Fimmtudagur 09.04.2020 - 18:22 - Rita ummæli

Svona á miðbær Kópavogs að líta út.

 

Samkvæmt þeim hugmyndum sem nú liggja fyrir í skipulagsráði Kópavogs eru áætlanir um að endurhanna og endurskapa allt gamla miðbæjarsvæðið við Fannborgina, gamla og sögulega miðbæ bæjarins. Tillaga sú sem nú er til umfjöllunar gengur út á að rífa mörg lítil og stór hús á svæðinu og byggja stórbrotnar og stórar nýjar byggingar í alþjóðlegum stíl. Meðal þeirra húsa sem eiga að víkja er helsta og elsta menningarhús bæjarins. Félagsheimili Kópavogs, sem er mörgum kært. Þetta er húsið, sem byggt var af hugsjón og harðfylgi,  húsið þar sem Kópavogsbíó og bæjarstjórnarskrifstofurnar voru til húsa um áratugaskeið.

Það kæmi mér ekki á óvart að gömlum Kópavogsbúum og hagsmunaaðilum á svæðinu, finnist nóg um.

Af öllum gögnum og greinargerð má sjá að þetta er nokkuð ítarlega unnið og tekið á mörgum mikilvægum þáttum. Mikið af tilvísunum í vandaða erlenda byggingalist og líflegt götulíf í útlöndum. Þarna er  dregin upp mynd af umhverfi sem flestir sækjast eftir.  Hugmyndafræðin er nokkuð áræðin og stórkallaleg sem vert er að kynna sér og skoða vel.

Þegar svæðið er skoðað og núverandi ástand hugleitt, blasir við að það þarf að taka til og endurskipuleggja og lagfæra margt. Einkum með tilliti til Borgarlínunnar sem þarna á að fara um og þau tækifæri sem í henni felast. Margir töldu að stefna ætti að lágstemmdari og manneskjulegri uppbyggingu í þessum gamla miðbæ kaupstaðarins, með menningu og stjórnsýslu  sem meginþunga meðan miðhverfi verslunar og viðskipta yrði vísað á svæðið við Smáralind.  En nú virðist Kópavogur ætli að gera þetta með þeim hætti sem hjálagðar myndir sýna.

Myndirnar og kortin sem hér fylgja segja meira en tíu þúsund orð og skýra sig að mestu sjálfar.

 

Á loftmyndinni er skipðulagsreiturinn afmarkaður með bláu. Ef rétt er skilið þarf að rífa allar byggingarnar innan reitsins, alls 11 talsins.

 

 

 

 

Af sneiðmyndum skipulagsin má sjá að nýbyggingarnar eru engin smásmíð.

Þessar hugmyndir leiða hugann að nauðsyn þess að sameina öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Maður getur spurt sig hvort það sé svo að ef höfuðborgarsvæðið þyrfti tvö „La Defence“ svæði, hvort ættu þau þá bæði að vera í Kópavogi?. Og hvort Borgarlínan væri ekki hagkvæmari, minni og ódýrari í stofnkostnaði og rekstri ef um væri að ræða eitt sveitarfélag. Nú svo er ég ekki viss um að umræðan um Reykjavíkurflugvöll væri svona hörð ef það mál væri á herðum sveitarfélaganna allra. Ég held líka að húsfriðun og staðarandi fengi þyngra vægi og miðbær Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengju nánast friðun.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn