Sunnudagur 08.12.2013 - 09:55 - 13 ummæli

Þarf spítalinn að vera svona stór?

 

02-landspitali-1acrpolett

 

Það er aldrei of seint að beygja af rangri leið.

Eins og margoft hefur komið fram hefur ekki tekist að sannfæra mig og mikinn fjölda Reykvíkinga og landsmanna um að þær áætlanir sem nú er unnið að í uppbyggingu landspítalans við Hringbraut sé skynsamleg. Það er nánast sama hvernig litið er á málið, fjárhagslega, skipulagslega  eða framkvæmdalega. Þegar þannig stendur á er ástæða til þess að hugsa sig um.

Nýlega varð á vegi mínum grein eftir Guðrúnu Bryndísi Karlsdóttur sem er sjúkraliði og verkfræðingur. Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. mars 2012. Ég birti hér lokaorðin í grein Bryndísar þar sem hún fjallar um stærð spítalans. Greinina má lesa í heild sinni á þessari slóð:http://nyrlandspitali.com/vefpistlar/ymislegt/96-allskonar-vidh-hringbraut.html

Guðrún Bryndís nefnir niðurlagið: Þarf spítalinn að vera svona stór?

„Í fyrsta áfanga er áætlað að byggja 95-105.000 fermetra spítala fyrir lánsfé, afborganir af lánum verður nýr kostnaðarliður í rekstri sjúkrahússins. Í skýrslu norskra sérfræðinga frá 2009, er bent á að 300-400.000 íbúa þjónustusvæði  í Noregi þurfi um 90.000 fermetra spítala. Í fyrsta áfanga á því að byggja spítala sem nægir jafnmörgum Norðmönnum og allir íbúar þessa lands. Með því að nýta eldri byggingar áfram, eru fermetrar LSH orðnir fleirri en Norðmenn þyrftu. Getur verið að háskólasjúkrahús Íslands sé of metnaðarfull framkvæmd fyrir okkur í bili? Er ekki full ástæða að grípa tækifærið áður en það glatast og endurskoða staðsetningu í stað þess að velja lóð undir spítala eins og var gert fyrir rúmum áratug? Þarf ekki að meta fórnarkostnað borgarinnar sem felst í öllum þeim fjölda sem keyrir vestur í 101 til vinnu, öryggi sjúklinga þegar spítali er staðsettur í þungamiðju umferðar og því hvort það eigi bara að veita allskonar sjúkrahúsþjónustu við Hringbraut og hvergi annarsstaðar á landinu? Er ekki kominn tími til að skoða það sem vel er gert á einkareknum stofum og á smærri sjúkrahúsum?  Stærð nýs Landspítala mætti þá endurskoða m.t.t. þeirrar þjónustu sem á best heima þar og um leið velja honum heppilegan stað í borginni, þar sem margir búa, fáir vinna, vegakerfi landbyggðarinnar tengist borginni og þannig má létta á umferð um alla borgina“.

Það er einhvern vegin þannig með gildandi deiliskipulag að allir sem að því hafa komið hafa unnið vel að sínum verkum. Þeir sem gerðu forsögnina, þeir sem unnu samkeppnina, þeir sem unnu deiliskipulagið, þeir stjórnmálamenn og embættismenn sem veittu deiliskipulaginu brautargengi hafa unni af fagmennsku og með góðum ásetningi. Hinsvegar hefur svo mikið breyst í tímans rás að ekkert stendur eftir sem á að bera uppi þessar hugmyndir. Deiliskipulagið stendur á brauðfótum.

Allt er öðruvísi nú en það var þegar þessi vegferð hófst. Húsrýmisáætlunin hefur tvöfaldast, úr um 140 þúsund fermetrum í tæplega 300 þúsund, gildandi deiliskipulag stenst ekki lengur kröfur aðalskipulags Reykjavíkur, deiliskipulagið er ekki í samræmi við opinbera menningarstefnu um mannvirkjagerð frá 2007, það hefur ekki náðst almenn sátt um verkefnið, fjárhagslegt umhverfi er annað en fyrir áratug. Þetta er 2007 skipulag „per exalance“.

Þessi atriði og mörg fleiri gera það að verkum að nauðsynlegt er að endurmeta deiliskipulag spítalans, umfang þess og  staðsetningu. Deiliskipulagið er á margan hátt vanreifað og illa kynnt. T.a.m. er svo einfalt mál eins og bílastæðauppgjör hverfisins óuppgert ef marka má meistararitgerð Kristins Jóns  Eysteinssonar nema í HR sem kynnt var í Morgunblaðinu í gær.

Hér að neðan er kynningarmyndband sem gert er af aðstandendum deiliskipulagsins til þess að sanfæra þá sem á horfa um ágæti þess.

Ég ráðlegg öllum sem hugsa um þetta mál að horfa á myndbandið. Þeir munu þá sjá að þarna er um að ræða myndband sem inniheldur óskalista þeirra sem að þessu standa fremur en kynningu á deiliskipulagi. Í myndbandinu er ekker fjallað um meginviðfangsefi deiliskipulags á þessum stað. Aðlögn að aðliggjandi byggð er ekki nefnd, Staðsetning spítalans í borgarlandinu er ekki nefnd, Helstu lykiltölur eru ekki nefndar (bílastæðafjöldi, nýringarhlutfall og umfang byggiga). Nánast öllum lykilatriðum er sleppt meðan ýmis innri tengsl og samgönguleiðir innan spítalans eru tíunduð ítarlega.

Í mínum huga sýnir myndbandið ógnvekjandi framtíðarsýn sem við þurfum að beygja frá og leita að annarri og ásættanlegri niðurstöðu.

 

Hér er ágæt grein eftir Vilhjálm Ara Arason lækni:

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/05/05/nyr-landspitali-eins-og-slaemur-draumur-i-dos/

Og hér er heimasíða nýs Landsspítala þar sem þeirra sjónarmið eru rækilega útskýrð:

http://nyrlandspitali.is/islenska/forsida/

 

Og loks nýlegur pistill héðan af vefnum:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/11/10/deiliskipulag-landspitalans-og-adalskipulag-reykjavikur/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Margrét Einarsdóttir

    Ekki er hægt að draga aðra álygtun af þesari umræðu en að svarið við spurningunni efst í færslunni og í grein Bryndísar sé;

    JÁ….. hann er allt of stór og of dýr fyrir okkar guðsvolaða samfélag þar sem tæknikratar hafa skrúfað stærð spítalans upp í hæstu hæðir með sína eigin hagsmuni og byggingariðnaðarins sem gulrót.

    Meðan enginn getur skýrt stærðina út á stuttu og skiljanlegu mannamáli þá kaupi ég ekki þetta stóra hús sem enginn hefur þörf fyrir.

    Ég hef fylgst með umræðunni og hvergi séð rökstuðning fyrir þessu mikla sjúkrahúsi. Ekki í ljósvakamiðlum, ekki í dagblöðum og ekki á þessu ágæta bloggi.

    Byggjum minna og byggjum strax.

    • Margrét Einarsdóttir

      Fyrirgefið.

      Svarið er auðvita: NEI.

      Var annarshugar og í einhverri geðshræringu eftir að hafa skoðað myndbandið og lesið ummælin.

  • Setjum íslendinga á sjúkrabörur 50cm x 200cm og þá komast þeir fyrir, allir, í einu á nýja spítalanum.

    Er það ekki fullmikið í lagt.

  • Pétur Örn Björnsson

    Leitið að Barnaspítala Hringsins á myndinni, leitið að Gamla Landspítalahúsinu, leitið að „Tanngarði“ … og þá dylst það engum að þessi hugsun um hátæknimonsterið við hringbrautina er algjörlega úr skala við efni og aðstæður okkar sem þjóðar, miðað við stöðu ríkissjóðs í dag sem er neikvæð um allt að 3000 milljarða (að meðtaldri 600 milljarða neikvæðri tryggingarfræðilegri stöðu opinbera lífeyrissjóðakerfisins).

    • Guðrún Bryndís

      Auganu er strítt með því að hafa húsin í nágrenninu ‘örlítið’ hærri en þau eru í reynd. Hæð húsa miðast við götuhæð Gömlu Hringbrautar og þannig verða þau 5 hæðir.
      Þarfagreining 200-500 starfsmanna í allt að 40 þarfagreiningarhópum er dýr og verkefnisstjórnin virðist hafa unnið að því að uppfylla óskir allra sem komu að þeirri vinnu og skýrir að einhverju leiti stærðina. Þessari vinnu er hvergi nærri lokið ef marka má lög um opinbera hlutafélagið sem var samþykkt í vor, þetta opinbera hlutafélag var stofnað um ‘þekkingu og reynslu verkefnisstjórnar’ sem eru ýmist starfsmenn eða starfsmenn LSH eftir starfslok þeirra. Í skýringu með lögum kom fram að spítalinn komi til með að gera breytingar á hönnun á öllum stigum, þegar stjórn spítalans þykir ástæða til.
      Það vita allir sem hafa komið nærri hönnun og framkvæmdum hvaða afleiðingar það getur haft á kostnað, byggingarhraða og gæði mannvirkja.
      Þetta verkefni lifir sjálfstæðu lífi.

    • Pétur Örn Björnsson

      Það er nú eimitt vandinn Guðrún Bryndís að „þetta verkefni lifir sjálfstæðu lífi“ og algjörlega óháð veruleika okkar sem þjóðar og lands. Þarfir þeirra sem að verkefninu hafa komið virðist miðast við þeirra eigin stundarhagsmuni en ekki til hagsmuna og almannaheilla borgarbúa, hvað þá almannahagsmuna þjóðarinnar í heild.

  • Jón Pétursson

    Myndbandið er hrollvekja full af blekkingum. Maður trúir því varla að þetta sé alvara

  • Tölunrar sem um er að ræða eru víst rétt tæpir 300 þús. ferm. leyfilegt byggingarmagn á lóðinni og hæstu byggingarnar eru 6 1/2 hæð frá götu með miklilli lofthæð (http://eldri.reykjavik.is/portaldata/1/Resources/skipbygg/skipulagsm_l/mal_kynningu/deiliskipulag_2012/2_NLSH_resize_UPPDR_TTIR_4.7.2012-4.pdf).

    Samkvæmt lögum nr. 618/2013 (http://www.althingi.is/altext/141/s/pdf/1071.pdf) verður þetta stærsta opinbera framkvæmd frá upphafi vega (ath. Kárahnjúkar voru ekki opinber framkvæmd). Kostnaðaráætlun er 85 milljarðar og allar ríkisstjórnir næstu 10 ára þurfa að samþykkja 8,5 milljarða til jafnaðar á ári hverju til að spítalinn rísi. Líklegra er þó að byggingin vrði miku dýrari og verði aldrei fullkláruð.

  • Hilmar Þór

    Ég þakka Torfa Hjartarsyni fyrir þáttökuna í umræðunni. Það skortir verulega á að þeir sem eru fylgjandi þessu deiliskipulagi leggi sín sjónarmið inn í umræðuna. Ég vona að fleiri fylgjendur tjái sig hér á næstunni okkur hinum til upplýsingar og gagns.

    Ég ætla ekki að mótmæla sjónarmiðum Torfa eða tjá mig sérstaklega um þau vegna þess að ég virði þau og fagna öllum málefnalegum sjónarmiðum sem styðja deiliskipulagið. Það er vegna þess að gæði deiliskipulagsins blasir ekki við fólki. Við mörg hver skiljum ekki sjónarmið aðstandenda skipulagsins. Kannski vegna þess að umræðan hefur verið yfirborðskennd og fylgjendur skipulagsins þögulir.

    Þó er það rétt sem fram kemur að gatnakerfið er skynsalegt og í vissu samræmi við aðliggjandi byggð en efasemdir eru um bílastæðamál og flutningsgetu gatnakerfisins.

    Varðandi húsahæðir þá er það vissulega rétt að þarna eiga hús ekki að vera hærri en 5 hæðir samkvæmt Aðalskipulagi 2010-2030. En sökum salarhæðar þá er meðferðarkjarninn NLSH á hæð við venjulegt 9 hæða hús eins og farið var yfir í nýlegri færslu hér á vefnum. Og auk þess eru öll hlutföl byggingarinnar í algjöru ósamræmi við aðliggjandi byggð.

  • Torfi Hjartarson

    Leyfilegt byggingarmagn fyrir 1. og 2. áfanga NLSH er 241.000 m2 og af því eru núverandi byggingar 74.000 m2. Lóðin sjálf er 14 ha. Mér finnst það ekki mikið fyrir sameinað landssjúkrahús og háskólasvið sem nú er á 17 stöðum í 100 byggingum víðs vegar um borgina. Skipulagið er eðlilegt framhald af eldri tillögum um spítala á Skólavörðuholtinu og tekur tillit til núverandi byggðar enda ekki heimilt byggja hærra en sex hæðir. Þó má alltaf finna eitthvað að öllu s.s. átta stk. fljúgandi tengibrýr. Staðsetningin er ágæt m.t.t. samgangna þótt það sé mótsögn að flugvöllurinn eigi að fara skv. aðalskipulagi. Borgin á hrós skilið fyrir að koma þessu skipulagi í gegn og augljós vöntun á bílastæðum og úrbótum í samgöngukerfinu er þrátt fyrir allt skv. yfirlýstri stefnu hennar um breyttar umferðavenjur á komandi tíð. Ég held reyndar að þessi nýja samgöngustefna eða menningarbylting í samgöngum sé óraunhæf forsjárhyggja og í andstöðu við vilja borgaranna sem hafa vanist því að búa við fyrsta flokks samgönguæðar fram til þessa.
    Sömuleiðis snýst þetta skipulag um hugmyndafræði heilbrigðiskerfisins og velferðarkefisins sem hingað til hefur verið ágæt sátt um og aðgerðir í kreppu. Það eru vonbrigði að núverandi stjórnvöld ætli að láta hlutina drabbast enn frekar í þeim tilgangi að auðvelda einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og þá mismunun sem henni fylgir.

    • Guðrún Bryndís

      Ef stærð spítalans var metinn úrfrá því hvað fólki finnst – þ.e. tilfinningum fólks er ekki að undra að fermetrafjöldinn hafi fengið sjálfstætt líf. Það eru til aðferðir sem meta þjónustuþörf 300.000 íbúa lands, sem leggur mat á hversu mikið spítalinn og þjónustan getur kostað til þess að skattgreiðendur geti staðið undir framkvæmdum og rekstri.
      Stærð lóðar og fjöldi fermetra sem er hægt að byggja á lóð, í þessu tilfelli spítali – virðist hafa haft þau áhrif á byggingarnefnd og önnur yfirvöld að stækka spítalann enn frekar. Áformin gera ráð fyrir spítala sem er allt að þrisvar sinnum stærri en ráðgjafar verkefnisins mæla með.
      Hugmyndafræði heilbrigðiskerfisins og velferðarkerfisins var komið af stað með breyttri heilbrigðislöggjöf 2007 – fyrstu fjárlögin sem unnu skv. breyttum áherslum sem þar koma fram hafa ekkert með aðgerðir vegna kreppu að gera. Breytingum á heilbrigðisþjónustu var í raun laumað inn í skjóli kreppu.
      Afleiðingarnar sem þessi áform hafa á samgöngukerfi borgarinnar (bílastæði og akbrautir) hafa ekki verið metnar, en á að leysa með samgöngustefnu sem ekki hefur náðst samfélagssátt um – þeir sem bera ábyrgðina á því að vilja byggja þarna og þeim sem veittu leyfi eru aftur á móti sammála um samgöngustefnu sem þeir sömu settu (öðrum) og samþykktu.
      Ef það kemur í ljós að spítalinn er of stór (rekstrar- og byggingarkostnaður eykst umfram spár) og að staðsetningin kallar á allskonar samgöngubætur (léttlest, göng, niðurgrafnar stofnbrautir, bílastæðahúðs) – Hvað kostar það?

  • Guðrún Bryndís

    Forsendurnar fyrir þessum áformum gera ráð fyrir 300.000 íbúa þjónustusvæði, sem eru allir landsmenn. Þannig var tekin sú ákvörðun að aðlaga heilbrigiðiskerfið að starfsemi þessa eina spítala og endurspeglast í breytingum á heilbrigðislöggjöf frá 2007 og öllum þeim breytingum sem gerðar voru í framhaldinu á heilbrigðisþjónustu landsmanna. Þó svo að afleiðingarnar séu að koma í ljós: Börn fæðast í farartækjum, kostnaður vegna sjúkraflutninga er stóraukin, gangnainnlagnir og lengri biðlistar svo eitthvað sé nefnt, er haldið áfram með aðlögun þjónustunnar að byggingu sem er of stór og er aðeins til á teikningum (sem betur fer) og án þess að viðbótarkostnaður heilbrigiðiskerfisins vegna kerfisbreytinga hafi verið metinn eða kynntur. Það er full ástæða til að læra af reynslu annara þjóða sem hafa byggt metnaðarfull sjúkrahús og aðlagað sína þjónustu að byggingum áður en lengra er haldið.

    Upphaflegu áformin frá því um aldamótin lögðu af stað með um 90.000 fermetra byggingu, sem átti að geta sinnt allri sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu fyrir alla landsmenn. Þar kemur líka fram að ef heilbrigðiskerfið verður ekki aðlagað að starfsemi nýs sjúkrahúss, þyrfti aðeins að bæta við húsnæði fyrir framtíðartækninýjungum – gætu verið um 15.000 fermetrar til ársins 2050. Þessi valkostur hefur verið kynntur sem ‘að gera ekki neitt’ og er einfaldlega ekki í boði hjá þeim sem tala fyrir nýjum spítala.

    Nýjasti snúningurinn á kynningu verkefnisins er að fyrsti áfangi verkefnisins sem er 50-75.000 fermetrar sé ‘viðbygging’ eða ‘bráðakjarni ‘, þessar sömu byggingar voru áður kallaðar ‘hátæknisjúkrahús’ eða ‘háskólasjúkrahús’.

  • Sigurður Jónsson

    Framkvæmdir hefjast varla fyrr en búið er að trappa þessar hugmyndir niður í eitthvað sem ráðið verður við. Þetta er auglóslega of stórt fyrir staðinn og of stórt fyrir tóma ríkisbudduna!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn