Mánudagur 30.05.2011 - 10:24 - 6 ummæli

Svartur litur Hörpunnar



Maður hefur lært um skilaboð litanna. Sagt er að rautt sé litur ástar og rómantíkur, næmni, hita., hlýleika og orku. Grænn leiðir hugann að rólegheitum, frjóssemi, grósku, náttúrunni og peningum. Hvíti liturinn er oft tákn um tærleika, sakleysi, hreinlæti, hlutleysi, rýmistilfinningu en líka litur sorgar.

En svart, hvað segir svarti liturinn? Hann er oft tákn um hið illa og syndsamlega. Hann er líka vísbending um vald, mátt, kraft, styrk og gáfur. En hann er ekki síður litur sorgar og dauða. Og svarti liturinn er á okkar dögum talinn smart. Sennilega  er það rétt, allavega  er hann “inn”.

Þetta eru svona hinn almmenni skilgreiningur á litunum.

Til viðbótar kemur persónuleg tilfinning einstaklinganna fyrir litunum sem byggist á reynslu og upplifunum á lífsleiðinni og getur verið margvíslegur. Alla litina er að finna á pallettunniog svo er það auðvitað samsetning þeirra sem skiptir mestu.

Þar liggur listin.

Gísli Halldórsson arkitekt hélt því fram fyrir áratugum að hús ættu ekki að vera svört á litinn. Sérstaklega á norðlægum slóðum þar sem dagsbirta er takmörkuð mánuðum saman á ári hverju.

Þegar ég gekk inn í Hörpuna á dögunum kom mér þetta í hug og velti fyrir mér af hverju arkitektarnir ákváðu að velja svart sem ráðandi lit í almenna rými hússins?

Ég átti von á að upplifa ljóst og bjart rými innnan við allt glerið. Rými þar sem himinn og jörð mættust og rampar, svala-  og tröppugangar væru einskonar ský, “cloud nine”!

Það eru ekki bara gólfin sem eru svört heldur veggirnir og loftin líka. Mér finnst þetta ekki ósmekklegt en þetta er óvenjulegt, og athyglisvert.

Auðvitað á maður ekki að gagnrýna verk sem ekki er klárað og það geri ég ekki heldur en ég vek á þessu athygli. Svo er það líka það að húsið kemur til að hafa aðra áferð í skammdeginu en núna yfir bjartasta tíma ársins.

Annað sem vakti athygli mína var að í almennu rýmunum þar sem mikið er um stóra heillega veggfleti var hvergi að sjá myndlist.

Ég vil ljúka þessum pistil með því að gera tillögu um að úr því verði bætt og myndlist flutt inn í húsið  þannig að fléttaðar verða saman listgreinar þrjár; tónlist, myndlist og móðir listanna, arkitektúr.


Svört steinsteypan er slípuð og fallega unnin, sérstaklega á súlum á neðstu hæð hússins.

Ég gæti séð á þessum stóru veggflötum öfluga nútímamyndlist eftir málara á borð við Magnús Kjartansson, Sigurð Örlygsson eða Tryggva Ólafsson. Eigendur Hörpunnar, Ríkið og Reykljavíkurborg eiga gnægð af frábærum listaverkum í geymslum Listasafns Ríkisins og Listasafns  Reykjavíkur sem færu vel þarna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • örnólfur hall

    AF SVERTUNNI Í HÖRPU

    Það vekur athygli að á tölvuteikningunum af Hörpu, frá því fyrir hrun, er allt miklu ljósara yfirlitum, inni og úti eins og í Suðurlöndum væri.- Ekki þetta svarta þunga yfirbragð og innvortis og útvortis eins og nú sést og sem fjölmiðlakona hafði orð á við undirritaðan á dögunum.

    Fyrir hrun fóru menn með himinskautum og hrifsuðu, purkunarlaust, með sér þjóðskáldið Einar Ben. í mærðar-siglinguna um Hörpu: “Hlýlega vafinn í straumanna arm”. Einhver “fróður” um byggingar talaði líka um eitt mesta byggingarundur sögunnar.

    Einar Benediktsson verður seint talinn skáld prjálsins frekar skáld hins göfuga forms. Tónahöll með göfugt yfirbragð og spennandi og falleg form, sem kölluðust á við yfirbragð („karakter“) borgarinnar, tel ég að hefðu verið honum meira fagnaðarefni en dönsk þunglamaleg útfærsla með glerskreyttum strendingum (sem sumir kollegar kalla “gimmick”).
    Undirrituðum finnst húsið sem tveir misstórir formfátækir kassar. Útlitið frá Sæbrautinni er sérlega óaðlaðandi. Frá Arnarhóli er það þó heldur skárra.

    ANNAÐ um HÖRPU :

    Aðspurð búðarkona sem er með söluvarning í dökka rýminu sagði við undirritaðan
    : Æi ..æ…ég hefði nú kosið að hafa þetta ljósara. En ég hugga mig við að sjá fallegan Arnarhólinn út um gluggann.

    Kínverska stálið, stálvinnan og stálsuðurnar (logsuðurnar).

    Ekki hélt undirritaður að hann ætti eftir að sjá ljótar stálsuður eins og sáust á Austan-tjalds-togurunum í gamla daga. En þær er hægt að upplifa þarna í Austurhöfninni. Eins eru t.d. láréttir eða hallandi póstar yrjóttir, sveipóttir og ósléttir að sjá.

    NB: íslenskir stálsmiðir og logsuðumenn eru þekktir fyrir vandaða vinnu (Hafa unnið til verðlauna í keppnum). Hvað skyldu þeir segja ?

    NB: Ég hvet kollega og aðra til að skoða fráganginn. Varla er of snemmt að gagnrýna þetta.

    Iðnaðarmaður benti undirrituðum á flísalögnina á aðalgólfi (líka svört). Flísarnar eru víða ósléttar (mishæðóttar) og gisnar. T.d. er ljótur frágangur við súlu í suðvesturhorni.

    NB: Ég hvet kollegana og aðra til að skoða þetta líka.

    Hnökrar, hnykkir og skrykkir virðast vera í Hörpu-stengjum í t.d. í miðhorni á norðurhlið þar sem þvert við pósta prjónast allt í einu litlar stálplötur. Einnig t.d. þar sem norður – og vestur-gólfpóstar vandræðast ófagurt saman. (Var um að kenna smíðinni hjá Kínamönnum eða heimsfrægu verkfræði-teikningunum (8000) sem íslenskir arkitektar máttu ekki sjá ?).

    NB: Ég hvet kollegana og aðra til að skoða þetta líka.

    Himnastiginn langi (í einu hlaupi) milli 5.4 metranna er sumum áhyggjuefni. Fyrrum upptökumaður fyrir Sjónvarpið, sem gekk stigann á Sinfó-tónleikunum, benti undirrituðum á að enginn pallur (pallar) væru á leiðinni. Hann sagði sem dæmi: Umfangsmikill sinfóníugestur (með mikla fakt) og e.t.v. búinn að fá sér smá í fótinn, gæti skrikað fótur í efsta þrepi og þá siglt niður með sér gestina fyrir neðan og enginn væri þá pallurinn (pallar) til að stöðva skriðuna.

    Undirritaður getur ekki annað en verið sammála upptökumanni og Sinfó má ekki við neinum afföllum í gestum. – Hvað segja annars kollegar um þetta?

    PS: Ryðdraugurinn ljóti lúrir enn með málningarsængina yfir sér (Sjá ryðmyndir fyrir glerjun) og ásækir síðar eftirkomendur.

    PS: Þeir sem vildu fá myndir af flísalögninni, af groddalegri stálsuðunni og „hornlausnum“ í hjúpnum geta haft samband við : ornolfurhall@simnet.is

    Gkv-Örnólfur

  • Vantar kannski smá gleði og léttleika í þetta, nokkuð þunglyndislegt en það eru margir flottir og spennandi vinklar þarna. Ég held að þetta hefði verið betra ef það hefði líkst meira tölvumyndunum af anddyrinu sem sýndar voru hér á vefnum nýlega.

  • Þetta er svona svart-smart eldfjall með glóandi kviku 🙂

  • stefán benediktsson

    Ég held að Davíð sé að negla þetta. Eftir að hafa komið þarna nokkrum sinnum túlka ég þetta litaval í sameiginlegu rýmunum sem skipulagða andstæðu við glervegginn, glerloftið og ævintýralegu salina þrjá. Umskiptin þegar maður gengur inn í þá eru mikil, eins þegar maður horfir út úr „hellinum“ eða upp úr honum. Talandi um myndlistarskort má ekki gleyma Ólafi Elíassyni en þetta hús er svo voldugt að það þyldi vel stórar höggmyndir inni á gólfi hellisins. Járnsmiður Ásmundar?

  • Húsið er all svakalega „svart.“ Mér dettur í hug að dökki liturinn á innirýminu eigi að minnka eða að koma í veg fyrir speglun sem gæti etv rýrt útsýnið eða haft neikvæð áhrif á „listaverkið“ sem húsið er klætt með. Hugsanlega hafa menn líka vísvitandi gert andyrið hrátt og svart og áhrifalítið til að gera meira úr sölunum?

    Ég tek undir það með þér að maður ætti að fara varlega í að dæma ófullgerða hluti. En ansi þarf mikið að ske á síðustu metrunum.

  • Davíð Guðmundsson

    Manni skilst að höfundur pistilsins sé ekki sæll með svart anddyrið í Hörpu án þess að segja það beint. Þar erum við sammála.
    Þetta er eins og vönduð neðanjarðarjárnbrautarstöð sem skortir upphefð þá sem er oft tilgangur og markmið tónlistarflutnings.
    En aðalsalur Hörpu er annað mál.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn