Mánudagur 18.04.2011 - 17:20 - 6 ummæli

Sumarhús í landslaginu

Það er alltaf gaman að sjá þegar arkitektar teikna hús með landinu. Láta landið ráða ferðinni og móta bygginguna, hvort sem horft er til byggingarinnar eða frá henni. Þetta glæsilega sveitahús í Suður Ameríku er einmitt þeirrar gerðar. Þegar sneiðingin og grunnmyndin er skoðuð með ljósmyndunum sést að láréttar línur í landslaginu og vatninu sem húsið stendur við hafa úrslita áhrif á byggingalistina. 

Litla tjörnin, potturinn, í pallinum undirstrikar enn frekar ráðandi láréttar línur umhverfisins.

Til viðbótar koma efnistökin; grjót úr landinu og timbur.  Til þess að undirstrika tengslin milli úti og inni er sama efni á gólffletinum  beggja megin við glerið sem spannar frá gólfi til lofts.

Útsýni er mikið úr samnotarýmunum meðan hægt er að hvíla sig á útsýninu í einkarýmum.

Útisvæði er stórt og þar er hægt að vera á opnu svæði. Síðan er hægt að færa sig til þannig að útivistin verður meira “prívat” í skjóli sem myndað er með þykkum steinveggjum.

Húsið er kallað “Punta House” og er teiknað  af Marcio Kogan hjá Studio mk27 í Uruguay. Framkvæmdum lauk snemma á þessu ári.

Til þess að undirstrika tengslin milli úti og inni er sama efni á gólffletinum inni og úti og glerið spannar frá gólfi til lofts.

Landið er látið ráða ferðinni og móta bygginguna hvort sem horft er til byggingarinnar eða frá henni. Láréttar línur eru ráðandi í landslaginu og í byggingunni.

Sneiðingin er eiföld með opið útivistarsvæði í aðra átt og tiltölulega lokað útivistarsvæði í hina.

Tengslin milli „bakgarðs“ og „forgarðs“eru sterk og upplifast í gegnum húsið og inni í því.

Heiti potturinn er hluti af arkitektúr hússina og tengir það náttúrulegu vatninu í grenndinni.

Ljórmyndirnar eru eftir Reinaldo Coser

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    Stórglæsilegtlegt hús! En ég hef nú samt mínar efasemdir um grunnmyndina eins og aðrir hér. Maður veltir fyrir sér lífsstíl fólksins sem ætlar að búa þarna. Verandi í S-Afríku eru þau væntanlega með kokk og þernur sem búa annars staðar (og það fólk þarf að vinna í eldhúsi sem virkar ópraktískt á mig).

    Langir (og mjóir) svefnherbergisgangar finnst mér t.d. ekki sexí, minna einna helst á hótel, og ég skil hreinlega ekki af hverju ekki er hægt að losna við slíkan gang í þessu húsi. Svefnherbergin þrjú minna óneitanlega á (ódýr) hótelherbergi en þau opnast gjarna inn i svona þröngan flöskuháls meðfram reglugerðarbaðherberginu. Eldhúsinu er smellt inn í þetta svefnherbergis-unit en ég skil ekki fyllilega hvernig gengið er inn í það (unit) frá öðrum rýmum hússins.

    Ef þessi ágæti arkitekt væri að teikna húsið fyrir mig (alltaf gaman að fantasera!) þá myndi ég biðja hann um að stækka hjónaherbergið um helming og setja þessi þrjú svefnherbergi — sem virka á mig eins og gestaherbergi — í sérhýsi á lóðinni. Halda rammanum utan um þetta svefn & eldhúsunit en algjörlega endurhugsa herbergjaskipanina innan hans.

    Og hana nú.

  • Er það sósíalismi að sameinast um klósett og bað? Mér finnst svona hús sem eru fyrst og fremst „minnismerki um mig, arkitektinn“ og hrópa „sjáið hvað ég er ríkur“ voða lítið spennandi, en það er kannski af því ég er úr sveit og ólst upp við þrengsli, og að hús væru handa fólki.

  • stefán benediktsson

    Hvern vantar sósíalisma í arkitektúr? Þetta er bara ansi stórt hús en samsvarar sér og er í þessum MiesBarcelona stíl sem allir vildu hafa fengið að spreyta sig á amk. einu sinni á ævinni. Flottur heitipottur.

  • Hilmar Þór

    Helga kann að lesa grunnmyndir. Húsið hefur marga kosti og marga galla.

    Helsti gallinn er einmitt grunnmyndin sem Helga bendir á.

    Hún er eins og gerðist í húsnæði “fína fólksins” í Evrópu á Napóleonstímanum þegar starfsfólk hafði “kames” inn af eldhúsinu og blandaði sér ekki í líf húsbændanna.

    Í þessu húsi er einn langur gangur. Annarsvegar eru íburðamikil svefnherbergi öll með baði og útsýni til fagurrar náttúru. Handan gangsins er svo eldhús, grófeldhús(bryggers) svo smá afdrep og loks herbergi fyrir hjúin með lítilli snyrtingu innst.

    Nei, í þessu húsi er ekki hægt að lesa félagslegann jöfnuð, þvert á móti.

    En það breytir því ekki að húsið fellur vel að landinu.

  • Húsið er ansi veglegt líka og baðherbergin – eru þau fimm eða sex? Enginn sósjalismi hér takk! Mér finnst ég alltaf vera að sjá svona hús í tímaritum og á netinu, tekin sem dæmi um dásamlegt lárétt samræmi við landslagið og grjótið í landslaginu en þau eru öll nokkurn veginn eins, og eins og sýningarhús en ekki íbúðarhús að innan. Enda kannski aðallega hugsuð til að sýna þau gestum, ekki til að slappa af í þeim.

  • Jóhannes G.

    Miðað við mælikvarðann á grunnmyndinni virðist „heiti potturinn“ vera 20-25 metrar og á sniðinu sést að hann er nægjanlega djúpur til að geta synt í honum. En hvað um það þessir plastbalar við hvert sumarhús hér á landi eru ansi þreyttir orðnir og því skemmtilegt að sjá óhefðbundna lausn eins og hér.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn