Laugardagur 26.08.2017 - 20:24 - 12 ummæli

„Þola ný hús ekki að standa úti?“

Myndin að ofan er af fyrirsögn í grein sem birtist í norskum fjölmiðlum nýlega. Fyrirsögnin er i nokkru samræmi við umfjöllunarefni doktorsritgerðar Ævars Harðarsonar arkitekts sem fjallaði um galla í nútímalegum húsum.

Norðmenn spyrja sig hvort athyglin undanfarna áratugi hafi beinst um of að umhverfisvænum byggingaefnum og baráttunni við að spara orku með aukinni einangrun og vélrænni loftræstingu. Þeir telja að markmiðin séu ágæt en afleiðingin sé slæm. Þetta hafi valdið auknum raka með myglu og og fleirum byggingagöllum sem valda mönnum áhyggjum víðast hvar í nútímalegum byggingum.

Þeir staðhæfa og alhæfa um leið og segja bara að nútíma byggingar þoli ekki að standa utandyra!

Í gamla daga þornuðu útveggirnir þegar húsin voru hituð upp vegna þess að einangrunin var minni. Tækniframfarir með vélrænni loftræsingu og lokuðum gluggum sé líka hluti af vandanum. Það sé meiri raki í húsunum nú en áður. Fólk fari oftar í bað. Þvotturinn sé þurrkaður í vélum og það er vaskað upp í vélum. Fólk noti miklu meira vatn innandyra en áður og að fólk svitni meira vegna þess að það sé heitarar í húsunum.

Þeir segja líka að þegar menn hættu að fernissera og mála með olíumálningu hafi rakinn innanfrá átt greiðari aðgang að köldum útveggnum. Timburfræðingurinn Lone Ross Gobakken hjá NIBIO segir að málningin sem við notum í dag sé verri en sú sem við notuðum fyrir 1970. Þetta á við bæði þá málningu sem notuð er innandyra og utandyra.

Það er til margs að líta og menn eru í raun nánast ráðþrota í þessum efnum. Áður nefndur Ævar Harðarsson veltir fyrir sér í doktorsritgerð sinni hvort gamli íslenski útveggurinn sé kannki besti veggurinn. Annar doktor í fræðunum og sérfræðingur í eðlisfræðilegum vandamálum húsa, Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur, er á öðru máli og segir gamla íslenska vegginn gallaðann. Báðir þessir sómamenn færa ágæt rök fyrir máli sínu en eru ekki sammála, sem sýnir að þetta er ekki einfalt mál.

Orkuveituhúsið.

Síðastliðinn föstudag var haldinn fréttamannafundur þar sem sagt var frá  miklum göllum í nýbyggingu Orkuveitunnar. Gallarnir eru svo milkir að menn telja jafnvel að það verði hagkvæmast að láta rífa húsið samanber úrklippu frá mbl.is að neðan.

Ég hef fylgst með umræðum í fjölmiðlum í dag og sé að umræðan er að mestu á algerum villigötum. Menn eru að mestu í einhverjum skotgröfum og tala um  pólitísk afskipti og velta fyrir sé hvaða stjórnmálaflokkur eða stjórnmálamaður beri nú ábyrgð á þessu.

Það er ekki mikið talað í fjölmiðlum um útfærslur og lausnir sem þarna voru notaðar. Mönnum hlýtur að vera ljóst hvað er að þó sá sem ber ábyrgðina sé ekki fundinn. Menn eru bara ekkert að lýsa því i umræðunni.

Auðvitað bera stjórnmálamenn ábyrgð á því að ráðist var í þessa vitlausu framkvæmd á þessum vitlausa stað. Líklegt er að gamla hús Rafmagnsveitu Reykjavíkur á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar hefði getað fullnægt þörfinni með einhverri smávægilegri viðbyggingu.

En stjórnmálamenn bera ekki ábyrgð á byggingargöllunum. Útfærslurnar og verklagið hefur líklega aldrei verið lagt á borð stjórnar Orkuveitunnar til samþykktar. Ráðgjafarnir hafa sinnt því starfi.

Ábyrgð á göllunum þarf að leita hjá fagmönnunum; ráðgjöfunum, verktökunum, vottunaraðilum og byrgjunum eða framleiðendum byggingaefnanna og eftirlits og úttektaraðilum. Ef faglega var að byggingunni staðið eru allir verkferlar skráðir. Allar útfærslur voru  eflaust yfirfarnar af hönnuðum eða umsjónarmönnum, eftirlitsaðilum og úttektaraðilum bæði opinberum og á þeim sem ráðnir voru á vegum verkkaupa.

Nú segir einhver aðili málsins að hann beri enga ábyrgð vegna þess að honum hafi verið falið að setja upp veggi sem Orkuveitan lagði til.  Það reyna auðvitað allir að benda á einhvern annan. Þetta fyrrir þá ekki ábyrgð. Allt húsið er byggt samkvæmt einhverjum fyrirmælum sem margir koma að. Viðkomandi þarf að sýna að hann hafi sett vegginn upp samkvæmt fyrirmælum framleiðanda. Eftirlitsaðilar á vegum verkkaupa, hönnuða eða opinberra aðila hafa tekið út verkið og samþykkt það. Og fyrirmæli framleiðanda og útfærsla í öllum smáatriðum hlýtur að hafa verið skoðuð af ráðgjöfum Orkuveitunnar.

Þegar þetta verður allt skoðað kemur eflaust í ljós að ábyrgðin er mjög dreifð.

En ég er þess fullviss að það ber enginn flokkur eða pólitískur einstaklingur í stjórn Orkuveitunnar ábyrgð á þeim hugsanlega tæknilegu göllum sem þarna er að finna.

Doktorsritgerð Ævars Harðarssonar:

 

http://ntnu.diva-portal.org/smash/record.jsf?pid=diva2:572324

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Guðbrandur

    Þessar vangaveltur komu upp á Hellisheiði af gefnu tilefni.
    Skiltt er skeggið hökunni.

    Ráðgjafaverkfræðingar – 2011 Verklag.
    Hellisheiði 2005 – 2011
    1. Hönnun verkfræðistofu
    2. Yfirferð og eftirlit: sama stofa lítur eftir sjálfri sér
    3. Eftirlit með verktökum: sama verkfræðistofa og hannaði
    4. Verkstýring og samræming með verktökum: sama stofa. Með öryggisstjórnunarkerfi verktaka að leiðarljósi ? Vita reyndar ekki að það er til, eða til hverss það er.
    5. Úttekt og prófanir á eigin hönnun sama verkfræðistofa, verktakinn rekinn burt á meðan.
    6. Dæma sjálfir í uppgjörs ágreiningi við verktaka. Verktaki – Hönnuður – Verkkaupi.
    Þetta heitir sex tryggt vald, eða að sitja allan hringinn við borðið. Riddarar hringborðsins
    Svona fyrirkomulag getur ekki boðið upp á annað en endalausa hagsmuna árekstra, eins og sannast hefur í orkuverunum í Hellisheiði. Enginn er óskeikull, en verkfræðistofur verða það, á kostnað verktaka og verkaupa OR með þessu fyrirkomulagi. Hönnunareftirlit með sjálfum sér + verktökum + verkstýring + prófanir + efniskaup, kann ekki góðri lukku að stýra fyrir neytandann sem er eigandi OR.

    Að siðaðra manna hætti :

    1. Hönnun á ábyrgð hönnuðar þ.e verkfræðistofu. Óháð, ekki í öðru hlutverki.
    2. Eftirlit með hönnun, á ábyrgð annarrar verkfræðistofu, eða óháðum aðila.
    3. Eftirlit með verktökum önnur stofa enn hannaði. Óháður aðili með hagsmuni verkkaupa að leiðarljósi.
    4. Verkstýring í höndum verkkaupa með aðalverktaka verksins, hagsmunir verkaupa og öryggisstjórnunarkerfa skulu hafðir að leiðarljósi.
    5. Úttekt og prófanir: verktaki að viðstöddum hönnuði, eftirliti og verkstýringu.
    6. Uppgjörsmál : eftirlit og verkkaupi . Uppgjörsdeilur óháður aðili.

    Við þetta hringborð sitja allt að 6 hreinskiptir og heiðarlegir menn.

    Trúlega eru þetta of miklar sanngirniskröfur fyrir Íslenska sjálftöku eðlið.

  • ,,Ábyrgð á göllunum þarf að leita hjá fagmönnunum; ráðgjöfunum, verktökunum, vottunaraðilum og byrgjunum eða framleiðendum byggingaefnanna og eftirlits og úttektaraðilum. Ef faglega var að byggingunni staðið eru allir verkferlar skráðir. Allar útfærslur voru eflaust yfirfarnar af hönnuðum eða umsjónarmönnum, eftirlitsaðilum og úttektaraðilum bæði opinberum og á þeim sem ráðnir voru á vegum verkkaupa.“

    Hver græðir á því að kenna öðrum um eigin aumingjaskap ?

    • Hafsteinn

      Sá sem kemst upp með það að kenna öðrum um græðir. Það er lögmál frumskógarins.

  • Pétur Örn Björnsson

    Húsin gráta, þau svitna, ef þau eru of dúðuð, ef þau eru of einangruð.

    Einangrunarkröfur nýrri húsa eru orðnar bilun,
    þær komu með nýju biluðu byggingarreglugerðinni sem orsakaði
    miklu hærri byggingarkostnað en áður var per fermeter.

    Vélræn loftræsing í lokuðum húsum bætir ekki ástandið.
    Náttúruleg loftræsing um opnanleg fög glugga er betri.
    Um hús gildir sem annað í heimi hér, um þau þarf að leika loft.

  • Helgi Helgason

    Manni dettur helst í hug að byggingar séu orðnar of flóknar. Menn ráði bara ekki við þetta allt saman þó það standist fræðilega, þá gengur þetta illa í praxis. Ríkharður nefnir gamla timburvegginn og telur hann „eðlisfræðilega réttan“. Þetta er örugglega rétt hjá honum. Timburhús voru bara fyrir svona 40 árum ekki talin góð. Fólk vildi byggja úr svokölluðum „varanlegu efni“ og var þá átt við steinsteypu. Nýleg könnun á ástandi svokallaðra „viðlagasjóðshúsa“ sem byggð voru úr timbri fyrir flóttafólk vegna Vestmannaeyjagosins 1973-4 sýndi fram á að ástand þeirra var sérlega gott. Þau hafa staðist öll veður og allt álag mun betur en steinhúsin síðastliðin rúm 40 ár. Orkuveituhúsið þurfti á umfangsmiklum viðhaldsaðgerðum eftir aðeins 7 ára notkun. Þrátt fyrir að markmiðið hafi verið að gera það viðhaldslétt. (hann var nú svoldið ruglingslegur hann Guðmundur forstjóri á RUV í gær) Er ekki bara rétt að horfa til fortíðar áður en lengra er haldið í þróuninni?

    • Hilmar Þór

      Ég hef aldrei skilgreint þá sem flúðu gosið í Vestmannaeyjum sem „flóttamenn“.

      En líklega voru þeir það.

      En það er rétt og það kom fram í fjölmiðlum fyrr í sumar að viðlagasjóðshúsin hafa reynst afskaplega vel og mun betur en búist var við.

      Endingin er langt yfir væntingum.

      Það er umhugsunarvert vegna þess á þeim tíma vorum við að byggja mikið af húsum úr varanlegu efni sem varalkalyvirkr steinsteypa!

  • Vinur minn Hilmar Þór vitnar í mig og segir að ég telji svokalla „íslenska útveginn“ þ.e. steyptan vegg einangraða að innan gallaðan. Það er rétt en gallinn getur verið þolanlegur og hefur oft verið það ekki síst í vindskýldu umhverfi. Allar breytingar sem við höfum gert á honum hafa hins verið til hins verra og sumar eru raktar í greininni. Í síðustu breytingunni tókst okkur hins vegar að gera gallana óþolandi og skapa verkefni fyrir mygluserfræðinga um ókomna tíð og og ótrúlegan viðhaldskostnað.
    Það er hins vegar ein útveggja gerð sem var eðlisfræðileg rétt frá upphafi en það er bárujárnsklæddi timburveggurinn. Við höfum átt í erfiðleikum með að eyðileggja hann. En allt er hægt.

    • Sveinn í Felli

      „bárujárnsklæddi timburveggurinn. Við höfum átt í erfiðleikum með að eyðileggja hann.“

      Ekkert mál – límkíttaður krossviður á báðar hliðar og smá úreþan ef illa gengur… 😉

  • Hafsteinn

    Svo sagði gamli forstjórinn að þetta væri vegna slæms viðhalds! Og klikkti út með að stórt viðhaldsverk hafi verið unnið 2009! Er ekki hugmyndafræðin sú að þessi álklæddu hús væru viðhaldslétt? Man eftir mörgum húsum á Melumum sem ekkert viðhald hafa fengið í 70 ár!

  • Pétur Örn Björnsson

    Það er búið að loka húsin inni, það er vandinn.
    Hús sem lokuð eru inni, þau geta ekki andað á eðlilegan hátt.
    Það eru gömul sannindi og ný. Þannig er það.

  • Gunnlaugur Stefán Baldursson

    Vitað er,að góð útfærsla krefst reynslu,eftirlits og vandvirkni.
    Og vitað er,að klastrað er vel og víða!

  • Jón Guðmundsson

    „hugsanlegu tæknilegu göllum“!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn