Fimmtudagur 05.09.2013 - 10:52 - 19 ummæli

Þóknun til arkitekta

untitled22222

Gunnlaugur Halldórsson (1909-1986) heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands lét hafa eftir sér að arkitekt geti séð sér og fjölskyldu sinni ágætlega farborða væri honum falið að teikna þrjú einbýilishús á ári.

Þetta var sagt á árunum fyrir seinni heimstyrjöldina og átti við langt fram eftir öldinni sem leið.

Nú er þessu öðruvísi farið. Það lifir enginn arkitekt góðu lífi af því að teikna 3 sómasamleg einbýlishús á ári, eins og kjörin eru nú.

Vinna fyrir arkitekta hefur aldrei verið minni.  Þeir aldrei verið fleiri og sennilega hefur þóknun til þeirra aldrei verið lægri og rekstrarkostnaður arkitektastofa aldrei verið meiri.

Ég þekki ekki laun arkitekta og þróun undanfarið en ég veit að þóknunin hefur lækkað. Það sé ég á þeim verðkönnunum (útboðum) sem gerðar hafa verið undanfarin misseri.

Í Fréttablaðinu í gær er vitnað í Hagstofuna og sagt að laun í landinu hafi hækkað um 74,6% síðan árið 2005. Sennilega var útseld vinna arkitekta að meðaltali um kr. 9.500 árið 2005 sem  ætti að vera í dag kr.16.587.- ef útseld vinna fylgdi tölum Hagstofunnar.

Ég hef orðið var við að „stór“ arkitektafyritæki bjóði undir kr. 10.000.- í dag!

Það virðist sem arkitektar hafi staðið í stað frá hruni hvað útselda tímavinnu varðar og lækkað nokkuð þegar samið er um heildaþóknun. Einkum og sérstaklega þegar hanna á fjölbýlishús. Á þeim markaði virðast vera mikil undirboð á ferð.

Ef þetta er borið saman við aðrar stéttir koma arkitektar afar illa út. Ástæðuna má sennilega m.a. rekja til þess að bygingaiðnaðurinn nánast stöðvaðist í hruninu og hefur varla vaknað til lífsins síðan.

Ef horft er t.d. til fasteignasala sem taka á bilinu 1,7-3,0% af söuverðinu (heimild frá félagi fasteignasala) fyrir að annast sölu íbúðar kemur í ljós að hann hefur margfalt meira uppúr að annast sölu hverrar íbúðar en arkitektinn fyrir að  hanna hana. Svo dæmi sé tekið þá er þóknun fasteignasalans fyrir að selja eina íbúð sem kostar 40 milljónir á bilinu kr. 680.000 til kr. 1.200.000 (1,7-3,0%) meðan arkitektinn tekur a bilinu frá kr. 300.000 og að mér er sagt jafnvel niðurfyrir  kr. 100.000(!) fyrir að teikna þessa sömu íbúð. Þóknun arkitektsins er samkvæmt þessu aðeins brot af þóknun fasteignasalans sem er ábyggilega verður launa sinna. Svona samlíkingar má finna víða í samfélaginu ef að er gáð.

Samkvæmt Viðskiptablaðinu í morgun hafa laun í landinu hækkað um að meðaltali 7% frá árinu 2010 að undanteknum launum fjálmálafyritækja sem hafa hækkað á sama tíma milli 23% og 35% eftir fyrirtækjum, sem leiðir hugan að þeirri veruleikafyrringu sem lengi hefur blóstrað þar á bæ.

Ljóst er að undirboð eru í gangi þar sem arkitektafyritækin ná inn tekjum með því að leggja minni vinnu í hugmyndir og þróun verkefnisins. Líklega notast þau við gagnabanka sinn og endurselja notaðar hugmyndir sem leiðir af sér stöðnun og að líkindum verri byggingalist. Arkitektarnir hafa ekki svigrúm til þess að hugsa sig um þegar svo lítil þóknun er í boði.

Auðvitað endurspeglar þetta ástandið sem er hjá arkitektum um þessar mundir.  Þetta lýsir einnig skort þeirra á faglegri ábyrgð og stéttvísi. Og það merkilega er að þessi undirboð eru ekki einungis hjá einyrkjum og hjá litlu stofunum heldur virðast arkitektafyritækin virk í þessum undirboðum.

Svo aftur sé vikið að fasteignasölum þá fylgir þeirra þóknun verðlagi enda er hún hlutfall af verði fasteigna sem fylgir verðbógunni eða verðbólunni eftir atvikum.

Arkitekar þurfa nú frekar en nokkru sinni áður á að halda félögum, á borð við gömlu mennina, Gunnlaug Halldórsson (1909-1986), Gísla Halldórsson (1914-2012), Hanner Kr. Davíðsson (1916-1995) og fl sem höfðu burði til þess að standa í lappirnar, standa með byggingalistinni, öllu samfélaginu til hagsbóta.

Ef arkitektar og þeir sem kaupa þjónustu þeirra vilja skila góðri byggingalist til komandi kynslóða þurfa þeir að innheimta  sanngjarnt verð fyrir hugmyndirnar, hugverkið og það sem að baki liggur. Öll sú vinna og allt það fé skilar sér ríkulega að lokum.

 

Færslur um skild efni:

“Arkitektafyrirtæki”

Eru of margir arkitektar á Íslandi?

125-163 arkitektar á bótum

1174940_594618050595361_1478766956_n

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • stefán benediktsson

    Við arkitektar erum í innbyrðis samkeppni um gæði hönnunar (smekkur), gæði vinnu (góð gögn) og verð, eins og Dennis bendir á.
    Ég segi „við“ þótt ég hafi ekki teiknað lengi.
    Val manna á arkitektum snýst yfirleitt um verðið og smekkinn, hvað hefur arkitektinn gert og hvernig finnst mér það, sjaldan um gæði gagna.
    Þetta er samkeppnisstarf og ekki hægt að gera kröfur um að allir geti lifað af starfinu. Þú gerir þetta af því að þú „verður“ að gera það annars ekki.
    Samkeppnin gerir að verkum að samstaðan afmarkast við aðra hluti en starfsáranguri.
    Samkeppni skapar núning, ágreining og öfund, því verður seint breytt.
    Allar starfsstéttir kvarta undan lélegu orðspori hlustið bara á fólk tala um lækna, iðnaðarmenn eða stjórnmálamenn. Því verður heldur ekki breytt.
    Hver ykkar eru að spá í framtíðina?
    Við erum á leið inn í samskiptaöld og hönnunaröld.
    Hvar og hvernig verða samskipti arkitekta, hönnuða og viðskiptavina í framtíðinni?

  • Þóra Kjarval

    Í einhverri grein eða ummæli hér að ofan var minnst á orðspor okkar arkitekta. Ég snobba ekki fyrir því að vera arkitekt en mér finnst engu að síður að við sem stétt þurfum að standa betur við bakið á okkar félögum og halda okkar sérstöðu. Kannski þarf arkitektestéttin að ráða til sín PR fulltrúa… hver veit.

    Í dagblöðum og glanstímaritum birtast oft myndir og umfjallanir um glæsihýsi hér og þar um bæinn. Þótt húsinnu sé hrósað í hástert er algjör undantekning ef minnst er á hver hannaði bygginguna. Oft er talað um innahúshönnuðinn en sjálfur arkitektinn er sjaldan nefndur.

    Í stuttri grein í blaðinu um daginn voru sýndar ansi laglegar teikninar af útiböðum úti á landi, Ég man því miður ekki hvar. Eina sem gaf til kynna hvaða stofa teiknaði þetta var merking undir myndinni sem fylgdi fréttinni.Þarna hefði ég gjarnan viljað sjá tengil inn á síðu þess fyrirtækis sem vann þessa flottu hugmynd og ef til vill einhver komment frá þeim.

    Annað sem arkitektar þurfa hugsanlega að hafa varann á eru fréttir af „arkitektateiknuðum“ húsum sem oft er minnst á í fréttum. Slík hús eru alls ekki alltaf teiknuð af arkitektum. VIð sem starfstétt þurfum að vera vakandi fyrir þessu. Einnig virðist ekki vera ljóst hver skilin milli skipulags og arkitektúrs sé. Aritektúr er farinn að verða samnefnari yfir allar tegundir bygginga.

    Viljum við ekki hafa sérstöðu sem arkitektar? Ef svo er þá legg ég til að við endurskoðum almenninstengslastefnu okkar frá grunni.

    • Halldór

      Tek undir ábendingar Hilmars um stöðu arkitekta og þóknun. Hef sjálfur rekið arkitektafyrirtæki um árabil og þekki því málið.
      Það er ekki nóg með það að þóknun minnki stöðug heldur eru tæknilegar kröfur um skil á hönnun sífellt að verða meiri og meiri og vísa ég þá til ný útgefinnar byggingarreglugerðar.
      Ekki má heldur gleyma því framlagi sem arkitektastéttin leggur til byggingarlistar og hugmyndalausna í formi samkeppna sem flestum finnst sjálfsagt að ekkert sé greitt fyrir.
      Því miður erum við arkitektar sjálfum okkur verstir í þessum málum. Okkur hefur sjaldan tekist að koma fram sem einn þrýstihópur, hvort sem er til að ná betri kjörum eða meiri umræðu um störf arkitekta. Þessi r pistlar Hilmars eru sjálfsagt það lengsta, sem lifað hefur í samfelldri umræðu um byggingarlist.
      Í einhverjum póst hér að framan er bent á, að ekki sé séð, að stéttin hafi það slæmt, þar sem svo mörg fyrirtæki og einstaklingar séu starfandi í greininni. Orðið á götunni segir annað um stöðu margra þessara fyrirtækja og hvernig þau fóru út úr hruninu.
      Það eru ýmsar leiðir til að bæta kjör arkitekta. Fyrst þarf að vísu að breyta þeirri vitleysis hugsanagangi að það sé eitthvað að, ef vel gengur hjá einhverjum að þessum stærri fyrirtækjum, að þau láti gróða ganga út yfir faglegan metnað.
      Stærri arkitektafyrirtæki sem hefðu burð til að fara í fleirri verkefni innan fagsins, gætu örugglega bætt kjör stéttarinnar ef þau væru fleirri. Sóknarfærin eru mörg en menn verða að grípa þau.
      Þessi endalaus dýrkun á einmennigsfyrirtækjum hefur alls ekki bætt stöðu stéttarinnar.

  • Valtýr Egonsson

    Áhugaverð umræða sérfræðinga um þeirra mál. Mér finnst ansi mikil „þá-þrá“ endurspeglast í að arkitektar tilvitnuninni um að arkitektar eigi að geta haft nægileg laun með því að teikna þrjú einbýlishús á ári. Á þeim tíma sem ummælin féllu var tækniumhverfið og þar með afköst allt annað en er í dag. Þessi auknu afköst hjá arkitektum hljóta að skila sér í meiri „framleiðslugetu“ (ljótt orð í þessu samhengi) hjá arkitektastéttinni í heild. Hins vegar hefur þörfin fyrir teikningar ekki vaxið eins hratt og þessi framleiðslugeta.

    Það er svolítið kaldhæðnislegt að þessi aukna framleiðslugeta leiði á endanum til verri kjara fyrir stéttina en því miður er þetta óumflýjanleg þróun.

  • Ég var að lesa viðtal við hinn virta breska arkitekt David Chipperfield um þóknun arkitekta i Bretlandi sem virðist vera orðin það lág að margar þekktar stofur þar ramba á barmi gjaldþrots. Hann hefur verulegar áhyggjur af þróun mála og þeirri miklu samkeppni sem þar ríkir meðal arkitekta um þóknun á kostnað gæða eða vitsmuna. Hann hafði m.a. þetta um málið að segja:

    Chipperfield says free competition will make fees lower but the quality of work would undoubtedly suffer. ‘I understand the principle that fee competition is good but that means there is no other competition. What about competition over quality or intellectual competition?’

    Ég tek undir þetta og tel að þarna sé mergurinn málsins.

    • Big „Læk“ á þetta.
      Þetta er bara augljós röksemdarfærsla. Og nú á að ráða billegasta arkitektinn til að hanna Nýjan Landspítala og sá á að vinna undir handleiðslu verkfræðistofu!!!
      „Vor herre bervares“

  • Það varð hrun.
    Að stórum hluta einkennist það af byggingaáráttu.
    Þá var gósentíð hjá arkitektum.
    Nú er verulegt bakslag.

    Er krafan sú að arkitektar eigi ekki að taka afleiðingunum?

  • Hafsteinn Þór Hafsteinsson

    Ef einhver hannar 5 hæða blokk með 4 íbúðum á hæð og allar hæðirnar eins, er þá verið að hanna 4 íbúðir eða 20?

    • Steinarr Kr.

      Breytist ekki burðarþolið fyrir hverja hæð sem er byggð?

    • Einar Jóhannsson

      Það er verið að hanna jafn margar íbúðir og fasteignasalinn kemur til með að selja…. Þær eru 20

  • Hvernig er hægt að ganga inn í umræðu sem er á forsendunum „arkitektar fá of lítið greitt – þess vegna teikna þeir ljót hús“. Ef ég held því fram að ég fái nóg greitt (alltaf til í meira) til að hafa í mig og á með hönnun minni, er það þá vegna þess að húsin mín eru ljót? Og ef ég held því fram að arkitektar séu bara að teikna takk fyrir ágæt hús er ég þá að vinna hagsmunabaráttu okkar ógagn?
    Það er alltaf örugg mórölsk háslétta að standa á að hafa áhyggjur af gæðum og skorti á vilja til að greiða fyrir hana og að heimur versnandi fari, en það er ekki áhugavert áheyrnar til lengdar og opnar enga umræðu til gagns.
    Það eru undirboð hjá arkitektum eins og öðrum í byggingageiranum og það má örugglega ætla að aukin þóknun myndi skila sér í betri þjónustu (eru það ekki rök bankamanna fyrir sínum kjörum, sem skammast var yfir hér á undan?).
    Ég leyfi mér að fullyrða að enginn rekur arkitektastofu til langs tíma gegn greiðslu undir kostnaði og miðað við fjölda starfandi arkitekta og arkitektastofa þá hafa einhverjir í sig og á af þessari vinnu, þó sannalega sé það minna en fyrir hrun. Það er ekki auðvelt að reka arkitektastofu í dag, en lífið er flóknara en þessi umræða gefur til kynna.
    „Líklega notast þau við gagnabanka sinn og endurselja notaðar hugmyndir sem leiðir af sér stöðnun og að líkindum verri byggingalist.“ Þessi setning er einfaldlega rógburður og höfundi til lítils sóma. Er höfundur að halda því fram að arkitektar sæki hús ofan í skúffu og endurnýti á nýrri lóð, eða vill hann að ég hanni nýtt flísamunstur á hvert bað til að vera góður arkitekt? Þetta er lævís og andstyggileg setning sem virðist beint á alla arkitekta sem ekki barma sér nógu hátt – það er verið að kalla menn heim í grátkórinn. Arkitektar þurfa að gæta hagsmuna sinna. Það er ekki gert svona.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér ádrepuna Halldór Eiríksson. Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir þínar hér á vefnum. Þær eru málefnalegar og dýpka oftast umræðuna.

      Ég hef sennilega skrifað um 500 pistla um arkitektúr, skipulag og staðarprýði hér á vefinn og eitthvað á annað hundrað í vikulegum pistlum í Morgunblaðið um árið. Þessir pistlar eru ekki allir góðir. Sumum hefði ég jafnvel átt að sleppa meðan af öðrum er ég bara nokkuð stoltur. Svo hvetur það mann áfram að finna og sjá að þetta er mikið lesið.

      Ég sit við tölvuna og hamra þetta inn á ótrúlega stuttum tíma. Oft tekur þetta svona stundarfjórðung. Svo sendi ég þetta á netið án þess að nokkur maður hafi séð textann eða prófarkalesið. Ég er ekki einusinni með réttritunnarforrit eins og oft má sjá. Þetta vinnulag getur gert það að verkum að texti sem mér finnst skýr er ekki augljós öðrum sem lesa og þekkja ekki bakgrunn efnisins og tilefni eða lítur málið öðrum augum en ég.

      Ég held það sé þannnig núna. Þú misskilur efnið og eða framsetninguna.

      Ég held að þú ættir að lesa pistilinn aftur og kannski skipta um gleraugu.

      Það sem ég er að vekja athygli á er að arkitekta hafa dregist aftúr úr öðrum hvað varðar kjör. Ástæðan er augljós afleiðing byggingarbólunnar fyrir hrun og líka viðbrögð starfandi arkitekta við lítilli vinnu og baráttunni um brauðið. Arkitekta eru of margir og verkefnin of fá eins og fram kemur í pistlinum.

      Varðandi tilvitnaða setningu þar sem ég segi að líklega gangi arkitektar í gamlan gagnagrunn sinn er eins og sjá má tilgáta mín.

      Ég leita skýringa á því hvernig standi á því að arkitektar geti lifað af því að teikna blokkaríbúð fyrir minna en 100 þúsund þegar aðrir arkitektar þurfa 300-500 þúsund.

      Þetta er ekki “lævís andstyggilegur rógur” svo vitnað sé í athugasemd þína heldur rökstudd tilgáta eins og ég nefndi. Tilgátur þarf annað tveggja að sanna að séu rangar eða sanna að þær séu réttar. Þangað til því er lokið eru þetta auðvitað bara tilgátur.

      Ég tek nú dæmi af sjálfum mér í þessu sambandi til þess að særa ekki einhverjar viðkvæmar sálir.

      Fyrir aldarfjórðungi unnum við hér Á Stofunni samkeppni um leikskóla fyrir Reykjavíkurborg. Mikil ánægja var með bygginguna frá hendi borgarinnar, starfólks og barna. Þvi var ákveðið að byggja annan leikskóla alveg eins. Og í framhaldinu þann þriðja. Þetta endurtók sig þar til þeir voru orðnir átta leikskólarnir og allir eins. Og við hverja endurtekningu lækkaði þóknunin til okkar arkitektanna eitthvað, en við höfðum alla tíð af þessu góðar tekjur. Þóknunin varð þannig í síðustu 5 skiptin að engin arkitekt gat keppt við þetta þóknunarlega.

      En hugsum okkur aðeins um. Byggingin var endurtekin 8 sinnum á svona fimm árum. Á þessim tíma átti í raun engin þróun í leikskólabyggingum sér stað. Það má segja að þar hafi átt sér stað stöðnun hvað starfræna þætti varðar og sjálfa byggingalistina.

      Þetta er staðreynd sem ekkert á sameiginlegt með róg eða andstyggilegheit.

      Að lokum vil ég segja að ég skil ekki tilvitnun þína :“arkitektar fá of lítið greitt – þess vegna teikna þeir ljót hús”. Ég sé ekki þetta samhengi og skil ekki orðalagið.

      Það kemur mér á óvart að þú talir um ljót hús og flísalagnir á böðum þegar þú talar um byggingalist. Ég veit reyndar ekki hvað flísalagnir á böðum komi byggingalist við. Eru flísarnar ekki frekar e.k. “decoration” sem koma og fara eftir tísku líðandi stundar?.

      Við hér tölum ekki um ljót eða falleg hús. Byggingalistin ristir dýpra en svo. Við tölum um góð og slæm hús, strarfræn og óstarfræn hús. Hús sem falla vel eða illa að umverfinu, aðstæðum og ekki síst hvernig þau falla að buddunni.

      Varðandi undirboðin þá hefur mín stofa ítrekað orðið vitni af því að arkitektar hafa verðlagt vinnu sína „undir beltisstað“ ef svo má að orði komast. Hún hefur líka orðið fyrir barðinu á svona verklagi og vafalaust þín stofa líka. Þetta og umræða manna í milli í arkitektakredsum var tilefni pistilsins.

      Annars aftur takk fyrir athugasemdina sem gaf tækifæri til þess að skýra þessa óvissu betur og hugsanlega koma í veg fyrir misskilning.

    • Læka svona samtal. Þetta hjálpar. Það er alltaf fróðlegt að fylgjast með sérfræðingum á spjalli. Sakna þáttöku fleiri arkitekta svo maður tali nú ekki um fasteignasala og bankamanna!!!!!!!

  • Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að arkitektinn fái fyrir að teikna blokk einn þriðja eða minna af því sem fasteignasalinn fær fyrir að selja hana. Ljóst er að arkitektinn þarf að lagfæra þetta. En það þarf ekki að vera á kostnað fasteignasalans. Þetta ástand lýsir ístöðuleysi arkitektastéttarinnar og loddaragang þeirra eða skort á traustri sjálfsmynd og ekki síður metnaðarleysi þeirra sem kaupa af þeim þjónustuna og svo þeirra sem kaupa próduktið.

    En það sem sló mig í þessari ágætu færslu er staða bankamanna. Þarna er um að ræða banka sem eru allt of stórir og þar þarf að taka til. Áttið ykkur á því að í bönkunum er ekki um verðmætasköpun eða virðisaukandi starfssemi að ræða heldur þjónustu og umsýslu. Þetta eru þjónustustörf fyrst og fremst. Hér er um sjálftekt þeirra að ræða. Þessi okurlaun vaxa ekki á trjánum heldur eru þau tekin af okkur borgurunum með þjónustugjöldum og vaxtaokri. Fasteignasalar eru líka þjónustustétt og ekki verðmætaskapandi eins og arkitektar. Arkitektar ættu að hafa þreföld laun fasteignasala og bankamenn ættu að vera láglaunafólk miðað við hinar stéttirnar tvær.
    Og hana nú,

  • arkitekt

    Þetta er svo rétt:

    „Vinna fyrir arkitekta hefur aldrei verið minni. Þeir aldrei verið fleiri og sennilega hefur þóknun til þeirra aldrei verið lægri og rekstrarkostnaður arkitektastofa aldrei verið meiri“.

    Svo er ábyrgðin meiri og eftirlitsaðilarnir frekari en nokkutíma áður og kröfurnar mun meiri á allan hátt að byggingalistinni sjálfri undantekinni.

  • Jóhann Gunnarsson.

    Það eru kannski ekki bein tengsl milli þóknunnar og gæða hönnunnar. En hún er talsverð. Hinsvegar borgar sig alltaf að hugsa sig um og velta málunum fyrir sér. Það er greinilegt að arkitektarnir geta ekki gert það og neyðast til að endurnota gamlar lausnir umhugsunarlaust og það er kannski það sem verktakarnir sem eru helstu kaupendur hönnunnar fjölbýlishúsa. Þeir vilja að húsin séu teiknuð hugsunarlaust og að kaupendur kaupi framleiðsluna hugsunarlaust.

  • Jón Ólafsson

    „Ef arkitektar og þeir sem kaupa þjónustu þeirra vilja skila góðri byggingalist til komandi kynslóða þurfa þeir að innheimta sanngjarnt verð fyrir hugmyndirnar, hugverkið og það sem að baki liggur. Öll sú vinna og allt það fé skilar sér ríkulega að lokum“.

    Þetta er allt rétt og satt sem hér er sagt.

    En spurningin er hvort bein tengsl séu milli þóknunnar til arkitekta og gæða hönnunarinnar?

    • Breyskur

      Það er tenging kostnaðar og hönnunar að því marki að nýting og útfærsla batnar oft verulega frá fyrstu eða annari hugmynd að þriðju eða fjórðu.

      Það að geta sett aðeins meiri tíma í að leyta að bestu útfærslunni skilar sér margfaldlega fyrir notandann allan þann tíma sem hann verður í húsinu og að sama skapi verður slæm útfærsla til trafala alla tíð.

      Þetta er eitt að því sem verður útundan þegar bara er spáð í að byggja sem mest með sem minnstum tilkostnaði frekar en að spá í langtíma notagildi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn