Mánudagur 28.04.2014 - 08:06 - 3 ummæli

Þéttbýlisandúð – Þéttbýlismyndun á Íslandi

Hér fjallar Sigurður Thoroddsen arkitekt um skiptar skoðanir málsmetandi manna um þéttbýli  og andúð manna gegn þéttbýli, staðsetningu Alþingi  og fl.

Þéttbýlisandúð

Þegar undirbúningur að endurreisn Alþingis  stóð yfir voru umræður um hvar þingið ætti að vera,  og skiptar skoðanir um staðsetningu þess. Sumir vildu  endurreisa Alþingi á Þingvöllum, aðrir á Bessatöðum  og enn  aðrir  í Reykjavík. Margir málsmetandi menn voru hatrammir andstæðingar þess að Alþingi yrði í Reykjavík, og  mæltu eindregið með Þingvöllum. Rök þeirra voru  einkum  að Reykjavík væri danskur bær,  og að þar væri mikið svall og  óregla.

Jón Sigurðsson var helsti stuðningsmaður  þess  að Alþingi yrði endurreist   í Reykjavík, og voru rök hans eftirfarandi:  Að í Reykjavík  væri nóg landrými  til uppbyggingar, góð höfn sem þó var umdeilanlegt,  stutt  til aðdrátta frá helstu héruðum landsins og  samgöngur auðveldar til   útlanda. Ennfremur væru  þar  saman komnir allir helstu embættismenn,   lærdómsmenn og  kaupmenn landsins. Jafnframt að þar væru allmargir iðnaðarmenn.  Þarna voru  m.ö.o.  sett fram rök sem nú til dags mega teljast  dæmigerð  skipulagsrök.  Þó er  rétt að taka fram að fyrsta hugvekjan um skipulagsmál Reykjavíkur er skrifuð 1835 af Tómasi Sæmundssyni og birtist hún í tímaritinu Fjölni.

Þann 18. ágúst 1886 birtist  í blaðinu Ísafold grein,  í tilefni  þess að 100 ár voru liðin frá því að Reykjavík hlaut kaupstaðarréttindi. Greinin hefst á þessum orðum:

„Reykjavík varð fljótt fjölbyggð og apaði allt eftir útlendum  kaupstöðum eftir því sem færi gafst,   í  munaðarlífi, metnaði,  prakt, svallsemi, lystugheitum og ýmsu sem reiknast til hins fína móða. Ennfremur var   Reykjavík  með öllu   varnarlaus gegn  hverjum víkingi sem að landi kom. Ennfremur að    bærinn  hafi verið vanmáttugur og   engin fyrirhyggja um annað en fédrátt og skart.  Allir bæjarmenn  væru kramarar og þernur þeirra og þjónar hugsuðu ekki  um annað en skart og móða. Samkvæmi væru  tíð, þar sem væru  dansar og drykkjur,  og eftir þessu vandist alþýðan er þar var um kring. Afleiðingin var að iðjuleysi jókst mjög í kaupstaðnum,  og allt það sem horfði til harðgjörfi, réttrar karlmennsku og hugrekki fjarlægðist í Reykjavík.“

Ennfremur kemur fram í Ísafold að í bænum  hafi frá upphafi verið útlent apaspil og siðspilling. Jafnframt að sökum siðspillingar,   hafi dómarar Landsyfirréttar átt heima upp í sveit. Landlæknir og lyfjabúð var í Nesi  og Biskup í Laugarnesi. En  það er ekki fyrr en Alþingi er endurreist í Reykjavík  1845,  að þessi þróun snýst við og skipti sú ákvörðun sköpum fyrir þróun höfuðstaðarins.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Heimir H. Karlsson.

    Fróðleg lesning, varðandi eldri viðhorf til þéttbýlismyndunar.

    Fyrir nokkrum árum las ég sögu Eyrarbakka, um verlsun þar og fleira.

    Ef mig misminnir ekki, þá var á eitt sinn sótt um verlsunarleyfi númer tvö, á Eyrarbakka.
    Þetta var á þeim tíma, þegar Eyrabakki var blómlegur verlsunarstaður, og vélbátar ekki komnir til sögunnar.

    Verlsunarleyfi númer tvö var hafnað, m.a. vegna þess að það gæti ógnað uppbyggingu á verslun í Reykjavík, sem þá var búið að ákveða, að yrði höfuðstaður Íslands.

    Fyrir tíma vélbáta, þá tók eitthvað lengri tíma að sigla frá útlöndum til Reykjavíkur en suðurstarndarinnar.
    Og er víst enn í dag.
    Í Reykjavík var höfn, en ferkar hafnarlaust meðfram suðurströndinni.

    Hugsið ykkur Eyrarbakka, og landsvæðið upp af, m.a.a Selfoss, sem þéttbýlasta svæði á Íslandi ?
    Eða kannski alþjóðaflugvöll á Kaldaðarnesi, ef það hefði ekki flætt á bretana, þegar þeir voru þar í stríðinu ?

    Tímarnir breytast, menninrini og byggðin með.

  • Brynjólfur Þorvarðsson

    Í framhaldi af ofansögðu má spyrja sig hvort þetta hafi verið viðvarandi (eða endurtekið) ástand á Íslandi: Samkeppni um vinnuafl. Mannfellir var tíður, stundum farsóttir og stundum harðæri, en oftast var nægan mat að fá handa öllum vinnandi höndum.

    Ítreknar lagasetningar sem takmarka ferðafrelsi og launagreiðslur benda til sömu niðurstöðu.

    Ef þetta er rétt þá hefur Ísland haf talsverða sérstöðu, en víðast hvar annars staðar var offramboð af vinnandi fólki – matvælaframleiðsla var í hámarki. Í Danmörku var þetta einfaldlega leyst þannig að lægstu stéttum var haldið við sultarmörkin og þegar harðnaði í ári dóu menn unnvörpum úr vosbúð og hungri.

  • Brynjólfur Þorvarðsson

    Einn fyrsti barnaskóli á landinu var reistur að Leirá í Hvalfjarðarsveit. Skóli þessi tók til starfa í kjölfar stofnun kaupstaðar á Akranesi, og var beint svar við þéttbýlismyndun þar.

    Í tímaritinu Ísafoldu segir, 9. október 1880 (http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3940135):

    „Bamaskólar fjölga nú smámsaman sunnanlands. Auk skólanna í Reykja-
    vík, á Seltjarnarnesi, í Garði, á Vatnsleysuströnd, Akranesi, Flenzborg og
    Leirá er nú (i. nóv.) byrjuð skólakennsla fyrir börn í Bessastaðahreppi
    á Bessastöðum.“

    Ath. að skólinn að Leirá er eini skólinn sem ekki stóð við sjávarsíðuna, þar sem útgerðarstaðir voru farnir að myndast. Fyrsti (enn starfandi) barnaskólinn hóf starfsemi í Bolungarvík 1871, en Vestmannaeyjar reyndu við barnaskóla nokkru fyrr (um 1860 ef ég man rétt), en núverandi skóli hefur starfað frá 1880.

    Allir þessir skólar taka til starfa löngu áður en lög um barnaskóla voru sett 1904 og allir þessir skólar voru einkareknir. Tilgangur þeirra var að laða til sín vinnuafl til sjávarsíðunnar og skólinn í Leirá var beinlínis til þess stofnaður að halda vinnufólki í sveitinni. Lausamennska var leyfð 1863 og stuttu seinna hófst hörð samkeppni sjávarsíðu og sveitar um vinnandi menn.

    Andstaða bændahöfðingja á Alþingi við þéttbýlismyndun hafði sér því einfaldar, efnahagslegar forsendur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn