Föstudagur 27.03.2015 - 15:06 - 18 ummæli

Þjóðarsjúkrahúsið – staðarval

 

 

Ég verð að segja að ég átta mig ekkert á allri umræðunni um heilbrigðismál hér á landi nú um stundir.  Annars vegar virðast ekki til peningar til þess að reka núverandi heilbrigðisþjónustu, hvorki til þess að  kaupa nútíma tækjabúnað, halda núverndi tækjakosti við né halda sjálfum byggingunum við.  Og hinsvegar er verið að ræða um að byggja risavaxið nýtt sjúkrahús ofaní því gamla með öllum þeim óþægindum sem því fylgja. Óþægindum vegna staðarvalsins og borgarlandslagsins og ekki síður vegna samfléttingar þess nýja við hið gamla og vegna sjálfrar framkvæmdarinnar.

Það er öllum ljóst að miklar efasemdir eru um staðsetninguna og framkæmdina í heild sinni. Og nú hefur verið sagt frá því að læknar eru einnig fullir efasemda um fyrirætlanirnar.

Svo á hinn bóginn eru einhverjir, án andlits, sem vilja byggja á þriðja hundrað þúsund fermetra nýbygginga við Hringbraut fyrir peninga sem ekki eru til.

Þetta er ótrúleg staða. Þó manni virðist málið dautt vegna allrar óvissunnar og óánægjunnar þá er eins og verkefnið lifi sjálfstæðu lífi í einhverskonar gjörgæslu. Menn eru tregir til þess að skipta um skoðun. Hanga á 30 eða jafnvel 90 ára hugmyndum.

Staðan er líka ótrúleg vegna þess að þeir andlitslausu virðast staddir í sýndarveruleika áranna fyrir hrun og virðast styðjast við hið séríslenska lögmál “ Þetta reddast örugglega einhvernveginn“. Þeim hefur ekki tekist að sannfæra fólk um ágæti hugmyndanna og þar er einmitt megin vandinn. Fól hefur almennt ekki keyp hugmyndina eða deiliskipulagið.

Ég hitti engan sem er andsnúinn því að byggt verði fyrirmyndarsjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu. Allir styðja við góða heilbrigðisþjónusu sem rekin verði við bestu aðstæður. Ég hitti ekki  marga sem styðja uppbyggingu við Hringbraut, en ég hitti aldrei neinn sem styður núverandi áætlanir og deiliskipulag sem þeim fylgja.

Hitt er að þær hugmyndir sem eru uppi á borðum  standast eiginlega ekki. Þær standast varla nýtt aðalskipulag Reykjavíkur, þær standast varla Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð, þær eru í andstöðu við vilja lækna og almenningur vill þetta ekki. Umferðamálin eru í óvissu að margra mati.  Þær eru ekki i samræmi við núverandi brýna þörf þjóðarinnar í heilbrigðismálum og þær samræmast ekki núverandi efnaahgsástandi þjóðarinnar.

Ég minni á að deiliskipulagið við Hringbraut gerir ráð fyrir um 260 þúsund fermetrum á 13,9 hekturum sem gefur nýtingarhlutfall uppa 2.11 sem er gríðarlega mikið.

++++++

En að efninu.

Ég fékk sendar upplýsingar frá Danmörku fyrir nokkru um spítala á vestur Jótlandi sem verið er að hefja framkvæmdir við.

Þar eru aðrar áherslur. Byggingunum er valin staður þar sem rúmt er um þær og tækifæri til framþróun og stækkun spítalans um marga áratugi fram í tímann. Nýtingarhlutfall er 0,36 eða 1/6  af því sem menn eru að tala um við Hringbraut.

Meginsjónarmiðið er að mæta sjúklingunum og þörfum þeirra. Punktur.

Þar er ekki áherslan á að mæta þörfum háskólasamfélagsins eða hugsanlega búsetu þeirra sem þar starfa um þessar mundir.

Áhersla virðist vera lögð á þjónustu við sjúklinginn og að skapa honum umhverfi í góðum tengslum við náttúruna, góðar samgöngur við það bakland sem sjúkrahúsið á að þjóna.

Og góða vaxtarmöguleika.

Spítalanum er ætlað að þjóna 285 þúsund manns sem er aðeins færra fólk en íslenska þjóðin. Sjálft sjúkrahúsið er áætlað að verði 138 þúsund fermetrar auk 15 þúsund fermetra geðdeild. Áætlað er að byggingarnar kosti milli 480 þúsund til 570 þúsund kr fermeterinn miðað við verðlag í Danmörku árið 2009

+++++

Það hefur margoft verið bent á  að í stað þess að fara af stað með þá ofvöxnu uppbyggingu á Landspítalalóðinni sem fyrirhuguð er ætti frekar að horfa til annarra kosta sem hugsanlega henta betur.  Þegar ég segi ofvöxnu þá er ég ekki einungis með borgarlandslagið í huga heldur sjúkrahúsið í heild sinni og þann bráðavanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Eigum við ekki að hugsa til skemmri tíma, svona 20-30 ára. Þetta hafa þeir Páll Torfi Önundarson læknir og prófessor og Magnús Skúlason arkitekt bent á.

Dönsku ráðgjafarnir Ementor unnu að þróunaráætlun vegna starfsemi spítalans til næstu 20 ára. Þeirra helsta niðurstaða var að aukin áhersla verði á dag- og göngudeildarstarfsemi og sjúkrahótel. Þá segja ráðgjafarnir að spítalinn búi við húsnæðisskort og þurfi að hafa 120.000 m2 húsnæði á árinu 2020.

Nú eru um 73.600  fermetrar húsnæðis á Landspítalalóðinni, þannig að ætla mætti að 47 þúsund fermetrar til viðbótar myndu uppfylla þessa þörf en það er aðeins helmimngur þeirra 240 (!) þúsund fermetra sem gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir.

Næstu 20-30 ár má síðan nota til þess að finna framtiðarsjúkrahúsinu stað þar sem það smellur inn í metnaðarfullt nýtt Aðalskipulag Reykjavikur. Elliðárósar eða Keldur sem hvorutveggja nýtur fyrirhugaðs samgönguáss gætu verið staðir sem skoða mætti.

Nú þurfa spítalamenn og stjórnmálamenn að sýna karlmannslundina og endurskoða áformin á róttækan hátt öllum til heilla og þannig að sátt náist.

Endurskoðun á staðarvali mun ekki tefja framkvæmdirnar um minnst 10-15 ár eins og haldið hefur verið fram. Við erum frekar að tala um 2-4 ár.

Hér er slóð að pistli sem fjallar um biðleik þeirra Páls Torfa Önundarsonar og Magnúsar Skúlasonar arkitekts.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/08/25/landspitalinn-aftur-a-dagskra/

 

Að ofan og hér að neðan eru nokkrar myndir af spítalanum á Jótlandi ásamt myndbandi hér strax að neðan

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Málin hafa nú verið skoðuð nokkuð vandlega í nokkur skipti og niðurstaðan ávallt verið sú sama. Það er hagstæðast að flestu leyti að byggja upp spítalann við Hringbrautina. Sú staðsetning er auðvitað ekki að öllu leyti gallalaus en kostir hennar vega þó þyngra en gallarnir.

    Með því að byggja upp við Hringbraut er hægt að nota húsnæði sem nú er til og uppbyggingin verður því ódýrari en ef spítalinn verður byggður upp algjörlega frá grunni annarsstaðar. Hann er líka vel tengdur við Háskólann stutt frá. Samgöngur við spítalann eru bestar ef hann er við Hringbrautina. Þar eru nú þegar bestu almenningssamgöngur landsins og þær munu verða það áfram útaf þéttri byggð og starfsemi við miðbæinn. Ef byggja á upp og halda sambærilegu þjónustustigi almenningssamgangna annarsstaðar mun það verða dýrara og nýting þjónustunnar líklega verri. Áhyggjur manna af umferð sjúkrabíla má leysa með að nota sérstakar akreinar fyrir sjúkrabíla og almenningssamgöngur eftir Miklubraut/Hringbraut. Þá er ekki loku fyrir það skotið, að það verði byggð jarðgöng undir Öskjuhlíð og Digranes eins og er á aðalskipulagi Reykjavíkur og Kópavogs.

    Þær hugmyndir sem ganga út á það að reisa nýjan spítala frá grunni á nýjum stað eru óraunhæfar fyrst og fremst vegna meiri kostnaðar. Samgöngur við suma af þeim stöðum sem nefndir hafa verið eru alls ekki betri en við Hringbraut. Vífilstaðir og Keldur eru meira útur, jafnvel fyrir einkabíla, og þeir staðir eru ekki betur staðsettir miðað við þungamiðju íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu. Elliðaárósar eru vissulega vel staðsettir á stærstu umferðarslaufu höfuðborgarsvæðisins en þar vantar byggingarland nema ef ætlunin er að byggja spítalann ofaná slaufunni, sem vissulega væri hugmynd. Geirsnef er gamall ruslahaugur og þar verður ekki byggður spítali né neitt annað á næstunni.

  • Ólafur Sigurðsson

    Menn nálgast málið úr vitlausri átt, menn gleyma að ræða um faglega uppbyggingu á okkar nýja þjóðarspítala. Í mínum huga á að nýta tækifærið að byggja góðan rannsóknarspítala. Klasahugsun, þar sem saman kemur okkar besta heilbrigðisstarfsfólk og vísindamenn í heilbrigðisvísindum. Byggja á Center of Excellence hugsuninni, hjartalækningar, krabbameinslækningar, o.s.frv. í sér einingum. Þannig væri hægt að byggja hann í áföngum. Þetta hefur því miður ekki verið rætt mikið, og sakna ég þess. Ég er sammála að miðbærinn er ekki hentugur, en tel að staðsetning hafi verið valin út frá þeirri hugmynd að prjóna við gamla spítalann. Það skortir pláss á Rúv lóð og í Fossvogi. Vífilstaðir eða Keldur nokkuð góð hugmynd, en nauðsynlegt er að góð tenging verði við LSH á meðan uppbygging fer fram.

  • Við gætum fengið teikningarnar og aðlagað þær og féð er til. Það kostar um 70 milljarða að byggja spítalann. Féð til byggingarinnar verði sótt til lífeyrissjóðanna. Spítalann mætti byggja upp í samvinnu við spítalann á Jótlandi og kaupa öll tæki inn í félagi við danina. Það má byrja á morgun.

  • Í nýlegri skoðanakönnun meðal lækna var meirihluti þeirra andvígur fyrirhugaðri uppbyggingu í miðbænum og er ástæðulaust að rifja upp röksemdir þeirra. Þær liggja ljósar fyrir.
    Nú hefur forsætisráðherra stigið fram með nýjar hugmyndir um framtíðarskipan í málefnum Landspítalans; þær að nýr Landspítali verði byggður á lóð Ríkisútvarpsins. Þar er unnt að byggja háreist nútíma sjúkrahús með góðri aðkomu og rými, nálægð við flugvöllinn og með tengingu við Borgarspítalann. Eignirnar í miðbænum, segir forsætisráðherra má selja dýrum dómum til annarra verkefna svo sem hótelreksturs og á því svæði kann RUV að finna sér framtíðar aðstöðu.
    Forsætisráðherra hefur með afgerandi hætti tekið á málinu og leiðir nú þann hóp sem hefur barist gegn áformum um uppbyggingu Landspítalans í miðbænum og því sem þeir kalla versta og alvarlegasta skipulagsslys aldarinnar. Vonandi verða nú þáttaskil.
    Ástæða er til þess að skora á Hilmar Þór Björnsson arkitekt og áhugasama kollega hans að grípa á lofti hugmynd forsætisráðherra; gera úttekt á lóð Ríkisútvarpsins og rissa upp útlitsteikningar/hugmynd að nútíma sjúkrahússbyggingu inná þetta svæði. Það yrði ómetanlegt innlegg í umræðuna. Og hvaða arkitekt vill ekki hafa þá rósina í hnappagatinu að eiga hlut að því, að forða Reykvíkingum og þjóðinni allri auðvitað frá skipulagsslysi af verstu gerð og leiða inná farsælli braut?

  • Sigríður Ólafsdóttir

    Umræða um skipulag og byggingar hefst aldrei af alvöru fyrr en of seint. Skipulagsyfirvöld þurfa að taka sig á og kynna þetta fyrir okkur sem viljum að þetta sé í lagi. Ég er ekki smá efins um þessi ósköp.

  • Er ekki eitthvað að þessu öllu saman?

  • Menn eru sennilega komnir út í horn. Þeir geta ekki með góðum hætti snúið við —- Sokkin kostnaður og fl. er fyrirstaðan.

    En það er betra seint en ekki.

  • Takk fyrir að halda umræðunni lifandi og málefnalegri.

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Ég myndi ekki vilja sjá einn stærsta vinnustað landsins svona út í sveit eins og þessa danski virðist vera. Það stríðir gegn öllum markmiðum um vistvænni samgöngur. Það eru mikilvæg málefni í dag. Við viljum ekki að þúsundir manna hafi ekki val um annað en að koma á bíl eða hugsanlega með óhagkvæmum almenningssamgöngum.

    Ég get ekki fullyrt um hversu vel Hringbrautarlóðin hentar, en ég get ekki séð að hún sé svo afleit. Ég tek samt undir það að það sé óvíst að svo mikið byggingarmagn fari vel á þeim stað.

    Það getur vel verið að Fossvogur, Höfði eða Keldur henti betur. Ég er svolítið heillaður af Fossvoginum eins og staðan er í dag. Leitt að landinu vestan við Borgarspítalann hafi verið sóað í þessa gisnu blokkabyggð sem er að rísa þar.

    Með frekari uppbyggingu austan Elliðaáa gætu þau svæði orðið tilvalin.

    • Hilmar Þór

      Það er greinilega mikið frelsi þarna á Jótlandi sökum víðáttunnar. Og já þetta er ekki sérlega vistvæn lausn við fyrstu sýn. En við meigum ekki gleyma að þetta sjúkrahús á að þjóna hinum dreifðu byggðum norður Jótlands en ekki einum þéttbýliskjarna.

    • Anna Helgadóttir

      Ég keyri framhjá nýja spítalanum í Skejby á hverjum degi þegar ég fer í vinnuna – og hann er langt frá því að vera útí sveit. Danirnir eru líka að byggja lestarsamgöngur við miðbæ Aarhus og sjúkrahúsið til að létta á umferð starfsmanna til og frá spítalans.

      Ég bý 10 mín frá miðbænum og er í ca 20 mín að keyra að spítalanum heiman frá mér. Ég keyri á löglegum hraða þannig að ég get búist við því að sjúkrabíll sé töluvert fljótari.

      Það er geðveiki að finna ekki betri stað en Hringbrautina fyrir nýjan spítala fyrir höfuðborgarbúa. Þeir búa nefnilega fæstir í 101. Á Vífisstöðum væri t.d. hægt að hafa tengingu við fallega náttúru eins og danirnir gera og ég tel Vífilsstaði ekki vera útí sveit.

  • Þórdís

    Fólk þarf að hætta að þrasa.

    Verkefnatjórnin verður að slaka á og taka tillit til málefnalegra sjónarmiða. Hugsa til langrar framtíðar, skemma ekki borgina okkar, hugsa um umferðamáli, sníða sér stakk eftir vexti o.s.frv og frv.

    Og síðast en ekki síst, ekki að tefja málið með því að halda til streytu áætlunum sem eru okkur ofviða og enginn vilji eða geta er til þess að hrynda í framkvæmd.

    • Hilmar Þór

      Þú hittir sennilega naglann á höfuðið, Þórdís, þegar þú segir að verkefnið sé of stórt.

      Það er einmitt stærðin sem er helsta ástæðan fyrir því að þetta er ekki fyrir löngu farið af stað og búið.

      Það muna það allir að þegar Síminn var seldur varð til (eða átti að verða til) sjóður sem dyggði fyrir framkvæmdinnni og men lögðu í hann.

      En síðan þá hefur margt breyst.

      Þessir peningar eru ekki lengur til og í samræmi við það var eðlilegt að stilla áætlanirnar af í samræmi við fjárráðin og brýna þörf. Byggja minna og byggja það sem brýnust er þörf fyrir eins og Páll Torfi og Magnús hafa bent á.

      Verkefnastjórnin, ráðgjafar þeirra og stjórnmálamenn hafa ekki brugðist við breyttum aðstæðum eins og eðlilegt væri. Þvert á móti hamast þau eins og rjúpa við staur og ekkert gengur né rekur. Eru jafnvel með rangfærslur.

      Þeir taka varla þátt í umræðunni. Ekki einusinn á upplýsandi eða umburðalyndan hátt. Í þess stað kyrja þau sífelt sama viðlagið sem gengur út á að það sé orðið of seint að endurskoða skýjaborgirnar sem vissulega eru í 2007 anda.

      Það má með vissum rökum segja að þessir aðilar séu helsta fyrirstaðan fyrir því að framkvæmdir eru ekki fyrir löngu hafnar.

      Þeir hafna því að við „sníðum okkur stakk eftir vexti“ eins og þú orðar það svo ágætlega.

  • Jón Gunnarsson

    Þetta er skólabókardæmi.

    Hér þrasa menn um þjóðþrifamál og enginn gefur tommu eftir. Afleiðingin er sú að þjóðinni blæðir.

    Nú þarf að ná sáttum og landa málinu.

    Verkefnastjórn verður að finna til ábyrgðar og slaka á kröfunum sem eru arfavitlausar eins og danirnir hjá Ementor hafa bent á.

  • Sveinbjörn

    Það verður með einhverjum hætti að endurskoða þetta allt. Annaðhvort í heild sinni eða með biðleik þeirra Magnúsar og Páls Torfa.

  • Halldór Jónsson

    Þetta eru nú meiru kallarnir þarna í Danmörku.

    Auðvitað á að byggja sjúkrahúsið þar sem læknarnir eiga heima. Alls ekki þar sem best er fyrir sjúklingana, starfssemina og samgöngurnar.

    Við þurfum að kenna dönum og segja þeim að okkar meginsjónarmið sé rétt.

    Við byggjum sjúkrahúsin þar sem læknarnir eiga heima. 🙂

    • Nei, Halldór minn, byggjum heldur sjúkrahúsið þar sem rúmt er um það og greiðfært er í höfuðáttir. Læknarnir geta flutt nær því ef þeir vilja. Við megum ekki gleyma því að sjúkrahús eru fyrir sjúlkingana fyrst og fremst en ekki fyrir læknana.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn