Mánudagur 19.03.2012 - 21:51 - 17 ummæli

Stærsta draugaborg í heimi?

 

Jafnvel þaulhugsaðar skipulagsáætlanir geta farið úrskeiðis.

Stjórnvöld í Kina ákvaðu, í upphafi aldarinnar, að byggja nýja borg um 30 km frá borginni Ordos í eyðimörk Mongólíu. Þetta átti að verða fyrirmyndarborg, nokkurkonar Dubai þeirra Kínverja enda eru þar í grenndinni  miklar auðlindir.

Allt var þaulhugsað og ekkert til sparað.  Borgin er hlaðin menningarhúsum, íþróttamannvirkjum, görðum og útilistaverkum á torgum og í almenningsrýmum.

Þarna er mikil félagsleg dreifing hvað varðar íbúðahús og skapað rými fyrir alla. Færustu arktektar Kína voru fengnir til verksins.

En það sem gerðist var að af einhverjum ástæðumn  vill enginn búa þarna.   Borgin sem ætluð var fyrir um eina milljón íbúa er nú stærsta draugaborg veraldar.

Þeir sem þarna búa eru einkum  embættismenn og fjölskyldur þeirra, samtals um 5000 manns.

Það er mikið skrifað um þessa borg á netinu og þar kemur fram að borgin er orðin aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem langar að skoða mannlausa draugaborg.

Hjálagt eru nokkrar myndir af húsum og torgum borgarinnar. Neðst er svo  umfjöllun fréttastofunnar AlJazeera.

Lögreglumaður stendur á gatnamótum í miðborginni og stjórnar umferðinni

Auð breiðstræti

 

 

Háhýsi og trjágróður

Aðaltorg borgarinnar er hlaðið þríðvíðum verkum í yfirstærð

Líkan af borgarhluta

Vandaður landslagsarkitektúr!

Menningarhús Ordos, safn hannað af einum af stjörnuarkitektum  Kína, MAD.  Nánar má kynnast þessu húsi  á þessari slóð:

http://www.dezeen.com/2011/12/13/ordos-museum-by-mad/

 

Það er mikið um nútímalegan alþjóðlegan arkitektúr í borginni eins og húsið að ofan sem teiknað er af  kínverskum aðilum, en meðal verkfræðingar eru Buro Happold sem við þekkjum frá Bretlandi. Húsin  tvö að neðan eru dæmi um íbúðahús í draugaborginni.

Aðalleikhús borgarinnar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Ólafur Ólafsson

    Það er augljóst að allt getur gerst. Þarna (eins og á Íslandi) hafa lánastofnanir og hagfræðin klikkað. Enginn maður byggir hús eða eins og í Kína, heila borg, sem ekki er þörf fyrir eða sem enginn hefur efni á að búa í. ´

    Þetta er eins og hér á landi, algert skipbrot fjármálastofnanna, hagfræðinnar og stjórnmálamanna.

    Maður er nánast forviða á getuleysi stjórnmálamanna, fjármálastofnanna og stjórnmálamanna.

    Þetta eru allt kjánar sem reknir eru áfram af einhverjum metnaði sem ekki hefur neina fótfestu í raunveruleikanum eða fræðunum.

    Samkvæmt myndbandinu sem fylgir þá keppast stjórnmálamenn í Kína um að ná 8% hagvexti eða meiru í sínu sveitarfélagi. Þarna í Ordos var bara sprautað fé í að byggja. Búin til byggingabóla og hagvaxtarmarkmiðinu náð!!!

    Svo keyptu sparifjáreigendur þetta sem fjárfestingu. En framleiðslan var of dýr fyrir markhópinn og nú vantar fólk til að búa þarna.

    Þetta er sama trendið og gerðist hér á landi með byggingu atvinnuhúsnæðis. það standa nú tugir þúsunda fermetra af tómu skrifstofu- og atvinnuhúsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu þó 4 ár séu frá Hruni.

    Hvað voru greiningardeildir bankanna að gera þegar þær lögðu til að sparifé okkar væri lagt í alla þessa vitleysu.

    Og það versta er að þetta */+&%#“ lið er flest enn að störfum í bönkum og lífeyrissjóðum að höndla með okkar sparifé.

    Það á að vera búið að reka það allt fyrir löngu.

    Þetta fólk hefur fengið sitt tækifæri.

    aaarrrggggg

  • Guðmundur Einarsson

    Ég var að skoða vinningstillöguna um uppbyggingu í Vatnsmýri og þá datt mer í hug þessi færsla. 170 hektara byggð með nýtingunni 2,0 gefur 3.400.000 fermetra húsnæðis eða um 34 þúsund íbúðir og ef í þeim búa að meðaltali 3 einstaklingar er þarna íbúðahúsnæði fyrir um 100 þúsund manns. Ergo við þurfum ekki þetta land nema við viljum byggja lítið mannlaust Ordos í Vatnsmýrinni

  • Skemmtileg grein og áhugaverð.

    En er vert að hafa í huga að þetta á ekki við um alla uppbyggingu í Kína. Í borginn Chongqing eykst fólksfjöldinn um 100.000 á mánuði, já hundrað þúsund persónur á mánuði. Nánar hægt að lesa um það hér (á norsku) http://morgenbladet.no/samfunn/2012/en_megaby_i_stopeskjeen

    60 milljónir tómra íbúða er kannski ekkert svakalegt í landi þar sem búa um 1.347.350.000 manneskja, og fjölgun framundan þar sem slakað hefur verið á einnarbarnsreglunni. En sorglegt engu að síður!

  • Pétur Örn Björnsson

    Lokaorð pistils Guðbergs Bergssonar um „Dróma“ eiga hér óhugnanlega við, því dróminn -flækjurnar og dauðinn- er víða:

    „Hvað þarf fólk þá að vera mikið samsekt valdinu svo það sjái af eigin raun að það er ekki saklaust?

    Hvað þurfa margir karlmenn, konur, heimili og börn annarra að falla í skuldafen eða dauðagryfjur, svo ekki verði hægt fyrir hlýðna þjóna að réttlæta sig með því að fjölskylda þeirra gangi fyrir í lífinu?

    Eftir fall kirkjuvaldsins er engin leið að boða skuldugum fagnaðarerindi séra Valdimars Briem og segja þegar allt hefur verið frá þeim tekið:

    „Ég bjart lít blika ský … „ Guðstrúin er dauð, græðgistrúin tók við af henni.“

  • Borg verður ekki byggð FYRIR fólk, borg er byggð AF fólki.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Þar sem enginn er gróðurinn, þar vill enginn búa.

  • Þórhallur

    Og á þennan vagn ætla gjaldþrota sveitarfélög á Norðurlandi að stökkva með bæjarstjórann á Húsavík í fararbroddi. Var það ekki sveitarstjórinn á Raufarhöfn sem tók alla peninga þorpsins og setti þá í Decode? Íslendingar læra aldrei neitt.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ósköp er maðurinn á hjólinu umkomulaus á fyrstu myndinni.

    Það er eins og hann sé að leita að einhverju, sem finnst ekki … skyldi það vera staðarandinn, sem hann finnur ekki? …
    og er því eins og gamli nói og veit ekkert hvert hann er að fara?

    Öll viðmið horfin, allt týnt í firringunni, engin snerting, bara hátækni fjöldaframleiðslunnar á glóbal vísu og endalaus græðgi.

  • Hilmar Þór

    Þetta eru áhugaverðar upplýsingar sem koma fram í athugasemdum Karitas, Péturs og Guðmundar.

    Ég minnnist þess að fyrir allnokkrum árum kom á mína teiknistofu fjárfestir frá Austin í Texas (USA) sem vildi fá okkur til þess að hanna funkishús í anda áranna fyrir fyrri heimstyrjöld. Viðkomandi taldi mikla eftirspurn eftir slíkum húsum í Texas. Það hefur líka verið aftirspurn eftir sænskum smáþorpum þarna í Kína ef marka má slóðina sem Karitas sendir.

    Manni virðirs á þessu öllu saman að algert hrun í byggingariðnaði í Kína vofi yfir.

    Annars mæli ég með að fólk googli Ordos. Þá mun fólk finna framúrskarandi arkitektúr sem skapaður er í samræmi við tíðarandann.

  • Karitas Möller

    Stórmerkileg fyrirbæri. Hér er annað dæmi um þaulhugsaða skipulagsáætlun – eins konar sjálfbær lúxusborg fyrir nýríka Kínverja rétt fyrir utan Shanghai, þróuð af og innflutt frá Svíþjóð. Ég gekk þarna um fyrir nokkrum árum, og draugabæjarstemningin var allsráðandi. Hver veit, kannski er frábær stemning þarna í dag. Ég leyfi mér samt að efast um það.

    http://www.sweden.se/eng/Home/Business/Reading/Luodian–a-slice-of-Sweden-in-China-/

  • Guðmundur

    Má ekki sleppa „Jafnvel“ og „geta“ úr setningunni og hafa hana:
    „Þaulhugsaðar skipulagsáætlanir fara úrskeiðis“?

    Skipulagsfræðingar og arkitektar, sama hversu snjallir þeir/þær eru, geta ekki séð fyrir allar þarfir eða langanir íbúa sem koma til með að búa á tilteknum stað. Þetta var kannski ekki dæmt til að mistakast, en allt að því.

  • Pétur Örn Björnsson

    Og ekki er lokaorðin síðri Einar:

    „Deild á vegum bandaríska fjármálaráðuneytisins sem fylgist með ólöglegum peningafærslum tilkynnti nýlega um gífurlega aukningu peningaþvættis frá Kína sem byrjaði síðasta vor.

    Fréttastofur á Vesturlöndum tala um „mjúka lendingu“ í Kína, stöðugan fasteignamarkað og vaxandi lánastarfsemi banka vegna lægri verðbólgu.

    En rotturnar sem eru að flýja sökkvandi skip—menn sem raunverulega skilja kínverskt hagkerfi og hafa hrærst í því árum og áratugum saman—eru miklu betri vísbending um hvað raunverulega er að gerast á bak við bambustjaldið.“

    Skyldi það eitthvað tengjast Nubostöðum á Fjöllum?

  • Einar Ólafs

    Frábær grein sem Pétur Örn bendir á. Þar stendur m.a.:

    „Það er talið að á þessu augnabliki búi enginn í yfir 60 milljónum íbúða í Kína. Fólk hefur fjárfest í sumum þeirra af þeirri einföldu ástæðu að það hefur aldrei séð fasteignaverð lækka … þar til núna. Byggingafélög eru byrjuð að gefa allt að 30% afslátt og óeirðir hafa brotist út þegar fyrri kaupendur heimta sama afslátt. Kínverska fasteignabólan er sú svakalegasta sem heimurinn hefur nokkru sinni séð og verðið á eftir að falla meira en flesta grunar. Vítahringurinn sem fasteignamálin eru komin í er algjör og það er enn verið að byggja á fullu þrátt fyrir að hrun blasi við. Allt að 40% tekna margra borga má nefnilega rekja til sölu lóða undir nýjar fasteignir“.

  • Pétur Örn Björnsson

    Um þetta er ma. fjallað í greininni:
    „Kína blikkar rauðum ljósum“

    http://vald.org/greinar/111113/

  • Pétur Örn Björnsson

    Hva… eru þetta myndir frá Nubostöðum á Fjöllum?

  • elín g. gunnlaugs

    Þetta er svakalegt!
    – ég var búin að sjá myndband um þetta fyrir u.þ.b. 1-2 árum síðan. Sérstaklega óhugnanlegir þessir galtómu verslunarklasar….kannski var það önnur draugborg!

    Þetta er að sjálfsögðu mjög sorglegt því að mikil fátækt ríkir í sumum bændahéruðum Kína…..

  • Sveinn Jónsson

    Ja hérna. Þetta toppar byggingasjóð sem á 700 tómar íbúðir, eða hvað? Kinverjar eru meira en 4 þúsund sinnum fleiri en við. Sennilega toppum við vitleysuna miðað við hina rómuðu höfðatölu

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn