Fimmtudagur 10.07.2014 - 20:49 - 13 ummæli

Það á ekki að rífa neitt – Heldur byggja við

PLH-studio_02

Því hefur oft verið haldið fram að það eigi ekki að rífa nein hús…aldrei. Menn segja að það eigi að byggja við þau og aðlaga þau breyttum þörfum líðandi stundar. Viðhalda hinni sögulegu vídd í borgarlandslaginu. Ekki láta húsin víkja skilyrðislaust.

Ég er farinn að hallast að þessu sjónarmiði. Öll hús eru börn síns tíma og segja sína sögu. Þau hafa flest eitthvað sér til ágætis.

Maður rífur ekki borgir, maður byggir við þær og bætir.

Hjálmar Sveinssson formaður uhverfis- og skipulagsráðs hefur áttað sig á þessu og segir  í Fréttablaðinu í dag þar sem  hann er að fjalla um Skeifuna og uppbyggingu þar í kjölfar brunans: „Ég tel mikilvægt að þetta verði ekki eins og gert hefur verið víða í borginni, að allt sé rifið sem fyrir er“. Þetta er vel mælt hjá formanninum.

Mörg okkar munum eftir góðum húsum í Skuggahverfinu sem voru látin víkja fyrir nýju skipulagi. Mörg fíngerð lítil vönduð hús og einhverjir steinbæjir. Svo voru það Kveldúlfsskálarnir, Völundarhúsini og byggingar Sláturfélags Suðurlands. Allt vönduð hús sem mikil eftir sjá er af. Við munum líka eftir Söginni og byggingum Ræsis við Borgartún, Skúlatún og Skúlagötu. Maður minnist þessara húsa sem auðvelt hefði verið að gefa áframhaldandi líf.

+++++++

Í tengslum við þetta sjónarmið birti ég hér til skýringar nokkrar myndir af húsi sem hlaut viðurkenningu fyrir að vera eitt besta dæmið um endurbyggingu gamals húss í Danmörku árið 2013.

Þetta er gömul verksmiðja á Österbró í Kaupmannahöfn þar sem landverð er mjög hátt.

Grunnstoðir hússins hafa fengið að halda sér þannig að þær nýtast nýju hlutverki fullkomlega.  Þarna er gamalt hús „moderniserað“ þannig að gamla byggingin heldur anda sínum, sögu og allri gerð. Það er samt hvergi hallað á kröfur nút´mans og nútíma arkitektúr.

Eins og áður sagði fá grunnstoðir hússins að halda sér. Jafnvel hlaupakötturinn í lofti vinnslusalarins hefur verið gerður upp.

Rýmin hafa haldið sínum verksmiðjukarakter með  6,5 metra lofthæð. Á völdum stöðum er skotið inn hæð þar sem er rými fyrir 40 vinnustöðvar.

Húsnæðið sem áður hýsti verksmiðju fyrir rafmagnstæki. Lauritz Knudsenns Fabrikker er nú höfuðstöð fyrir eina af mörgum framsæknum arkitektastofum í Kaupmannahöfn, PLH arkitekter AS.

http://www.plh.dk/

Vakin er athygli á að stiginn er iðnaðarstigi í anda hússins. Blöndun af litakennileitum á veggjum, hlílegu eikarparketti og súbergrafik skapar jafnvægi mili þess gamla og hráa og hins nýja.

+++++++

Það eru áratugir síðan fólk áttaði sig á hinni sögulegu vídd byggingarlistarinnar og fóru að horfa á eldri bygginga sem verðmæti.

Nú rífum við gömul hús sem eru einkennandi fyrir Reykjavík til þess að byggja hótel fyrir ferðamenn sem eru hingað komnir til þess að berja það umhverfi augum sem vék fyrir hótelinu sem þeir búa í.

Ég nefni svæðið umhverfis High Line Park í NY sem margoft hefur verið fjallað unm á þessum vef. Þar er lítið rifið en bætt við það sem fyrir er. Það er því sérstaklega ánægjulegt að Hjálmar Sveinsson og fulltrúar í skipulasráði skulu vera meðvitaðir um þetta tækifæri eins og fram kom í Fréttablaðinu í dag.

Það á að halda niðurrifum í lágmarki almennt séð. Horfa frekar til endurbóta og viðbygginga þegar um er að ræða gamlar byggingar eða eldri borgarhluta.

Sjá einnig sambæileg hús víðsvegar að:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/17/andrik-skrifstofurymi/

Og umfjöllun um High Line Park og Meatpacking district í NY:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/11/17/high-line-park-i-new-york/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/09/07/high-line-park-i-new-york-miklabraut/

 

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

PLH-studio_04

 

PLH-studio_01-514x343

 

PLH-studio_06

PLH-studio_08

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Það þarf að fara meðalveginn í þessu sem og öðru. Vissulega á fyrst og fremst að reyna það sem kallast „adaptive re-use“ á útlensku (nýnotaaðlögun?). En það verður líka að gera ráð fyrir að sumt þarf að víkja þegar borgir stækka og þéttast. Í ofverndun er hætta á að gömul hverfi verði yfirgefin og grotni niður, sem endar með að byggingar sem annars hefðu getað staðið, hverfa.
    Lögmálið ætti að vera;
    1. Er hægt að aðlaga bygginguna nýjum þörfum?
    2. Ef ekki, er þá hægt að gera það með viðbyggingu?
    3. Ef hvorugt gengur upp, þá þarf að huga alvarlega að því hvort hægt sé að færa bygginguna, eða rífa.
    Verst er að oft eru í stað gamalla bygginga byggðar nýbyggingar sem passa enganveginn inní umhverfið. Sálarlausir fitubelgir sem fólk skiljanlega hatar. Módernisminn kláraðist árið 1972 og Póst-módernisminn á síðasta áratugi en margir hönnuðir hafa ekki enn áttað sig á því.
    Á endanum eru það náttúrulega oftast byggingaraðilar og eigendur sem taka ákvarðanir um hvað gert er, hönnuðir hafa oft lítið að segja um það.

  • Gunnar Bjarnason

    Gott að heyra að arkitektar og pólitíkusar skulu vera að reyna að ná jarðsambandi.:)
    Í upptalningunni gleymdist að nefna skemmurnar á Bílanaustsreit. Þær voru flottar í anda verksmiðunnar sem nú er teiknistofa sem sýnd er í þessum pistli.

  • Nauðsyn ,að fjalla um þetta efni,því að eins og bent er á hér að ofan eru það oft fagmenninrnir,sem eru „fastir uppi í háloftunum“.
    Um samband þess sem er á staðnum og nýbygginga hef ég oft fjallað um á Eyjunni (t.d. „fléttað inní borgarvefinn“).
    Nýlega var tillaga mín um endur og nýbyggingu á menningarmiðstöð fyrir utan Köln verðlaunuð af því að sýnilega tókst að „kontexta“ gamallt og nýtt.
    Sem bendir á að sumir prófessorar í Evrópu eru farnir að „nálgast jörðina“.(sbr:www. markthalle und arena WAZ.de).

  • Hlöðver Stefán

    Hér að ofan var minnst á þær byggingar sem nú eru á Reykjavíkurflugvelli.

    Mér finnst merkilegt að í nýja Vatnsmýrarskipulaginu sýnist mér hin mikla áhersla á hornrétt rúðuskipulag gera það að verkum að þessar byggingar virðast ekki eiga að fá að njóta sín í götumyndinni. Ég er sérstaklega að hugsa um byggingarnar sem hýsa Hótel Loftleiðir og fleira.

    Ég veit ekki betur en að í upphaflega verðlaunaskipulaginu hafi einfaldlega verið gert ráð fyrir að fjarlægja þær. (Sjá t.d. hér http://www.vatnsmyri.is/swf/ex01.swf ).

    Í þeirri útgáfu sem rataði inn í aðalskipulag Reykjavíkur er því breytt þannig að mér sýnist þær götur sem liggja áttu þvert yfir byggingarnar hafi verið fjarlægðar svo eftir verði nægilega stór auður reitur í rúðuskipulaginu til að húsin komist fyrir. Þau sitja þar eftir á skjön við byggðarmynstrið. Kannski á eftir að útfæra það nánar, og það mætti vissulega gera vel. Uppdrátt af þessu má m.a. sjá í kynningargögnum vegna nýja aðalskipulagsins á adalskipulag.is.

    Loftleiðabyggingarnar hafa myndarlegar hliðar sem myndu sóma sér vel meðfram nýjum borgargötum sem gerðar væru ef flugvöllurinn færi einhverntíma. En áherslan á hið hornrétta skipulag virðist vera allsráðandi og mikilvægari en að laga byggðamynstrið af byggingunum sem fyrir eru.

    Það er kannski rétt að taka það fram að ég hef ekkert á móti hornréttu skipulagi. Meistaraleg dæmi eru til um slíkt víða um heim.

    Er þetta kannski til merkis um það að hinir erlendu arkítektar leggi sig ekki nægilega fram við að setja sig inn í sögu og menningu staðanna? Eða þá að við hér á landi séum hrædd við að gagnrýna verk þeirra og taka þátt í að móta þau?

    Mér verður líka hugsað til þess sem Jan Gehl talaði um í fyrirlestri sem ég horfði á á netinu. Þar sagði hann eitthvað á þá leið að margir arkítektar væru fastir lengst uppi í háloftunum. Þeir teiknuðu borgir og bæi inn á kort án þess að skoða hugmyndirnar nægjanlega vel frá sjónarhorni þess sem kemur til með að njóta þeirra gangandi á jörðu niðri. Hann kallaði það fuglaskíts arkítektúr.

    • Einar Jóhannsson

      Ég held að menn séu að átta sig á því að tillaga hinna „erlendu sérfræðinga“ um deiliskipulag í Vatnsmýri sé misskilningur.

  • Þetta er hugarfarsbreyting sem hefði þurft að koma fyrr á Bolungarvík þar sem manni skilst að ummerkjum um fortíðina hafi verið skipulega útrýmt af yfirvöldum. Þegar skilningur myndast svo loks á verðmæti gamalla húsa hjá bæjaryfirvöldum þá tekur hins vegar íbúi málin í eigin hendur til að tortíma því litla sem eftir stendur. Það virðist vera einhver kynslóðamunur í viðhorfum til þessara hluta, maðurinn er á eftirlaunaaldri og af viðbrögðum í athugasemdakerfum netmiðla virðist það aðallega vera fólk af sömu kynslóð sem tekur til varna fyrir eyðileggingarstefnuna.

  • stefán benediktsson

    Hjálmari til „varnar“ held ég að orðalagið „hefur áttað sig á þessu“ gæti skilist þannig að það sé nýlega, en þeir sem muna eftir útvarpsþáttum hans vita að virðing hans fyrir gömlu og grónu í skipulagi og byggingum er ekki ný til komin.

    • Hilmar Þór

      þetta orðalag er auðvitað hægt að misskilja.

      Ég átti við að það hafa ekki allir áttað sig á þessu en það hefur Hjálmar gert.

      Ég fylgdist vel með Krossgötum Hjálmars á sínum tíma og kíki annað slagið á tímamótagrein hans í tímariti Máls & Menningar sem hét „Skipulag Auðnarinnar“ ef ég man rétt.

      Hjálmar er ágætur en hann á oft ekki auðvelt með að ráða við „lóðarhafa“ og þeirra ráðgjafa í arkitekltastétt eins og dæmin sanna. Ég hef sagt það í mínum pistlum að helsta ógnin við borgarlandslagið eru ekki stjórnmálamenn eða skipulagið sjálft heldur lóðarhafar og þeirra ráðgjafar.

      Talandi dæmi um þetta er deiliskipulag Landspítalans þar sem hagsmunir heildarinnar og hagsmunir lóðarhafa og arkitektateymisins fara ekki saman.

      Þarna urðu heildarhagsmunir almennings og borgarlandslagsins undir.

      Notendahópurinn var vitlaust skilgreindur. Að mati lóðarhafa og ráðgjafa þeirra var notendahópurinn skilgreindur sem starfsmenn spítalans og háskólasamfélagið. Ég tel að notendahópurinn séu sjúklingarnir og aðstandendur þeirra.

      Annað er sem vert er að velta fyrir sér er að eftir aðalskipulag AR2010-2030 var samþykkt er skilyrðislaust og nauðsynlegt að endurskoða staðsetningu spitalans m.t.t. aðalskipulagsins. Samgönguásinn einn og sér kallar á þessa endurskoðun fyrir utan almenn bindandi ákvæði aðalskipulagsins um að ný byggð skuli skilyrðislaust falla að því sem fyrir er en ekki því sem koma skal (Vatsmýrarskipulagið)

    • Gaman og fróðlegt væri að fá pistil um hvernig staðsetning Landsans fellur ekki að AR2010-2030?

  • Jón Gunnarsson

    Í þessu samhengi má ekki gleyma mannvirkjunum á Reykjavíkurflugvelli. Það þarf að vera meginstefna að gefa gamla flugturninum og flugskýlum bretanna (sem eru stórvirki og tækniundur þess tíma) pláss í nýju skipulagi þarna.

    Sama á við um skrifstofur og hótel Loftleiða og jafnvel litla radsjárhúsið sem er þarna.

    Allt þetta verður að fá að standa.

  • Það er greinileg hugarfarsbreyting hjá skipulagsráði en ekkert hefur breyst hjá bröskurunum. Ég er hrædd um að braskararnir hafi betur í Skeifunni á komandi árum.

  • Hafsteinn Guðmundsson

    Það er gott að skipulagsumræðan haldi áfram eftir kosningar og með þáttöku stjónmálamanna!

  • Sigríður

    Fyllist fögnuði 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn