Þriðjudagur 11.09.2012 - 00:20 - 11 ummæli

Þétting byggðar – BÚR lóðin við Aflagranda.

 

Í síðasta pistil nefndi ég þrjú þéttingarsvæði vestan Elliðaá sem skipulögð voru eftir að Stefán Thors hélt sitt erindi fyrir meira en 33 árum.

Það var sameiginlegt með þeim öllum að fetuð var ný og nútímaleg leið í hugmyndafræðinni. Hugmyndin gekk út á meiri áherslu á lífið milli húsanna og minni áherslu á að skipulagið þjónaði einkabílnum.

Eitt svæðanna var íbúðabyggð sem reist var á fyrrum lóð Bæjarútgerðar Reykjavíkur vestur í bæ.

Borgin ákvað fyrir um aldarfjórðungi að bjóða til arkitektasamkeppni um þetta 3,7 hektara svæði og var þáttakendum gefnar nokkuð frjálsar hendur í tillögugerðinni.

Sú tillaga sem varð ofaná í samkeppninni gerði ráð fyrir mjög þéttri byggð með um 64 íbúðum á hektara eða samtals 236 íbúðum á svæðinu. Höfundar hefðu viljað sleppa bílskúrum og fækka bifreiðastæðum hefði þá eflaust verið hægur vandi að fjölga íbúðum upp í um 80 á ha. En tíðarandinn var ekki tilbúinn til þess þegar þetta var.

Til samanburðar er ekki óalgengt að fjöldi íbúða í einbýlishúsahverfum sé milli 13 og 20 á hektara.

Vinningstillagan á BÚR lóðinni gerði ráð fyrir þéttasta hverfi landsins þegar fjöldi íbúða á hektara er talinn. Þess ber þó að geta að á svæðinu er fjölbýlishús ætlað öldruðum.

Eitt af markmiðum höfunda var að skapa hverfi sem væri félagslega þannig samsett að sem breiðasti hópur samfélagsins geti fundið þarna húsnæði við sitt hæfi og að félagsleg einsleiti væri í lágmarki.

Gatnakerfið samanstendur af einni safngötu og svo stuttum vistgötum (shared streets) til sitt hvorrar handar.  Á vistgötunum voru, eðli málsins samkvæmt, engar gangstéttar enda áttu þær að þjóna að jöfnu bílum, gangandi og börnum að leik. Gatan átti að vera samkomustaður og leiksvæði barna og fullorðinna.

Einkalóðir voru litlar en nægjanlegar stórar til þess að fólk gæti notið þar útivistar og stundað minniháttar garðrækt.  Í hverfinu miðju er svo stærra útivistarsvæði ætlað öllum íbúum þar sem þeir geta komið saman og stundað plássfrekari iðju svo sem boltaleiki og annað.

Hús voru aðeins öðru megin við vistgöturnar til þess að draga úr umferð og áhrifum bílanna á götunum. Þetta átti líka að hvetja til samskipta íbúa milli gatna..

Stór hluti húsanna voru sérbýli, síðan komu lítl fjölbýlishús á jaðrinum og loks þjónustuíbúðir aldraðra.

Þessi nálgun sem hér er lýst var í anda þeirrar umræðu sem átti sér stað á þessum tíma í Evrópu og hefur verið í þróun allar götur síðan.  Af einhverjum ástæðum hefur hún ekki náð fótfestu hér á landi. Af hverju það gerðist ekki veit ég ekki nákvæmlega.

Þegar við vorum að vinna að deiliskipulaginu fundum við þó fyrir tortryggi í garð nálgunarinnar hjá yfirmönnum borgarskipulagsins. Mér fannst þeir ekki trúa á hugmyndina og vildu frekar feta hefðbundnar leiðir í skipulagi borgarinnar. Kannski skildu þeir ekki hugmyndafræðina alminlega. Að líkindum er það ástæðan fyrir því að ekki varð framhald á þessari þróun og útþennslu borgarinnar gefinn laus taumurinn þar sem þarfir einkabílsins réð ferðinni.

En hverfið er þarna, þéttast allra, vistvænt og félagslega huggulegt öllum til mikillar ánægju eftir því sem mér skilst.

Efst í færslunni er yfirlitsmynd yfir hverfið. Hvíta byggingin sem sést til hægri er stærri en deiliskipulagið gerði ráð fyrir. Húsbyggjendur þess húss og nokkurra annarra notfærðu sér að deiliskipulagið var ekki staðfest hjá Skipulagsstjóra Ríkisins og stækkuðu byggingareitinn í óþökk höfunda. Höfundar lögðu mikla áherslu á að skipulagið yrðu staðfest en fengu því ekki framgengt svo ótrúlegt sem það kann að virðast.

Það ber að taka fram að skipulagið á BÚR lóð var unnið af arkitektunum Finni Björgvinssyni og pistlahöfundi.  Þótt teiknistofa mín hafi hannað mörg hundruð þúsund fermetra húsnæðis af öllum gerðum og skipulagt tugi hektara þá hefur mér tekist að sneiða framhjá mínum verkum í pistlum þessum sem eru orðnir eitthvað á þriðja hundrað. Hér er undantekning á ferðinni.

 

 

Hverfið er fíngerð blanda af sérbýlum og litlum fjölbýlishúsum ásamt vernduðum þjónustuíbúðum fyrir aldraða.

 

 

 

 

Í miðju hverfinu er safngata. Við safngötuna stendur ekkert hús. Húsagöturnar eru vistgötur með engri gangstétt. Ætlast er til þess að þarna hafi bílar og gangandi sama rétt (shared street). Höfundar vonuðust til að gantan yrði leiksvæði um leið og hún væri aðkoma að húsunum. Einn íbúinn notfærir sér tækifærið eins og sést á þessari mynd og sett upp körfuboltaspjald nánast á götunni.

 

Sameiginlegt útivistarsvæði er í miðju hverfisins þar sem rýmra er um og fólk getur safnast saman til leikja og anarra athafna. Eins og sést á myndinni er gangstétt með safngötunni en ekki í vistgötunum/húsagötunum.

 

Sumstaðar hafa menn byggt gróðurskála við hús sín.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Mörgum okkar, sum hver orðin dálítið grá og guggin, finnst stundum að hin klassísku viðmið sem gjarnan voru notuð í skipulagsvinnu hafi verið látin fjúka í seinni tíð. Viðmiðin sjálf hafa þó ekki breyst frekar en hnattstaða landsins og veðráttan eins og glöggt kom í ljós þegar þúsundir fjár urðu úti og rafmagnskerfið lagðist á hliðina á stórum svæðum nú nýlega.
    Sum okkar bestu hverfi eru skipulögð og byggða á áttunda og níunda áratug síðusta aldar. Hilmar hefur nefnt nokkur þerra og Páll Gunnlaugsson bætt þar við.

    Ástæðurnar eru vafalaust margar og sumar ekki alveg augljósar. Mér hefur td dottið í hug að þetta hafi að einhverju leyti verið viðbrögð við hinu móderníska aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir árin 1962-83. Það skipulag var ekki samþykkt fyrr en 1967 og virtist hafa að markmiði að útrýma molbúahætti og „aumingjabyggð” fyrri alda.

    Á þessum tíma reis ungt fólk um allan heim upp úr öskustó velmegunarinnar og barðist gegn módernisma og fyrir því að maðurinn væri meira virði en múrverk. Hér heima máluðu menn Torfuna í maí 1973 og hún var að lokum friðuð 1979 eftir að ítrekað var reynt að gera eldsmat úr öllu saman. Þetta unga fólk var mjög áberandi í skipulagsmálum Borgarinnar á áttunda og nýjunda áratugnum síðustu aldar og lengur.

    Steinsteypuveggurinn norðan við Kleppsveg var byggður í samræmi við AR 1962-1983. Þegar haldið var áfram að byggja vöruskemmur austar á svæðinu við Elliðavog þá voru sett hæðarmörk í skilmálana þannig að íbúar og ökumenn gætu séð yfir mæni húsanna og horft til Esju og Úlfarsfells en ekki á samfelldan vegg. Þetta var ekki óumdeilt en er hluti af klassískum vinnubrögðum í skipulagi, að marka sjónlínur til yndisauka fyrir manninn í umhverfinu.

    Á þessum árum voru líka gerðar tilraunir með aukin gæði í í fjölbýli. Hringlaga húsin við Flyðrugranda fyrir sunnan BÚR lóðina eru dæmi um það. Það byggingarform gefur möguleika á talsvert miklum þéttleika en um leið stórum svölum sem skapa skjól og nýtast til útiveru og grillkvölda öfugt við hina litlu svalaskika í „venjulegum” blokkum. Þar var líka tiltölulega mikið sameiginlegt rými með gufuböðum ofl.

    Venjulegar blokkir voru á þessum tíma í tiltölulega háum gæðaflokki. Þær voru af hæfilegri dýpt og höfðu amk tvær alvöru gluggahliðar þannig að dagsbirtu gætti um alla íbúðina og auðvelt var að loftræsa þær með opnanlegum gluggum. Stærðir húsanna og íbúðanna voru hóflegar sem ma gerði grunnmyndirnar einfaldar og nýtingu góða. Sorpi var komið fyrir innan dyra þannig að það var ekki fjúkandi um allar grundir og notaðar voru sorprennur þó etv hafi sorpgeymslurnar verið í það minnsta. Sjónrænt er þetta betra en að gera sorpskýli að fókalpunkti við aðalinngang húsa. Ýmislegt fleira mætti nefna.

    Því miður hafa gæðin í fjölbýlishúsum minnkað verulega í seinni tíð. Lágmarki ná þau í svalagangshúsum sem eru orðin nánast sjálfsögð í nýrri hverfum. Til viðbótar hafa húsdýptir aukist verulega og oft eru eldhús, aðalsamkomustaður heimilisins, inni í miðju húsi og án fullnægjandi dagsbirtu og loftræsingar. Við vitum líka að það er dregið fyrir glugga sem snúa að svalagangi og þeir gluggar lokaðir, allan sólarhringinn.

    Þó þeir sem stjórna skipulagsmálum í Reykjavík þessa dagana bendi oft á slysin í Borgartúni og við Skúlagötuna, þá bendir einnig margt til þess að framundan sé mikil uppbygging af íbúðarhúsnæði í lægsta gæðaflokki. Þetta má lesa úr deiliskipulagi sem samþykkt hefur verið nýlega og tillögum sem liggja fyrir. Þetta felst líka í tillögunni sem fékk fyrstu verðlaun í samkeppni um Vatnsmýrina. Engin umræða hefur farið fram um húsnæðisgæðin bara um að þétta skuli byggð. Umræðan sem hefur átt sér stað er öll á einn veg: Byggja meira, byggja þéttar.

    Skipulagið á BÚR-lóðinni sýnir ágætlega hvernig hægt er að þétta byggð og byggja ibúðarhúsnæði í hæsta gæðaflokki.

    (Þessi athugasemd birtist seinna en til stóð og var skrifuð áður en pistill Hjálmars Sveinssonar um skipulagið við höfnina var birtur)

  • Þetta er fínt hverfi. Það má benda á önnur svipuð (og frá svipuðum tíma reyndar): Skjólin í Vesturbænum, Kolbeinsstaðamýrin á Seltjarnarnesi, „tilraunareitir“ í Seljahverfi, Ástúnshverfi í Kópavogi, Brekkubyggðin í Garðabæ … og örugglega fleiri!

    • Hilmar Þór

      Já Páll og ekki má gleyma Suðurhlíðum við Fossvogskirkjugarð sem Valdís Bjarnadóttir skipulagði og audvitað Ástúnshverfið sem þú þekkir vel.

    • Jón Ólafsson

      Af öllum þeim verkum sem Páll og Hilmar nefna að ofan er Aflagrandinn sennilega bestur. En lykilspurningin er. Af hverju var horfið frá þessari hugmyndafræði og hvað kom í staðinn?. Hafið þið séð húsin sem standa í sunnanverðum Ólafsgeisla í Grafarholtinu þar sem aðkoman er nokkur hundruð fermetra malbikaður bílastæðahryllingur og eina sem sést af húsunum eru 6 bílskúrshurðir. Manni dettur í huga að þetta séu bílaverkstðii eða bílaleigur. Maður verður þunglyndur af því einu að horfa á þetta, hvað þá að búa þarna. Hinsvegar er útsýnið úr íbúðunum sennilega gott en það er ekkert líf milli húsanna.

  • Ef íbúðarblokk fyrir aldraða er tekin í burtu, er þá hverfið eitthvað þéttara en önnur hverfi?

    Annars eru þetta fallegar myndir og vafalaust gott að búa þarna.

    kveðja
    Jóhann

    • Hilmar Þór

      Ágæt athugasemd hjá þér Jóhann.

      Ég vakti athygli á þessu í pistlinum og vil endilega upplýsa að auk blokkarinnar stóru er á svæðinu mjög stór spennistöð ásamt félagsmiðstöð aldraðra og bókasafni sem auðvitað hvorugt eru íbúðir.

      Ef blokkin er tekin frá fer íbúðafjöldi á hektara niður í 48 sem er líka mjög mikið.

      Það má gera ráð fyrir að eitthvað hefði komið í stað blokkarinnar, spennistöðvarinnar, bókasafnsins og félagsmiðstöðvarinnar væri þetta ekki þarna. Segjum að það hefði komið í staðinn lág þétt byggð. Þá hefði fjöldi íbúða á hektara sennilega orðið svona 54 sem er auðvitað líka mjög mikið.

  • Er til mynd af hverfinu þegar BÚR var og hét? Væri til í að sjá hvað var þarna áður en hverfið sem nú er var byggt.

  • Hef búið í Aflagrandanum 20 ár og líkað afar vel – yndislegt hverfi.

  • Skemmtilegar myndir. Það væri forvitnilegt að sjá loftmyndir af einu nýjasta „þéttingar“-hverfi borgarinnar, við Sóltún, Mánatún. Götumyndin og allt umhverfi í kringum blokkirnar virkar ósköp óspennandi. Fengu verktakar frítt spil þar?

    • Hilmar Þór

      Einar Karl

      Ég veit ekki hvort verktakar hafa fengið að hafa áhrif í Túnunum en er sammála þér að þetta virkar ansi braskaralegt þarna innfrá á köflum.

      Mér finnst ti dæmis Bílanaustreiturinn einkennilegur. Þar er meiri nýting en nokkurs staðar annarstaðar í grenndinni ef frá er talið Höfðatorgið sem hefur algera sérstöðu í skipulaginu.

  • Hallgrímur G.

    Fallegt hverfi

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn