uppbyggingu á Hringbraut.

    Þetta er nýjasta könnunin.

    http://maskina.is/

    • Hilmar Þór

      Ég var ekki búinn að sjá þessa könnun Ingólfur og sleppti henni því ekki. Hún var bara ekki komin þegar pistillinn var skrifaður. Þakka þér kærlega fyrir að benda á þetta. Það er mikilvægt að halda vel utan um þetta allt saman svo vel fari.

      Ég er ekki hissa á að stuðningur við byggingu sjúkrahússins sé mikill. Hefði reyndar haldið að fleiri væru mjög fylgjandi. (52,7%)

      En það kemur mér á óvart að andstaðan við uppbygginguna við Hringbraut skuli ekki vera meiri. Það er vegna þess að þarna er mikill munur á fyrri könnunum.

      Það þarf að greina könnunina og leita skýringar á þessum mismun.

      Mér dettur í hug hvort orðalag spurninganna hjá Maskina geti verið hluti af skýringunni en það kemur ekki fram á síðu Maskina sem er afskaplega slæmt. Svo er það önnur skýring sem getur skipt máli og það er að í könnun Maskínu er ekki boðið upp á annan kost. Fólk getur skilið það sem Hringbraut eða ekkert!

      Líklegt er líka að úrtökin séu svon mismunandi að það skekkji niðurstöðuna.

      Að lokum vil ég endurteka að ég sleppti engu. Könnun Maskina lá ekki fyrir þegar pistillinn var skrifaður. Ég mun bæta henni inn í pistilinn fljótlega. Ekki vil ég að það halli á neinn. Þetta eru engin trúarbrögð heldur gagnrýnið lausnamiðað samtal.

      En að öðru efni pistilsins og skýrslunum tveim. Hefur þú undir höndum greinargerðina frá 2008 sem ráðherra vitnaði í á ársfundi spítalans?

    • Gunnar Gunnarsson

      Það er mjög mikilvægt að orðalag spurninganna komi fram og að svarendurnir hafi val.

      Ekki sérlega professíonelt.

      En sjálfsagt að skoða. Svo er það úrtakið. Oft er betra að spyrja bara þá sem hafa velt málinu fyrir sér og eru upplýstir. hitt er bara lottó.

      Ef bara þeir sem tóku afstöðu eru dregnir út þá eru 62% fylgjandi uppbyggingu við Hringbraut og 38% vilja það ekki en þeim er ekki gefinn neinn annar kostur. Það setur könnunina til hliðar.

      Getu Hilmar birt spurningarna orðrétt?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn