Föstudagur 25.11.2011 - 15:39 - 11 ummæli

The Death of Modern Architecture?

.

Hinn frægi arkitekt Charles Jencks skrifaði í bók sinni The Language of Postmodern Architecture, eitthvað á þessa leið:

Sem betur fer, getum við tímasett andlát nútíma byggingalistar. Nútíma byggingalist dó þann 15, júlí 1972 kl 15:32 þegar háhýsin í Pruitt-Igoe í St Louis í Bandaríkjunum voru jöfnuð við jörðu.

Þetta voru 33 háhýsi sem tekin voru í notkun árið 1956

Nú hefur verið gerð heimildarmynd um Pruitt-Igoe og fylgir hér neðst stutt stikla úr myndinni  sem er alls 83 mínútna löng og verður frumsýnd í febrúar 2012.

Þegar flutt var í húsin var mikil ánægja með þau og menn voru að gera sitt besta. 16 árum seinna voru þau orðin að félagslegu stórvandamáli, svo stóru að menn fundu ekki aðra lausn en að jafna þau við jörðu.

Því hefur lengi verið haldið fram að vandræðin vegna Pruitt-Igoe stafi vegna hugmyndarinnar sem liggja að baki háhýsabyggð sem arkitektóniskrar lausnar. En nú er því haldið fram að orsökina í St. Louis sé að finna í fjárhagslegum og pólitískum lausnum ásamt þekkingarleysi á félagslegum vandræðum sem vakna þegar fjölda lágtekjufólks er safnað saman á einum stað.

Undanfarna fjóra áratugi hafa verið miklar umræður um háhýsi og sitt sýnist hverjum. En almennt er álitið að háhýsalausnin sé ofmetin. Hún eigi við þegar byggð eru hótel og sjúkrahús o.þ.h. en alls ekki þegar verið er að byggja íbúðahúsnæði fyrir fjölskyldur.

Það hefur sýnt sig að háhýsi slumvæðast með aldrinum nema í einstaka tilfellum þar sem byggt er í miðju stórborganna. Víða er verið að srengja tiltölulega nýjar byggingar vegna félagslegra vandamála sem oft koma upp í slíkum byggingum.

Nú eru skipulaggjendur farnir að tala um ”vertical slum” (lóðrétt slúm) og bera það saman við ”low rise slum” sem er að sögn mun skárra.

Hjálagt er ljósmynd af háhýsum sem spáð er slærar framtíðar og stiklan frá St. Louis sem sýna hús sem er verið að jafna við jörð.  Það er verið að jafna fjöldan af háhýsum við jörð víða um heim. Oft eru þetta byggingar sem eru innan við 20 ára gamlar.

Nýleg íbúðhús í Singapore sem spáð er ömurlegrar framtíðar sem lóðrétt slum.

Ljósmynd tekin 15. júlí 1972 kl. 15:32 í St. Louis.

Stikla úr heimildarmyndinni „The Prutt-Igoes: An Urban History“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Guðmundur Erlingsson

    Colin Ward, breskur stjórnleysingi sem starfað mikið við skipulagsmál og skrifaði sömuleiðis mikið um slík mál og arkitektúr, er með sína skýringu á þessu: Fólk í félagslegum íbúðum eru leigjendur, í húsnæði þar sem íbúar hafa ekkert um að segja hvernig það er skipulagt eða nýtt. Eðlislæg þörf fólks fyrir sjálfstæði og að móta umhverfi sitt er því bæld niður og verður ekki til þess að minnka vonleysi íbúanna:

    „They point too to the lessons of Oscar Lewis’s The Culture of Poverty: that putting people into govermnent housing projects does little to halt the economic cycle in which they are entrapped, while ‘when people move on their own, seize land, and build their own houses and communities, it has considerable effect’. Lewis’s evidence shows that many social strengths, as well as ‘precarious but real economic security’ were lost when people were moved from the self-created communities of San Juan into public housing projects. ‘The rents and the initial investment for public housing are high, at the precise time the family can least afford to pay. Moreover, public housing is created by architects, planners, and economists who would not be caught dead living in it, so that the inhabitants feel no psychological or spiritual claim on it.’

    In the US, Turner and Mangin conclude, the agencies that are supposedly helping the poor, in the light of Peruvian experience, actually seem to be keeping them poor.“
    (Colin Ward, Anarchy in Action)

    Ward nefnir ennfremur „braggahverfin“ í Bretlandi, herskála sem losnuðu 1946 og heimilislaust fólk tók yfir, því það hafði ekki í önnur hús að venda. Þessi hverfi voru, líkt og hér, rifin niður og fólk að miklu leyti flutt í félagslegt húsnæði (þ.e. nema fólk hefði önnur úrræði). Fólk sem hafði haft talsvert sjálfstæði í að móta umhverfi sitt í braggahverfunum og myndaði oft á tíðum blómleg og lifandi samfélög, fluttu í félagslegt húsnæði og misstu við það þetta sjálfstæði sitt, dæmi sem er alveg sambærilegt við það sem gerðist hér. Ward hafnað húsnæðislausnum bæði hægri- og vinstri manna í Bretlandi og vildi frekar leita í smiðju arkitekta eins og Walter Segal, þar sem lögð er áhersla á að fólk eigi sjálft þátt í uppbyggingu húsa og hverfa. Það er óneitanlega svolítið spennandi að hugsa til þess hvernig málin hefðu þróast ef íbúum t.d. Pólanna og braggahverfanna hefði verið veitt aðstoð til að byggja upp hús sín smátt og smátt og halda þannig í sjálfstæði sitt og taka þátt í að byggja upp rótgróið hverfi og samfélag, en það passaði hvorki hugmyndafræði hægri manna né vinstri manna hér heima.

    Og ennfremur:

    „Just one of the many predictable paradoxes of housing in Britain is the gulf between the owner-occupier and the municipal tenant. Nearly a third of the population live in municipally-owned houses or flats but there is not a single estate controlled by its tenants, apart from a handful of co-operative housing societies. The owner-occupier cherishes and improves his home although its space standards and structural quality may be lower than that of the prize-winning piece of municipal architecture whose tenant displays little pride or pleasure in his home. The municipal tenant is trapped in a syndrome of dependence and resentment, which is an accurate reflection of his housing situation. People care about what is theirs, what they can modify, alter, adapt to changing needs and improve for themselves. They must be able to attack their environment to make it truly their own. They must have a direct responsibility for it.“ (Colin Ward, Anarchy in Action)

    Nú er ég ekki að segja að Ward sé með svarið, en þetta er í það minnsta áhugavert sjónarhorn.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Takk fyrir fróðlegann pistil

    Þessi hús líkjast Byggingunum frá miljónprogramminu sem standa enn víða í Svíþjóð. Á árunum 1965 til 1975 byggði Sænska ríkið yfir miljón leiguíbúðir víðs vegar um landið. I Malmö
    er Rosengard þekkt sem samansafn af steypukössum með félagslegum vandamálum.

    Ég kom inn í íbúð á efstu hæð í Rosengard fyrir mörgum árum síðan. Mér er enn minnisstætt hvað sjálf íbúðin var vel skipulögð og björt. Og ekki skemmdi víðáttumikið útsýnið út á sundin fyrir.

    Mistökin í miljónprógramminu voru að að blokkirnar voru ekki hannaðar með manneskjuna i centrum,(citat Gunnar Asplund) það var fókuserað of mikið á magn og tækni.

    Og svo þetta að hrúga tekjulausum innflytjendum öllum á sama stað.

    Samt skal ekki gleyma að langflestar íbúðir frá miljónprogramminu eru staðlaðar 3ja hæða blokkir sem standa enn út um alla Svíþjóð. (Svipað og Bakkahverfið) Þetta eru vel byggð hús með veggjum úr viðhaldsfríum tígulsteini. Þessi hús eru enn í fullu gildi og þjóna hlutverki sínu vel. Innra skipulag er einnig þaulhugsað.

    Sumir segja að miljónprógrammið hafi forðað Svíjóð frá jafn svæsinni fasteignabólu og gékk yfir mörg lönd nýlega, m.a Ísland.

  • Þið talið pínulítið eins og summa lastanna sé „konstant“. Ekki er víst að svo sé. Það hefur t.d. verið sýnt fram á í guðs eigin landi, að með aukinni hæð húsa stækki það svæði sem kallast „indefensible spaces“. Það eru rými í sameign sem íbúarnir hafa ekki yfirsýn og bjóða þess vegna upp á að misindismenn getir athafnað sig. Það þýðir ekki endilega að þeir fari annað ef breyting verður á því.
    Aukin hamingja samfara betra umhverfi getur dregið úr afbrota hneigð.
    Á norðlægum breiddargráðum bætast svo við skuggar og vindar sem drepa niður mannlífið á milli húsanna og reyndar plöntulíf einnig eins og Danir hafa sýnt fram á. Ætli það hvetji ekki líka til afbrota?

  • Þetta er verkefni fyrir félagsfræðinga. Því þetta er athyglisverð spurning – Hverjar eru breyturnar sem valda því að blokka hverfi breytast í gettó?

    Er það staðsetninginn, verðið íbúasamsetning, tekjur íbúa, fjarlægð frá miðsvæði. En það geta verið nokkrar ástæður.

    Hver munur á fjölbýlishúsum í 107, 101, 104, 103 og síðan í nýrri hverfum 110,111,112 og jafnvel 200.

    Því þetta er mikilvæg spurning er varðar þéttni byggðar. Því þéttari byggð er umhverfisvænni en dreifðari byggð. Því hún þarf ekki nýja dýra grunn uppbyggingu og brjóta ósnortið land undir nýbyggingar.

    Því ég efast um þá forsendu sem síðueigandi gefur sér að blokkir séu vondar „vertical slum“ Hvað er þá Manhattan og Hong Kong? Það eru fleiri ástæður að baki og það er mikilvægt að þekkja þær.

  • Steinarr Kr.

    Sigríður og Stefán, þið talið eins og þessi hegðun fátæks fólks sé einhverjum öðrum en þeim sjálfum að kenna. Hverjum þá?

  • Stefán Benediktsson

    Sigríður! Hvað þessi hús varðar kann þetta að vera rétt en það skýrir ekki „slömmun“ verðlaunahúsnæðis sem hannað var af færustu arkitektum í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og víðar. Sú þróun á sér rætur í pólitík og samfélagsþróun.

  • Sigríður

    Gleymum því samt ekki að þetta voru illa byggð hús fyrir fátækt fólk. Þegar fólk finnur að það er ekki þess virði að heimili þess séu vel úr garði gerð missir það virðingu fyrir umhverfi sínu. Eitt veggjakrot kallar á annað og smátt og smátt versna hlutinrnir, hverfið drabbast niður og enginn hefur áhuga á að halda því við. Hér er hann líka að tala um að safna öllum félagslegu „vandamálunum“ á einn stað, þ.e. heilt hverfi með fátæku fólki magnar upp vandann sem það hefur við að glíma.

  • Stefán Benediktsson

    Einar hefur rétt fyrir sér. Skipulag eða byggingar leysa ekki félagsleg vandamá. 50 ára reynsla ætti aðnægka til aðátta sig á því. Greenwich Village var slum fyrir 60 árum, þá átti að leggja hraðbraut í gegnum hverfið. Til varð hreyfing íbúa sem barðist gegn vegagerðinni. Þau höfðu sigur ( munum Jane Jacobs) og GW varð eftirsótt hverfi, svo eftirsótt að íbúarnir höfðu ekki lengur efni á að búa þar. Nú er GW millahverfi. Félagsleg þróun eða life is tough.

  • Einar Sigurðsson

    Félagsleg vandamál verða ekki leyst með félagslegum íbúðabyggingum, frekar en afbrotamál með fangelsum.

    Það eru félagslegar lausnir sem þarf til að leysa félagsleg vandamál!

    Er RUV búin að setja myndina á dagskrá í febrúar?

  • Get ekki látið hjá líða að vísa í þessa byrjun á 3. þáttaröð The Wire, þar sem einmitt er verið að jafna við jörðu háhýsahverfi sem hafði verið vettvangur fyrri þátta, með tilheyrandi glæpum og vandamálum:

    http://youtu.be/kcW3FAgOLN0

    Kannski óþarfi að taka það fram að glæpirnir og vandamálin hverfa ekki, heldur flytjast aðeins til, eins og þau vita sem hafa séð þættina.

  • Steinarr Kr.

    „You can take the people out of the slums, but not the slums out of people“. Sýnist mér grunntónninn þarna og hefur lítið með arkitektúr að gera.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn