Fimmtudagur 02.03.2017 - 14:38 - 3 ummæli

Sumarhús við Heklurætur

Í gær varð á vegi mínum um veraldarvefinn kynning á sumarhúsi við Heklurætur eftir arkitektana á Sudío Granda. Arkitektarnir  Steve Christer og Margrét Harðardóttir reka þá stofu á Íslandi sem hefur hvað sterkustu höfundareinkennin.  Umhverfi arkitekta hefur einhvernvegin þróast þannig á undanförnum árum og jafnvel áratugum að stofurnar hafa breyst úr „arkitektastudíóum“ yfir í „arkitektafyritæki“.  Það er nokkur munur þar á. Þessi þrónun er á margan hátt ágæt en hefur haft það í för með sér að það hefur dregið úr höfundareinkennum og byggðin er sífellt að verða einsleitari og með meira og meira alþjóðlegu yfirbragði. Regionalisminn hefur á margan hátt vikið fyrir alþjóðahyggju og tískusveiflum líðandi stundar.

Það er synd.

Hér birti ég nokkrar ljósmyndir sem ég fann á veraldarvefnum af sumarhúsi þeirra á Studio Granda. Húsið er sprottið úr umhverfinu og ber sterk einkenni höfundanna.

Húsið er aðeins 68 m2 að stærð og rúmar tvö svefnherbergi og eitt alrými með eldhúsi borðstofu og stofu. Húsið stendur á bökkum Ytri Rangár í lítið grónu og viðkvæmu landi sem einkennist af sandöldum öskulagsins frá Heklu. Landsalagð  er eins og fyrr er getið viðkvæmt og einkennist af mjúkum sand- eða öskuöldum sem eru fágætar í víðri veröld. Höfundarnir og verkkaupi hafa verið meðvitaðir um þetta og valið að láta húsið víkja fyrir landslaginu og staðsett það í öldulægð og lagt gras eða gróðurteppi yfir húsið þannig að það falli að umhverfinu og sé sem minnst sjáanlegt. Útsýninu er stýrt og það er ekki litið á það sem einhvern skyndibita sem blasir allstaðar við og alltaf, heldur er það takmarkað eins og um veislumat sé að ræða. Hægur vandi og freistandi hefði verið að staðsetja húsið á ölduhæð og ná þannig útsýni til allra átta, alltaf.

Þetta er vandað hús í bæði aðalatriðum og öllum smáatriðum og getur hvergi staðið annarsstaðar. Hús sem menn ættu að taka sér til fyrirmyndar hvað nálgun verkefnisins varðar.

 

Afstöðumynd.  Án þess að ég viti þá hef ég á tilfinningunni að sumarhúsið standi í svokallaðri „sumarhúsabyggð“ þar sem lóðirnar eru allnokkrar saman. Kannski 0,5 til 1.0 hektari hver. Ef aðrir sumarhúsabyggjendur velja að byggja sumarhús af svipaðri gerð og sjá má allstaðar á landinu, í flatlendi og skóglendi þar sem húsin eru ekki aðlöguð sérstaklega að staðháttum er hætta á að það landslag og umhverfi sem er þarna undir Heklurótum missi sinn sjarma að miklum hluta.

Af grunnmyndinni má lesa einfalda heildarsýn arkitektanna á umhverfið oog sterk tök þeirra á verkefninu og þeim markmiðum sem að baki liggja. Svefnaðstaðan er í sitt hvorum enda og tiltölulega lokuð meða alrýmið er mjög opið.

++++++

Það er svoldið einkennilegt hvað lítið er fjallað um arkitektúr og skipulag í fjölmiðlum hér á landi. Þó það færist hægt í aukanna á allra síðustu árum þá erum við hvergi nærri því að ná nágrannalöndunum í þessum efnum. Það er hinsvegar allnokkuð fjallað um framkvæmdir í fjölmiðlum. Allskonar skipulagsáætlanir og fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir. En nánast aldrei um byggingalistina á hennar forsendum og þau samfélagslegu markmið eða áhrif sem af henni muni leiða. Eina fasta í þessu er tímaritið HA sem er gefið út af Hönnunarmiðstöð.

Nokkuð hefur verið gefið út af bókum og er þáttur Péturs H. Ármannssonar áberandi. Þá má nefna bókina „Borgir og borgarskipulag“ eftir Bjarna Reimarssonar um skipulagsmál, bók Björns G. Björnssonar, „Fyrsti arkitektinn“ um Rögnvald Ólafsson,  og bækur á borð við „Reykjavík sem ekki varð“ eftir Guðna Valberg og Önnu Dröfn Ágústsdóttir. Arkitektarnir Hjörleifur Stefánsson og Guja Dögg hafa einnig skrifað bækur um arkitektúr og staðaranda. Trausti Valsson gaf út merkilega bók um skipulag  „Mótun Framtíðar“ sem kom út fyrir ári.

RÚV hefur sinnt þessu með  stórgóðum sjónvarpsþáttum Sigrúnar Stefánsdóttur og Egils Helgasonar um byggingalist.  Og svo útvarpsþætti Hjálmars Sveinssonar á RÁS 1 fyrir mörgum árum og úrvarpsþáttum Lísu Pálsdóttur sem allir ættu að hlusta á.

Þá er það upp talið að mestu held ég.

Ég verð mest var við umræðu um íslenska byggingalist í erlendum bókum, blöðum og á erlendum vefsíðum. Þetta er á engan hátt nægjanlegt og það sem er skrifað er erlendis um skipulag og húsagerð á Íslandi mætir ekki augum íslenskra neytenda og er nánast gangslaust í umræðunni.

+++++

Myndirnar í færslunni eru teknar af vefnum ArchDaily hjá www.archdaily.com.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Pétur Örn Björnsson

    Mjög „íslenskt“ hús á sinn sérstaka hátt, minnir á það hvað við arkitektar höfum verið óduglegir að gera sem Högna, og hér Steve og Margrét, að vinna með steinsteypuna og jörðina. Steinsteypt bogadregið þakvirkið mótað sem lítið holt, virkilega áhugavert og smellpassar inn í umhverfið. „Regionalismi“ upp á sitt besta.

  • Fallegt og sérstakt.

  • Eysteinn Jóhannsson

    Er þetta ekki frekar „vetrarhús“? Það hlýtur að vera ferlega kósi á svona stað í myrkrinu og snjónum og norðurljósunum. Þetta er oboðslega flott hús og örugglega nothæft á sumrin. 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn