Þriðjudagur 12.10.2010 - 11:50 - 31 ummæli

Þingvellir – Staðarvitund

Ég fjallaði um Alvar Aalto í gær og sterka staðarvitund hans sem ég svo tengdi viðhorfum stjörnuarkitekta til staðanna. Það má margt af Aalto læra.

Í Morgunblaðinu í morgun er kynnt hugmynd að byggingu hótels á bökkum Öxarár við Almannagjá. Tillagan er athyglisverð fyrir þær sakir að þarna er sett fram hugmynd þar sem höfundar virðast álíta að byggingin skipti meira máli en staðurinn. Og staðurinn er ekki neinn venjulegur staður. Staðurinn er Þingvellir.

Hér er ekki byggt í landslagið eða með því heldur í andstöðu við landslagið. Mér virðist þetta vera inngrip í landslagið þar sem athyglissýki arkitektsins tekur völdin. Staðurinn víkur fyrir mannvirkinu. Mannvirkið yfirtekur staðinn. Viljum við það á þessum stað?

Það leyna sér ekki áhrifin af BIG (Bjarke Ingels Group) sem er mikil hetja í Danmörku um þessar mundir og er ég þá ekki að tala um byggingarlistina eingöngu heldur líka nálgunina. Það sem einkennir verk BIG er mikil hugmyndaauðgi en að sama skapi skortur á staðarvitund.

Ég er ekki viss um, hvort það eigi að byggja þarna yfirleitt, en ef það er gert á það að vera af mikilli virðingu, lítillæti og hógværð, og aðeins til þess að koma fyrir nauðsynlegustu þjónustu eins og snyrtingu og minni háttar veitingasölu.

Ég kom til Grand Canyon í Arizona fyrir tveimur árum. Þar upplifði maður náttúruna þar sem hún var tignarlegust án þess að sjá nokkra byggingu. Einungis sá ég einn veitingastað þar sem berja mátti gljúfrið augum innanfrá. Það var í húsi sem var sennilega meira en 100 ára gamalt. Nýbyggingar allar héldu sig til hlés. Ef svona hús eins og hér gefur að líta yrði byggt á þessum stað væri hætta á að Þingvellir yrðu teknir af heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna eins og einn ágætur maður sagði.

Þær hugmyndir að byggingu á Þingvöllum sem hér eru kynntar sýna vinnu fólks sem hefur mikil tök á töfrum tölvunnar og kann framsetningu. Jafnvel sölumennsku. Þeim hefur að minnsta kosti tekist að selja blaðamanni Morgunblaðsins þetta, þannig að hann telur hér vera á ferðinni góður arkitektúr. Það er þetta ekki.

Nú er komin tími fyrir höfundana að fara að kynna sér byggingarlistina og þær traustu stoðir sem hún stendur á samanber staðaravitundina

Þegar ég las  við Konunglegu Listaakademíuna í Kaupmannahöfn var höfuðáhersla lögð á staðinn. Það voru beinlínis kúrsar og verkefni sem báru þetta nafn “Stedet”. Tillagan að byggingunni sem hér er til umfjöllunar er meistaraverkefni frá systurskóla Akademíunnar í Árósum

Svona breytast tímarnir. Nema að skýringin sé sú að prófdómararnir hafi aldrei komið til Þingvalla og þekki ekkert til staðhátta. En það gera höfundarnir.

Myndirnar sem hér birtast eru fengnar af slóðinni: http://www.finnsson.info/NCC.html Þar má kynna sér verkefnið betur.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (31)

  • Anna Soffia Oskarsdóttir

    Bæti við ummæli Ingveldar – þetta virkar sem grótesk komedía á mig – Það getur ekki verið að nokkrum sem raunverulega hefur snertingu við þetta landi finnist svona bygging í lagi

  • Ingveldur Eiríksdóttir

    Þetta þykir mér allt hið merkilegasta mál! Hefði haldið að hér væri grín á ferðinni, en svo er ekki…. Finnist mönnum stílbrot eiga sér stað í Skálholti þá veit ég ekki hvað þetta er… Nei ég held það geti engum verið alvara með þessu.

  • Þorsteinn

    Þetta er nú meiri vitleysan. Hvernig stendur a þessu?

  • Í skólanum, í skólanum er skemtilegt að vera – og gott að nýta frelsið áður en út í blákaldan raunveruleikan kemur. Ögrandi lokaverkefni og nær tilgangi með því að vekja þessa umræðu. En ef um raunverulegt verk væri að ræða mætti kalla það „hér er ég arkitektúr“ sem fagtímarit okkar eru full af.
    Góður arkitektúr er, að mínu mati sá er sýnir auðmýkt gagnvart umhverfinu jafnframt því að styrkja og draga fram sérkenni þess.

  • Sigfús Almarsson

    Algjört stílbrot í náttúru Þingvalla. Ég get fullvissað ykkur um það að þessi bygging rís aldrei á Þingvöllum´´´´ svo vitlaus er þessi þjóð ekki………

  • Torfi Stefán Jónsson

    Himar Gunnarsson: Það eru deildar meiningar hvort henni hafi verið veitt eða hvort hún fór þarna sjálf vegna sigs í landinu sjálfu. Í það minnsta er ekki búið að finna eða sanna neinskonar mannvirki/stíflur eða garða sem ættu þá að veita ánni þarna.
    Það er þó vitað að Öxaráin rann eitt sinn mun sunnar, líklegast sunnan eða við Skálabrekku (deildar meiningar).
    Afhverju var henni veitt ef hún var veitt? Sumir hafa bent á drykkjarvatn og þá hafi gjárnar, Flosagjá og Nikulásargjá verið notaðar sem salernisaðstaða enda varla talið boðlegt að menn gengu örna sinn á helgri grund eins og Þinghelginni (nákvæmt ummál hennar er deiluatriði).
    Kannski tengt við vættatrú og goðafræði. Með því að búa til foss þá hafi þeir fengið vætti/eða einn vætt (hvernig sem þetta beygist) í fossinum (engin saga þó til um það).
    Sumir hafa nefnt að þetta hafi átt að vera þinginu til góðrar lukku, bland af vættatrú og fleiru. Þegar þeir veittu ánni hafi verið ákveðið að fela/sitja öxi í þá veituna/garðana þinginu til góðrar lukku. Einnig hefur verið talað um að einn þeirra (man ekki nafn) hafi misst öxina þarna niður.

    Vona að þetta svar hjálpi eitthvað.

  • Hilmar Gunnarsson

    Ég tek undir með Jóni Gunnari. Mig grunar að ansi margir sem þroskist áfram í faginu kjósi að gleyma útskriftarverkefni sínu áður en langt um líður. Kannski að þið rifjið upp verkefnin ykkar, svona augnablik ?

    Mér finnst félagar mínir hafa sýnt djörfung að kynna verk sitt opinberlega og opna fyrir umræður um þetta svæði, þó svo að umræðan virðist vera einsleit og að sama skapi hugmyndir manna um hvað sé arkitektúr, fátæklegar. Það er full þörf á því að auðga umræðu um arkitektúr á faglegum forsendum í víðasta skilningi þess orðs. Ekki síður vegna þess að eldri kynslóð arkitekta hefur legið undir föstum skotum um óspennandi og liðlausan arkitektúr. Það hefur alveg skotið upp kollinum helling af byggðum og óbyggðum tillögum þar sem byggingamagn er vægast sagt óheilbrigt.

    Ég man ekki eftir að nokkur arkitekt hafi tekið upp 0pinbera umræðu um þetta svæði í kjölfar brunans á sínum tíma. Hvers vegna ekki ? Hefur Össur Skarphéðinsson sterkari skoðun en arkitektastéttin á reitnum, eða höfum við of sterkra hagsmuna að gæta ? Hvað er málið ?

    Í mínum skilningi er byggingarmagn tæknilegt reynsluatriði og upphafstaða þessa verkefnis er röng og hefði átt að vera leiðrétt af leiðbeinanda strax. Ég er ekki í vafa um að höfundarnir eigi eftir að velgja undir uggum í einhverri arkitektasamkeppninni (sem er skortur á) þar sem byggingarmagn hefur verið þaulhugsað af vandlega samsettri samkeppnisnefnd.

    Hvað varðar menntunarmál arkitekta, þá finnst mér miður að margir arkitektaskólar í Evrópu, séu að þokast yfir í mastersverkefni sem venjulegast taka einungis eina önn. Margir skólar í USA og Bretlandi eru ennþá með svokallaðan thesis þar sem rannsókn og mótun „lokaverkefnis“ hefst önnina á undan sjálfri thesis önninni. Þessi aðferð gefur verkefnunum aukið gildi, upphafsstaðan verður nákvæmari og verkefnið í heild sinni innihaldsríkara og áhugaverðara, að mínu mati. Eins leiðir þessi aðferð miklu oftar til nýsköpunar, en ekki. Þetta gæti leitt til þess að samkeppnisfærni norrænna og evrópskra arkitektaskóla dvíni. Þetta er umhugsunarvert nú þegar verið er að ræða möguleika mastersnáms í arkitektúr á Íslandi.

    Ég vil þakka nafna mínum fyrir þetta skemmtilega blogg sem virðist vera eina lifandi umræðan um arkitektúr á Íslandi í dag, svo best ég veit.

    P.S. – Það var síður en svo látleysi þegar Öxaránni var veitt ofan í Almannagjá á sínum tíma. Hvað vakti nákvæmlega fyrir mönnum, þekki ég ekki, en gaman væri ef einhver myndi deila því, sem þekkir til ?

  • Þetta er hryllingur!
    Það þarf að byggja þarna látlaust og ekki of stórt bárujárnsklætt hótel í Íslenskum burstabæjarstíl með veitinga aðstöðu og í fullkomnum hlutföllum 🙂

  • Jón Gunnar Bergsson

    Þætti gaman að sjá menn jafn skelegga í afstöðu sinni til íslenskra arkitekta sem hafa völd og mikilvæg sambönd í okkar samfélagi, fremur en að ráðast gegn nýútskrifuðum arkitekt. Þetta er algert hugleysi, ef menn skoða það bara örlítð nánar. Hér vil ég ekki taka afstöðu til tiltekins verkefnis – en eitt er það að teikna e-ð sem verður aldrei byggt, hin raunverulega svívirða er það að margt slæmt hefur raunverulega verið byggt og þar hafa einnig „virtir“, reyndir íslenskir arkitektar verið að verki, ekki bara byggingarfræðingar og tæknifræðingar af ýmsu tagi – sem okkur er svo tamt að skella skuldinni á. Það er ahyggjuefnið, menn (arkitektar margir) hafa selt sig afar ódýrt, segjum nú einu sinni sannleikann, þeir sem ekki hafa tekið þátt í þessu – hafa einnig fengið færri verkefni og/eða misst vinnu sína fyrir bragðið . Högum okkur eins og menn í staðinn fyrir að verða þess valdandi, hugsanlega að nýútskrifaður arkitekt missi sitt sjálfstraust óverðskuldað. Þetta er u.þ.bþ eina innleggið á þessu annars góða bloggi sem undirritaður er ósáttur við – og fylgist með nánast daglega.

  • Þorsteinn

    Er ekki rétt fyrir þessa arkitekta að sækja um vinnu hjá EVE ON LINE þar sem sýndarveruleikinn er málið þannig að við þurfum ekki að óttast að þeir fari að káfa á ílsenskri náttúru með svona dónaskap!

  • Sigurður J. Sigurðarson

    Það er ekki hægt að draga annan lærdóm af þesum ósköpum en að dómararnir í meistaraverkefninu hafa ekki til Þingvalla komið. Enginn sem skilur staðinn og sérkenni hans mundi haga sér svona eða gefa svona hugmyndum brautargengi.

    Það að dómararnir taki að sér að dæma arkitektúr á svona sérstökum stað án þess að hafa komið þangað segir sína sögu um áherslur sem skólinn leggur á “staðinn”.

    Þetta verkefni setur arkitektaskólann í Árósum niður svo um munar því eins og Þórður Magnússon segir svo réttilega hér að ofan: “Góður arkitektúr hæfir umhverfi sínu, undantekningalaust”. Og í framhaldinu þá segi ég að arkitektúr sem ekki hæfir umhverfi sínu er alls enginn arkitektúr. Og á því eru engar undantekningar.

    Dómararnir eru á annarri skoðun ef marka má verkefnið.

    Svo er það ögrunin. Hún á við stundum en ekki þarna og alls ekki í meistaraprófsverkefni. Meistaraprófsverkefni á að færa okkur áfram í þróuninni til betra samfélags.

    Þetta Þinvallaverkefni gerir það ekki. Þvert á móti ruglar það fólk í rýminu samanber blaðamann Moggans eins og fram hefur komið.

    Þetta á jafnt við um meistaraverkefni í arkitektúr og í viðskiptafræði, lögfræði, læknisfræði eða hverju sem er.

    Meistaraverkefni er aldrei ögrun eða grín nema kannski að arkitektúr sé grin í heild sinni.

  • Staðarvalið eitt gerðir það að verkum að þessi bygging virkar sem algjör brútalismi.

    Lögberg, Almannagjá, Öxarárfoss og Drekkingarhylur eru náttúrlega fókuspunktarnir á Þingvöllum og þarna sem Valhöll stóð þarf að vera einhver aðstaða fyrir ferðamenn., a.m.k. salerni. En hótel? Ég held ekki. Ekki á þessum stað. Svæðið er undir of miklu álagi eins og er. Mér finnst þetta dekk og tröppusystem sem var smíðað þarna í Almannagjá (út af Kristnitökuhátíðinni) vera alveg ömurlegt, hreinlega rústa stemningunni á staðnum, og vona að það verði ekki endurnýjað þegar það er úr sér gengið.

    Það er að vísu hefð fyrir hóteli á Þingvöllum en hvað með að byggja nýtt hótel hjá Hrafnagjá (eða hvað það heitir), semsagt hjá gjáasvæðinu þarna Lyngdalsheiðarmegin? Þar er að vísu ósnortið land, engir akvegir eða annað slíkt, en e.t.v. þarf að búa til annan fókuspunkt á Þingvöllum en Almannagjá. Eða eru það einhver sjálfsögð mannréttindi að geta ranglað beint af hótelbarnum og yfir á Lögberg?

    Annars eru Þingvellir á heimsminjaskrá vegna náttúru og menningarminja og ég veit ekki hvort það tíðkast eða sé yfirleitt æskilegt að hafa hótel eða ráðstefnusali á slíkum stöðum (hvað þá kvikmyndahús, golfvelli eða sundlaugar).

  • Björn Erlings

    Ég get tekið undir með nafna mínum, eitthvað hefur mælikvarðinn á þessu skolast til, – 3-10 sinnum of stórt og rústar umhverfinu herfilega. Það sem áberandi sérstakt við Reykjavík er að mælikvarði húsanna er minni, hvað sem úr verður, – vonandi minnkar. Íslensk þjóð verður ekki meiri eða stærri við stór hús, erum og verðum við ekki of fá til að standa undir því, Þingvellir eru einu sinni þjóðvangur?

  • Bjarki Gunnar Halldórsson

    Það er nokkuð ljóst að hér er á ferðinni verkefni sem á að ögra og búa til umræðu. Það er í fínu lagi. Verkefni sem ögra eru þó þeim mun flottari ef hægt er að færa góð rök fyrir því að fara ætti út í framkvæmdir. Þá er virkilega gaman.

    Þettta er þó ekki eitt af þessum verkefnum. Það gerir ekki mikið meira en að ögra. Stærsta brotalömin í verkefninu er nefnilega sú staðreynd að þetta eigi að vera hótel. Það er ekki alveg nógu frumlegt. Það hafa auk þess ekkert allir efni á að gista á hóteli og yrði þá hluti Almannagjár í einkaeigu? Þegar farið er út í verkefni sem á að vera ögrandi þá verður notkunin að vera aðeins framúrstefnulegri.

  • Torfi Stefán Jónsson

    Hvað er svona djarft eða frumlegt við þetta staðarval? Ég hlýt að spyrja, hefur einhver kynnt sér byggingaráform Þingvallanefndar í gegnum tíðina.
    Alla tíð frá stofnun þjóðgarðsins stóð til að rífa Valhöll og reisa einhverja nýrri, stærri og betri, aldrei var ráðist í það vegna peningaleysis.
    Nákvæmlega það sama má segja um kirkjuna. Allt fram yfir 1974 er talað um að það þurfi að rífa kirkjuna og reisa stærra og veglegra gusðhús sem hæfi staðnum, aldrei var ráðist í það vegna peningaleysis.
    Uppi voru hugyndir um að reisa íþróttaleikvang og datt sú hugmynd ekki upp fyrir fyrr en rétt eftir 1960.
    Það átti að gera sundlaug við Valhöll þar sem hún stóð, krikket- og tennisvöll, til eru teikningar af þessu fyrirbæri frá milli 1930-1940.
    Ennfremur voru uppi hugmyndir um að reisa kvikmyndahús (ekki rætt um stærð) en það vantaði víst einhverjar athafnir fyrir sumarbústaðaeigendur í nágrenninu.
    Frumvarp var flutt af ekki ómerkari þingmönnum en Ásgeiri Ásgeirssyni (síðar forseti lýðveldisins) og fleiri mönnum að það ætti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að flytja Alþingi á Þingvöllum helst fyrir 1930. Þyrfti því að reisa þangað járnbrautarlest, þinghús, svefnaðstöðu fyrir þingmenn, bókasafn (til upplýsinga), prentsmiðju (til að prenta þingtíðindi og fleira).
    Jafnframt kom sú hugmynd um að reisa þarna skóla, lýðháskóla eða menntaskóla í einhverri mynd á þessum stað.

    Byggingarhugmyndir hafa verið óþrjótandi hvað varðar þjóðgarðinn á Þingvöllum, þetta er bara enn ein, ekkert frumlegt við það nema að staðsetningin er klikkuð á allan hátt, sýnist að þetta eigi að vera beint á móti kirkjunni, yfir Njálsbúð og fleiri fornminjar, ég sé engin frumlegheit við það heldur.

    Vafalaust er þetta þó vel unnið hjá þeim hvað varðar faglega þáttinn, hann þekki ég minna.

  • Árni Ólafsson

    Í verkinu felst ögrun. Gömlum, forpokuðum og fastheldnum er ögrað með djarfri tillögu. Snert er við því sem er heilagt.
    Eftir stendur óvenju gróf atlaga að einstökum stað. Sumir listamenn setja meinta list sína fram í þeim eina tilgangi að vekja umræðu – þar með sé búið að ýta við kyrrstöðunni og hrinda einhverju í gang sem annars hefði staðið kyrrt.
    Byggingarlistin er hins vegar fagurfræðileg útfærsla hins hversdagslega og praktíska raunveruleika. Gildir það sama þar – að umræðan sé mikilvægari en verkið? Mér finnst upphafspæling Hilmars um „staðinn“, staðarvitundina og staðarandann lykilatriði. Meira virði en flottar formpælinagar – hversu smart sem þær kunna að vera.
    Við eigum alltof mörg dæmi um glæsilegar byggingar, sem eru gersamlega óviðeigandi í umhverfi sínu – og sem betur fer einnig mörg dæmi um snilldarverk sem hæfa staðnum.

  • Garðar Garðarsson

    Hugmyndaríkt, frumlegt og djarft. Já mjög djarft í þessu friðaða og nánast heilaga umhverfi sem Almannagjá og næsta umhverfi er. Ég gæti séð þessa byggingu fyrir mér í Öskjuhlíð eða Grafarholtinu.

    Tilgangur staðarvals var örugglega til þess gert að skapa umræðu og það hefur tekist hjá höfundum verksins.

  • Meistaraverkefni í arkitektúr er eins og meistaraverkefni í hverrri annarri grein. Allir höfundar óska þess að um verk sitt sé fjallað. Þetta er í fyrsta sinn að fjallað sé um meistaraverkefni í byggingalist í opinberri umræðu að þessu marki svo ég muni.
    Til hamingju með það.
    Hinsvegar vísar það sem meistararnir leggja til málanna ekki til bjartrar framtíðar í byggingalistinni að mínu mati. Þetta er stókallaleg sýn á framtíð þessa helga staðar í sögu þjóðarinnar

  • Hilmar Þór

    Það er nauðsynlegt er að gera greinarmun á persónunni og verki hennar. ‘

    Þeir sem að meistaraverkefninu standa eru örugglega hörkuduglegir sómamenn sem hafa unnið verk sitt af áhuga og einlægni. Þarna er hugmyndaflug og falleg grafisk framsetning kynnt. Það ber að hrósa því sem vel er gert. Þetta er líka ágætlega leyst starfrænt geri ég ráð fyrir. Tengingin við Hakið og þakgarðurinn er skemmtileg og svo má vafalaust lengi halda áfram.

    Af þessu öllu er mikill sómi.

    Þessir ungu arkitektar eiga eftir að ná langt. Á því er ekki nokkur vafi.

    Það sem orkar tvímælis og er gerð athugasemnd við er að þessi lausn hafi orðið fyrir valinu einmitt á þesum stað. Að þetta form, þetta byggingarefni og þetta byggingamagn hafi orðið niðurstaðan á Þingvöllum. Mönnum greinir á um það. T.d. mér og höfundunum og er hvorugur okkar verri né betri fyriri vikið.

    Og í lokin tek ég undir með nafna mínum Gunnarssyni að ég held að höfundarnir hljóti að vera ánægðir með að verk þeirra veki athygli og verði tilefni til umræðna.

    Yfirleitt er umræðan betri en þöggun

  • Kúrsar og verkefni sem miða að staðavitund eru í boði í bæði Arktektaskólanum í Árósum og Kaupmannahafnarskóla. Það sama má segja um kúrsa um abstrakt sköpun á byggingarlist þar sem verki er í lokin ‘plantað’ einhverstaðar niður. Hvað verðandi arkitektar læra er undir þeim komið, enda mikil áhersla lögð á að nemar geri sér menntunaráætlun, þar sem þeir velja hvað þeir læra eftir því hvað þeir telja að muni henta þeim best.
    Um þessar mundir stendur yfir fyrirlestrarröð í Arkitektaskólanum í Árósum sem gengur undir nafninu A-Scenen, þar sem leitast er við að skapa opna umræðu um arkitektur. Opnunarfyrirlesturinn héldu arkitektarnir Bjarke Ingels og Christian Cold, tveir menn sem eru algjörir mótpólar í arkitektúr.
    Arkitektar, eins og aðrar stéttir, eru misjafnir eins og þeir eru margir. Svo það er alltaf bara spurningin hvort það er BIG eða Christian Cold sem yrðu valdir í verkefni eins og Þingvelli.

  • Hilmar Gunnarsson

    Mig langar að hrósa höfundum fyrir djörfung og fallega framsetningu.

    Verkefnið ber ekki með sér að vera stafrænt verkefni eins og nafni minn hefur látið í veðri vaka. Hér eru stafrænir töfrar brúkaðir til framsetningar og kynningar, ekki sem hönnunartól og hefur því ekki sett mark sitt á arkitektúrinn sem slíkann.

    Ég hef grun um að höfundarnir séu fegnir umræðunni því það gefur verkefninu sannarlega gildi.

  • Haraldur, Það má deila um hvort að þessi umræðan um þetta skólaverkefni ætti að fara fram opinberlega, eðlilegast hefði verið að prófdómarar einir gerðu athugasemdir.

    Nú er hins vegar búið að birta þessar myndir opinberlega sem kallar á opinbera umræðu.

    Góður arkitektúr hæfir umhverfi sínu, undantekningalaust. Ef arkitektinn tók þá ákvörðun að teikna lokaverkefni sitt sem byggingu inn í Þingvalla-þjóðgarði þá er hann um leið að setja sjálfum sér ákveðin viðmið, sem hann síðan tekur ekki nógu alvarlega.

    Ef ég hefði verið prófdómari þá hefði ég gert þessar athugasemdir ásamt því að hrósa honum fyrir að öðru leyti vandað verk sem greinilegt er að talsverð vinna hefur verið lögð í.

  • Þessi byggingófreskja er í ætt við tónlistarhúsið við bæjarins bestu

  • Voða finnst mér umræðan einhliða.
    Í fyrsta lagi er þetta lokaverkefni hjá ungum arkitektum, sem við fyrstu sýn virðist hafa skýra hugmynd, sem er keyrð sjálfri sér samkvæm út í gegn. Í því felst ákveðinn þroski og þor sem nauðsynlegt er ungu fólki.
    Sleggjudómar um hvort að þetta sé góður arkitektúr eða ekki, er alltaf persónulegt mat og segir lítið annað. Í þessu verkefni er tekin meðvituð ákvörðun um að gera mannvirki, sem er ekki samofið umhverfinu, heldur hefur skýr mörk milli manngerðs og náttúru.
    Mörg meistaraverk í arkitektúr gera nákvæmlega þetta og það mætti fullyrða að umhverfi okkar yrði miklu fátæklegra ef ekki væri fyrir þau.
    Það er síðan umræða útaf fyrir sig hvernig og hvort byggja eigi við Þingvelli, en ég fagna því að ungir arkitektar hafa þor til að taka þessa umræðu á sínum forsendum.

  • Ekki hægt að segja annað að þetta sé mjög 2007. Ágætlega unnið verkefni í sjálfu sér en á þessum stað er þetta bara ofbeldi.

  • Ef til stendur að reisa hótel á Þingvöllum, þá ætti það að vera látlaust og falla vel inní umhverfið.

    Þessi tillaga gerir það alls ekki.

  • Ég er sammála Árna um að það sé eftirsjá af gamla hótelinu. Ég hefði sjálfur ekkert á móti því að það yrði endurbyggt í einhverri mynd og þá auðvitað með tréklæðningu, (kannski plægða úr furunni sem menn vilja losna við af þingvöllum)

    Varðandi samspil náttúru og byggingarlistar þá hefur mér alltaf fundist eins og burstastíllinn sé hannaður með íslenska náttúru í huga, útlínurnar virka eins og endurrómur af fjallasýninni og ekki skemmir að hafa torfþak.

    Látlaus stíll, án hroka og fellur vel að landslaginu. Annað en sá brútalismi sem hér gefur að líta.

    Ég tók nú þessar hugmyndir ekki mjög alvarlega og satt best að segja efast um að arkitektarnir sjálfir hafi tekið þetta mjög alvarlega, sem er miður.

  • Páll Kári

    Mjög svo sammála þér hérna Hilmar. Þetta er úr öllu korti en kannski var þetta einnig birt til að koma af stað umræðu um framtíð bygginga í þjóðgarðinum á þingvöllum.

    Ég er nú hinsvegar á því að við ættum að byggja tiltölulega lítið hótel og veitingastað á þinvöllum. Ég man það ósköp vel þegar ég fór með foreldrum mínum í kaffi á þinvöllum og þótti það mikið sport og mikið gaman. Eitthvað sem ég væri til í að gera með mínum börnum.

    Það má vel byggja fallega og nútímalega byggingu sem fellur vel að umhverfi sínu og væri jafnvel nánast falin í náttúrunni, breyttist með árstíðunum og væri staðarbrýði á þessum helga stað okkar íslendinga.

  • Árni Ólafsson

    Remba !

    Hins vegar er eftirsjá af hóteli á Þingvöllum. Ég sé ekkert að því að reisa nýtt hótel þar sem Valhöll stóð áður. Góð byggingarlist auðgar staðinn. En Þingvellir eru ekki staður fyrir rembu og brútalisma.

  • Frekar hleypa búddízkum arkitektum að 😉
    http://www.4x4xplore.com/gtc/images/Hanging-Monastery2.jpg

  • Mikið er ég hjartanlega sammála þessari greiningu hjá þér. Þegar maður fer að kynna sér gríska byggingarlist til forna er með staðsetningu alltaf tekið tillit til náttúrunnar í heild, svo sem afstöðu til fjalla og hafs. Bygging á Þingvöllum þyrfti að vera mjög hógvær og glæsileg í senn. Teikning hinna ungu arkitekta uppfyllir ekki þær kröfur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn